Landsvirkjun gerð að almenningshlutafélagi?

Undanfarið hafa hugmyndir um breytingar eignarhaldi í íslenska orkugeiranum verið talsvert í umræðunni.

Arnar-Sigmundsson-1

Ein hugmyndin er sú að nýtt orkufyrirtæki, með aðild Orkuveitu Reykjavíkur og íslenskra lífeyrissjóða, verði stofnað í kringum Hverahlíðarvirkjun. Einnig hafa komið fram hugmyndir um að Landsvirkjun taki upp verkefnafjármögnun (sbr. síðasta færsla Orkubloggsins þar um). Og jafnvel að Landsvirkjun verði gerð að almenningshlutafélagi og hluti fyrirtækisins verði seldur til lífeyrissjóða eða eftir atvikum til annarra einkaaðila.

Eins og alkunna er, þá eru helstu orkufyrirtæki landsins alfarið í eigu hins opinbera. Síðan síðla árs 2006 hefur  Landsvirkjun verið að fullu í eigu ríkisins, en fyrir þann tíma áttu Reykjavíkurborg og Akureyrarbær líka í fyrirtækinu. Orkuveita Reykjavíkur er að mestu leyti í eigu Reykjavíkurborgar (með nokkur nágrannasveitarfélög sem meðeigendur). Hitaveita Suðurnesja var líka lengst af í eigu ríkisins og sveitarfélaga á Suðurnesjum. 

Síðan kom að því um mitt ár 2007 að Hitaveita Suðurnesja var einkavædd [hér er hugtakið einkavæðing látið ná yfir það þegar opinber rekstur er hlutafélagavæddur og viðkomandi fyrirtæki selt að hluta eða í heild til einkaréttarlegra aðila]. Þriðjungshlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja var þá seldur til Geysis Green Energy. Í kjölfarið var svo Hitaveitunni skipt upp í HS Veitur og HS Orku (desember 2008) og enduðu þessar tilfæringar með því að einkavæðingin náði einungis til HS Orku. En HS Veitur voru áfram í opinberri eigu. Þar er Reykjanesbær með stærsta eignarhlutann, en OR á þar einnig umtalsverðan hlut.

asgeir-margeirsson-gge.jpg

Í dag er HS Orka að stærstu leyti í eigu kanadíska almenningshlutafélagsins Alterra Power - í gegnum sænskt eignarhaldsfélag. Fyrir nokkru minnkaði kanadíska fyrirtækið reyndar hlut sinn í HS Orku. Það gerðist þegar Jarðvarmi slhf - nýtt samlagshlutafélag í eigu íslenskra lífeyrissjóða - keypti sig inn í HS Orku. Í dag á Jarðvarmi þriðjungshlut í HS Orku.

Vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar og OR munu bæði sveitarfélagið og reykvíska orkufyrirtækið vera áhugasöm um að selja hlut sinn í HS Veitum. Það er því vel hugsanlegt að næsta einkavæðin í íslenska orkugeiranum verði ekki í raforkuframleiðslu, heldur í framleiðslu og dreifingu á heitu og köldu vatni. Sem er athyglisvert, því víða um heim er einkavæðing á vatnsveitum jafnvel ennþá eldfimari pólítískt séð heldur en einkavæðing í raforkuframleiðslu. 

Og sem fyrr segir er núna líka rætt um að huga beri að aðkomu einkaaðila að virkjanaverkefnum á vegum Orkuveitu Reykjavíkur. Og einnig er uppi sú hugmynd að Landsvirkjun verði gerð að almenningshlutafélagi.

helgi-magnusson-samtok-idnadarins.jpgÍ desember s.l. (2011) mátti t.a.m. sjá fréttir þar sem þeir Arnar Sigmundsson, stjórnarform. Landssamtaka lífeyrissjóða og Samtaka fiskvinnslustöðva, og Helgi Magnússon, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, lýstu ágæti þess að Landsvirkjun yrði skráð á hlutabréfamarkað. Og að lífeyrissjóðir yrðu meðeigendur ríkisins að þessu langstærsta orkufyrirtæki landsins. Þannig myndu "allir græða"; lífeyrissjóðirnir kæmu peningum í vinnu, ríkissjóður fengi peninga í kassann og fjármögnun Landsvirkjunar sögð verða tryggari.     

Skömmu áður hafði þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, viðrað svipaðar hugmyndir og undir það tóku fleiri Samfylkingarmenn. Hér má líka nefna nýlega grein Magnúsar Halldórssonar, blaðamanns á Fréttablaðinu, þar sem hann nefnir þá leið að ríkið selji íslenskum lífeyrissjóðum t.d. 40% hlut í Landsvirkjun. Ekki síst í þeim tilgangi að styrkja eignastöðu lífeyrissjóðanna eða öllu heldur veita þeim gengisvörn (verðmæti Landsvirkjunar hverju sinni ræðst mjög af þróun USD og álverðs). Á sama tíma myndi salan styrkja lausafjárstöðu ríkisins. Sem mögulega yrði nýtt til að ráðast í skynsamlegar opinberar framkvæmdir og/eða lækka skatta og þannig örva atvinnulífið.

Margir sjá sem sagt einkavæðingu Landsvirkjunar sem góðan kost og eftir atvikum einnig einkavæðingu OR. Þar með er þó ekki endilega verið að segja að hið opinbera eigi alveg að fara út úr raforkuframleiðslunni. Þvert á móti virðast flestar þessara hugmynda ganga út á það, að hið opinbera verði áfram stór eignaraðili að orkufyrirtækjunum og jafnvel meirihlutaeigandi.

Þessa umræðu um einkavæðingu stóru íslensku orkufyrirtækjanna má líklega að einhverju leyti rekja til skýrslu sem þeir hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson unnu nýverið fyrir fjármálaráðuneytið. Skýrslan sú fjallar um arðsemi af orkusölu til stóriðju á Íslandi, en á hana var einmitt minnst í síðustu færslu Orkubloggsins. Þar setja þeir Ásgeir og Sigurður fram þá hugmynd að Landsvirkjun (og önnur íslensk orkufyrirtæki í opinberri eigu) taki upp verkefnafjármögnun og að Landsvirkjun verði gerð að almenningshlutafélagi. Það sé farsælasta leiðin til að auka arðsemi Landsvirkjunar.

Asgeir-Jonsson-1Orkubloggið hefur nefnt að erfitt geti reynst að taka upp verkefnafjármögnun við byggingu virkjana hér á Íslandi - a.m.k. nú um stundir. En hvað með hinn þáttinn í hugmyndum þeirra Ásgeirs og Sigurðar? Væri skynsamlegt að einkavæða Landsvirkjun? Og það jafnvel sem fyrst? Myndu allir græða á því að fyrirtækið verði skráð á markað og einhver hluti þess seldur til einkaaðila?

Ekki treystir Orkubloggarinn sér til að gefa einhlítt svar við þeirri spurning. Það skal þó nefnt, til að alls sannmælis sé gætt, að bloggarinn er almennt velviljaður því að dregið sé úr beinni þátttöku hins opinbera í atvinnulífinu. En að ríkið og/ eða sveitarfélög eigi þar með að selja frá sér orkufyrirtækin er samt alltof stórt mál til að afgreiða það eingöngu á einhverjum prinsippum um almenna kosti ríkisrekstrar og einkarekstrar. Þetta hlýtur að skoðast út frá afar breiðu hagsmunamati, þar sem hagsmunir almennings eiga að vera í fyrirrúmi.

Nefna má að nær öll helstu raforkufyrirtækin á Norðurlöndunum eru ekki á markaði (a.m.k. ekki ennþá) og eru ýmist að stærstu leyti eða öllu leyti í ríkiseigu. Það á bæði við um norska Statkraft (100% í eigu norska ríkisins), sænska Vattenfall (100% í eigu sænska ríkisins) og danska Dong Energi (þar á danska ríkið um 77%, en afgangurinn er að mestu leyti í eigu tveggja samvinnufélaga sem eru í eigu viðskiptavinanna). Meira að segja finnska almenningshlutafélagið Fortum, sem er stærsta raforkufyrirtæki Finnlands, er að meirihluta í eigu finnska ríkisins.

Það er sem sagt svo að finnska Fortum er hið eina af stóru norrænu raforkufyrirtækjunum sem gert hefur verið að almenninghlutafélagi. Statkraft, Vattenfall og Dong eru aftur á móti öll rekin sem opinber fyrirtæki - a.m.k. enn sem komið er. Fyrir nokkrum árum stefndu dönsk stjórnvöld að því að skrá Dong á markað, en danska ríkið skyldi þó áfram vera meirihlutaeigandi. Af þessari einkavæðingu Dong varð þó ekki, af því markaðsaðstæður þóttu óhagstæðar og voru hugmyndir um einkavæðingu Dong settar í salt.

Fortum-operations-2011

Án þess að fara að draga sérstakar ályktanir af eignarhaldinu á Vattenfall, Statkraft, Dong og Fortum, þá er samt athyglisvert hversu ríkið er þarna í öllum tilvikum umsvifamikið. Finnska Fortum er hið eina þessara raforkufyrirtækja sem er almenningshlutafélag (síðan 1998). Finnska ríkið hefur engu að síður haldið meirihlutanum í Fortum og á nú rétt tæplega 51% í fyrirtækinu. Þess vegna má kannski helst finna fyrirmynd að einkavæðingu Landsvirkjunar (þar sem íslenska ríkið yrði stór hluthafi) í finnska Fortum?

Fortum er reyndar ansið hreint ólíkt Landsvirkjun. Auk stærðarmunarins er Fortum afar umsfvifamikið í kjarnorku og hefur vaxið hratt utan Finnlands. Fyrirtækið stendur í miklum fjáfestingum erlendis og þá ekki síst í Rússlandi. Þar í landi framleiðir Fortum nú þrisvar sinnum meiri raforku en öll raforkuver á Íslandi framleiða til samans. Einkavæðingin á Fortum skömmu fyrir aldamótin var einmitt gerð samhliða því að fyrirtækið fór mjög að horfa til erlendra markaða.

us_hydro-power-ownership-2006.png

Í þessu sambandi er líka athyglisvert að að í vöggu einkaframtaksins - Bandaríkjunum - er um 70% alls virkjaðs vatnsafls í eigu hins opinbera. Þar er ekki um að ræða neitt smáræði, heldur heil 55.000 MW. Þar á meðal eru nokkrar af stærstu vatnsaflsvirkjunum veraldarinnar. Af einhverjum ástæðum hafa bandarísk stjórnvöld - hvort sem er alríkisstjórnin og stofnanir hennar eða einstök fylki - forðast aðkomu einkaaðila að þessum virkjunum.

Það er sem sagt svo að hið opinbera - hvort sem er í Skandinavíu eða Bandaríkjunum - er afar fastheldið á orkufyrirtæki og þó alveg sérstaklega orkufyrirtæki sem byggja mikið á vatnsafli. Enda eru vatnsaflsvirkjanir almennt langhagkvæmasta leiðin til að nýta endurnýjanlega orku. Og það vill einmitt svo til að Landsvirkjun er ennþá nánast alfarið vatnsaflsfyrirtæki; um 96% raforkuframleiðslu Landsvirkjunar kemur frá vatnsafli.  

Það blasir sem sagt ekki við að skandínavísku raforkufyrirtækin gefi okkur það fordæmi að skynsamlegt sé að einkavæða Landsvirkjun. Og slíkt fordæmi er ekki einu sinni að finna í bandarísku vatnsaflsfyrirtækjunum. Enda er það svo að í skýrslu sinni vísa þeir Ásgeir og Sigurður alls ekki til skandínavískra eða bandarískra raforkufyrirtækja til stuðnings þvi að einkavæða Landsvirkjun. Þvert á móti virðast þeir einkum leita fyrirmyndar að slíkri einkavæðingu Landsvirkjunar í einu af stærstu olíuvinnslufyrirtækjum Evrópu. Sem er norski olíu- og gasrisinn Statoil.

Statoil-platform-Troll-A

Orðrétt er haft eftir Ásgeiri (leturbreyting er Orkubloggarans): „Ég vil skoða hvernig eignarhaldi Statoil er háttað. Þar er hugsunin sú að ríkið haldi utan um auðlindirnar með því að eiga meirihlutann í fyrirtækinu, en á sama tíma er reynt [að] hafa eins mikið aðhald í starfsemi félagsins og hægt er, en á sama tíma geti fyrirtækið fjármagnað sig á markaði sjálfstætt og sé ekki með ríkisábyrgð og hafi ýmislegt aðhald að markaðnum. Það næst að einhverju leyti með hlutafélagavæðingu."

Jú - Statoil er vissulega farsælt félag og er líka almenningshlutafélag - með norska ríkið sem langstærsta hluthafann með rétt tæplega 71% hlut. Statoil er sem sagt rekið sem algerlega sjálfstætt fyrirtæki, sem verður að fjármagna sig á markaði án nokkurra beinna afskipta norska ríkisins. Og nýtur auðvitað ekki ríkisábygðar. Kannski þarna sé að finna áhugaverða fyrirmynd fyrir Landsvirkjun?

Statoil-operation-countries-2

Gallinn er bara sá, að það sjónarmið að sambærileg skipan á eignarhaldi Landsvirkjunar eins og er hjá Statoil muni leiða til aukinnar arðsemi hjá Landsvirkjun, stenst vart skoðun. Þarna er um að ræða gjörólíkan rekstur. Risastórt olíufyrirtæki eins og Statoil starfar í rekstrarumhverfi sem er afar ólíkt því sem gildir um raforkufyrirtæki sem byggir framleiðslu sína að mestu á vatnsafli. Vissulega eru bæði fyrirtækin á orkumarkaði. En olíuleit og -vinnsla er allt annar bissness en raforkuframleiðsla og þó einkum og sér í lagi þegar um lítt áhættusöm vatnsaflsfyrirtæki er að ræða.

Statoil-Tar-Sands-Canada

Orkubloggaranum er líka hulið hvað Ásgeir Jónsson á við með því að segja að reynt sé að "hafa aðhald" í starfsemi Statoil. Þó svo það kunni að vera freistandi að líta á Statoil sem krúttlegt og nettlega rekið norskt orkufyrirtæki, þar sem bæði er hugað að hagsmunum norsku þjóðarinnar og leitast við að hámarka arðsemina, þá er staðreyndin sú að þarna er einfaldlega á ferðinni alþjóðlegur olíurisi. Statoil er í olíustússi út um allar trissur; er með starfsemi í um 40 löndum og er t.a.m. umfangsmikið í löndum eins og Aserbaijan, Alsír og Líbýu. Þetta er geysilega áhættusamur bisness, þar sem fyrirtækin svífast stundum einskis til að komast yfir bestu bitana um veröld víða. Þau beita jafnvel mútum, eins og staðfest hefur verið í nokkrum dómsmálum vegna olíuvinnslu Statoil í þróunarlöndunum. Statoil tekur líka þátt í gríðarlega áhættusömum verkefnum utan við strendur Angóla og Brasilíu og er orðið nokkuð stór aðili í einhverri mest mengandi olíuvinnslu veraldar; í kanadíska olíusandinum. Aðhald?

Hér má líka nefna að þegar Statoil var breytt í almenningshlutafélag árið 2001 var tilgangurinn fyrst og fremst sá að gera fyrirtækinu auðveldara að vaxa erlendis. Gera það að alþjóðlegu olíuvinnslufyrirtæki sem myndi ekki aðeins starfa í norsku lögsögunni eða Norðursjó, heldur um veröld víða. Það að vísa til Statoil í tengslum við hugmyndir um einkavæðingu Landsvirkjunar er þess vegna kannski ekki alveg rökrétt.

Petoro-Cash-flow_2001-2011

Þar að auki má nefna að meirihlutaeign norska ríkisins í Statoil hefur ekkert með það að gera að "halda utan um auðlindirnar", eins og Ásgeir orðar það. Utanumhald norska ríkisins á norsku olíuauðlindunum er ekki í höndum Statoil, heldur fer þetta fram í gegnum norska olíumálaráðuneytið og sérstaka stjórnsýslustofnun sem svipar til Orkustofnunar. Auk þess mætti þarna nefna hlutverk norska ríkisfyrirtækisins Petoro (sem ekki er á markaði). Hinn mikla arð Norðmanna af olíuauðlindunum er einmitt miklu fremur að rekja til ríkisfyrirtækisins Petoro heldur en eignarhalds norska ríkisins í Statoil, en Petoro er umfangsmikill hluthafi í vinnsluleyfum á norska landgrunninu.

Þeir Ásgeir og Sigurður hefðu að ósekju mátt rökstyðja það aðeins betur af hverju gera beri Landsvirkjun að almenninghlutafélagi við núverandi aðstæður - og af hverju Statoil sé góð fyrirmynd. Það er líka miður að þeir létu alveg hjá líða að gera hinn minnsta samanburð, né ræddu þeir mismunandi rök með og á móti einkavæðingu raforkufyrirtækja í vatnsaflsiðnaðinum. Orkubloggarinn fær ekki betur séð en að einu rökin sem þeir félagarnir nefna fyrir einkavæðingu Landsvirkjunar, séu þau að stjórnendur fyrirtækisins standi frammi fyrir freistnivanda - sem geti leitt til óarðbærra virkjanaframkvæmda. Má ekki einfaldlega leysa úr því með þeim hætti að íslenska ríkið hætti að ábyrgjast lán fyrirtækisins? Til að framkvæma það eitt og sér þarf enga einkavæðingu.

Með þessum ábendingum eða athugasemdum er Orkubloggarinn vel að merkja ekki að taka afstöðu gegn hverskonar einkavæðingu í íslenska raforkugeiranum. Alls ekki. Þvert á móti þá hefur bloggarinn áður viðrað hér á Orkublogginu þá skoðun sína að skynsamlegt geti verið að fá einkafjármagn að takmörkuðu leyti að bæði Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur. En það þarf að gerast á réttum forsendum. Að gera það með vísan til verkefnafjármögnunar eða að Statoil sé áhugaverð fyrirmynd eru varla sterk rök fyrir einkavæingu Landsvirkjunar.

Þá stendur eftir spurningin hvort aðkoma íslenskra lífeyrissjóða að Landsvirkjun nú um stundir sé skynsamlegur kostur? Til að skapa sjóðunum gengisvörn, koma fé þeirra í vinnu við rekstur og uppbyggingu virkjana og auka lausafé hjá hinu opinbera. Almennt má vafalaust telja fjárfestingu lífeyrissjóða í vatnsafli skynsamlega, því þar er oft á ferðinni fremur áhættulítill rekstur sem til lengri tíma skilar bærilegri arðsemi. Stjórnendur íslensku lífeyrissjóðanna eru þó varla svona spenntir fyrir þeirri Landsvirkjun, sem fram til 2011 hafði að meðaltali skilað einungis að meðaltali 2% arðsemi af eigin fé. Miklu fremur hljóta stjórnendur lífeyrissjóðanna að líta til þess að á undanförnum misserum hefur Landsvirkjun kynnt möguleikann á því að stóraauka arðsemi fyrirtækisins á næstu 15 árum eða svo. Sbr. einnig skýrsla GAMMA um mögulega stóraukna arðsemi Landsvirkjunar á komandi árum.

LV-framkvaemdastjorn-2011

Það vill svo til að Landsvirkjun virðist vera að skila nokkuð góðum rekstri þessi misserin, er að skila arði til ríkisins, er að greiða niður skuldir og virðist almennt séð vera á prýðlegri siglingu. Og gangi umræddar hugmyndir um að stórauka arðsemi Landsvirkjunar eftir, er augljóst að vermæti fyrirtækisins mun aukast mjög frá því sem nú er.

Það er líka svo að EF eigandi Landsvirkjunar, þ.e. íslenska ríkið, hefur trú á umræddri framtíðarsýn stjórnenda fyrirtækisins, þá hlýtur ríkið að fara afar varlega í einkavæðingu fyrirtækisins nú. Og þess í stað einfaldlega veita stjórnendum Landsvirkjunar svigrúm til að koma stefnumörkun sinni í framkvæmd. Þess vegna er kannski ótímabært að ræða um einkavæðingu Landsvirkjunar nú um stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Eggertsson

Takk fyrir góða grein. Menn kvarta undan áætlunum um töku leigugjalds á veiðiheimildum. Eitthvað myndi rafmagnverðið hækka ef Landvirkjun yrði seld og ríkið hæfi töku leigugjalds (auðlegðarskatts) fyrir land- og orkunýtingu?

Kjartan Eggertsson, 16.4.2012 kl. 07:12

2 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Við skulum ekki láta skammsýna fjármálasérfræðinga segja okkur hvernig á að fara með þessa litlu orku sem við eigum. Þeir hafa ekki sýnt að þeir hugsi mikið um hag sinnar þjóðar.

Það hljómaði illa í mínum eyrum þegar frosrjóri Landsvirkjunar talaði um einstakt viðskiptatækifæri sem kæmi ekki aftur um hund til Skotlands. Þetta var nákvæmlega sama og sagt var þegar byrjað var að virkja í Þjórsá og útkoman var samningar sem allir telja að hafi verið slæmir.

Varðandi hundinn til Skotlands þá erum við líklega ósammála þar, því ég tel að það sé betra að leggja hunda um Ísland til þess að safna saman okkar fé, en að láta okkar hund smala saman fé í Skotlandi.

Það þykir ekki mikli búmennska að láta aðra bændur hafa fjárhundinn sinn, og þurfa svo að hlaupa sjálfur um fjöll og firnindi.

Sigurjón Jónsson, 17.4.2012 kl. 09:40

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Eitt sem mætti nefna: Sumir myndu eflaust segja að áætlanir eða hugmyndir Landsvirkjunar um raforkusölu um sæstreng feli í sér svipuð sjónarmið eins og það þegar Fortum og jafnvel Statoil fóru útí umsvifameiri rekstur erlendis. Þar með aukist áhættan í rekstri Landsvirkjunar og því sé eðlilegt að huga að einkavæðingu samhliða slíkum plönum. En þá væru einnig afar sterk rök til að einkavæða Statkraft, Vattenfall og Dong. Af einhverjum ástæðum er slíkt þó ekki á dagskrá - a.m.k. ekki nú um stundir. En svo má líka velta fyrir sér hvort Landsvirkjun muni nokkru sinni ná að fjármagna stóraukið virkjanaafl í tengslum við lagningu sæstrengs? Nema þá með aðkomu umtalsverðs nýs eiginfjár - sem þá væntanlega kæmi frá einkageiranum. M.ö.o. þá kann að vera að hugmyndir um sæstreng geti aldrei gengið eftir nema að stórauka aðkomu einkaaðila að íslenskum orkufyrirtækjum.

Ketill Sigurjónsson, 18.4.2012 kl. 10:31

4 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Þetta er hárrétt athugað hjá þér Ketill.

Þá er næst að skoða hver er tilgangurinn með því að virkja meira. Ef hann er sá að skapa meiri tekjur fyrir Landsvirkjun sem eign allra landsmanna, þá get ég ekki séð að þeim tilgangi sé náð með því að selja hluta af félaginu til einkaaðila sem vilja svo aftur taka til sín arðinn af sinni fjárfestingu.

Ef tilgangurinn er bara að skapa meiri tekjur fyrir félagið, burtséð frá hagsmunum almennings í landinu þá getur verið skynsamlegt að setja Landsvirkjun á almennan markað og treysta svo á mammon og lukkuna.

Sigurjón Jónsson, 18.4.2012 kl. 10:50

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

í tilefni af ofangreindri færslu hefur Orkubloggaranum borist skilaboð frá Ásgeiri Jónssyni, sem var annar höfunda að umræddri skýrslu um arðsemi í raforkusölu og einnig meðhöfundur að skýrslu GAMMA um arðsemi af raforkusölu Landsvirkjunar. Skilaboðin eru svohljóðandi (þau eru birt hér með samþykki Ásgeirs):

"Heill og sæll

Ég las hjá þér nýjasta orkubloggið og vil í framhaldi skýra nokkra hluti, sem mér virðist þú mjög vera að velta fyrir þér varðandi hlutafélagavæðingu Landsvirkjunar.

A) Ég hef aldrei mælt með því að selja Landsvirkjun í einu lagi heldur aðeins bjóða út hlut í fyrirtækinu og láta einkaaðila eiga eitthvað um 30% í fyrirtækinu.

B) Með því að „halda utan um auðlindirnar“ á ég við að þjóðin geti notið bróðurpartsins af auðlindarentu fallvatna landsins en samt sloppið við að taka beina ábyrgð á skuldum Landsvirkjunar. Auðlindarenta af fallvötnum skapast, alveg eins og í olíuvinnslu, þegar meðalkostnaður af vinnslu einhverrar auðlindar er varanlega lægri en söluverð hennar. Ef Landsvirkjun nær að þoka orkuverði sínu upp til samræmis við þær hækkanir sem orðið á orkuverði erlendis (þannig að bilið á milli raforkuverðs hérlendis og erlendis haldist stöðugt) mun þessi renta skapast.

C) Með hlutafjárútboði gæti Landsvirkjun aukið eiginfjárhlutfall sitt (sem er of lágt að mati lánshæfisfyrirtækja) og fengið sjálfstætt lánshæfismat, auk þess að geta fjármagnað virkjunarframkvæmdir með eiginfé eða með hagstæðari lánafjármögnun sem hærra lánshæfi gæfi af sér.

D) Með því að hafa Landsvirkjuní sjálfstæðu hlutafélagi þyrftu skattborgararnir ekki að taka beina ábyrgð á skuldum félagsins, sem nú er. Það gæti síðan stuðlað að hærra lánshæfi íslenska ríkisins auk þess sem minnkað áhættu Íslenska ríkisins af orkusölu sem er í eðli sínu áhættusöm.

E) Með „aðhaldi“ hlutabréfamarkaðarins á ég við að öruggt sé að faglegar ákvarðanir séu teknar um virkjanir og orkusölu í stað þess að láta pólitík ráða. Það felur í sér að arðsemi er höfð að leiðarljósi en ekki það markmið að skapa störf í ákveðnum bæjarfélögum. En ákvarðanir fyrirtækisins hafa verið því marki brenndar í fortíðinni.

Skýrsla Gamma, sem ég er einnig meðhöfundu að, tekur þessi atriði fyrir líka. Einnig er hægt að benda á viðtal við mig í Fréttablaðinu.

http://vefblod.visir.is/index.php?s=5644&p=123721

Mér persónulega finnst þetta nokkuð góð rök fyrir því að íhuga hlutafélagavæðingu Landsvirkjunnar.

Með bestu kveðju,

Ásgeir Jónsson."

Ketill Sigurjónsson, 26.4.2012 kl. 11:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband