12.12.2011 | 09:06
Norðlingaölduveitu í nýtingarflokk
Samkvæmt þingsályktunartillögu um Rammaáætlun er stefnt að þvi að Norðlingaölduveitu verði skipað í verndarflokk.
Kortið hér til hliðar sýnir núverandi virkjanir og veitur á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu - auk þeirra framkvæmda sem Landsvirkjun hefur áhuga á að ráðast þarna í. Þar á meðal er Norðlingaölduveita. Norðingaölduveita felst í því að stífla Þjórsá nokkra km sunnan Hofsjökuls og mynda þannig lón, sem kallað hefur verið Norðlingaöldulón. Þaðan myndi vatninu verða veitt um jarðgöng til austurs, uns það sameinast vatni frá Kvíslaveitu og fellur til Þórisvatns. Og þaðan í virkjanir Landsvirkjunar, hverja á fætur annarri. Þar með yrði unnt að auka raforkuframleiðslu virkjananna mjög mikið eða vel yfir 600 GWst árlega.
Áður en lengra er haldið er vert að taka fram að þarna er ekki um að ræða stóra lónið, sem sumir höfðu áhuga á að mynda fyrir nokkuð mörgum árum síðan. Vatnshæð þess átti að ná 575 m yfir sjávarmál og lónið, sem hefði orðið allt að 29 ferkm, hefði teygt sig inn í Þjórsárver; hið einstaka friðland og votlendissvæði. Til allrar hamingju höfnuðu stjórnvöld þeirri framkvæmd og féllust þess í stað á miklu minna lón. Það er Norðlingaöldulónið sem hér er til umfjöllunar (sjá má muninn á þessum tveimur lónum á kortunum tveimur hér að ofan). Lónið í þessari nýju útfærslu mun í hæstu stöðu ná 567,5 m yfir sjávarmál og í mesta lagi verða um 5 ferkm. Út frá umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum er sem sagt himin og haf milli upphaflegra hugmynda um Norðlingaölduveitu og þess sem nú er á dagskrá.
Sem fyrr segir, þá hefur þessi framkvæmd þann tilgang að auka orkugetu virkjana Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu vel yfir 600 GWst á ári. Til samanburðar má nefna, að vinnslugeta Kröfluvirkjunar er 480 GWst á ári og Blönduvirkjun framleiðir um 720 GWst árlega.
Norðlingaölduveita ein og sér - án þess að byggja þurfi nýja virkjun - myndi því auka framleiðslu Landsvirkjunar langt umfram það sem t.d. Kröfluvirkjun framleiðir og slaga hátt í framleiðslu Blönduvirkjunar. Og þessar rúmlega 600 GWst sem Norðlingaölduveita myndi skila er t.d. talsvert mikið meira en fyrirhuguð Hólmsárvirkjun á að framleiða.
Það ætti því ekki að koma neinum á óvart, að Norðlingaölduveita er sögð vera einhver allra hagvæmasti möguleikinn til að auka raforkuframleiðslu á Íslandi. Enda skoraði veitan mjög vel í hagkvæmnisflokkun Rammaáætlunar. Engu að síður er nú lögð fram sú tillaga af hálfu iðnaðarráðherra (sem byggir á tillögu þeirra sem unnu Rammaáætlunina) að fallið skuli frá hugmyndum um Norðlingaölduveitu.
Rökin fyrir því að nýta ekki þennan geysilega hagkvæma raforkuframleiðslukost eru í hnotskurn svohljóðandi [leturbreyting er Orkubloggarans]: "Felur í sér röskun vestan Þjórsár á lítt snortnu landi í jaðri Þjórsárvera, auk áhrifa á sérstæða fossa í Þjórsá. Kvíslaveitur hafa nú þegar virkjað þverár sem falla í Þjórsá að austan, en kvíslum vestan ár hefur verið hlíft. Virkjunarkostur sem liggur á jaðri svæðis með hátt verndargildi sem menn eru sammála um að eigi að njóta friðunar. Mannvirki rétt við friðland yrðu til lýta. Því þykir rétt að vernd á svæðinu verði látin hafa forgang."
Norðlingaölduveita er sem sagt felld á tveimur meginatriðum: Annað er nálægðin við Þjórsárver. Hitt er að þessi framkvæmd myndi skerða rennslið um Þjórsá og þannig hafa áhrif á "sérstæða" fossana þar fyrir neðan.
Þessi rök væru skiljanleg ef þarna væri um að ræða stórt og óraskað víðerni (eins og á við um svæðin við Hólmsá, sem fjallað var um í síðustu færslu Orkubloggsins). En svo er alls ekki. Það er löngu búið að raska fossunum þarna í Þjórsá fyrir neðan fyrirhugað Norðlingaöldulón. Það var gert fyrir mörgum árum með Kvíslaveitu (sem sjá má á kortinu hér efst í færslunni, sbr. einnig myndin hér til hliðar). Með þeim framkvæmdum var vatnsrennslið um Þjórsá þarna uppi á hálendinu skert stórlega - og þar með hið villta vatnsrennsli um fossana sem eru neðan fyrirhugaðs Norðlingaöldulóns. Þess vegna er verndun svæðisins við Norðlingaöldu eiginlega marklaus - nema kannski ef á sama tíma yrði beinlínis ákveðið að leggja Kvíslaveitu niður og færa landið og vatnsrennslið þarna austan Hofsjökuls í fyrra horf.
Já - fossunum neðan Norðlingaöldu var fórnað á sínum tíma með Kvíslaveitu og eru nú varla svipur hjá sjón. Í huga Orkubloggarans er ekki mikið náttúruverndargildi í slíkum fölnuðum fossum. Og þar sem Norðlingaöldulónið yrði þar að auki talsvert langt utan Þjórsárvera, eru öll helstu rök gegn Norðlingaölduveitu fallin.
Þar að auki er Norðlingaölduveita, sem fyrr segir, einhver allra ódýrasti kosturinn á Íslandi öllu til raforkuframleiðslu. Þegar allt er saman tekið þykir Orkubloggaranum rökin að baki því að stöðva Norðlingaölduveitu vera ansið veik og horfa framhjá skynsamlegri forgangsröðun virkjunarkosta á Íslandi. Eðlilegast væri að fallast á framkvæmdina og skipa Norðlingaölduveitu í nýtingarflokk. Eða a.m.k. í biðflokk meðan nánari athugun fer fram á forgangsröðun á þeim fjölmörgu virkjunarkostum sem Alþingi mun að öllum líkindum setja í biðflokkinn.
[Kortin hér í færslunni eru úr kynningum Landsvirkjunar og eru fengin af vef fyrirtækisins].
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Virkjanafíklar eru lagnir við að skekkja umræðuna sér í hag með því að ráða ferðinni í hugtakaheitum sem gefa ranga mynd
Með því að nota sem andstæður orðin "nýting" og "verndun" er gefið til kynna að verndun geti ekki falið í sér neina nýtingu, heldur sé eina "nýtingin" fólgin í virkjunum.
Gullfoss er besta dæmið um það hve röng þessi orðanotkun er. Réttara væri að nota orðin "orkunýting" og "verndarnýting."
Rök þín varðandi fossaröðina eru alþekkt: Við erum hvort eð er búin að eyðileggja svo mikið að það er bara best að rústa því alveg.
Þótt í heildina séð sé búið að taka upp undir 40% af vatnsmagni fossanna fyrir Kvíslaveitu eru þeir þó yfirleitt með nálægt því fullt afl síðsumars.
Þetta minnir á ógæfumennina sem drápu mann í malargryfjum í Kópavogi fyrir nokkrum áratugum. Þeir gengu í skrokk á honum og lemstruðu hann það mikið að ljóst var að úr því yrði slæmt mál, því að hann yrði að komast á spítala.
Þá ákváðu þeir að úr því sem komið væri, væri bara skást að ganga alveg frá honum.
Nú þegar hafa verið reistar 25 stórar virkjanir um allt land. Miðað við það eru það ekki margar virkjanahugmyndir sem nú er gefinn kostur á að setja í verndarnýtingarflokk.
En tóninn var strax snemma í haust með umsögnum Orkuveitu Reykjavíkur og annarra virkjanafíkla sem geta ekki hugsað sér að þyrma neinu.
Ómar Ragnarsson, 12.12.2011 kl. 13:33
Við þetta má bæta þeim rökum virkjanamanna að ferðaþjónustan sé komin á endimörk vaxtar af því að átroðningurinn sé kominn yfir þolmörk. Þess vegna verði í nafni hagvaxtar að virkja sem mest.
Í fyrsta lagi má sjá af reynslu erlendis að langt er í frá að þolmörkum ferðaþjónustu hafi verið náð, heldur er þetta aðeins spurning um hvernig staðið er að henni og ferðafólkinu dreift.
Fossarnir í Þjórsá eru dæmi um algerlega vannýtta ferðaþjónustumöguleika, sem víða má sjá út um landið, - en oftast á þeim svæðum sem virkjanafíklarnir girnast mest.
Ómar Ragnarsson, 12.12.2011 kl. 13:38
Ómar Ragnarsson; ekki veit ég hvort þú ert að vísa til mín með hugtakinu "virkjanafíklar". Ekki viss um að þeir sem vilja virkja Hólmsá séu á sama máli. Það er vandlifað.
Það er algerlega órökrétt að skipa Norðlingaölduveitu í verndarflokk, meðan t.d. Hólmsá er sett í biðflokk og Hvalárvirkjun í nýtingarflokk. Við eigum að reyna að nýta hagkvæmustu kostina og um leið leitast við að fara ekki inn á óröskuð svæði. Ef á annað borð á að framleiða meiri raforku hér á landi, þá ætti Norðlingaölduveita 567,5 m.y.s. að vera einn fyrsti kosturinn. Ef ekki sá fyrsti.
Ketill Sigurjónsson, 12.12.2011 kl. 14:05
Hér eru nokkrar myndir af umræddum fossum http://photo.blog.is/blog/photo/entry/935165/
Kjartan Pétur Sigurðsson, 20.12.2011 kl. 03:29
Einhver með slóð á myndir af fossunum fyrir tíma Kvíslaveitu?
Ketill Sigurjónsson, 20.12.2011 kl. 10:13
Þjórsárver eru eitt stærsta víðerni landsins og hluti af stórkostlegri landslagsheild, eins og fram kemur í skýrslum þeirra Crofts og Ives sem finna á heimasíðu Landverndar. Þá eru fossarnir í Þjórsá, sérstaklega Dynkur, í flokki glæsulegustu fossa landsins. Víðerni, fossar í Þjórsá og að einhverju leyti landslag verður óneitanlega fyrir umtalsverðum áhrifum komi til þess að Norðlingaölduveita verði byggð. Allt svæði í 5 km. radíus frá stífilu og aðliggjandi vegum, þar með talið stór svæði innan marka friðlandsins í Þjórsárverum, yrði ekki lengur skilgreint sem víðerni, krafturinn í fossunum myndi dvína og frá háttliggjandi útsýnisstöðum yrði náttúrlegu landslagi spillt.
Um arðsemi veitunnar má einnig deila. Ég hef gert rökstuddar athugasemdir við þá aðferðafræði sem beittar var í rammaáætlun og sýndi mikla arðsemi Norðlingaölduveitu. Þeim hefur ekki verið andmælt með rökum.
Veitan er óafturkræf framkvæmd. Hins vegar má ef síðari kynslóðir svo óska, hleypa vatninu úr Kvíslaveitum á fossana miklu. Það er stórbrotin sýn þegar allt vantið fær að fara um þessa flottustu fossa Ísland að sumarlagi.
Ég tel að þú sér kominn á hálann ís í rökstuðningi þínum fyrir að setja Norðlingaöldu í nýtingarflokk. Það staðfesta niðurstöður faghóps I.
Vertu velkominn í árlega Þjórsárveragöngu "Vina Þjórsárvera" sem að vanda verður farin um miðjan júlí á næsta ári, og árin þar á eftir. Þeir sem ekki hafa upplifað Þjórsárver hafi ekki enn komið að hjarta Íslands.
Tryggvi Felixson (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 13:19
Takk fyrir gott boð um Þjórsárveragöngu. Í mínum huga er reyndar Vonarskarð hjarta Íslands.
Hvar draga á mörk á tilteknu víðerni er alltaf álitamál. Mér þykja mjög sannfærandi rök þess efnis að Norðlingaölduveita í núverandi útfærslu sé utan Þjórsárvera.
Eins og sjá má af færslunni get ég ekki fallist á að fossarnir í Þjórsá séu "í flokki glæsulegustu fossa landsins", eftir að hafa verið hálfþurrkaðir með Kvíslaveitu. Einnig álít ég að þetta sé spurning um forgangsröðun; að mikilvægara sé að varðveita það sem ennþá er nær alveg ósnortið af mannanna verkum. Eins og t.d. svæðin við Hólmsá.
Ketill Sigurjónsson, 20.12.2011 kl. 14:14
Landamerkjadeilur eru ekki auðveldar. Víðernisskilgreiningin hefur verið færð í lög svo ekki er ástæða til að deila að óþarfa um hana. Veitan mun því óhjákvæmilega spilla stærsta víðerndi landsins, og stærð skiptir máli þegar um víðerni er að ræða. Maður þarf ekki að ganga marga daga á hálendinu til að upplifa það.
Vægi landslag og landfræðilegra heilda fær sífellt meira vægi, og þeirri heild yrði óneitanlega spillt með Norðlingaölduveitu. Það hafa sérfræðingar á þessu svið staðfest og það var niðurstaða Umhverfisstofnunnar.
Ég hef sé fossana með fullu krafti þegar hleypt var framhjá Kvíslaveitu. Annað eins hef ég ekki séð á Íslandi. Dynkur er því í mínum huga einn af glæsilegustu fossum landsins. En um smekk er erfitt að deila. Það má loka Kvíslaveitu ef ekki verður þörf fyrir þá orku sem hún veitir og þá fá fossarnir sinn fyrri mátt.
Ég skil ekki þörf þín til að tefla saman Hólmsá og Norðlingaölduveitu. Þetta eru í mínum huga tvö aðgreind mál sem meta verður hvert með sínum hætti. Er ekki ein ástæða fyrir því að Hólmsá var sett í biðflokk að gögn voru ekki talin fullnægjandi, eða jafnvel villandi. Það mál verður að skoða betur óháð því hvað menn meina um Norðlingaölduveitu.
Hjartslátt landsins má víða finna, en Hjartafell er til vitnis um það að hjartað slær sterkt í Þjórsárverum, undir stærstu öskju landsins þar sem Ísland reis úr sæ fyrir 15 milljónum ára síðan. Ég sendi þér boð í ferðina þegar hún hefur verið dagsett. Hefð er fyrir því að leggja af stað 15. júlí og dvelja þrjár nætur í verunum.
Tryggvi Felixson (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 08:36
Inní þessum 600 GWst er ekki viðbótarvélar í Sigöldu 50 MW og Hrauneyjar 70 MW.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 23.12.2011 kl. 16:50
Alveg sammála þér Ketill eins og venjulega.
Hvort víðerni eru skert ræðst ekki af lögum heldur upplifun ferðamannsins, og þar breytir það litlu um hvort farvegur Þjórsár sé vatnsfylltur þarna eða ekki.
Vissulega hefði Norðlingaölduveitan áhrig á fossana. Það mætti þó bæta þá forn mikið með eftiurfarandi aðferðum. Tilgangur Norðlingaölduveitu er tvíþættur, annarsvegar að auka vatn í virkjununum í Tungnaá, Vatnsfelli, Sigöldu, Hrauneyjarfossi og Búðarhálsvirkjun. Hinsvegar að tryggja fyllingu Þórisvatns á haustin, en eins og nú er fyllist það ekki alltaf á haustin. Eftir Norðlingaölduveitu mun það fyllast oftar (í 9 af hverjum 10 árum) og fyrr á sumrin. Eftir að Þórisvatn er orðið fullt er engin þörf fyrir vatn Norðlingaölduveitu eða Kvíslaveitu. Í seinnihluta júlí og nær allan ágúst mætti því hleypa framhjá báðum veitunum og yrði þá óskert rennsli á fossunum yfir mesta ferðamannatímann í um 9 af hverjum 10 árum. Það er að segja meira rennsli heldur en verið hefur síðan Kvískaveitan var gerð, reyndar bara í þennan stutta tíma sem fellur reyndar alveg saman við ferðamannatímann.
Það yrði að skylyrða virkjunaleyfi LV við að þetta yrði gert. Það ætti að vera Lv hagstætt því það þarf hvort sem er að skola út aur úr farvegi Þjórsár sem nefndur hefur verið Norðlingaöldulón. Þetta er þó ekki að finna í neinum opinberum gögnum.
Áhrifin á fossana gætu því verið jákvæð, en ekki neikvæð að flestra mati.
Norðlingaölduveitan er líka algerlega endurkræf framkvæmd og fullyrðing Tryggva því furðuleg.
Þorbergur Steinn Leifsson
Þorbergur Steinn Leifsson (IP-tala skráð) 25.12.2011 kl. 20:06
Í lýsingu LV á framkvæmdinni, dagsett í febrúar 2009, kemur fram að grafa verður 1,1 km. langan aðrennslisskurð. Reynslan af fyrri framkvæmdum er einnig sú að lagðir verða uppbyggðir vegir inn að framkvmdasvæðinu sem stand um ókomin ár. Þá þarf að byggja upp stíflu úr grjóti (270 metra löng og allt að 22 metra há) skv. framkvæmdalýsingu, og 5 km löng göng. Og ekki er allt talið. Allt eru þetta framkvæmdir sem erfitt getur verið að afmá síðar þó vilji kunni að standa til þess. Þess vegna tel ég að hér sé um óafturkræfa framkvæmd að ræða og átta mig ekki á andrökum Þorbergs við þeim sjónarmiðum.
Vissulega má hleypa vatni framhjá á fossan eins og Þorbergur bendir á. Reynslan er þó sú að hver vatnsdropi að baki stíflu er verðmætur fyrir orkufyrirtækin, sem eiga að skila sem mestu hagnaði fyrir land og þjóð. Og verða það ekki hagnaðarsjónarmiðin sem ráð þrátt fyrir frómar yfirlýsingar áður en til framkvæmda kemur? Hvað varð um fossana mörgun og fögru í Jökuls á í Fljótsdal, sem margir sakna í dag?
Tryggvi Felixson (IP-tala skráð) 2.1.2012 kl. 16:54
Tryggvi,skilningur þinn á óafturkræfum framkvæmdum er skrítinn. All sem gert verður í Norðlingaöldu veitu má afmá, vegi, stíflur og skurði (geri ekki ráð fyrir að þörf sé á að fylla í jarðgöng), enginn gróður fer undir set eða vatn. Eldir áætlun um Norðlingaöldu veitu í 575 m y.s. var ekki endurkræf því stór gróin svæði voru sett undir vatn og set hefði hlaðist upp. Hálslój er ekki heldur endurkræf framkvæmd.
Þú spyrð um fossana í Jökulsá í Fljótsdal. Þeir voru með fullu náttúrulegu rennsli frá miðjum júlí í sumar til loka september, og svipaðan tíma 2009 en heldur styttra 2010. Eins og ég sagði er vatnið í ágúst enskis virði í 9 af hverjum 10 árum og getur því runnið um fossa eins og áður en áhugi er á því eins og krafist var í úrskurði ráðherra vegna Kárahnjúkavirkjunar.
Þorbergur Steinn Leifsson (IP-tala skráð) 8.1.2012 kl. 01:19
Fræðilega séð hefur þú hugsanlega rétt fyrir þér að framkvæmdin sé afturkræf hvað varðar stíflu, göng og vegi. Fræðilega má flytja grjót og jarðveg á sinn upprunalega stað, og raða hverjum steini og plöntu þannig að ekki sjáist nein vegsummerki. Fylla gamlar námur þannig að ummerki hverfi.
En raunveruleikinn er því annar og ummerkin munu því standa um aldur og ævi í mannlegu tímaskyni. Í jarðsögulegu samhengi skiptir vera okkar mannana á jörðunni engu máli, hvorki í Þjórsárverum né annars staðar.
Þá mun lónið, þó það sé ekki í líkingu við fyrri áform, leggjast yfir gróður í Eyvafeni, þar sem nátturleg framvinda gróður hefur verið mikil undanfarin ár, og valda þar einhverjum varanlegum og óafturkræfum breytingum.
Að fossaskoðun sé háð því að Landsvirkjun skrúfi frá karanum finnst mér ekki sérlega heillandi náttúruskoðun. En það er víst smeksatriði.
Tryggvi Felixson (IP-tala skráð) 12.1.2012 kl. 09:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.