30.4.2013 | 09:23
Keisarans hallir skína
Kína er ríkasta land í heimi. Þessi fullyrðing er sennilega alveg hárrétt; að því gefnu að hún hafi verið sögð áður en iðnbyltingin hófst í Evrópu! Því þá fyrst náði verg landsframleiðsla landa eins og Bretlands loksins því sem verið hafði í Kína um langt skeið (GDP per capita).
Rannsóknir á hagsögu heimsins hafa sýnt fram á að Kína hafi verið eitt ríkasta land heims mest allt tímabilið frá upphafi okkar tímatals og allt fram að iðnbyltingunni. Það að Kína sé ekki ríkasta land veraldar er sem sagt fremur undantekning en hitt. En með iðnbyltingunni náðu mörg Evrópulönd að sigla hratt fram úr Kína. Um sama leyti hófst tímabil hnignunar í Kína, sem m.a. einkenndist af miklum óróa innanlands og hungursneyðum.
Hnignunarskeiðinu sem hófst í Kína snemma á 19. öldinni stóð yfir í meira en heila öld. Friður komst á í landinu um 1950, í kjölfar þess að kommúnistastjórnin náði öllum völdum í Kína. En sem kunnugt er, þá var kínverska efnahagslífið þó ekki burðugt á tímum Maó's og menningarbyltingarinnar. En svo gerðist það upp úr 1980 að kínversk stjórnvöld gjörbreyttu hagstjórn sinni. Kína gerði viðskiptasamninga við ýmis ríki í SA-Asíu og einnig við bæði Bandaríkin og Evrópubandalagið (EB, sem nú kallast Evrópusambandið; ESB). Dregið var úr tollum og takmarkaðar erlendar fjárfestingar leyfðar.
Í árslok 2001 varð Kína svo aðili að Alþjóða viðskiptastofnuninni (WTO). Í kjölfarið tók erlend fjárfesting í Kína að aukast hratt. Og í sem allra fæstum orðum má segja að árangur hinnar nýju hagstjórnarstefnu Kína og aukinna samskipta landsins við alþjóðasamfélagið hefur verið ævintýralegur. Afleiðingin er hreint ótrúlega hraður uppgangur í kínversku efnahagslífi og þá einkum og sér í lagi síðustu tíu árin eða svo.
Kínverska millistéttin vex ört
Kínverjar eiga ennþá langt í land með að ná sambærilegum kaupmætti og lífsgæðum eins og gerist hér á Vesturlöndum. En Kína hefur engu að síður verið að slá hvert efnahagsmetið á fætur öðru.
Kína varð t.d. nýlega það land sem fær mesta erlenda fjárfestingu af öllum löndum heimsins (Kína fór þarna nýverið fram úr Bandaríkjunum, sbr. grafið hér til hliðar). Þá voru aðeins liðin örfá ár síðan Kína varð mesta útflutningsríki heims (fór fram úr Þýskalandi árið 2009).
Árið 2010 varð Kína annað stærsta hagkerfi heimsins (fór fram úr Japan og kemur nú næst á eftir bandaríska hagkerfinu). Þetta sama ár (2010) varð Kína mesti orkunotandi heimsins (fór þá fram úr Bandaríkjunum). Á liðnu ári (2012) varð Kína svo stærsta viðskiptaveldi heimsins (þegar samanlagt verðmæti inn- og útflutnings fór fram úr því sem var hjá Bandaríkjunum).
Þetta síðastnefnda er afar athyglisvert - þegar haft er í huga að um 1980 voru milliríkjaviðskipti Kína nánast engin! Þessi gífurlegi vöxtur Kína á sviði alþjóðaviðskiptanna hefur verið slíkur að ekkert hagkerfi hefur vaxið jafn hratt síðasta áratuginn eins og hið kínverska (þá er átt við vöxt í vergri landsframleiðslu; GDP).
Fyrir vikið hefur skyndilega orðið til afar stór kínversk millistétt, sem getur leyft sér margfalt meiri neyslu en þekktist fyrir örfáum árum. Kínverska millistéttin er í dag álitin vera um 250 milljónir manna. Þetta hefur gerst mjög hratt og hefur m.a. leitt til sívaxandi vöruinnflutnings til Kína. Í því sambandi má t.d. nefna að í desember sem leið (2012) var útflutningur Þýskalands til Kína í fyrsta sinn í sögunni meiri en útflutningur Þjóðverja til Bandaríkjanna (sbr. grafið hér að ofan).
Margt bendir til þess að innan örfárra ára verði kínverska millistéttin orðin margfalt stærri en nú eða á bilinu 600-800 milljónir manna. Þarna munu sem sagt a.m.k. nokkur hundruð milljónir manna í viðbót senn verða þátttakendur í blessuðu neyslukapphlaupinu (sem ætti kannski fremur að vera kallað viljinn til mannsæmandi lífs).
Ef spár ganga eftir bætist þarna brátt við ámóta fjöldi í kínversku millistéttina eins og nemur öllum íbúum Bandaríkjanna eða rúmlega það. Spárnar gera sem sagt ráð fyrir að senn bætist a.m.k. 350 milljónir manna (og kannski ennþá fleiri) í þann hóp Kínverja sem mun eiga efni á stærra húsnæði, betri og meiri mat, meiri fatnaði, getur ferðast og keypt sér bíl. Gangi þetta eftir mun það vafalítið hafa fordæmalaus áhrif á efnahagslíf heimsins alls. Kínverska efnahagsundrið er sem sagt kannski bara rétt að byrja.
Kínverska útrásin er staðreynd
Það er að vísu óvíst hversu hratt eða hversu snurðulaust kínverskt efnahagslíf mun vaxa á komandi árum. Blikur kunna að vera á lofti, t.d. vegna gríðarlegrar skuldsetningar margra kínverskra borga og vegna þess að víða í Kína gætu fasteignabólur u.þ.b. verið að springa. Og það leynir sér ekki að síðustu misserin hefur nokkur slaki komið í efnahagsvöxtinn þarna eystra; vöxturinn núna er ekki jafn hraður og var. Engu að síður blasir við að í Kína er hafin þróun sem afar líklegt er að haldi áfram - jafnvel þó svo sá vegur kunni að verða holóttur.
Lengi vel virtist sem nánari viðskiptatengsl Kína við umheiminn hefðu nær alger einstefnuáhrif gagnvart fjárfestingum. Þ.e. að þetta þýddi fyrst og fremst innstreymi á erlendu fjármagni til Kína (þá er átt við beina fjárfestingu eða það sem á ensku er kallað direct foreign investment; FDI). En svo fór að bera á því að kínversk fyrirtæki væru farin að dútla við ýmislegt utan Kína - og fjármagna það fyrst og fremst heiman frá. Kínverska útrásin var byrjuð!
Fyrir um áratug nam fjárfesting kínverskra fyrirtækja erlendis einungis rúmlega 5 milljörðum USD árlega, sem var einungis brot af öllum erlendum fjárfestingum í heiminum (innan við 1%). Einungis fimm árum síðar var erlend fjárfesting kínverskra fyrirtækja orðin tífalt meiri. Og kínverska útrásin öx nú hratt. Árið 2011 nam fjárfesting kínverskra fyrirtækja erlendis líklega nálægt 70 milljörðum USD og á síðasta ári (2012) var hún sennilega nálægt 90 milljörðum USD (heimildir eru nokkuð misvísandi - niðurstaða greiningaraðila ræðst m.a. af þvi hversu vel eða illa þau treysta upplýsingum kínverskra stjórnvalda).
Til samanburðar má nefna að öll erlend fjárfesting í heiminum árið 2012 nam um 1.700 milljörðum USD. Þar eru bandarísk fyrirtæki ennþá lang umsvifamest. Erlend fjárfesting Kínverja er enn sem komið er fremur lítil í alþjóðlegu samhengi (samtals er fjárfesting evrópskra og bandarískra fyrirtækja erlendis meira en tíu sinnum meiri en kínverskra fyrirtækja).
Þetta kann brátt að breytast. Þeir sem gerst þekkja gera ráð fyrir að innan einungis fimm ára verði árleg erlend fjárfesting Kínverja orðin um 800 milljarðar USD. Sem er u.þ.b. tífalt það sem var á liðnu ári (2012). Og sumar spár segja að áður en langt um líður verði erlend fjárfesting kínverskra fyrirtækja komin yfir þúsund milljarða USD árlega - og muni áfram vaxa hratt og áður en varir nálgast það að verða 2.000 milljarðar USD árlega!
Það er vissulega mögulegt að eitthvað í líkingu við þessar spár eigi eftir að verða að raunveruleika - og það jafnvel þó svo vísbendingar séu um að eitthvað kunni að vera að hægja á efnahagsvextinum Kína. Hagvöxturinn í Kína varð einungis" 7,8% á árinu 2012, sem er sá hægasti s.l. 13 ár. Það að athyglisvert að þrátt fyrir þennan slaka dró ekkert úr erlendum fjárfestingum kínverskra fyrirtækja. Þær eru þvert á móti ennþá að aukast hratt og slógu öll fyrr met fyrstu mánuði þessa árs (2013).
Kínversk fyrirtæki munu sennilega verða sífellt meira áberandi í fjárfestingum erlendis á næstu árum og áratugum. Og við erum mögulega að upplifa einhverjar mestu og dramatískustu breytingar í efnahagslífi veraldarinnar frá dögum iðnbyltingarinnar. Það er a.m.k. skynsamlegt að við reynum að búa okkur vel undir að takast á við þá nýju heimsmynd sem þessi þróun kann að skapa.
Gífurlegur gjaldeyrisforði
Hratt vaxandi útflutningur frá Kína hefur orðið til þess að skapa Kínverjum geysilegar gjaldeyristekjur. Og nú er svo komið að ekkert ríki býr yfir eins stórum gjaldeyrisvaraforða eins og Kína. Hann nemur nú vel yfir 3.400 milljörðum USD (er einmitt að miklu leyti í dollurum) og er þrisvar sinnum stærri en gjaldeyrisvaraforði Japans (sem er sá næstmesti).
Þetta er meðal þess sem hefur gefið kínverskum fyrirtækjum tækifæri til að ráðast í miklar og vaxandi fjárfestingar erlendis. Sú þróun hófst fyrir örfáum árum, en þessi vöxtur kann að vera það sem mun verða mest einkennandi fyrir kínverska efnahagslífið á næstu árum. Mjög stór hluti af fjárfestingu kínverskra fyrirtækja erlendis til þessa hefur verið í olíu- og námavinnslu - og þarna eru kínversk ríkisfyrirtæki í fararbroddi.
Til gamans má geta þess að fyrir núverandi gjaldeyrisvaraforða Kína mætti kaupa um 35 milljarða tunna af olíu - sem er meira en árs framleiðsla heimsins af olíu og um tíu sinnum meiri olía en Kína notar nú árlega.
Og jafnvel miðað við dágott yfirverð gæti Kína fyrir þennan gjaldeyrishaug keypt öll tuttugu stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna (á hlutabréfamarkaði) með húð og hári. Þ.m.t. eru ExxonMobil, Chevron, General Electric, JPMorgan, Apple, Google, Microsoft og Coca Cola.
Mörg stærstu fyrirtæki heimsins eru kínversk
Það er til marks um hreint ótrúlegan vöxt kínverska efnahagslífsins að í dag eru tvö stærstu fyrirtæki heimsins á hlutabréfamarkaði bæði kínversk (skv. viðmiðunum viðskiptatímaritsins Forbes). Þar er um að ræða tvo kínverska banka; ICBC og CCB (hér verður notast við enskar skammstafanir á nöfnum flestra kínversku fyrirtækjanna, sem nefnd eru í færslunni). Þó svo þessir risabankar séu á hlutabréfamarkaði eru þeir báðir að mestu leyti í eigu kínverska ríkisins.
Í hópi tuttugu stærstu fyrirtækja heimsins (skv. umræddum lista Forbes) eru fimm kínversk fyrirtæki. Auk fyrrnefndra tveggja banka eru þarna tveir aðrir kínverskir bankar og eitt kínverskt olíufélag; PetroChina. Annað kínverskt olíufélag, Sinopec, er skammt undan - í 26. sæti.
Aðeins neðar á listanum yfir stærstu fyrirtæki heimsins (á hlutabréfamarkaði) koma svo nokkrir kínverskir bankar í viðbót, fleiri kínversk orkufyrirtæki, kínverskt símafyrirtæki og kínversk tryggingafélög. Flest þessi fyrirtæki eru að stóru leyti í eigu kínverska ríkisins. Og skera sig þannig mjög frá flestum öðrum stærstu fyrirtækjum heims á hlutabréfamarkaði, sem langflest eru fyrst og fremst í einkaeigu en ekki opinberri eigu.
Það er líka svolítið athyglisvert að á kínverska þinginu eiga nú sæti meira en áttatíu milljarðamæringar í dollurum talið! Enginn slíkur situr á Bandaríkjaþingi; efnaðasti þingmaðurinn í Washington DC mun eiga rétt innan við hálfan milljarð USD, en sá er Michael McCaul frá Texas. Það er freistandi að segja að kommúnistaríkið Kína sé a.m.k. að sumu leyti orðið höfuðvígi kapítalismans. Sem hljómar óneitanlega eins og ansið mikil þversögn.
Olía og gas heilla
Langmest af erlendri fjárfestingu kínversku fyrirtækjanna síðustu árin hefur verið í orku- og námuiðnaði. Samtals nemur þessi fjárfesting Kínverja í olíu- og námavinnslu erlendis nálægt 400 milljörðum USD á síðustu tíu árum. Þessi tegund erlendrar fjárfestingar kínversku fyrirtækjanna hefur farið hratt vaxandi og er nú nálægt 70 milljörðum USD árlega.
Undanfarin ár hefur hlutfall orku- og námufjárfestinga kínversku fyrirtækjanna verið hátt í 2/3 af öllum erlendum fjárfestingum Kínverjanna. Einhver stærsta nýlega erlenda fjárfesting Kínverjanna er einmitt kaup á amerísku orkufyrirtæki. Það var fyrr á þessu ári (2013) að kínverska ríkisolíufélagið CNOOC (China National Offshore Oil Corporation) keypti kanadíska olíu- og gasvinnslufyrirtækið Nexen með húð og hári - fyrir rúma 15 milljarða USD.
Nexen er með starfsemi nokkuð víða um heiminn. En sennilega hafa Kínverjarnir einkum og sér í lagi verið að horfa til olíuvinnslunnar á vegum Nexen á olíusandsvæðunum norður í Alberta. Þar er á ferðinni ein af stærstu (og mest mengandi) uppsprettum olíu framtíðarinnar.
Af öðrum nýlegum dæmum um erlendar fjárfestingar Kínverja er vert að nefna kaup kínverska ríkisfjárfestingasjóðsins CIC á 30% hlut í franska orkufyrirtækinu GDF-Suez fyrir 4 milljarða USD. Lokið var við kaupin í árslok 2011 og þar með varð kínverska CIC næstum því jafn stór hluthafi í GDF-Suez eins og sjálft franska ríkið! CIC er vel að merkja stærsti ríkisfjárfestingasjóður heimsins og er sjóðurinn metinn á litla 500 milljarða USD.
Einnig mætti hér nefna nýleg kaup (2012) kínverska ríkisfyrirtækisins CTG á fimmtungshlut portúgalska ríkisins í raforkufyrirtækinu Energias de Portugal (EDF). Þetta voru gríðarstór viðskipti eða upp á um 3,5 milljarða USD - og veitti eflaust ekki af fyrir blankan ríkissjóð Portúgal. CTG er þó líklega þekktara fyrir að eiga og reka stærsta vatnsorkuver heimsins; Þriggja gljúfra stífluna í Kína.
Fjárfestingar Kínverja hafa einkum verið á Vesturlöndum
Algengt er að sjá fréttir þess efnis að Kína sé hreinlega að kaupa upp mörg þróunarríki og að t.a.m. séu sum Afríkulönd svo gott sem orðin eign Kínverja. Þetta er orðum aukið.
Reyndin er sú að langmest af erlendri fjárfestingu kínverskra fyrirtækja hefur verið á Vesturlöndum; í löndum eins og Ástralíu, Bandaríkjunum og Kanada og einnig innan Evrópusambandsins (ESB).
Stærstu erlendu kínversku fjárfestingarnar þar fyrir utan hafa svo verið í Brasilíu, Indónesíu og Íran. En vissulega hafa Kínverjar líka verið að setja mikið fé inn í mörg Afríkuríki og það hefur haft veruleg áhrif á þróun atvinnulífs í sumum þeirra. Þar má nefna Angóla, Gabon, Kongó, Nígeríu og Súdan.
Miklar fjárfestingar vestanhafs
Ef við færum okkur vestur um er af nógu að taka í leit að dæmum um kaup kínverskra fyrirtækja í orku- og námuvinnslu. Þar má nefna kaup kínverska risaolíufélagsins Sinopec á þriðjungshlut í bandaríska orkufyrirtækinu Devon Energy. Kaupin átti sér stað á liðnu ári (2012) og var fjárfesting upp á næstum 2,5 milljarða USD.
Það ár keypti Sinopec einnig helmingshlut af olíuvinnslu kanadíska Talisman Energy í Norðursjó - fyrir um 1,5 milljarða USD. Á liðnu ári kom svo móðurfélag Sinopec - CPC- við í Portúgal og gerði sannkallaða risafjárfestingu í brasilíska hluta portúgalska orkufyrirtækisins Galp Energia. Þessi brasilíski hluti Galp nefnist Petrogal Brasil og þar keypti móðurfélag Sinopec 30% hlut. Fréttir um stærð þessarar fjárfestingar voru misvísandi, en gæti hafa verið nálægt 4 milljörðum USD.
Nefna má að rætur Galp liggja í olíuvinnslu í fyrrum nýlendum Portúgala. En í dag eru það Kínverjar sem oft eru stórtækastir í fjárfestingum í mörgum þessum gömlu nýlendum Portúgala og annarra nýlenduríkja Evrópu. Árið 2010 keypti t.d. kínverska Sinopec 40% hlut í brasilíska hluta spænska orkufyrirtækisins Repsol. Það voru viðskipti upp á rúma 7 milljarða USD! Og eins og áður sagði eru Kínverjar orðnir stórtækir í olíuvinnslu í nokkrum löndum Afríku.
Kínversk fyrirtæki hafa fjárfest í mörgum öðrum stórum orku- og hrávörufyrirtækjum og -verkefnum vestan hafs. Þannig hefur t.d. kínverski orku- og efnavinnslurisinn Sinochem keypt gasvinnsluréttindi vestur í Texas fyrir milljarða dollara. Sama hefur áðurnefnt Sinopec gert í Oklahóma og Mississippi (seljandinn þar var Chesapeake Energy). Sinopec er líka nýbúið að kaupa gasvinnslufyrirtæki í Kanada, sem nefnist Daylight Energy, fyrir rúma 2 milljarða USD. Og svona má áfram telja.
Svo virðist sem þessi þróun sé bara rétt að byrja og bæði Bandaríkin, Kanada og Evrópa eigi enn eftir að upplifa geysilegt innstreymi fjármagns frá Kína. Slíkt yrði væntanlega kærkomið fyrir þá sem vilja styrkja efnahagslífið t.d. í sunnanverðri Evrópu. Meiri efasemdir kunna að vera um pólitísku áhrifin sem þetta gæti haft. Upp á síðkastið hefur t.a.m. talsvert borið á andstöðu við það vestur í Kanada að leyfa kínverskum ríkisfyrirtækjum að fjárfesta í kanadískum fyrirtækjum.
Umsvif Kínverja á Norðurlöndunum eru ennþá takmörkuð
Ef við lítum okkur nær, þá er Danmörk eitt af þeim löndum sem hafa fengið kínverska fjárfestingu. Enda er Danmörk mjög opin fyrir erlendu fjármagni. Nú eru um áttatíu kínversk fyrirtæki með starfsemi í Danmörku. Þar af hefur næstum helmingur fyrirtækjanna komið til Danmerkur á síðustu þremur árum (2010-2012).
Eitt af nýjustu verkefnum Kínverja í Danaveldi eru kaup kínverska Titan Wind Energy á einni framleiðslueiningu danska vindorkufyrirtækisins Vestas. Titan Wind hefur sérhæft sig í framleiðslu á turnunum sem spaðarnir og vindtúrbínan hvíla á og keypti slíka verksmiðju af Vestas.
Í reynd eru þó umsvif Kínverja í Danmörku ennþá lítil. Heildarfjárfesting kínverskra fyrirtækja í Danmörku síðan árið 2000 nær sennilega varla nema 5 milljörðum ISK. Finnland er á svipuðum nótum. Svíþjóð hefur fengið talsvert meiri kínverska fjárfestingu. Þangað hafa kínversk fyrirtæki komið með sem nemur um 250 milljarða ISK síðan árið 2000.
Fjárfesting kínverskra fyrirtækja í Noregi er sú mesta af Norðurlöndunum. Frá árinu 2000 nemur fjárfesting Kínverja innan Noregs um 600 milljörðum ISK. Stór hluti af því kemur til vegna kaupa kínverska China National Bluestar Group á norska Elkem (sem þá var í eigu norska Orkla). Elkem á einmitt járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Og þar með má kannski segja að Kínverjar séu ekki síður orðnir nokkuð umsvifamiklir á Íslandi!
Kínverskt fjármagn er sem sagt byrjað að veðja á Ísland. En varla verður sagt að sú fjárfesting hafi umturnað íslensku þjóðfélagi, né haft neikvæð áhrif af nokkru tagi. Þar með er Orkubloggarinn ekki að segja að við eigum að galopna landið fyrir kínverskri fjárfestingu. En við erum nú þegar komin í samstarf við kínverska viðskiptalífið og forvitnilegt verður að sjá hvernig það samstarf þróast.
Allar eru þessar tölur um fjárfestingar kínverskra fyrirtækja á Norðurlöndunum eða annars staðar í heiminum lágar ef miðað er við t.d. bandarískar fjárfestingar í þessum sömu löndum. Meira en helmingur af allri erlendri fjárfestingu innan ESB kemur frá Bandaríkjunum, en einungis um eða innan við tíundi hlutinn frá Kína (þessar hlutfallstölur miðast við 2011 en eru vel að merkja afar breytilegar frá ári til árs).
Þetta gæti breyst hratt á næstu árum; hlutfall Kína kann að vaxa hratt. Það er beinlínis stefna Kínastjórnar að draga úr þýðingu bandarískra ríkisskuldabréfa og þess í stað leggja meiri áherslu á að eiga fyrirtæki erlendis. Þetta gæti haft áhrif á Ísland; fyrir örlítið hagkerfi eins og hið íslenska getur Kína sem fjárfestir augljóslega haft geysilega þýðingu.
Kína á Norðurslóðum
Undanfarið hefur mátt tala um raðkaup kínverskra fyrirtækja á mörgum stórum orku- og olíuvinnslufyrirtækjum í bæði Evrópu, Kanada, Bandaríkjunum og víðar um heiminn. Þá eru ótaldar miklar fjárfestingar kínverskra fyrirtækja í erlendum námuvinnslufyrirtækjum. Þær fjárfestingar eru dreifðar um allan heim og má t.d. nefna Kanada, Afganistan og Írak í þessu sambandi. Og nú er þessi þróun að berast hingað á Norðurslóðir.
Stærsta koparvinnslufyrirtækið í Kína, Jiangxi Copper, sem er einn stærsti koparframleiðandi heimsins, hefur verið að kanna með opnun koparnámu rétt norðan við Scoresbysund (Ittoqqortoormiit) á austurströnd Grænlands. Sem er í næsta nágrenni okkar Íslendinga.
Og kínverski ríkisbankinn CDB er sagður vilja fjármagna stóra járnnámu sem er fyrirhuguð upp við jökuljaðarinn á vesturströnd Grænlands, ofan við höfuðstaðinn Nuuk. Þar yrði um að ræða framkvæmdir upp á u.þ.b. 2,5 milljarða USD. Og jafnvel ennþá meira, því í tengslum við þessar fyrirhuguðu framkvæmdir hafa Kínverjarnir sýnt áhuga á að fjármagna nýja flugstöð í Nuuk og stækka flugvöllinn þar.
Svo sigldu Kínverjar nýlega dísilknúnum ísbrjót yfir Norðurpólinn og komu þá m.a. við hér í Reykjavík. Orkubloggarinn var meðal þeirra sem skoðaði glæsilegan Snædrekann og hefur aldrei áður komið í jafn tandurhreint og fínt skip. Loks er væntanlega öllum lesendum Orkubloggsins vel kunnugt um áhuga hins kínverska Huang Nubo um hótelrekstur á Grímsstöðum á Fjöllum - sem virðist reyndar alveg óviðkomandi áhuga kínverskra ríkisfyrirtækja á orku og jarðefnaauðlindum.
Ísland og Kína gera fríverslunarsamning
Uppgangurinn í Kína vekur ótal spurningar sem mikilvægt er að velta fyrir sér og reyna að svara. Ein þeirra er sú hvaða áhrif hagvöxturinn í Kína og aukin erlend viðskipti kínverskra fyrirtækja kunna að hafa fyrir okkur Íslendinga? Þar er vert að hafa í huga að nýverið voru Ísland og Kína að gera með sér tvíhliða fríverslunarsamning.
Fríverslunarsamningurinn milli Íslands og Kína er fyrsti samningurinn af þessu tagi sem Kínverjar gera við Evrópuríki. Og þetta er meira að segja einn af fyrstu fríverslunarsamningunum sem gerður er milli Kína og vestræns ríkis. Auk Íslands hefur Kína þar einungis samið um fríverslun við Nýja Sjáland og nokkur lönd í S-Ameríku (Chile, Costa Rica og Perú). Kína hefur að auki verið í fríverslunarviðræðum við t.d. Ástralíu og Noreg, en þær hafa enn ekki borið árangur.
Það eru sem sagt talsverðar fréttir að Ísland og Kína skuli hafa samið um fríverslun. Nú er bara að sjá hver reynslan verður; hvort þetta muni breyta miklu um viðskipti milli Íslands og Kína.
Er kínverska efnahagsundrið bara rétt að byrja?
Til eru þeir sem telja að það hljóti senn að hægja verulega á hagvextinum í Kína. Og jafnvel líka á fjárfestingum kínverskra fyrirtækja erlendis. Það eru reyndar komnar fram vísbendingar um að eitthvað kunni að vera að draga úr hröðum vextinum innan Kína - þó svo efnahagsvöxturinn þarna eystra sé enn verulegur. Enn er aftur á móti ekkert sem bendir til þess að það muni draga úr erlendum fjárfestingum kínverskra fyrirtækja.
Hvað það verður, veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Kannski er kínverska ballið bara rétt að byrja. Kínverjar eru tæplega 1,4 milljarðar manna. Ennþá eru einungis um 250 milljónir Kínverja sem hafa náð þeirri velmegun að að vera skilgreindir sem millistétt. Þarna eru því enn mörg hundruð milljónir manna sem þyrstir í betri lífskjör. Og kínversk stjórnvöld hljóta að vilja gera það sem í þeirra valdi stendur til að efla millistéttina enn frekar. Spurningin er bara hversu hratt þetta mun ganga.
Hver verða áhrifin fyrir Ísland?
Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvaða áhrif efnahagsvöxturinn í Kína mun hafa á alþjóðaviðskipti og lífskjör í heiminum á komandi árum og áratugum. En vafalítið munu áhrifin verða mikil - og hugsanlega miklu meiri en við flest höfum hugleitt. Þá er ótalin möguleg risastór millistétt sem kann að koma upp í öðrum löndum og þá nærtækast að hugsa til Indlands.
En hvað sem öllum öðrum löndum líður þá viðist augljóst að það verði Kína sem þarna mun hafa mest áhrif á næstu árum og áratugum. En Kína er afar langt frá Íslandi. Óljóst er hvaða áhrif þetta mun hafa á íslenskt efnahagslíf. Það gæti ráðist af örfáum ákvörðunum um það t.d. hvort eitt eða tvö kínversk fyrirtæki muni ráðast í umtalsverðar fjárfestingar á Íslandi.
Hinn nýi fríverslunarsamningur Íslands og Kína hlýtur að þýða að það sé stefna íslenskra stjórnvalda að auka viðskipti við Kína. Það er erfitt að spá fyrir um það hversu mikið slík viðskipti munu aukast.
Það er líka óljóst hversu mikinn áhuga kínversk fyrirtæki hafa í reynd á Íslandi. Og það virðist vera talsverð tortryggni gagnvart því þegar Kínverjar sýna því áhuga að fjárfesta á Íslandi.
Kannski mun samstarf milli Íslands og Kína fremur verða tengt starfsemi kínverskra fyrirtækja utan Íslands, fremur en á sjálfu Íslandi. Þetta gæti t.d. tengst námuvinnslu á Grænlandi og/eða jarðhitaverkefnum í Kína eða jafnvel allt annars staðar eins og t.d. í Afríku.
Það er fyllsta ástæða til að huga vel að því hvernig vöxtur kínverska efnahagslífsins kann að gefa Íslendingum tækifæri. Og um leið að líta vel og vandlega til þess hvað þarna beri að varast. Gerum þetta með opnum huga. En með skynsemi að leiðarljósi og án óðagots.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 1.5.2013 kl. 14:33 | Facebook
Athugasemdir
Kína tekur forystuna á fleiri sviðum. Glænýtt frá Economist: http://www.economist.com/blogs/graphicdetail/2013/05/focus?fsrc=scn/fb/wl/bl/personalcomputers
Ketill Sigurjónsson, 3.5.2013 kl. 12:13
Ég velti því fyrir mér hvort að það sé ekki of mikill stærðar- og menningarmunur á milli Íslands og Kína til þess að þessi samningur nýtist eitthvað að ráði. Maður hefur heyrt sögur af því hjá íslenskum aðilum sem hafa staðið í viðskiptum við Kínverja að þeir hugsi í allt öðrum stærðum og taki nánast ekki við svo smáum pöntunum sem henti íslenskum veruleika. Sömuleiðis hlýtur að vera erfitt að komast með íslenskar útflutningsvörur inn á þennan risamarkað nema það sé lúxusvarningur í litlu magni.
Bjarki (IP-tala skráð) 6.5.2013 kl. 11:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.