Brýr!

golden-gate-bridge

Brýr eru snilld. Þess vegna er ég alltaf að vona að þessi leiðindagöng verði blásin af vegna Sundabrautar. Og byggð flott brú... og dýr brú. Sem verði eitt af einkennum Reykjavíkur. Þó svo sú brú myndi kannski ekki alveg ná að jafna hafnarbrúna í Sydney eða Golden Gate í San Francisco, gæti hún orðið glæsilegt mannvirki. Menn segja reyndar að stundum yrði að loka brúnni vegna hvassviðris. Kannski rétt. En skiptir engu. Vil samt fá brú.

Hvaðan ætli þessi brúarástríða komi? Þegar ég kem að flottri brú breytist ég í pottorm. Stoppa, dáist, keyri yfir og aftur til baka. Kann mér ekki læti af tómri kæti.

Gigja

Kannski má rekja þetta til þess þegar maður lék sér með legókubbana hér í Den í gömlu stofunni austur á Klaustri. Og byggði brýr - allar upp á lengdina í anda Skeiðarárbrúar. Sem þá var að rísa austur á Skeiðarársandi. Þangað var stundum ekið með pabba og mömmu, fyrst þjóðveginn að Núpsstað og svo slóðann sem endaði við Lómagnúp. Til að fylgjast með brúarsmíðinni við Núpsvötn / Súlu og yfir Gígjukvísl (síðar nefnda brúin fór í hlaupinu 1996 eftir gosið í Gjálp).

Þetta hefur líklega verið sumarið 1973. Svo varð hægt að bruna yfir nýju glæsibrýrnar tvær, sem manni fannst nánast óendanlega skemmtilega langar. Og mæta bílum á brúnni! Eða stoppa í útskotunum og vappa eftir timburgólfi brúnna. Það var ekki leiðinlegt! Mun aldrei gleyma hljóðinu þegar græni Reinsinn rann í fyrsta sinn eftir þessu mjúka brúargólfi. Til allrar hamingju má enn heyra þetta góða nostalgiuhljóð. Ekki síst þegar ekið er eftir brúnni yfir Núpsvötn og Súlu. Nýja brúin yfir Gígjukvísl er aftur a móti með hefðbundið leiðinda steypugólf.

Skeidarárbrú_smidi

Og svo var skrönglast austur að Skeiðará og horft á vatnadrekann ösla yfir gráa og straumharða ána. Og ekki minni hrifningu ollu risastórir Scania-bílarnir að sturta hnullungum í varnargarðana. Þá var draumurinn að verða trukkabílstjóri. Sem var jafnvel enn betra en verða rútubílstjóri eða flugmaður.

Út úr bílnum. Dýfa Nokia- og hosuklæddum tánum ofaní fljótið til að finna strauminn rífa í. Og horfa á Skeiðarárbrú smám saman lengjast... og lengjast.

Breidamerkurbru

Ég bara spyr: Hver eru fallegustu mannvirki á Íslandi? Hallgrímskirkja? Perlan? Hótel Grand? Afsakið að ég skuli nefna þessa hryllingsþrennu. Nei  - auðvitað eru það brýrnar sem bera af. Gamla Þjórsárbrúin. Brúin yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi, með falinni blindhæð. Og margar gamlar smærri brýr. Og auðvitað drottningin sjálf; Skeiðarárbrú!


mbl.is Þjórsárbrúin verðlaunuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið var að rödd skynseminnar og stórhuga verkfræði fór að heyrast.

Upp með brýrnar,

niður með göngin.

brandur (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 10:46

2 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Mæltu manna heilastur - Sundabrú er gullið tækifæri til að skapa Reykjavíkurborg fallegt sérkenni, sem sést langt að og er borginni til sóma - á meðan göng eru bara leiðindi. Tek undir með síðasta kommentator og segi "upp með brýrnar", sérstaklega þó Sundabrú.

Það væri agaleg synd að klúðra þessu tækifæri.

Jón Agnar Ólason, 16.6.2008 kl. 11:54

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ónefndur er sá ósiður að þvera firði með veglagningu út í fjörðinn. Og svo setja einhvern steypuklump sem smábrú til að hleypa flóði og fjöru í gegn. GilsfjarðarBRÚIN er dæmi um þennan nískuhugsunarhátt. Svo sannarlega tímabært að endurvekja fullveldisandann og byggja alminnilegar glæsibrýr!

Ketill Sigurjónsson, 16.6.2008 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband