Hrikalegt stefnuleysi

Bjarni_i_Holmi

Það er etv. ekki skrýtið þó mér þyki virkjun náttúruaflanna tær snilld. Ég er alinn upp austur í Skaftafellssýslu við arfleifð helstu frumerja Íslands í virkjun vatnsorkunnar. Manna eins og Bjarna í Hólmi og bræðranna Eiríks og Sigurjóns í Svínadal. Svo ég vitni í heimildamyndina "Það kom svolítið rafmagn":

"Bjarni Runólfsson og fleiri rafstöðvasmiðir í Vestur-Skaftafellssýslu raflýstu tvöhundruð og þrettán sveitaheimili á fimmtíu ára tímabili. Uppsett afl þessara stöðva var tvö megavött, sem er um fjórðungur þess sem Mjólkárvirkjun í Arnarfirði framleiðir. Bjarni í Hólmi var sjálfmenntaður smiður og rafvirki og hráefnið sem hann notaði í virkjanirnar var fengið úr ströndum á Meðallandssandi. Meðal nánustu samstarfsmanna Bjarna voru þeir bræður frá Svínadal í Skaftártungu, Sigurjón og Eiríkur Björnssynir. Skaftfellingar voru frumkvöðlar í raftækni á Íslandi og fóru í alla landsfjórðunga að koma upp rafstöðvum. Fjölmargar þessara stöðva ganga  enn..."

Systrafoss2

Ein af þessum stöðvum, rafstöð sem gengur enn fyrir vatni ofan af Klausturfjalli, framleiddi allt rafmagn fyrir æskuheimili mitt, undir árvökulum augum rafstöðvarstjórans Jóns Björnssonar, bróður Eiríks og Sigurjóns í Svínadal. Jón var líka nágranni okkar og minnist ég margra ljúfra stunda sem snáði hjá honum og Imbu (Ingibjörgu), konu hans. Þar fékk ég saltfisk og hrísgrjónagraut í hádeginu á laugardögum og horfði á Stundina okkar í svarthvíta sjónvarpinu þeirra á sunnudögum. Þar leið mér vel og man enn dillandi hláturinn í Imbu þegar ég veltist um með köttinn hennar.

Hljóp svo heim í myrkrinu, yfir túnið, og fann stundum andardrátt huldufólksins fyrir aftan mig. Og herti á sprettinum í tunglsljósinu.

Og ég man vel eftir Eiríki þegar hann kom skröltandi að Klaustri á gamla Víponinum sínum með skráningarnúmerið Z-2. Þetta var á þeim yndislega tíma þegar maður hafði fyrst og fremst tvö áhugamál; að sparka bolta og skrifa flott bílnúmer í stílabók! Önnur eftirminnileg númer eru Z-22 á rauða Reinsinum hans Jóns Björnssonar, nágranna okkar. Og auðvitað númerið okkar; Z-226. Á græna Reinsinum. En það er önnur saga.

Svolitid_rafmagn

Já - það er þetta með virkjanirnar. Ég hef lengi undrast að í reynd virðist aldrei  hafa ríkt nein stefna í orkumálum Íslands. Þetta hefur allt frá 7. áratugnum meira og minna snúist um örvæntingafulla leit að stóriðjufyrirtækjum, til að koma og fá hér orku á afslætti. Orkufyrirtækin eru í eigu ríkisins og sveitarfélaganna, en eru samt hulin leyndarhjúp. Pólitíkusar skipa sjálfa sig í stjórnir fyrirtækjanna og almenningur hefur engin raunveruleg tækifæri til að leggja mat á hvort þessi fyrirtæki eru vel rekin eður ei.

Og af hverju þarf að vera leynd um orkuverð til stóriðju? Svörin eru jafnan á þá leið að það sé til að ná hagstæðum samningum um sölu á orku. Allt er þetta ávísun á sukk og tortryggni. Ef orkuverðið hefur verið að skila eðlilegri ávöxtun af fjárfestingum i virkjunum, er engin ástæða til að hafa þessa leynd. Íslensk orka til stóriðju - eða annarrar starfsemi - á að hafa markaðsverð. En ekki vera hluti af einhverjum leynileik.

Af hverju er ekki skýr og opin orkustefna á Íslandi? Þetta er hið furðulegasta mál. Ekki síst þegar haft er í huga að orkan er einhver mesta auðlind landsins. Hvað er iðnaðarráðherra alltaf að gera í einhverjum afkimum veraldarinnar? Mér finnst stórskemmtilegt að lesa pistlana hans þaðan. En væri ekki nær að taka til hendinni hér heima?

Það er löngu orðið tímabært að taka til í íslenska orkugeiranum. Sennilega gerist það ekki nema með einkavæðingu. Það getur vel farið saman við hagsmuni ríkisins og þjóðarinnar. Fyrirtæki eins og Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavikur yrðu áfram meðal leikenda á því sviði að byggja og reka virkjanir. Til að byrja með væri skynsamlegast að einkavæða fyrirtækin smám saman. Á svipaðan hátt og senn verður gert í Danmörku með risaorkufyrirtækið Dong Energy. 

foss_sidu

Sérstakur sjóður ætti að hafa umsjón með leigu á réttindum til að nýta sameiginlegar auðlindir. Hann gæti bæði séð um fiskveiðikvótakerfið og orkulindir á svæðum utan eignarlanda. Til að tryggja eðlilega samkeppni ættu öll gögn hans að vera opinber og aðgengileg eins og kostur er. Annar sjóður myndi hafa það hlutverk að ávaxta tekjurnar.

Við uppsetningu á slíku kerfi mætti hafa hliðsjón af því hvernig staðið hefur verið að sambærilegum málum í tengslum við gas- og olíuauðlindir Norðmanna. Og um leið forðast annmarka á norska kerfinu. Þar er mikil reynsla sem hægt er að læra af.

Þetta þarf að gera áður en farið er að semja um aðild að EB.

Myndirnar sem fylgja þessar færslu eru í virðingarskyni við nokkra helstu frumherja í orkunýtingu á Íslandi.


mbl.is Engir orkusamningar á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Áhugaverður pistill hjá þér og margir góðir punktar.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 21.5.2008 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband