11.3.2012 | 14:27
Pútín, Gunnvör, Gennady og Þorbjörn
Vladimir Pútín var nýverið kosinn forseti Rússland á ný. Samkvæmt nýlegri breytingu á rússnesku stjórnarskránni hefur hann nú færi á að sitja tvö sex ára samliggjandi kjörtímabil og vera forseti Rússlands 2012-2024. Sem þá myndu bætast við átta ára forsetatíð hans árin 2000-2008.
Þetta hefur gefið sumum tilefni til að rifja upp kenningar um tengsl Pútíns við svissneska olíu- og hrávörurisann Gunvor Group. Fyrirtækið sem er hvorki meira né minna en eitt hið allra stærsta í olíuviðskiptum heimsins og gæti brátt orðið með árlegar tekjur upp á 100 milljarða dollara.
Einkum og sér í lagi er Gunnvör með yfirburðarstöðu í olíuviðskiptum Rússlands. Það er til marks um geggjuð umsvif fyrirtækisins, að það er nú sagt höndla með um þriðjung af allri þeirri olíu sem flutt er út frá Rússlandi. Þarna er ekki um neitt smáræðis magn að ræða, enda er Rússland stærsti olíuútflytjandi heimsins með um 7,4 milljónir tunna á dag (Saudi Arabía flytur nú út um 6 milljón tunnur daglega).
Há markaðshlutdeild Gunnvarar með rússnesku olíuna er mikilvægur liður í gríðarlegri veltu fyrirtækisins. Á síðasta ári (2011) voru tekjur Gunnvarar um 80 milljarðar USD - sem samsvarar rúmlega 10 þúsund milljörðum ISK! Og hreinn hagnaður fyrirtækisins á umræddu ári er talinn hafa verið öðru hvoru megin við einn milljarð USD. Um það er þó allt á huldu því Gunvor er einkafyrirtæki og mætti kannski kallast sannkallað leynifélag.
Aðeins þrjú fyrirtæki í heiminum eru með meiri veltu á hrávörumörkuðum veraldarinnar en Gunvor. Þar eru fremst í flokki svissneska Glencore og hollensk-svissneska Vitol, með árlega veltu upp á ca. 190 og 300 milljarða USD árið 2011. Í þriðja sæti er svo hollenski hrávörurisinn Trafigura, sem var með um 120 milljarða USD í tekjur árið 2011. Bæði Glencore og Trafigura eru vel að merkja afsprengi hrávörubraskarans alræmda, Marc Rich. Vitol byggir aftur á móti á ennþá eldri grunni og er jafnaldri Orkubloggarans (stofnað árið 1966).
Það er ekki síst hátt olíuverð síðustu árin sem hefur verið öllum þessum fjórum hrávörufyrirtækjum alger gullnáma - og skýrir svakalega miklar tekjur og hagnað fyrirtækjanna. Og öll hafa þessi fyrirtæki átt það sameiginlegt að vera í eigu og stjórn einungis örfárra manna. Þau hafa líka átt það sameiginlegt að vera hulin þykkri og leyndardómsfullri þoku - vegna þess að allt þar til í sumar sem leið (2011) voru þetta allt einkafyrirtæki. Nú hefur Glencore aftur á móti verið skráð sem almenningshlutafélag og fyrir liggur að markaðsverðmæti þess í dag nemur um 45 milljörðum USD.
En í dag höldum við okkur við Gunvor. Með hliðsjón af markaðsverðmæti Glencore er kannski ekki fjarri lagi að verðmæti Gunvor nú um stundir sé u.þ.b. 20 milljarðar USD. Þess vegna er óneitanlega athyglisvert að eignarhaldið á Gunvor er nær alfarið í höndum einungis tveggja manna!
Þetta eru Armeninn (eða Finninn) Gennady Timchenko (f. 1952) og Svíinn Torbjörn Törnqvist (f. 1953). Samtals er eignarhlutur þeirra tveggja í Gunvor 90%, sem skiptist jafnt þeirra á milli. Afgangurinn (10%) skiptist svo milli annarra helstu lykilstjórnenda fyrirtækisins. Á tímabili var þriðji maðurinn stór hluthafi í Gunvor, með um 20%, en nafn hans hefur ávallt verið á huldu. Törnqvist hefur lýst því yfir að þeir Timchenko hafi keypt hann út fyrir fáeinum árum og um sé að ræða bissnessmann frá St. Pétursborg sem vilji fá að vera í friði og kæri sig ekki um að vera gefinn upp. En þeir eru margir sem hafa áhuga á að vita hver þessi dularfulli Pétursborgari er.
Rekstrarfyrirkomulagið og eignarhaldið á Gunnvöru er með þeim hætti að fyrirtækið er með aðalskrifstofu sína í Genf í Sviss. Þessi svissneska Gunvor er svo í eigu eignarhaldsfélags, sem skráð er til heimilis í Hollandi (Gunvor International BV). Það hollenska félag mun svo vera í eigu eignarhaldsfélags sem skráð er á Kýpur (Gunvor Cyprus Holding Ltd.) og er sagt vera hin raunverulega endastöð. Skv. upplýsingum sem sjá má í fjölmiðlum er það félag þó í eigu annars félags sem nefnist EIS Clearwater Advisors, sem er með heimilisfesti á Bresku Jómfrúreyjum. Í reynd er þó eignarhaldið jafnvel ennþá flóknara og þar virðast m.a. koma við sögu félög með heimilisfesti í hinni alræmdu svissnesku smáborg Zug (þar sem t.d. bæði Glencore og Actavis eru með aðalstöðvar sínar) og líka fyrirtæki í Liechtenstein. Að sögn Törnqvist er þó samsteypan öll gerð upp og skattlögð í gegnum félagið á Kýpur.
Báðir eru þeir Timchenko og Törnqvist með mikla reynslu úr olíubransanum. Þeir félagarnir eru sagðir hafa kynnst upp úr 1990, en Törnqvist hafði þá lengi verið í ýmsu viðskiptastússi með olíu. Hann er hagfæðimenntaður frá sænskum háskóla og starfaði á sínum tíma m.a. fyrir BP. Timchenko lagði aftur á móti stund á verkfræði við háskólann í Leníngrad. Að því búnu starfaði hann eitthvað í stjórnsýslunni og varð síðar leiðandi í þeim kerfisbreytingum í rússneska olíuiðnaðinum, sem áttu sér stað á síðustu árum Gorbchev's í embætti aðalritara Sovétríkjanna.
Á þeim árum varð Timchenko einn af aðalstjórnendum olíuútflutnings-fyrirtækis í Leníngrad, sem nefndist Kirishineftekhimexport. Þetta var einn af mikilvægustu olíuútflytjendum Sovétríkjanna á síðustu árum sovéska ríkisins og var alfarið í eigu ríkisins. Í gegnum Kirishineftekhimexport kom Timchenko á fót samstarfi við finnsk fyrirtæki um olíuútflutning frá Rússlandi og segja má að þar hafi hann tekið fyrstu skrefin að þeim gríðarlegu olíuviðskiptum sem Gunvor átti síðar eftir að stunda.
Kirishineftekhimexport óx hratt. Og við einkavæðingu sovéskra ríkisfyrirtækja í kjölfarið á falli Sovétríkjanna 1991 vildi svo skemmtilega til að Timchenko varð meðal helstu hluthafanna í fyrirtækinu. Einkavæðingin átti sér stað 1994 og á örskömmum tíma varð Timchenko vellauðugur maður.
Árið 1997 stofnuðu þeir Törnqvist og Timchenko svo Gunvor, sem skyldi sérhæfa sig í verslun með olíu og þá ekki síst rússneska olíu. Þá var Timchenko reyndar kominn með finnskan ríkisborgararétt og því eru þessir ljúflingar í reynd norrænir bræður okkar Íslendinga. Báðir sinna þeir nú störfum sínum á vegum Gunnvarar frá aðalstarfsstöðinni í Genf, en henni komu þeir a fót árið 2003. Þar situr nú um hálft hundrað starfsmanna við tölvurnar - með glimrandi útsýni út á Genfarvatn - og sinna olíuviðskiptum um veröld víða. Ásamt rúmlega fimm hundruð öðrum starfsmönnum á skrifstofum Gunvor í Singapore, Dubai og víðar um heiminn.
Það magnaðasta við Gunvor er kannski sú staðreynd að um aldamótin 2000 hafði varla nokkur maður utan Pétursborgar heyrt um þetta lauflétta fyrirtæki. Það hefur á einungis fáeinum árum vaxið úr nánast engu um aldamótin 2000 og í einhverja mestu peningavél olíuviðskipta heimsins. Sem fyrr segir stofnuðu þeir Timchenko og Törnqvist Gunnvöru árið 1997. Og af einhverjum ástæðum tókst fyrirtækinu á örfáum árum í upphafi 20. aldar að ná til sín um þriðjungi af öllum olíuútflutningsviðskiptum Rússlands!
Kannski eru þeir Timchenko og Törnqvist einfaldlega svona snjallir kaupsýslumenn og með svona svakalega góð sambönd í olíuveröldinni. En margir vilja meina að þetta hefði aldrei geta gerst nema með beinni aðkomu forseta Rússlands. En forseti Rússlands 2000-2008 var Vladimir Pútín (sem þá sat sem forseti í tvö 4ra ára kjörtímabil).
Sumir hafa talið sig sjá ýmis merki um náin tengsl milli Timchenko og Pútíns frá Pétursborgar-árunum á 9. og 10. áratug liðinnar aldar. M.a. að þeir hafi báðir starfað innan KGB í Leníngrad og áfram átt gott samstarf eftir fall Sovétríkjanna. Kenningin segir sem sagt að Pútín sé í reynd aðili að Gunvor - og að hugsanlega hafi fyrirtækið skilað honum mörgum milljörðum USD inn á leynireikninga. Og með ýmsum öðrum leynitekjum sé Pútín nú búinn að komast yfir um 40 milljarða USD, sem geri hann að fimmta auðugasti manni veraldarinnar.
Sögur af þessu tagi hafa ekki aðeins gengið ljósum logum manna á meðal í viðskiptalífinu, heldur hafa t.d. þekktir fjölmiðlar eins og Financial Times og Wall Street Journal fjallað um meint tengsl Pútíns við Gunnvöru. Og þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að a.m.k. eitthvað hljóti að vera til í þessu. M.a. með þeim rökum að annars væri hreinlega útilokað að eitt fyrirtæki, sem þar að auki er í eigu útlendinga (Timchenko er í dag finnskur ríkisborgari og Törnqvist er jú Svíi), gæti náð svona tökum í olíuviðskiptum Rússlands.
Allir hafi þeir þremenningarnir þvertekið fyrir minnstu tengsl Pútín's við Gunvor. Opinbera sagan er sú að Gunvor geti einfaldlega þakkað frábæran árangur sinn því að þeir Timchenko og Törnqvist hafi verið á hárréttum tíma inni í Rússland, þegar allt var þar í upplausn á fyrstu árunum eftir fall Sovétríkjanna. Þeir hafi náð að nýta þekkingu sína á olíuviðskiptum og ýmis sambönd sín í geiranum til að að rífa olíuviðskipti Rússlands út úr svartamarkaðsbraski 10. áratugarins - og komið skipulagi á viðskipti með rússneska olíu. Þetta hafi gerst án nokkurrar sérmeðferðar af hálfu forseta Rússlands eða rússneskra stjórnvalda.
Þessu til stuðnings vísa þeir félagarnir m.a. til þess að undanfarið hafi markaðshlutdeild Gunnvarar með rússneska olíu farið minnkandi - vöxtur fyrirtækisins sé miklu fremur á olíumörkuðum utan Rússlands. Nýlega gerði Gunvor t.a.m. risasamning við stjórnvöld í Negeríu um olíuútflutning þaðan. Einnig nefna þeir þá staðreynd að þeir séu í samstarfi við um tug af stærstu bönkum heimsins, þar sem þeir njóti lánstrausts upp á milljarða USD. Og hver einasti dollar sem komi inn á reikninga fyrirtækisins sé skoðaður af gagnrýnum augum þaulvanra bankamanna, sem gangi úr skugga um að allt sé með felldu. Þetta segja þeir að staðfesti að ekki sé vott að spillingu eða leynimakki að finna í rekstri Gunnvarar.
Ekki ætlar Orkubloggarinn að kveða upp úr með það hvort árangur Gunnvarar tengist að einhverju leyti spilltu viðskiptaumhverfi eða sé bara tær viðskiptasnilld. En það er staðreynd að fljótlega eftir stofnun fyrirtækisins jukust olíuviðskipti Gunnvarar með hreint ævintýralegum hraða. Ekki síst eftir aldamótin, þegar Pútin var orðinn forseti Rússlands. Skyndilega var þetta agnarlitla og óþekkta fyrirtæki, Gunvor, komið með aðalskrifstofu sína suður í Genf og orðið helsti milliðurinn í olíuútflutningi frá Rússlandi. Það varð ekki síst vatn á myllu Gunnvarar þegar rússneska ríkið eignaðist risaolíufélagið Yukos í kjölfar handtökunnar á Michail Khodorkovsky síðla árs 2003. Og stærstur hluti olíuflutninga og viðskipta með olíu frá olíuvinnslusvæðum Yukos (sem nú varð hluti af rússneska ríkisolíufélaginu Rosneft) færðist til Gunnvarar.
Þetta hafði geysilega þýðingu fyrir Gunvor. Því Yukos hafði sjálft séð um mest allan olíuútflutning sinn, sem var mjög stór hluti af olíuútflutningi Rússlands. Um sama leyti seldi milljarðamæringurinn Roman Abramovich rússneska olíurisann Sibneft til rússneska ríkisins og þar fékk Gunvor líka samning um að sjá um olíuútflutninginn. Þarna á árunum 2003-4 blés sem sagt byrinn heldur betur í segl Gunnvarar og augljóst að fyrirtækið var a.m.k. ekki í ónáð hjá æðstu mönnum í Kreml.
Allt þetta brambolt ýtti undir sögusagnir um að lykilaðilinn í þessum tilfæringum öllum væri Pútín sjálfur og hans nánustu samstarfsmenn. Sem þarna hefðu náð að byggja upp skipulag sem tryggði þeim tekjur upp á milljarða dollara á nokkrum árum. Hvað sem slíkum sögum líður, þá hefur Gunvor áfram gert það gott í rússneska olíuútflutningnum. Og bæði náð samningum við TNK-BP og ríkisfyrirtækið Gazprom Neft (olíuarm gasrisans Gazprom) um að flytja út olíu frá þessum risaframleiðendum.
Á örskömmum tíma í upphafi 21. aldarinnar jókst hlutdeild Gunnvarar í útflutningi rússneskrar olíu úr fáeinum prósentum og í um 35%. Þar með komust eigendur fyrirtækisins í einu vetfangi í hóp auðugustu manna heims. Þeir félagarnir Timchenko og Törnqvist eru nú hvor um sig nú metnir á allt að 9 milljarða USD. Og áhrif þeirra í rússnesku viðskiptalífi virðast sífellt vera að aukast, t.d. með uppkaupum á nokkrum mikilvægustu fyrirtækjum Rússlands.
Kannski er þessi árangur bara eins og önnur góð viðskiptaævintýri, þ.e. sambland af útsjónarsemi, dugnaði og heppni. Þeir Timchenko og Törnqvist virðast a.m.k. vel metnir af mörgum málsmetandi mönnum og lausir við hvers konar hvítflibba-kusk, þrátt fyrir tortryggna fjölmiðlamenn. Kannski voru þeir bara réttir menn á réttum stað á réttum tíma. Og tengsl þeirra við Pútín ekkert annað og meira en það að þeir Timchenko og Pútín munu hafa verið í sama júdó-klúbbnum í St. Pétursborg á tíundar áratug liðinnar aldar. Kannski kemur Pútín hvergi nærri Gunnvöru og árangur fyrirtækisins bara árangurinn af mikilli vinnu og dugnaði með smá heppni í bland?
Gunvor Group er í dag vel að merkja ekki bara í olíuviðskiptum. Fyrirtækið á nú gríðarlegar eignir í formi risastórra olíubirgðastöðva, olíuhreinsunarstöðva, olíuhafna, járnbrauta, oliuleiðslna, olíuskipa og annars búnaðar sem kemur að góðum notum við flutninga og viðskipti með bæði hráolíu og afurðir hennar. Þessar eignir eru bæði í Rússlandi og fjölmörgum öðrum löndum. Gunvor er sem sagt einfaldlega á örskömmum tíma orðinn afar mikilvægur player í efnahagslífi heimsins.
Og fyrirtækið virðist enn vera að þenjast út um veröld víða. Þar má t.d. nefna samstarf Gunnvarar við aðra góða Svía; nefnilega ljúflingana hjá Lundin Petroleum. Þar er um að ræða olíuvinnslu og -sölu frá olíulindum í rússneska hluta Kaspíahafisins. Sem kallast Lagansky-svæðið og er talið hafa að geyma allt að 450 milljónir tunna af olíu. Já - Gunvor Group er líklega bara rétt að byrja. Og kannski verður Pútín forseti Rússlands næstu 12 árin. Veröldin er svo sannarlega skemmtileg - og raunveruleikinn margfalt æsilegri en nokkur skáldskapur. Það er ekki síst olíunni að þakka.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:14 | Facebook
Athugasemdir
Hugsaði til orkubloggsins þegar ég las þessa grein um Gunvor
http://www.economist.com/node/21554185
athyglisvert ef þetta er rétt.
Hlynur (IP-tala skráð) 7.5.2012 kl. 01:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.