OLÍAN sökudólgurinn?

Því hefur verið haldið fram að hátt olíuverð leiði óumflýjanlega til hækkandi matvælaverðs. Ekki ætla ég að ræða þá kenningu hér. Aftur á móti er athyglisvert að kannski hafði King Hubbert rétt fyrir sér, sem þýðir að olíuframleiðsla hefur nú þegar náð hámarki. Ef satt reynist, mun olíuverð væntanlega ekki lækka heldur jafnvel fara hratt hækkandi. Og hugsanlega fylgir matvælaverð í kjölfarið. Ég er reyndar mjög tortrygginn á svona "dómsdagsspár". Og er sannfærður um að tækniþróun mun á ný lækka orkuverð - og þá líka matvælaverð.

Hubbertyoung

Hubbert-kenningin dregur nafn sitt af jarðfræðingnum Marion King Hubbert, sem starfaði m.a. fyrir Shell. Hubbert (1903-1989) setti kenningu sína fyrst fram um miðjan 6. áratuginn og spáði þá að olíuframleiðsla Bandaríkjanna myndi ná toppi einhvern tímann á árabilinu 1965-70. Í einföldustu mynd segir kenning hans að olíuframleiðsla á sérhverju svæði fylgi tiltekinni kúrfu; framleiðslan vaxi í ákveðnu hlutfalli, nái toppi og minnki síðan uns svæðið er tæmt af olíu.

Þessi spá gekk furðu vel eftir, en hefðbundin olíuframleiðsla náði hámarki í Bandaríkjunum rétt eftir 1970, þ.e. í hinum 48 ríkjum meginlandsins. Bandaríkin náðu þó að auka framleiðslu sína á ný vegna olíufunda í Mexíkóflóa og Alaska og gagnrýnendur Hubbert's nýttu það til að vefengja kenningu hans.

US_Oil_Supply

En þó svo Alaska-olían kroppaði svolítið í kúrfuna, reyndist spáin um samdrátt vera rétt. Eins og vel má sjá á grafinu hér til hliðar. Rauða línan sýnir olíuframleiðslu Bandaríkjanna, en sú bláa er innflutningur þeirra á olíu.

Og í dag rétt slefar olíuframleiðsla Bandaríkjanna í að vera helmingur þess sem hún var um 1970. Og dregst ört saman. Það sem er þó jafnvel enn magnaðra er að Bandaríkin voru ekki einu sinni sjálfbær um olíu, þegar framleiðslan var í hámarki um 1970. Ameríka er svo sannarlega "addicted to oil":

BushUnion

"Keeping America competitive requires affordable energy. And here we have a serious problem: America is addicted to oil, which is often imported from unstable parts of the world. The best way to break this addiction is through technology. ... May God bless America." (Bush ávarpar Bandaríkjaþing, 30. janúar 2006 - alltaf jafn greindarlegur á svipinn).

 

Þegar kenning Hubbert's er yfirfærð á öll olíusvæði jarðar er niðurstaðan sú að heimsframleiðslan muni líka fylgja kúrfu, sem nái hámarki og eftir það minnki framleiðslan óumflýjanlega. Þetta er oft kallað "peak oil theory". 

HubbertCurve

Kenning þessi er umdeild, en stuðningur við hana hefur aukist mjög eftir að sést hefur hversu vel hún fellur t.d. að olíuframleiðslu í Norðursjó - og víðar. En auðvitað eru alltaf að finnast nýjar olíulindir og menn eru einfaldlega afar ósammála um það hvort og hvenær peak-oil verði náð. Til eru þeir sem álíta að þessum punkti hafi þegar verið náð og héðan í frá muni olíuframleiðsla heimsins fara minnkandi. Staðreyndin er sú að við getum aldrei vitað hvar peak-oil punkturinn liggur. Fyrr en nokkuð löngu eftirá.


mbl.is Verð á hrísgrjónum í sögulegu hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband