28.11.2011 | 09:13
Gasæði í Póllandi
Það eru athyglisverðir hlutir að gerast austur í Póllandi þessa dagana.
Í því mikla kolalandi virðist nú í uppsiglingu nýtt og stórbrotið orkuævintýri. Það eru nefnilega vísbendingar um að gríðarlegar gaslindir sé að finna í pólskri jörðu. Og að í framtíðinni verði Pólland einhver stærsti gasframleiðandi Evrópu!
Allt snýst þetta um nýju gasvinnslutæknina ("fracking") sem hefur verið að breiðast út vestur í Bandaríkjunum. Fram til þessa hefur Pólland alls ekki verið þekkt fyrir að luma á miklu af gasi. En vegna nýju vinnslutækninnar er nú allt í einu orðið unnt að nálgast þunn gaslög innikróuð í grjóthörðum jarðlögum, sem áður var alltof dýrt að ætla að vinna (s.k. shale gas).
Fyrir vikið hefur upplýsingaskrifstofa banadaríska orkumálaráðuneytisins (EIA) verið að endurmeta mat sitt á vinnanlegum gasbirgðum í jörðu um alla Evrópu. Og viti menn; það er mat EIA að innan Evrópu sé langmesta gasið af þessu tagi að finna í Póllandi.
Þetta nýuppfærða mat frá EIA um pólskt gas hljóðar upp á langtum meira gas en nokkurn óraði fyrir. EIA álítur nefnilega að í Póllandi megi vinna 5.300 milljarða rúmmetra af gasi. Þar með væri Pólland í einu vetfangi með áttundu mestu gasbirgðir veraldar (til samanburðar má t.d. nefna að sannreyndar gasbirgðir í lögsögu Noregs eru áætlaðar rúmir 2.300 milljarðar rúmmetra). Enda eru menn nú farnir að tala um að í framtíðinni muni Pólland verða kallað Katar norðursins.
Þetta eru talsverðar fréttir. Ekki síst sökum þess að gasvinnsla í Póllandi hefur fram til þessa verið sáralítil. Í orkugeiranum hefur Pólland fyrst og fremst verið þekkt sem kolaland og kol knýja nú um 95% af rafmagnsframleiðslu Pólverja. Það er til marks um umfang pólsku kolasvæðanna, að Pólland er níundi mesti kolaframleiðandi heims og ellefti stærsti kolaútflytjandinn. En nú eru sem sagt horfur á að Pólland geti brátt líka byrjað að nýta gas í stórum stíl.
Þarna ekki bara á ferðinni mikil hagsmunir fyrir Pólverja sjálfa - heldur líka alla nágranna þeirra. Pólskt gas gæti orðið hvalreki fyrir Evrópusambandið, sem hefur þurft að horfa upp á að verða sífellt háðara rússnesku gasi. Í því sambandi horfa menn til þess að Pólverjar muni selja stóran hluta gassins til þýskra orkufyrirtækja - sem á næstu árum þurfa að loka öllum kjarnorkuverum í Þýskalandi að skipan þýskra stjórnvalda.
En það er er samt alls ekki víst að pólska gasið fari til Þýskalands eða annarra landa innan ESB. Pólska gasið gæti allt eins farið austur á bóginn; til rússneska gasrisans Gazprom! Gazprom vill tryggja markaðsyfirráð sín með því að kaupa pólska gasið og endurselja það til Evrópu. Í huga Gazprom er aðalatriðið að ekkert ógni gasbissness-módelinu sem fyrirtækið er búið að koma sér upp gagnvart Evrópu. Og að eftirspurnin eftir gasi um Nord Stream og aðrar gasleiðslur þeirra haldist í hámarki.
Það eru spekúleringar af þessi tagi sem sennilega eru einn helsti hvatinn að því að innan stofnana ESB er nú talað um að aðildarríkin þurfi sem allra fyrst að taka upp eina sameiginlega og víðtæka orkustefnu. Ennþá er óljóst hvað í slíkri orkustefnu á að felast. En sennilega eru menn einmitt að líta til þess að tryggja sem bestan aðgang ESB ríkjanna að orkulindum innan sambandsins og sporna gegn því að utanaðkomandi nái tangarhaldi á þeim. Eins og t.d. Rússar.
Strategískt séð væri slík sameiginleg orkustefna sennilega skynsamlegur kostur fyrir ESB. En það er langt í frá að búið sé að tryggja að pólska gasið verði nýtt innan ESB. Það er nefnilega svo að bandarísk olíu- og orkufyrirtæki hafa náð til sín vinnslurétti á stórum svæðum í Póllandi. Og þau fyrirtæki eru ekki rekin á grundvelli pólítískrar stefnu sem ákveðin er í Brussel, heldur munu þau fyrst og fremst horfa til viðskiptahagsmuna - þegar kemur að því að selja gasið. Og þá má vel vera að rússneska Gazprom muni bjóða best.
Þetta er eiginlega grátlegt fyrir ESB. Gaslindir Póllands hefðu getað verið mikilvægur hlekkur í því að losa um gashramm Rússa. En það er kannski ekki við því að búast að ESB nái þar miklum árangri þegar stjórnarformaður eins mikilvægasta gasflutningafyrirtækis Rússa (Nord Stream), sem að stærstu leyti er í eigu rússneska ríkisins, er fyrrum kanslari Þýskalands!
Enn sem komið er er pólska gasið reyndar bara fræðilegur möguleiki. Niðurstaða þeirra hjá EIA er vissulega byggð á ýmsum góðum gögnum, en eftir er að sannreyna að gasið sé þarna í raun og veru. Það var fyrst nú í sumar sem leið (2011) að menn voru mættir með örfáa bora á pólska grundu. Og pjakkið þá skilaði satt að segja litlum árangri.
Fram til þessa hefur pólska gasæðið aðallega falist í því að vegna peningalyktarinnar streyma landspekúlantar til Póllands og fara þar sem eldur í sinu um pólskar sveitir. Í því skyni að kaupa upp gasvinnslurétt á landi. Sem fyrr segir hafa útsendarar bandarískra orkufyrirtækja verið þar í fararbroddi. Þar má t.d. nefna Chevron, ConocoPhillips, ExxonMobil og Marathon Oil, en einnig ýmsa minni spámenn.
Það fer reyndar hver að verða síðastur að tryggja sér vinnslusvæði í Póllandi. Gasæðið þarna hefur verið þvílíkt síðustu misserin að búið er að kaupa upp leitarleyfi á svæðum sem nema um þriðjungi af flatarmáli Póllands eða jafnvel rúmmlega það! Og það þó svo enn sé allsendis óvíst hversu auðvelt verði að nálgast þetta gas, sem EIA álítur vera til staðar.
Það verður í fyrsta lagi sumarið 2012 eða jafnvel ekki fyrr en 2013 að eitthvað fer að gerast fyrir alvöru á ökrum Póllands. Gríðarlegar fjárfestingar og framkvæmdir þarf til að vinnslan verði umtalsverð. Til að ná upp sæmilegri vinnslu á hverju leitarsvæði fyrir sig þarf kannski um fimmtíu brunna og hver þeirra kostar líklega rúmar 10 milljónir USD um þessar mundir.
Og jafnvel þó svo árangur af borununum verði góður, þá eru fjölmörg ár í að Pólland verði stór gasframleiðandi. Ennþá eru brunnarnir örfáir og það er mikið langhlaup að byggja upp verulega vinnslu. Og óneitanlega er svolítið kaldhæðnislegt að svona ný vongóð vinnslusvæði búa oft fyrst til forríka landspekúlanta, löngu áður en hin raunverulega auðlindanýting kemst almennilega í gang.
Það eru reyndar ekki allir jafn hrifnir af því að menn séu að stússa í að nálgast þessi þunnu en þéttu gaslög. Aðferðin felst í því að sprengja upp bergið með háþrýstivatni og losa þannig um gasið svo það streymi upp á yfirborðið. Ýmsir hafa áhyggjur af grunnvatnsmenguninni sem þetta getur mögulega valdið. Þ.e. þegar efnablandað háþrýstivatnið brýtur sér leið gegnum bergið djúpt í jörðu, opnar leiðir fyrir innikróað gasið en blandast um leið jarðvegi undir grunnvatninu.
Menn óttast líka jarðskjálftana sem stundum verða við þessa tegund af vinnslu. Það er nefnilega ekki er óalgengt að aðferðinni fylgi smáskjálftar svipaðir þeim sem orðið hafa á Hellisheiði í tengslum við niðurdælingu Orkuveitu Reykjavíkur þar á affallsvatni.
Frakkar hafa meira að segja bannað "frökkun" þar í landi. Það gerðist í sumar, en þau leitarleyfi sem þá var búið að veita gilda þó áfram (öll í sunnanverðu Frakklandi). Sterk andstaða er einnig gegn þessari tegund af gasvinnslu bæði í Þýskalandi og Bretlandi. Það lítur því út fyrir að fjölmennustu ríkin innan ESB ætli ekki að leyfa svona vinnslu innan sinnar lögsögu. Og því varla horfur á að hnignandi gasframleiðsla í vesturhluta Evrópusambandsins rétti úr kútnum á næstunni. En hvort pólska gasið mun streyma vestur á bóginn eða að mestu fyrst fara austur til Rússlands á eftir að koma í ljós.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.