Verkefnafjármögnun íslenskra virkjana

Nú um stundir er talsvert rætt um um verkefnafjármögnun og aðkomu lífeyrissjóða (og etv. fleiri einkaaðila) að opinberu orkufyrirtækjunum.

Asgeir-Jonsson-2Þessa umræðu má m.a. rekja til skýrslu sem þeir hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson unnu nýverið fyrir fjármálaráðuneytið. Skýrslan sú, sem nálgast má á vef ráðuneytisins, fjallar um arðsemi af orkusölu til stóriðju á Íslandi. Þar leggja höfundarnir til að allar nýjar virkjanaframkvæmdir Landsvirkjunar (og annarra íslenskra orkufyrirtækja í opinberri eigu) verði verkefnafjármagnaðar. Og í framhaldinu verði opinberu orkufyrirtækin gerð að almenningshlutafélögum, þ.e. að hlutafélögum sem skráð verði á markað.

Skýrsluhöfundarnir segja að arðsemi af raforkusölu til stóriðju á Íslandi hafi fram til þessa verið afar lítil. Og að raforkuframleiðsla Landsvirkjunar hafi ekki skilað beinni auðlindarentu. Ef einhver slík renta hafi á annað borð myndast þá hafi hún a.m.k. ekki runnið til orkufyrirtækisins, heldur til orkukaupendanna - í formi lægra orkuverðs. Þar er stóriðjan lang fyrirferðamest. Því má segja að niðurstaða þeirra Ásgeirs og Sigurðar sé í reynd sú, að það séu fyrst og fremst eigendur stóriðjufyrirtækjanna sem njóti auðlindarentunnar af orkunýtingu á Íslandi. Sem er auðvitað ekki alveg nógu gott og mikilvægt að eigendur orkufyrirtækjanna (hið opinbera) njóti hennar í ríkara mæli.

Skýrsluhöfundar segja að hin lága arðsemi af rafmagnssölu Landsvirkjunar til stóriðju myndi tæplega standa undir þeim kröfum um ávöxtun sem gerðar eru til orkuframleiðslufyrirtækja á frjálsum markaði úti um heim. Þeir telja mikilvægt að bæta þarna úr og að ekki verði ráðist í nýjar virkjanaframkvæmdir hér, nema tryggt sé að arðsemiskrafan verði í samræmi við það sem myndi gerast á markaði. Þ.e. að arðsemiskrafan hækki umtalsvert. Og til að svo megi vera sé mikilvægt að gera ákveðnar breytingar á Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum í opinberri eigu.

Hverahlid-borhola

Breytingarnar sem þeir Ásgeir og Sigurður leggja til eru annars vegar að allar nýjar virkjanaframkvæmdir verði verkefnafjármagnaðar og hins vegar að opinberu orkufyrirtækjunum verði breytt í almenningshlutafélög. Þetta sé tryggasta leiðin til að auka arðsemi í raforkuframleiðslunni á Íslandi. Orðrétt lýsa þeir þessu þannig (leturbreyting er Orkubloggarans):

Höfundar leggja til að unnið verði að því að breyta Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum í opinberri eigu í almenningshlutafélög og leggja beri áherslu á verkefnafjármögnun nýrra framkvæmda. Það felur í sér að framkvæmdir séu fjármagnaðar af eigin verðleikum en skatttekjur íslenska ríkisins séu ekki lagðar að veði þegar orkumannvirki eru byggð.

Þarna er í reynd um tvö atriði að ræða. Annars vegar að allar nýjar virkjanaframkvæmdir verði reistar sem alveg sjálfstæð verkefni, þ.e. verkefnafjármagnaðar í stað þess að lán til framkvæmdanna séu tekin af Landsvirkjun með ríkisábyrgð. Og hins vegar að Landsvirkjun verði breytt í almenningshlutafélag. Tillaga þeirra Ásgeirs og Sigurðar merkir því væntanlega að byrja eigi á að því að setja allar nýjar virkjanaframkvæmdir í verkefnafjármögnun - uns búið verður að afnema ríksiábyrgðina og gera Landsvirkjun að almenningshlutafélagi. Að breyttu breytanda gildir hið sama um Orkuveitu Reykjavíkur.

Budarhalsvirkjun-Hordur-kynning

Í skýrslunni er að finna nokkrar röksemdir fyrir þessari tillögu. Þar segir m.a. eftirfarandi (leturbreyting er Orkubloggarans)i:  "Á meðan ríkið ábyrgist fjárfestingar orkufyrirtækja verður alltaf hætta á að stjórnendur þeirra freistist til þess að leggja í fjárfestingar sem ekki ganga upp á frjálsum markaði." Skv. þessu er freistnivandi stjórnenda Landsvirkjunar ein helsta ástæða þess að skýrsluhöfundar leggja til verkefnafjármögnun nýrra virkjana

En er verkefnafjármögnun íslenskra orkufyrirtækja skynsamleg og raunhæf? Rétt er að árétta að með verkefnafjármögnun er átt við að hver og ein virkjun yrði fjármögnuð sem afmarkað verkefni. Þar sem einungis viðkomandi verkefni er lagt að veði vegna fjármögnunarinnar (þ.e. tekjustreymið vegna raforkusölu frá virkjuninni, en þar yrði væntanlega um að ræða langtímasamning við stóriðjufyrirtæki eins og t.d. álver). Í stað þess að Landsvirkjun (OR) taki viðkomandi lán með tilheyrandi ríkisábyrgð (ábyrgð borgarsjóðs í tilviki OR).

Við fyrstu sýn kann þessi hugmynd um verkefnafjármögnun opinberu orkufyrirtækjanna að líta nokkuð vel út. Tilgangurinn er jú að lágmarka hættuna á því að ný virkjunarverkefni séu lítt arðbær og fjarlægja ábyrgð skattborgaranna vegna fjármögnunar virkjanaframkvæmda. Enda hefur Orkubloggarinn verið talsmaður þess að afnema ríkisábyrgð og ábyrgð Reykjavíkurborgar vegna Landsvirkjunar og OR. En er þetta í raun mögulegt þegar á reynir? Er í raun og veru unnt að fjármagna stóra vatnsafls- eða jarðvarmavirkjun á Íslandi með þessum hætti?

Stefan_Petursson_1Í þessu sambandi má vitna til nokkurra ára gamalla ummæla Stefáns Péturssonar, sem þá var fjármálastjóri Landsvirkjunar og er nú framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka. Í umræðu sem varð upp úr aldamótunum síðustu um fyrirkomulagið í íslenska orkugeiranum benti Stefán á að þó svo hugmyndir um verkefnafjármögnun virkjanaframkvæmda hljómi oft vel, sé þetta vart raunhæfur kostur. Rökin eru sú að til að verkefnafjármögnun sé raunhæf þurfi ávöxtunarkrafa verkefnisins að vera miklu hærri en verið hafi við byggingu virkjana á Íslandi. Og til að svo megi vera þarf raforkuverðið auðvitað að vera talsvert mikið hærra en ella (annars stæði verkefnið eitt og sér ekki undir arðsemiskröfunni).

Að mati Stefáns yrði afleiðing þess að taka upp verkefnafjármögnun líklegast sú að hér yrði engin ný vatnsaflsvirkjunvirkjun byggð. Það var vel að merkja fyrir rúmum áratug síðan sem hann setti þetta sjónarmið fram. En Orkubloggarinn er á því, að þrátt fyrir að raforkuverð í heiminum hafi almennt hækkað umtalsvert frá aldamótum, sé hætt við að afar erfitt yrði að fjármagna nýjar íslenskar stórvirkjanir með verkefnafjármögnun. Sérstaklega jarðvarmavirkjanir, því í jarðvarmanum er áhættan almennt umtalsvert meiri en í vatnsaflinu

Hverahlid-OR-rainbowÞað er a.m.k. varla sannfærandi að á sama tíma og hægt gengur að laða nýja raforkukaupendur til Íslands, sé unnt að taka upp verkefnafjármögnun við byggingu nýrra virkjana hér á landi! Mun raunhæfara er að líta á aukna arðsemi Landsvirkjunar og annarra íslenskra raforkuframleiðenda sem langhlaup. Í því langhlaupi er mikilvægt að treysta stjórnendum fyrirtækisins til að smám saman ná að hækka raforkuverð í nýjum samningum í samræmi við skýra stefnu Landsvirkjunar þar um. Til framtíðar er vafalaust skynsamlegt að stefna að því að afnema ríkisábyrgðina vegna Landsvirkjunar. En að gera slíkt núna er varla rétta tímasetningin, heldur fyrst og fremst hagfræðilegar vangaveltur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Ég verð að segja að það eru greinilega miklu meiri húmoristar í fjármálaráðuneytinu en ég gerði mér grein fyrir.

Miðað við þær skýrslur og annað skemmtilegt sem komið hefur frá Ásgeiri Jónssyni undanfarin ár þá er greinilegt að ráðuneytið hefur leitað til þeirra sérfræðinga sem einna best hafa staðið sig í að gefa út fyndið efni.

En nýting orkuauðlinda þjóðarinnar á ekki að byggjast á skoðunum grínara, og ef fjármálaráðuneytið kaupir svona skemmtiefni að "jókerum" og ætlar svo að taka ákvarðanir út grá því, þá er hætt við að við sitjum aftur uppi með Svarta Pétur.

Sigurjón Jónsson, 2.4.2012 kl. 15:03

2 identicon

Það væru mikil mistök að eikavæða orkufyrirtækin. Afhverju eiga einkaðailar að hirða framíðarhagnað Landsvirkjunar en ekki ríkið sem hefur verið að byggja fyrirtækið upp í áratugi.

Eigið fé Landsvirkjunnar er mörg hundruð milljarðar. Hvaðan halda þessir menn að þeir peningar hafi komið ef ekki vegna arðsemi fyrirtækisins.

Landsvirkjun lækkaði skuldir sínar um sirka 20 milljarða í fyrra. Ef skuldir LV lækka um svipaða tölu næstu ár þá tekur það Landsvirkjun 12-15 ár að verða skuldlaust. Er ekki kominn tími til þess að hætta að hlusta á þessa svokallaða sérfræðinga sem lítið virðast geta gert annað en klúðrað málunum fyrir þjóðina.

Alls ekki má einkavæða orkufyrirtækin. Framtíðararður þeirra á að renna til allra íslendinga en ekki fárra útvalinna.

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 2.4.2012 kl. 19:04

3 identicon

Hafa menn ekkert lært ? Mér finnst ekki koma til greina að hleypa braskaragengjunum að Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum. Það kom nokkuð typisk reynsla á það fyrir hrunið og halda menn að innrætið hafi eitthvað batnað.

Olgeir Engilbertsson (IP-tala skráð) 3.4.2012 kl. 11:23

4 identicon

Ketill,

 

Fínn pistill, einu sinni sem oftar.

 

Ein leið til að auka hagnað almennings af virkjunum á Íslandi, er að skattleggja orkuframleiðslu í nýjum virkjunum, og skipta Landsvirkjun í tvennt. “Gamla” Landsvirkjun getur þá átt þær virkjanir og skuldir sem fyrir eru með ríkisábyrgð, á meðan “nýja” Landsvirkjun verður látin eiga og fjármagna nýjar virkjanir á eigin ábyrgð.

Sennilega er best að gamla Landsvirkjun eigi þá nýju (annars yrði býsna flókið að semja um ýmsar smáveitur og aðrar hagkvæmar stækkanir á eldri virkjunum), og hófleg skattlagning getur svo séð til þess að ekki sé virkjað nema arðsemin sé sæmileg og standi undir bæði fjármögnun og sköttum.  

Ari Eiriksson (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband