Kókoshnetuveisla

Branson_2

Hef ávallt haft mikið álit á Richard Branson. Allt síðan ég sá þennan ofur sjarmerandi náunga standa brosandi á tröppum dómhússins í London (High Court), umkringdur sjónvarpsmyndavélum.

Þetta var líklega í janúar 1993. Held ég hafi verið á leið heim úr skólanum (LSE). Þá hafði ég ekki hugmynd um hver þessi síðhærði töffari i ljósu jakkafötunum var. Né hvert tilefni írafársins var.

Ekki leið á löngu þar til málin skýrðust. Þetta var nefnilega dagurinn sem Virgin flugfélagið og Branson unnu stórsigur á British Airways (BA) og kallinum með "litla" nafnið; honum Lord King. Á þessum tíma tengdi maður þó Virgin-nafnið auðvitað fyrst og fremst við plötubúðina Virgin Megastore. Sem mig minnir að hafi verið við Trafalgar torg. Þangað fór maður oft. Og þetta var sem sagt strákurinn, sem hafði stofnað Virgin plötufyrirtækið og síðar flugfélagið Virgin Atlantic.

Virgin-Atlantic-Plane

King lávarður og klíka hans hjá BA höfðu um langt skeið stundað mikla ófrægingarherferð gegn litla flugfélaginu með sæta nafnið; Virgin Atlantic.

Og nú, þennan milda vetrardag snemma árs 1993, hafði dómstóllinn rétt í þessu afgreitt dómssátt þess efnis að BA skyldi greiða Branson og Virgin samtals 600.000 pund í skaðabætur og 3 milljónir punda að auki vegna lögfræðikostnaðar. Þar að auki þurfti BA að biðjast afsökunar á óþverrabrögðum sínum. Ekki að furða að Branson brosti breitt þarna fyrir utan High Court.

Niðurlæging Lord King var algjör. Líklega hefur frú Tatcher, eins og Hannes Hólmsteinn kallar hana alltaf, ekki heldur verið hlátur í hug þennan dag. Lord King var uppáhaldið hennar. En ég fílaði svo sannarlega þennan Branson.

Ég hef alltaf haft tendens til að taka málstað þess minni máttar. Eða þess sem verður fyrir árásum frá hrokafullum merkikertum. Þess vegna var ég Loftleiðamaður en ekki Flugfélagsmegin. Svo var Alfreð Elíasson líka soddan sjarmör. Samt finn ég ég núna til með Icelandair.

ragnhildur_geirsdottir

Nýjar fréttir um mikinn niðurskurð hjá Icelandair koma samt ekki á óvart. Meðan þau Sigurður Helgason og Ragnhildur Geirsdóttir voru þarna við stjórn, var bersýnilegt að innan fyrirtækisins var verið að taka ákvarðanir til góðs fyrir félagið. Sérstaklega var ég hrifinn af leiðakerfinu, sem þau komu á fót. Mig grunar að Ragnhildur hafi átt mikinn þátt í því. Þó ég hafi svo sem ekki hugmynd um hvort það sé rétt hjá mér. En eins og færi að halla undan fæti eftir að hún fór frá fyrirtækinu. Held að kallarnir hefðu átt að hlusta betur á Ragnhildi.

Jón Karl Olafsson verkaði líka á mann sem mjög hæfur stjórnandi. A.m.k. virtist honum ganga vel að stýra innanlandsflugi félagsins. En ég fór að klóra mér í hausnum þegar menn byrjuðu skyndilega að kaupa í stórum stíl hlutabréf í Flugleiðum. Þar fór, sem kunnugt er, Hannes Smárason fremstur í flokki. Síðan hvenær hefur það verið góður bissness að kaupa flugfélag? Og svo var líka farið inn í Finnair og American Airlines. Menn hlutu að vera orðnir spinnegal.

Gordon_Gekko

En reyndar var fjárfestingin í Flugleiðum ekki alveg ósvipuð því sem gerðist í kvikmyndinni Wall Street. Þarna reyndust m.ö.o. vera fyrir hendi mikil dulin verðmæti, sem Hannes hafði áttað sig á. Það var snjallt hjá honum. En eftir stendur veikburða flugfélag, sem hugsanlega mun ekki ná sér á strik aftur fyrr en eftir óratíma.

En talandi um "Wall Street". Kannski ekki nein klassík, en samt var þar skapaður hinn eftirminnilegi Gordon Gekko. Og fáar kvikmyndir eru með jafn mikið af góðum frösum. "Money never sleeps, pal"! Gekko var svalur.

virgin-biofuel

Myndin hér efst og einnig sú hér til hliðar eru látnar fylgja, með hliðsjón af því að Branson er mikill talsmaður þess að nota lífrænt eldsneyti (biofuel) á flugvélar. Er það ekki einhverskonar kókoshnetuolía, sem þar er á ferð?


mbl.is Icelandair boðar niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband