Ljóti kallinn?

Fyrirtæki eins og Exxon Mobil er af mörgum nánast sett í sama flokk og allra ljótustu kallarnir í bisness-lífinu. Litið skárri en krimmarnir í Enron. Tveir vinir mínir eru með starfsreynslu frá Exxon Mobil. Og annar þeirra er líka með Enron í CV-inu sínu! Þeir eru annars vegar frá Venesúela og hins vegar Dani, sem hefur búið í Bandaríkjunum um áratuga skeið. Hef satt að segja sjaldan hitt duglegri og heiðarlegri menn. Það gengur svona.

Rockefeller_18

Vert að fara nokkrum orðum um þessi "voðalegu" fyrirtæki. Exxon Mobil er, eins og flestir vita, eitt af afsprengjum Standard Oil hans John's D. Rockefeller. Þegar Standard Oil var nánast orðið einveldi í bandaríska olíuiðnaðinum um aldamótin 1900 kom að því að þetta risafyrirtækið var leyst upp með dómi Hæstaréttar Bandaríkjanna árið 1911.

Málshöfðun alríkisstjórnarinnar gegn Standard Oil byggði á samkeppnislögunum, sem sett voru árið 1890 (Sherman Act).

Standard Oil samsteypunni var skipt upp í 34 sjálfstæð fyrirtæki. Tvö þau helstu urðu Jersey Standard og Socony. Þau urðu síðar að Esso  annars vegar (Eastern States Standard Oil sem síðar varð Exxon) og Mobil hins vegar.

Time_Exxon_Mobiljpg

Önnur "smærri" afsprengi Standard Oil eru t.d. Chevron og Amaco. Sem dæmi um geggjaða stærðina, þá rann Amaco saman við BP í lok 20. aldar (réttara sagt keypti BP félagið og það gerðist 1998). Og það var þá stærsti samruni iðnfyrirtækja nokkru sinni í sögunni.

Exxon og Mobil fengu að sameinast á ný 1999. Það var þá stærsti fyrirtækjasamruni í sögu Bandaríkjanna.

Ekkert fyrirtæki, sem skráð er á markaði í heiminum, skilar jafn miklu tekjum eins og Exxon Mobil. Síðasta ár þénaði þetta netta kompaní meira en 400 milljarða USD og skilaði yfir 40 milljörðum dollara í hagnað. Haldist olíuverð áfram hátt, eða jafnvel hækki, eru hlutabréfin tvímælalaust góð kaup. Núverandi olíu- og gaslindir sem fyrirtækið ræður yfir eru taldar duga í allt að 14-15 ár. Svo mun Exxon Mobil auðvitað halda áfram að finna nýjar olíulindir og/ eða kaupa sér vinnsluréttindi.

Rockefeller-fjölskyldan er enn ein af ríkustu fjölskyldum Bandaríkjanna. Líklega má kalla David Rockefeller höfuð fjölskyldunnar í dag, en hann er eini eftirlifandi sonarsonur John's D. Rockefeller, stofnanda Standard Oil. Á myndinni hér að neðan er David litli í fanginu á John D. (afa sínum).

Rockefeller_johnD_david

David er fæddur 1914 og var lengi stjórnarformaður og forstjóri Rockefeller-bankans, þ.e. Chase Manhattan Bank. Sem í dag heitir JPMorgan Chase. Fjölskyldan er enn stór hluthafi í þessum risabanka.

Nýjustu fréttirnar af Rockefellerunum eru líklega þær, að fyrir tæpum mánuði síðan gerði fjölskyldan smá uppreisn á aðalfundi Exxon Mobil. Þar studdi fjölskyldan tillögur um að fyrirtækið einbeiti sér meira að endurnýjanlegri orku og leggi umtalsvert fé í rannsóknir á gróðurhúsaáhrifum. Og vildi líka ná því fram að Rex Tillerson, forstjóri Exxon Mobil, geti ekki líka gegnt stöðu stjórnarformanns.

exxon-mobil_dino

Engin af tillögunum mun hafa náð fram að ganga. Exxon Mobil heldur sínu striki sem "vondi kallinn". Tillerson virðist a.m.k. ekki ætla að mýkja ásýnd fyrirtækisins um of! Þó þykir hann skárri að þessu leyti en forveri hans, Lee Raymond, sem jafnan sagði gróðurhúsaáhrifin vera hreint bull. Og dældi pening í áróður gegn umhverfisvernd.

Á morgun reyni ég e.t.v. að koma með smá "framhald". Um hinn "vonda kallinn"; ENRON.

 

 


mbl.is Skaðabætur lækkaðar vegna Exxon Valdez
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband