19.2.2012 | 14:02
Norska olíuævintýrið framlengt
Árið sem leið (2011) var gott ár fyrir norska olíuiðnaðinn. Olíuverð var hátt; meðalverðið á olíumörkuðum heimsins yfir árið var meira að segja hærra en nokkru sinni i sögunni. Það er gott bæði fyrir norska Statoil og norska ríkiskassann.

Einnig gekk afar vel í olíuleitinni á norska landgrunninu. Samtals fundust rúmlega tveir tugir nýrra olíulinda innan norsku lögsögunnar á árinu. Þar má nefna góðan árangur Norsaranna sjálfra í Barentshafi. Þar fann norska Statoil nefnilega stórar olíulindir, sem sagðar eiga að geta skilað 150-400 milljón tunnum af olíu. Sem þykir bara ansið gott í bransanum í dag.
Umrætt svæði í Barentshafinu hefur verið nefnt Srugard. Það var flotpallurinn Polar Pioneer frá Transocean sem skilaði Statoil þessum prýðilega árangri. Og jafnvel þó svo svæðið sé nokkuð langt frá landi (meira en 100 sjómílur) er hafdýpið þarna þó ekki nema 370 m. Vinnslan verður því væntanlega barnaleikur og mun örugglega skila bæði vinnslufyrirtækjunum og norska ríkinu miklum hagnaði.
Og það er skammt stórra högga á milli hjá Statoil í Barentshafi þessa dagana. Því nú fyrir einungis örfáum vikum fundu norsku skotthúfurnar - nú á flotpallinum Aker Barents - aðra mjög myndarlega olíulind þarna norður í rassi. Lindin sú er nefnd Havis og er sögð hafa að geyma ígildi 200-300 milljóna tunna af vinnanlegri olíu.
Þessi laglegi olíuskrúðgarður í norsku lögsögunni í Barentshafi liggur skammt norðan gassvæðanna myndarlegu, sem kennd eru við Mjallhvíti og Golíat. Núna er sem sagt orðið ljóst að hafsbotninn undir Barentshafi er alls ekki bara gas, heldur er þarna líka að finna glás af olíu. Þar með geta væntanlega flestir verið sammála um að norska olíuævintýrinu er hvergi nærri lokið og að heimskautasvæðin eiga eftir að skila Norðmönnum geysilegum verðmætum.
Ævintýrið þarna norður í Barentshafi er vel að merkja bara rétt að byrja. Og þessi góði árangur bendir til þess að norska olíuævintýrið eigi eftir að standa miklu lengur en menn bjuggust við.
Þessi góðu tíðindi norðan úr Barentshafi eru samt ekki stóru fréttirnar af norska landgrunninu. Það magnaðasta sem gerðist á landgrunni Noregs árið 2011 var nefnilega hinn geggjaði olíufundur Svíanna hjá Lundin Petroleum - og það í sjálfum Norðursjónum!
Hjá Lundin hafa menn ávallt trúað því að Norðursjórinn sé hvergi nærri þurrausinn. Og að þar megi jafnvel finna það sem fólk í olíubransanum kallar fíl. Þ.e.a.s. olíulind sem býr yfir meira en milljarði tunna af vinnanlegri olíu.
Og viti menn; það er nákvæmlega það sem gerðist nú hjá Lundin Petroleum í Norðursjó. Þarna virðist vera um að ræða sannkallaða risalind. Áætlað er að hún muni skila á bilinu 1,7-3,3 milljörðum tunna af olíu! Þetta er sem sagt margfaldur fíll. Og hvorki meira né minna en ein af allra stærstu olíulindunum sem fundist hefur í norsku lögsögunni. Gæti jafnvel slegið út draumadrottninguna Ekofisk.
Þetta eru svo sannarlega frábærar fréttir af Norðursjónum. Segja má að hafsbotninn þarna sé orðinn eins og gatasigti eftir hálfrar aldar olíuboranir og stanslausa 40 ára vinnslu - en samt virðist enn vera hægt að finna glás af olíu. Það er líka skemmtilegur bónus að þarna er hafdýpið einungis rúmlega hundrað metrar og olían aðein um 2 km undir hafsbotninum. Þetta verður því líklega afar hagkvæm vinnsla. Til samanburðar má nefna að úti á djúpi Mexíkíóflóans eru menn að bora allt að 5-6 km undir hafsbotninn á 2-3ja km hafdýpi!

Ljúflingarnir hjá Lundin Petroleum sitja ekki alveg einir af þessum herlegheitum. Olíulindin nýfundna þarna í Norðursjó nær nefnilega inn á tvö leitarsvæði - sem kölluð hafa verið Avaldsnes & Aldous Major South. Lundin Petroleum er stærsti hluthafinn á þeim hluta svæðisins sem kallaðist Avaldsnes. Þar við hliðina hefur Statoil verið að stússa með sama dýrðarárangrinum. Talan 1,7-3,3 milljarðar tunna er áætluð olía á svæðunum báðum. Þessi svæði voru svo reyndar umskýrð núna í janúar 2012 og er allt svæðið í heild nú kennt við norska stjórnmálamanninn Johan Sverdrup (sem var uppi á 19. öld og var m.a. í fararbroddi að koma á þingræði í Noregi). Og nú þurfa Statoil og Lundin Petroleum að stilla vel saman strengi til að ná að sötra sem allra mest upp af svarta gullinu upp úr öðlingnum Jóhanni Sverdrup.
Það er í reynd með ólíkindum að menn séu að ramba á svona nokkuð í Norðursjónum enn þann dag í dag. Fyrir fyrirtæki eins og Lundin Petroleum er þetta líkt og risastór lóttóvinningur. Enda fagnaði fyrirtækið þessu mjög. Og hlutabréfaverðið í Lundin tók hressilegt risastökk upp á við jafnskjótt að fréttir bárust af þessum risafundi.
Það er sem sagt ekki nóg með að Barentshafið ætli að reynast Norðmönnum gjöfult nýtt kolvetnissvæði, heldur er enn verið að finna risastórar olíulindir í sjálfum Norðursjónum. Það er líka athyglisvert að nú virðast norsk stjórnvöld vera að fara af stað með einhverja mestu olíuleit innan norsku lögsögunnar. Því verið er að opna fjölda nýrra svæða fyrir olíuleit og hefur annað eins ekki sést í næstum tuttugu ár. Norðmenn sjá tækifærin blasa við og skyndilega eru áhyggjur þeirra um að stutt kunni að vera eftir af olíuævintýrinu horfnar sem dögg fyrir sólu.
Norðmenn virðast m.a. ætla að setja allt á fullt við Jan Mayen. Og á sama tíma eru grænlensk stjórnvöld einnig að undirbúa olíuleitarútboð á fjölda nýrra svæða. Þar má nefna áhugaverð leitarsvæði út af SV-strönd Grænlands. Svo virðist líka sem brátt komi að opnun mjög spennandi leitarsvæða á hafísslóðunum út af NA-Grænlandi. Þarna við NA-Grænland er vel að merkja um að ræða landgrunn sem bandaríska landfræðistofnunin (USGS) segir að hafi að geyma stóran hluta heimskautaolíunnar! Þetta eru því ákaflega spennandi tímar hér á Norðurslóðum.
Það liggur í augum uppi að þjónustu við þessi olíuleitar- og vinnslusvæði framtíðarinnar í Norðurhöfum verður ekki sinnt frá austurströnd Grænlands né frá Jan Mayen. Þarna gæti Ísland orðið í algeru lykilhlutverki. Umsvifin í olíuðnaðinum eru ekkert smáræði og ef/þegar olíuvinnsla hefst út af Jan Mayen og NA-Grænlandi mun það hafa gríðarleg áhrif á þau byggðarlög sem verða helstu þjónustusvæðin. Í þessu sambandi geta menn skoðað hvað gerðist t.d. í Aberdeen á Skotlandi, Stavanger í Noregi eða í St. Johns á Nýfundnlandi, þegar olíuiðnaðurinn setti niður fót sinn þar í nágrenninu.
Þó svo fólk hafi eðlilega mismunandi skoðanir um ágæti olíuiðnaðar á Norðurslóðum, er augljóst að hann mun skapa Íslandi ýmis efnahagsleg tækifæri. Þess vegna er svolítið sérkennilegt að þeir sem helst virðast vera að huga að þessum tækifærum á Íslandi, séu fáeinir sveitarstjórnarmenn í nágrenni Langaness (tengist reyndar fyrst og fremst Drekasvæðinu). Bæði íslensk stjórnvöld og íslenskar menntastofnanir ættu að leggja stóraukna áherslu á að byggja hér upp víðtæka þekkingu á flestu því sem lýtur að kolvetnisiðnaðinum. Þarna væri t.d. upplagt tækifæri fyrir hvort sem er Háskólann í Reykjavík eða Háskóla Íslands að sérhæfa sig. Þ.e. bæði á sviði grænnar orku- OG olíubransans. Þess sjást því miður lítil merki enn sem komið er.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Kannski tilefni að nefna hér grein um grænlensku olíuna, sem birtist fyrr í dag á fjölmiðli í Abu Dhabi. Þar er rifjað er upp hvernig samfélag bedúína og perlukafara umsnerist í að verða eitthvert ríkasta land heims. Sjá hér;
http://www.thenational.ae/thenationalconversation/industry-insights/energy/greenland-oil-potential-a-big-draw#full
Ketill Sigurjónsson, 19.2.2012 kl. 17:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.