Snilld

bike

Svei mér þá ef Gísli Marteinn hefur ekki tryggt sér atkvæði mitt með því að leggja áherslu á hjólreiðastíga i Reykjavík. Reyndar bý ég Kópavogsmegin í Fossvogsdalnum, þ.a. að ég á erfitt með að standa við það að kjósa Gísla. Legg til að Reykjavík og Kópavogur sameinist í eitt sveitarfélag. Sem mætti mín vegna heita Reykjavík. Eða Ingólfsborg.

En ég er sem sagt hjólreiðamaður. Sumir nánast fæðast á hestbaki. Aðrir með veiðistöng í hendi. Fyrir mér er reiðhjól einhver mikilvægasti hluturinn.

Samt eignaðist ég ekki eigið hjól fyrr en 9 ára gamall. Þá bjó ég einmitt hér í Kaupmannahöfn. Rétt hjá Trianglen á Austurbrú. Hafði þó auðvitað löngu áður lært að hjóla, fyrst á óhönduglega stóru hjóli systur minnar, hennar Æsu, og svo fékk ég stundum lánað hjólið hans Lassa, sem bjó í næsta húsi. Það var gott hjól.

Í gær hjólaði ég héðan frá Friðriksbergi og í Fælledparken upp á Austurbrú, með blað og bjór. Til að slappa af i smástund í sólinni og taka breik frá helgarverkefninu.

Faelledparken

En það er verst að alltaf þegar ég skrepp þangað uppeftir fyllist ég svo svakalegra nostalgíu að ég nánast tárfelli. Á alltaf hálfpartinn von á að mæta sjálfum mér, brosandi níu ára gutta á fyrsta hjólinu sínu, hjólandi hring eftir hring i Fælledparken. Með reglulegri viðkomu hjá pabba eða mömmu, sem sitja á bekk og fylgjast með að ég hverfi ekki út í buskann.

Stundum stalst ég út fyrir garðinn og keypti mér danskt ópal í sjálfsala. Já - þetta var skemmtilegur tími í Kaupmannahöfn 75-76. Og lífið hafði mjög einfaldan tilgang. Að sparka bolta í frímínútum og svo hjóla og hjóla... og hjóla og hjóla... og hjóla...

Og nú er ég farinn út í kæfuhitann hérna. Að hjóla. 


mbl.is Ósabraut ekki fyrir bíla?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Ketill

Gott blog hjá þér, alltaf ferskri vindar. Hjólreiðar eru sannarlega skemmtileg tómstund og hana stundum við hér í Kópavoginum og ætlum að gera enn betur. Nú er verið að skoða stíg frá Vesturbæ Kópavogs yfir til Reykjavíkur. Annars af því að þú ert staddur í Kaupmannahöfn þá er nú ástandi ekki beysið í Ráðhúsi Reykjavíkur og ekki á störfin bætandi. Hins vegar er ástandið gott hér í Kópavoginum og gætum við alveg tekið að okkur verkefni. Við værum alveg til í að sameinast Reykjavíkurborg. Með því að slá saman nöfnunum Kópavogsbær og Reykjavíkurborg þá er nafnið komið Kópavogsborg.

Sigurður Þorsteinsson, 1.6.2008 kl. 13:59

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll flottur pistill. Ég bý Kópavogsmegin í Fossvogi og tek undir að það er frábært að hjóla hér í kring og yfir til Reykjavíkur. Ég er nú búin að vera í startholunum með að hjóla í vinnuna, sem er í Reykjavík, en alltaf er það þannig að ég veit af því að ég þarf að fara á fund eða á erindi utan vinnunnar og þarf þá bílinn. Þú finnur þér eitthvað til að kjósa hér hjá okkur í Kópavogi  en það er rétt að Gísli Marteinn hefur verið ötull í þessu efni. Ég kæri mig samt ekkert um að sameinast Reykjavík eins og Sigurður nefnir en við gætum eflaust tekið að okkur að stýra því batteríi farsællega kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 1.6.2008 kl. 20:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband