25.1.2012 | 10:19
Hormuz veldur titringi - enn á ný
Vesturlönd stefna nú að því að beita eitt mesta olíuútflutningsríki heims viðskiptaþvingunum - og þ.á m. olíuútflutningsbanni.
Þar er um að ræða Íran. Tilgangurinn með slíkum aðgerðum er að þrýsta á írönsk stjórnvöld að hætta við kjarnorkuáætlun sína. Og þannig koma í veg fyrir að Íranir eignist kjarnorkuvopn.
Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, segir að Íranir eigu fullan rétt á því að nýta kjarnorkuna. Og fullyrðir að það muni þeir einungis gera í friðsamlegum tilgangi. Þ.e. til raforkuframleiðslu, en ekki til að eignast kjarnorkuvopn.
En umheimurinn á bágt með að treysta slíkum yfirlýsingum. Enda hefur Ahmadinejad oft verið herskár í orðum. Hann hefur t.a.m. ítrekað sagt að útrýma eigi Ísraelsmönnum. Og að Bandaríkjaforseti sé djöfullinn sjálfur og angi langar leiðir af brennisteinslykt.
Olía er langmiklvægasta útflutningsvara Írans; Íran er hvorki meira né minna en 4ða stærsta olíuútflutningsríki heims (á eftir Sádum, Rússum og Nígeríu). Viðskiptaþvinganir sem fælu í sér olíuútflutningsbann gegn Íran myndu því valda Írönum gríðarlegu tekjutapi og þannig hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Írani.
Á móti hótar forsetinn Ahmadinejad því að ef Íran verði beitt slíkum þvingunum, þá muni íranski herinn loka Hormuz-sundi. Öll skip sem flytja olíu (og fljótandi gas; LNG) frá Persaflóasvæðinu þurfa að sigla gegnum Hornuz. Meðal Persaflóaríkjanna eru mörg helstu olíuframleiðslu- og olíuutflutningsríki heimsins.
Hormuz-sund er mikilvægasta siglingaleiðin í gjörvöllum olíuflutningi veraldarinnar. Út um sundið fara á degi hverjum um 15 drekkhlaðin olíuskip með samtals um 17 milljónir tunna af olíu. Þetta samsvarar hvorki meira né minna en u.þ.b. 35% af öllum skipaflutningum með olíu og næstum 20% af allri þeirri olíu sem heimurinn notar á degi hverjum.
Ef alvarleg röskun yrði á þessum útflutningi frá Persaflóaríkjunum myndi heimsmarkaðsverð á olíu óhjákvæmilega rjúka upp - jafnvel 50-100% á nokkrum dögum að áliti sumra. Það myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslíf á Vesturlöndum og um veröld víða. Þarna eru því miklir hagsmunir í húfi; bæði fyrir Íran en ekki síður fyrir heiminn allan.
Það eru ekki aðeins öll þessi 15 olíuskip sem þurfa að sigla út um Hormuz-sund á sérhverjum sólarhring. Því önnur 15 tóm tankskip þurfa auðvitað að geta siglt hindrunarlaust þar inn daglega, til að tryggt sé að ekki verði meirháttar truflun á olíuflutningum í heiminum. Þetta eru því samtals um þrír tugir olíuskipa á sólarhring og þar af eru nokkur stærstu olíuskip heimsins.
Siglingaleiðin þarna um sundið er einungis tvisvar sinnum 2 sjómílur að breidd. Og milli inn- og útsiglingaleiðanna er 3ja sjómílna belti. Sundið sjálft er tæplega 25 sjómílur þar sem það er þrengst (eða aðeins tæplega tvöfalt breiðara en mynni Siglufjarðar). Þar að auki þurfa risastór olíuskipin að taka hressilega krappa beygju í sundinu sjálfu. Það má því ekki má mikið út af bregða til að vandræði hljótist af.
Siglingaleiðin um Hormuz liggur innan landhelgi tveggja ríkja, sem eru Óman og Íran. Íran á langa strandlengju að Persaflóa og Hormuz-sundi og er því í lófa lagið að trufla skipaumferðina - ef þeir vilja standa við stóru orðin. Auk flugskeytaárása frá landi gæti þeir beitt bæði herskipum og litlum kafbátum, þ.a. ógnin er er raunveruleg. Þó svo vafalaust væri við ofurefli að etja, þar sem bandaríski sjóherinn er afar öflugur á þessum slóðum.
Það er vel að merkja ekkert nýtt að togstreita sé milli Bandaríkjanna og Íran. Þarna á milli hefur vægast sagt andað köldu allt frá því Íranskeisari var hrakinn frá völdum og íranskir uppreisnarmenn hertóku bandaríska sendiráðið í Tehran árið 1979. Og smáskærur í grennd við Hormuz eru ekki nýjar af nálinni. Íranski herinn hefur t.d. af og til látið vopnaða hraðbáta þvælast á siglingaleiðinni og þarna urðu t.a.m. smá skærur árið 2008.
Leiðin um Hormuz-sund er vel a merkja alþjóðleg siglingaleið skv. þjóðarétti. Það merkir að skipum er frjálst að eiga friðsamlega ferð um sundið og það á bæði við um olíuskip og herskip. Íranir hafa því þjóðaréttinn gegn sér, ætli þeir að reyna að loka á siglingar um Hormuz.
Þarna á Persaflóa og Ómanflóa er fimmti floti bandaríska sjóhersins umsvifamikill og gætir þess að hráolían og eldsneytið frá Persaflóanum berist til efnahagsmaskínu veraldarinnar. Íranskir ráðamenn eru engu að síður kokhraustir þegar þeir tala um getu sína til að trufla siglingar um Hormuz. Enda er nánast jafn auðvelt fyrir þá að stöðva skipaumferðina þarna eins og ef Landhelgisgæslan ákvæði að loka aðgangi að Sundahöfn. En vegna olíuhagsmunanna mundu slíkar aðgerðir af hálfu Íranshers væntanlega leiða til mjög harkalegra viðbragða. Jafnvel umfangsmikilla loftárása Bandaríkjahers á Íran. Þetta vita auðvitað ráðamenn í Íran. Þess vegna er kannski líklegast að Íranir einfaldlega heimili alþjóðlegt eftirlit með kjarnorkuáætluninni; bæði til að koma í veg fyrir viðskiptaþvinganir og önnur eftirmál. Að því gefnu að þarna séu ekki sturlaðir menn við stjórnvölinn.
Það er líka vandséð að Íranir eigi efni á því að standa í slíku stappi. Íranir eru afar fjölmenn þjóð; eru nú um 75 milljónir og þar af eru litlar 12 milljónir í höfuðborginni Tehran. Efnahagur þjóðarinnar byggir að mestu leyti á olíunni; hún skilar um 80% allra útflutningstekna Írana.
Íran er eitt mesta olíuríki veraldarinnar. Landið er ekki aðeins einn mesti olíuútflytjandi heimsins, heldur eru olíubirgðir þar í jörðu álitnir þær fjórðu mestu í heimi. Einungis Sádarnir, Kanada og Venesúela búa yfir meiri birgðum. Íran var lengi vel miklu stærri olíuframleiðandi en í dag og var á sínum tíma helsta paradís breska olíufyrirtækisins BP. Fyrir daga klerkabyltingarinnar árið 1979 var olíuframleiðslan í Íran vel yfir 5 milljónir tunna á dag. Eftir byltinguna varð hrun í olíuvinnslunni og framleiðslan fór niður í um 1,5 milljón tunnur. Þetta var ekki gæfulegt efnahagslega. Að auki mátti almenningur súpa seyðið af trúarofstækinu sem hin nýju stjórnvöld innleiddu. Og ekki varð hryllilegt stríðið milli Írans og Íraks árin 1980-88 til að bæta ástandið.
En þrátt fyrir erfiðleikana og harðstjórnina hefur ýmislegt verið á uppleið í Íran síðustu árin. Olíuframleiðslan hefur smám saman komist aftur á góðan skrið og hátt olíuverð hefur gert Írönum mikið gagn. Undanfarin ár hefur dagsframleiðsla Persanna almennt verið á bilinu 3,5-4 milljónir tunna af olíu (er nú u.þ.b. 4 milljónir tunna). Fyrir vikið er Íran annar stærsti olíuframleiðandinn innan OPEC (á eftir Saudi Arabíu).
Þar af flytur Íran nú út um 2,5 milljón tunnur daglega eða rúmlega helming framleiðslu sinnar - sem gerir Íran að 4ða stærsta olíuútflutningsríki heimsins, eins og fyrr var nefnt. Afganginn notar hin gríðarlega fjölmenna og unga íranska þjóð.
Þó svo hagsmunir Bandaríkjamanna af snurðulausum olíuútflutningi frá Persaflóa séu miklir, þá eru það fyrst og fremst Asíuríki sem kaupa olíuna frá Íran. Kína er stærsti kaupandinn að olíu þaðan með um 550 þúsund tunnur á dag, sem er um 22% allrar útfluttrar olíu frá Íran. Þar á eftir koma Japanir og Indverjar, hvorir um sig með um 330 þúsund tunnur daglega.
Lönd innan Evrópusambandsins eru einnig stórir innflytjendur að olíu frá Íran. Fyrirtæki í Evrópusambandinu kaupa samtals um 450 þúsund tunnur þaðan daglega (sem er um 18% af þeirri olíu sem Íranir flytja út). Þar eru Ítalir og Spánverjar fyrirferðamestir. Þar á eftir kemur svo Japan með um 14%, svo Indland og þar á eftir S-Kórea. En það eru sem sagt Kínverjar sem eru mikilvægustu viðskiptafélagar Írans. Öll umrædd lönd eiga talsvert mikið undir því að olían frá Íran berist tímanlega á áfangastað. Og hafa því ekki verið alltof spennt fyrir olíuútflutningsbanni á Íran.
Þess vegna er ekki skrýtið að ESB hafi mjög þrýst á að leitað yrði leiða til að beita Írani efnahagslegum og pólítískum þrýstingi án þess að það bitnaði á olíuframboði. Það er til marks um hversu olían frá Íran skiptir miklu, að innflutningur Ítala og Spánverja á olíu frá Íran nemur um 14% af öllum olíuinnflutningi þessara landa. Olían frá Íran er einnig þýðingarmikil fyrir Grikki, sem fá þaðan um 13% af allri sinni olíu. Þetta sýnir vel hversu mjög hin sunnanverðu ESB-ríki eru háð Íran um olíu. Og þá ekki síst nú um stundir þegar erfiðleikar hafa verið í olíuframleiðslu Líbýu, eftir að framleiðslan þar féll í uppreisninni fyrr á þessu ári (2011).
Meðan Evrópskir stjórnmálamenn leituðu örvæntingafullir leiða til að fá Írani til að hætta kjarnorkustússinu ÁN þess að það bitnaði á olíuframboði, tóku Kínverjar þann pól í hæðina að tryggja sig í bak og fyrir. Í liðinni viku var sjálfur kínverski forsætisráðherrann, Wen Kiabao, mættur á Arabíuskagann. Þar var hann bersýnilega í þeim erindargjörðum að semja við Sádana um að umframafkastageta Saudi Arabíu verði fyrst og fremst nýtt til að framleiða fyrir Kína. Þ.e. ef til þess kemur að olíuframboð frá Íran falli niður vegna viðskiptahindrana.
Það er nefnilega svo að Saudi Arabía er eina ríki heimsins með einhverja almennilega umframafkastagetu til að auka olíuframboð. Sádarnir, með olíumálaráðherrann Ali Al-Naimi í fararbroddi, hafa undanfarið fullvissað heiminn um að þeir muni auðveldlega geta bætt 2,5 milljón tunnum daglega inn á markaðinn. Og þannig fyllt upp í framboðsgatið (sem íranska olían myndi skilja eftir).
Þessar yfirlýsingar Sádanna gerðu íranska ráðamenn alveg brjálaða. Og ljóst að litlir kærleikar eru milli Persanna og Arabanna - þó bæði ríkin séu innan OPEC. Al-Naimi taldi því rett að leggja áherslu a að hann hefði ekkert sérstaklega verið að tala um Íran - heldur bara almennt um viðbrögð Sádanna ef olíuframboð drægist snögglega saman í heiminum. En auðvitað vita allir hvað klukkan slær og Sádarnir gráta það lítt þó sjítarnir i Íran séu beittir þvingunum. Þeir eru jú hvorki Arabar né súnnítar.
Til eru þeir sem efast um að Sádarnir geti brugðist svo fljótt við sem þeir segja. Þeir stóðu að vísu nokkuð vel í því að auka olíuframleiðslu sína þegar olíuútflutningur Líbýu snarminnkaði í kjölfar uppreisnarinnar þar s.l. vor. En þetta gerðist samt nokkru hægar en þeir höfðu lofað. Það vekur ugg um að afkastageta Sádanna sé ekki alveg jafn öflug eins og þeir sjálfir halda fram. Og skapar ótta um að viðskiptaþvinganir gegn Íran kunni að valda óþægilega miklum verðhækkunum á olíu. Þar að auki eru vísbendingar um að þeir sem muni fá fyrstu 500 þúsund nýju olíutunnurnar frá Sádunum, verði Kína. En Evrópuríkin sitji eftir í súpunni og þurfi að bíða þolinmóð eftir að Sádarnir skrúfi frá fleiri krönum.
Já - Íran er orkustórveldi og óróleikinn vegna kjarnorkuáætlunar þeirra er að skapa mikla spennu. En þrátt fyrir þessa spennu og gífurlegan fólksfjölda ætti framtíð írönsku þjóðarinnar að vera björt. Þetta er mjög ung þjóð - þ.e. aldurssamsetningin. Ef/þegar að því kemur að harðstjórnin víki ætti Tehran og aðrar stórborgir í Íran að geta orðið hin prýðilegustu nútímasamfélög (alls eru hátt í 20 borgir í Íran með meira en 400 þúsund íbúa!). Því miður er þó allt eins líklegt að hinar ofboðslegu náttúruauðlindir Írana muni áfram leiða til háskalegrar togstreitu, spillingar innanlands og jafnvel styrjalda.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:18 | Facebook
Athugasemdir
IMF virðist ekki hafa mikla trú á orðum Sádanna að geta bætt 2,5 miiljón tunnum inná markaðinn:
-----
IMF: Iran sanctions could push oil to $140
Sanctions on Iran could push oil prices up 30pc, taking the price of Brent crude to above $140 a barrel, the IMF has warned.
http://www.telegraph.co.uk/finance/oilprices/9039596/IMF-Iran-sanctions-could-push-oil-to-140.html
Ketill Sigurjónsson, 26.1.2012 kl. 10:13
"After weeks of mounting tension over Iran’s rogue nuclear program, Iran finally cried “uncle”. Reports from Tehran indicate President Mahmoud Ahmadinejad is willing to resume talks to defuse the powder keg created by U.S.-European moves to ban Iranian crude imports and Iran’s vow to retaliate by shutting the Strait of Hormuz."
http://www.marketwatch.com/story/oil-prices-heed-the-fed-ignore-iran-2012-01-26?siteid=rss&utm_source=tf
Ketill Sigurjónsson, 26.1.2012 kl. 22:16
Feb. 17, 2012, 12:01 a.m. EST
Oil market should worry but not fear Iran
Commentary: Crude prices may have gotten ahead of themselves
http://www.marketwatch.com/story/oil-market-should-worry-but-not-fear-iran-2012-02-16?dist=countdown%3Flink%3DMW-FB
Ketill Sigurjónsson, 17.2.2012 kl. 21:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.