Tinni og kolafarmurinn

Væntanlega könnumst við flest við fréttir af átökunum í Súdan; þjóðarmorðinu í Darfúr. Þó svo áratugalöng þurrkatímabil, hungursneyðir og mikil fólksfjölgun, séu meginástæðan fyrir upphafi þessa borgarastríðs, er vart ofsagt að stríðið snúist fyrst og fremst um yfirráð yfir olíulindum landsins. 

Kolafarmurinn

Þegar ég heyri Súdan nefnt verður mér af einhverjum ástæðum alltaf hugsað til einnar af Tinnabókunum frábæru; Kolafarmurinn. Sú góða bók segir, eins og alþjóð veit, frá ævintýrum Tinna á Rauðahafi og baráttu hans við glæpagengi sem stundar þrælaverslun með svertingja frá múslimasvæðum á austurströnd Afríku.

Ég minnist líka myndanna úr æsku af hungruðum börnum í Afríku með uppblásin maga. Á áttunda áratugnum geisuðu hroðalegir þurrkar og hungur víða í löndum Afríku, einkum suðaustan Sahara. Þetta olli fæðuskorti en þrátt fyrir langvarandi hungursneyðir hefur orðið gríðarlega fólksfjölgun á þessum svæðum. Fyrir vikið hefur spenna magnast á milli ólíkra þjóðarbrota, t.d. milli svartra og Núbíumanna í Súdan. Hinir síðarnefndu teljast Arabar (en eru engu að síður afar frábrugðnir Aröbum í N-Afríku og Mið-Austurlöndum).

sudanmap

Súdan er risaland; 2,5 milljón ferkílómetrar og með um 40 milljón íbúa. Þó svo margt liggi að baki hörmungunum í Darfúr í V-Súdan, verður ekki litið fram hjá einni helstu ástæðunni; mikla olíu er að finna í suðurhluta Darfúr. Yfirráð í Darfúr hafa því mikla efnahagslega þýðingu. Enn fremur er síaukin olíuvinnsla í Súdan helsta uppspretta fjármagns fyrir vopnakaup, sprengjuflugvélar o.þ.h. tól., sem kyndir undir stríðið sem geysar í landinu.

AfricaOilReserves

Súdan framleiðir nú meira en 500 þúsund tunnur af olíu daglega. Það eru kannski engin ósköp. En þó 10 sinnum meira en framleiðslan var fyrir tæpum áratug! Þar að auki er talið að olíuauðlindir landsins séu um 5 milljarðar tunna, sem þýðir að Súdan býr yfir 5. stærstu olíubirgðum í Afríku og þeim 3. mestu af löndunum sunnan Sahara. Dágóður biti það.

Og enn og aftur koma peningar afrísku olíuríkjanna fyrst og fremst frá Kína. Allt að 70% af olíuframleiðslu í Súdan fer nú til Kína, sem fjármagnar stóran hluta framleiðslunnar. Hægt og fremur hljótt hefur Kína í reynd náð yfirburðarstöðu á olíumarkaði Afríkuríkja. Og nú eru Vesturlönd að vakna upp við vondan draum; ætli þau að fá meiri olíu frá Afríku verða þau að yfirbjóða Kína. Og það er ekki bara dýrt - Kína er einfaldlega komið með svo sterk áhrif víða í Afríku að þessari þróun verður etv. ekki snúið við. Enn ein ástæðan fyrir því að sífellt fleiri Bandaríkjamenn og Evrópubúar horfa nú til möguleika á nýjum orkugjöfum.


mbl.is Barist í Súdan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband