27.6.2008 | 07:36
Fucking smart!
Það eru gamalkunnug sannindi að eftir dag kemur nótt. En það er óneitanlega all svakalegt að gengi General Motors skuli nú einungis vera um 1/5 af því sem það var í ársbyrjun 2004. Og hefur ekki verið lægra síðan í fallinu mikla í kjölfar olíukreppunnar 1973!
Er þetta ekki bara prýðisinngangur að umfjöllun um eitt alstærsta hrun í sögu kapítalismans? Í gær lofaði ég smáræði um hið alræmda orkufyrirtæki ENRON.
Byrjum frásögnina af Enron með nokkuð svo dramatískum upphafsorðum: "The pain is overwhelming. Please try to forgive me. Cliff"
Þó svo Enron geti rakið rætur sínar allt til ársins 1932, hefst saga hins eina og sanna ENRON árið 1986. Þegar Ken Lay (f. 1942) varð forstjóri og stjórnarformaður fyrirtækisins.
Þá var Enron tiltölulega hefðbundið orkudreifingarfyrirtæki, en varð fljótlega umsvifamikið í orkuframleiðslu og eignaðist orkuver viða um heim. Það var ekki síst ný löggjöf um frjálsari orkuviðskipti í Bandaríkjunum, sem gerði Enron kleyft að vaxa hratt; löggjöf sem Enron hafði eytt miklum tíma og peningum í að ná fram.
Hinn aðalleikarinn í Enron-hneykslinu, Jeff Skilling (f. 1953), vann fyrst með fyrirtækinu sem ráðgjafi, í verkefni um að koma á fót futures-markaði með gas. Ken Lay leist afar vel a þennan unga og metnaðarfulla mann og réð Skilling til Enron árið 1990. Þar kleyf hann hratt upp metorðastigann; varð aðstoðarforstjóri Enron 1997 og forstjóri 2001.
Ken Lay og Skilling voru fljótir að átta sig á möguleikanum sem Internetið bauð upp á. Enron var eitt af fyrstu fyrirtækjunum til að bjóða upp á viðskipti með hrávöru í gegnum Netið. Ein af frægum afurðum Enron voru "veðurafleiðurnar". Það kann að hljóma ævintýralega að eiga viðskipti með veður, ef svo má segja. En í reynd voru þetta afleiður sem nýttust vel i viðskiptum með ýmsar landbúnaðarafurðir. Enda afhending á þeim oft mjög háð veðri á ræktunartímanum. Og viðskiptakerfi Enron á Netinu (EnronOnline), varð afar vinsælt og var nýtt af flestum orkufyrirtækjum Bandaríkjanna. Þetta skapaði Enron miklar tekjur.
Þeir Jeff Skilling og Ken Lay urðu holdgervingar fyrir það hvernig ætti að þróa og reka stórfyrirtæki nútímans. Óbilandi sjálfstraust Skilling's hreif marga og hann var einfaldlega álitinn snillingur. Fræg er sagan af því þegar Skilling sótti um að komast i MBA nám við Harvard. Í viðtalinu vegna umsóknarinnar, á hann m.a. að hafa verið spurður hvort hann væri klár náungi. Skilling er sagður hafa glott hressilega og svarað að bragði: "I'm fucking smart!". Og hann var nokkuð klár. Útskrifaðist með MBA frá Harvard 1979 og var einn af þeim hæstu í bekknum. Og undir hans stjórn varð Enron ein helsta stjarnan í bandarísku viðskiptalífi.
Skilling átti svo sannarlega efni á því að vera glaðhlakkalegur, líkt og hann er á myndinni hér að ofan. Og efst, þar sem hann er með læriföður sínum, Ken Lay. Á tíunda áratugnum var Enron hvað eftir annað utnefnt fræknasta og framsæknasta fyrirtæki Bandaríkjanna. Slíkar útnefningar fékk fyrirtækið t.d. frá Fortune í sex ár samfleytt.
En hvar lágu svikin hjá Enron? Til að gera langa sögu stutta voru þau einkum tvenns konar.
Annars vegar voru samningar um gríðarlega orkusölu o.fl., sem náðu langt fram í tímann, bókfærðir eins og öll salan hefði þegar átt sér stað. M.ö.o. voru bókfærðar himinháar tekjur, sem í reynd voru hvorki orðnar til, né vissa um hvert verðið nákvæmlega yrði þegar salan ætti sér stað. Fyrir vikið var Enron að skila miklu meiri tekjum og hagnaði á pappírunum, en raunverulegt var.
Hinn þáttur svikamyllunnar fólst í beinum blekkingum. Þegar stefna fór í það, að Enron gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar, fóru stjórnendurnir að selja bréfin sín í fyrirtækinu í stórum stíl. Án þess að tilkynna um það, eins og lög kveða á um. Og þegar orðrómur fór á kreik um að ekki væri allt með felldu hjá Enron, bættu þeir um betur með því að fullvissa markaðinn um að allt væri í stakasta lagi og mikill vöxtur framundan.
Sennilega hefur Netbólan hjálpað Enron í þessum feluleik. Markaðirnir voru spinnegal og allt virtist verða að peningum. Menn uggðu ekki að sér og gleymdu að spyrja eðlilegra spurninga. Þar að auki var sannleikurinn vel falinn hjá Enron með flóknu neti fyrirtækja um allan heim. Og samkvæmt endurskoðendum Enron, sem var hið stóra og virta endurskoðunarfyrirtæki Arthur Andersen, var bókhald Enron í stakasta lagi. Þetta notuðu þeir Lay og Skilling til að blekkja markaðinn áfram.
En svo hrundi spilaborgin. Sumir fjármálamenn voru byrjaðir að klóra sér í höfðinu yfir reikningsskilum Enron þegar árið 2000. Og skyndilega byrjuðu hlutabréfin að sveiflast mun meira í verði en verið hafði fram til þessa. Inn í umræðuna blandaðist gagnrýni á Enron vegna rafmagnsvandræða í Kaliforníu og sögur voru á kreiki um slæmt gengi fyrirtækisins á Indlandi.
Síðar kom í ljós að þeir Skilling og Lay voru þegar byrjaðir að selja mikð af hlutabréfum sínum í fyrirtækinu. Sérstaklega eftir mitt ár 2000 þegar hlutabréfaverð Enron náði miklum hæðum og fór i 90 USD. En neikvæða umræðan var byrjuð. Og þó svo Lay ítrekað staðhæfði að búast mætti við enn frekari vexti og að hlutabréf í Enron myndu örugglega fara í 150 USD, lækkaði nú hlutabréfaverð Enron hratt. Sumir héldu reyndar að nú væri komið gott kauptækifæri og fjárfestu enn meira í Enron. Ekki síst fólk sem treysti Ken Lay.
Sumarið 2001 fer skriðan almennilega af stað. Starfsfólk hjá Arthur Andersen fer að rýna betur í bókhald Enron og leita eftir útskýringum á tilteknum viðskiptafærslum. Skilling segir skyndilega af sér um miðjan ágúst (af "persónulegum ástæðum"), en Lay fullvissar bæði starfsfólk og fjárfesta um að allt sé í stakasta lagi og Enron hafi ekki aðhafst neitt ólöglegt. En boltinn rúllar áfram - þó svo hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 beini athygli fjölmiðla annað. Rannsókn er hafin á bæði Enron og líka á Arthur Andersen. Hlutabréf í Enron halda áfram að falla og fara í 15 dollara í október.
Í desemberbyrjun 2001 er Enron lýst gjaldþrota. Fyrirtæki með yfir 20 þúsund starfsmenn, sem fáeinum mánuðum fyrr hafði tilkynnt um 50 milljarða dollara tekjur og hafði enn einu sinni sprengt allar væntingar. En nú var ballið búið. Þetta reyndist stærsta gjaldþrot í sögu Bandaríkjanna.
En hvernig gat þetta gerst. Margir hafa bent á tengsl æðstu manna Enron við Bush-stjórnina og að fyrirtækið hafi notað fjármagn sitt til að ná fram lagabreytingum, sem beinlínis voru hagstæðar fyrirtækinu.
Ken Lay var mikill vinur bæði Bush og Cheney varaforseta. Líklega hefði málið valdið þeim miklum erfiðleikum, ef ekki hefðu komið til hryðjuverkin í Bandaríkjunum á sama tíma og Enron-málið var í hámarki.
Þetta er orðin nokkuð löng færsla. Enda málið bæði flókið og umsvifamikið og einungis rakið hér í algerum skeytastíl. En ekki verður við Enron skilið, án þess að minnast á örlög aðalleikarana.
Í maí 2006 var Ken Lay fundinn sekur í flestum ákæruatriðunum. M.a. um stórfelldar bókhaldsfalsanir og fjársvik. Ákveða skyldi refsingu í október og var búist við að hann fengi 20-30 ára fangelsi. En áður en til þess kom fékk Lay hjartaáfall og varð bráðkvaddur þá um sumarið. Sennilega á dánarbúið lengi eftir að verjast skaðabótakröfum vegna Enron-málsins.
Skilling var einnig dæmdur sekur, m.a. fyrir ólögmæt innherjaviðskipti og falska upplýsingagjöf. Hann hóf afplánun sína á 24 ára fangelsisdómi í desember 2006 og spilar nú líklega tennis daglangt í fangelsinu í Minnesota. Verjandi hans var frægur bandarískur lögfræðingur; Daniel Petrocelli.
Að því ég best veit á mál Skilling's enn eftir að fara fyrir áfrýjunardómstól.
Arthur Andersen var eitt af öflugustu endurskoðunarfyrirtækjum í heimi. Með 28 þúsund starfmenn í Bandaríkjunum og 85 þúsund alls um allan heim. Leifarnar af þessu bogna stolti er lítil 200 starfsmanna endurskoðunarstofa. Fjöldi hluthafa Enron tapaði stórfé og eftirlaunasjóðir starfsfólks urðu að engu.
Ýmsir af helstu stjórnendum Enron fengu fangelsisdóma. Þó mun styttri en þeir Lay og Skilling. Það er Skilling sem á myndinni er leiddur af alríkislögreglumönnum fyrir dóm. Þess má geta að Skilling óskaði eftir að ganga frjáls þar til niðurstaða fengist um áfrýjun hans. En dómarinn féllst ekki á það og sendi hann nánast beint í steininn. Þetta er líklega einhver dramatískasti atburður í bandarískri viðskiptasögu.
En örlög sumra voru enn sorglegri. Clifford Baxter (f. 1958) var hamingjusamur 2ja barna faðir og einn af framkvæmdastjórum Enron. Hann hafði hagnast mjög á sölu hlutabréfa í fyrirtækinu og eftir að Enron-hneykslið komst upp stóð hann frammi fyrir líklegum ákærum. Hann er sagður hafa tekið það mjög nærri sér og þjáðst af þunglyndi.
Í janúar 2002 fannst Baxter látinn með skotsár í Bensinum sínum, skammt frá heimilinu í Texas. Hann hafði skotið sig með skammbyssu.
Baxter var 43 ára þegar hann lést. Við vitum ekki hvort hann var líka "fucking smart". En hann var einn af örfáum stjórnendum innan Enron sem hafði maldað í móinn vegna viðskiptahátta fyrirtækisins. Baxter skildi eftir sig handskrifað kveðjubréf til konunnar sinnar:
"Carol, I am so sorry for this. I feel I just can't go on. I have always tried to do the right thing but where there was once great pride now it's gone. I love you and the children so much. I just can't be any good to you or myself. The pain is overwhelming. Please try to forgive me. Cliff"
Endum þetta á nótum endurnýjanlegrar orku. Eitt af fyrirtækjunum í Enron samsteypunni var Enron Wind. Eftir gjaldþrotið var það selt General Electric. Sem kunnugt er, þá er GE í dag eitt af stærstu fyrirtækjum heims í vindorku. En það er önnur saga.
Bréf í GM ekki lægri í 30 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:05 | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg lesning. Takk fyrir þetta.
Bjössi (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 10:16
Skemmtileg lesning, einsog allar færslurnar hjá þér.
Takk fyrir!
Davíð (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 12:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.