Strákarnir í Stavanger

Fridtjof_NansenÞó Ísland sé auðvitað laaaaaaangbest, er ekki annað hægt en að öfunda Norðmenn pínu pons.

Osló er um margt notaleg borg og í afskaplega fallegu umhverfi. Með þægilegt veður; mild sumur og stilla snjóavetur. Skútusiglingar á sumrin og skíði á veturna. Gerist ekki betra.

Svo finnst mér fátt skemmtilegra en að heimsækja söfnin út á Bygdöy, með flottu víkingaskipunum og Kon Tiki. Síðast en ekki síst er gaman að skoða Fram; skipið hans Nansen's. Hann var ein af æskuhetjunum mínum. Varla verið skrifuð skemmtilegri lýsing en sú, þar sem segir frá siglingunni með Fram og því hvernig Nansen og Johansen tórðu saman í 10 mánuði á hálfgerðu skeri langt norður af Svalbarða. Eftir að hafa reynt að komast á Norðurpólinn á skíðum. Þarna lifðu þeir á bjarndýrakjöti og rostungalifur. Þeir félagarnir hafa vart nokkurn tíman gleymt þessum langa og kalda vetri í íshafinu 1895-96.

Og þó svo einsemdin hljóti að hafa verið yfirþyrmandi þarna í ís og myrkri, leið dágóður tími þar til Nansen stakk upp á því að þeir myndu þúast og hætta að þérast! Þetta voru alvöru karlmenn.

Maria_Bonnevie

Já - lífið í Noregi er alveg eins og það á að vera. Og norsku jenturnar eru meira að segja bara nokkuð kjút. A.m.k. sú sem hann Hrafn Gunnlaugsson uppgötvaði hér um árið.

Sú heitir Marie Bonnevie og er í dag fræg leikkona (reyndar er hún norsk/sænsk - og myndin sem prýðir þessa færslu er auðvitað af Marie - en myndin hér ofar er af Nansen).

Auðvitað þurfti Íslending til að uppgötva Marie Bonnevie. Hrafn á þakkir skildar fyrir það. Það þurfti líka Íslending til að skrifa norsku konungasögurnar. Þeir Snorri Sturluson og Hrafn eru báðir snillingar. Hvor á sinn hátt.

Og svo ef maður þræðir norsku ströndina vestur á bóginn og svo norður, koma allir þessir fallegu firðir og blómlegu sveitir. En Norsararnir eru ansið hreint sparsamir og skynsamir. Maula nestið sitt í hádeginu, hver í sínu horni. Í stað þess að lifa hátt og hratt og spreða olíugróðanum. Þess vegna á maður kannski alls ekki að öfunda Norðmenn. Nei - þá er nú íslenski lífsstíllinn skemmtilegri! Enda höfum við ekki stundað þá dellu að leggja orkupeningana okkar i sparibauk. Mun meira fjör að brenna þá upp í misvelheppnuðu einkavæðingarævintýri og verðbólgubáli miðsumarnætur. Davíðsárin voru a.m.k. hvorki "dull nor depressive".

StatfjordA_photo3

Annars ætlaði ég reyndar að pára um allt annað. Nú hefur norski olíuiðnaðurinn nefnilega fengið nýjan ráðherra. Sá heitir Terje Riis-Johansen. Og eins og nafni hans og ferðafélagi Nansen's í íshafinu, er líklegt að Terje Johansen setji stefnuna norður á bóginn. Ekki var hann fyrr sestur í ráðherrastólinn, en að olíuiðnaðurinn steypti sér yfir hann með ítrekaðar óskir sínar um vinnsluleyfi á hafsvæðinu út af N-Noregi og á Svalbarðasvæðinu. Sökum þess að olíuframleiðsla Noregs hefur minnkað umtalsert síðustu árin og Norðursjávarolían fer hratt minnkandi, er líklegt að senn verði farið norðar með vinnsluna. Það mun gleðja strákana hjá Statoil í Stavanger. Og stelpurnar auðvitað líka.

Fyrir áhugasama skal upplýst að frestur til að skila inn umsókn um rannsóknaleyfi vegna olíu á norska Barentshafsvæðinu, rennur út þann 7. nóvember n.k. Nánar tiltekið kl. 12 á hádegi. Af hverju  hefur íslenska útrásin ekki að neinu leyti beinst að fyrirtækjum í olíuiðnaðinum? Það þykir mér hálf slappt. Held að ýmsum íslenskum fjárfestingafélögum hefði þótt gott að eiga í þessum geira núna.


mbl.is Norski olíusjóðurinn tútnar út á nýjan leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband