Blautagull

Vatnið er gull framtíðarinnar telja sumir. Stundum er talað um blátt gull í þessu sambandi. Og vatn er ekki bara mikilvægt fyrir Ejamenn, sbr. fréttina um nýju vatnsleiðsluna til Vestmannaeyja, heldur einnig ýmsa fleiri. Af því tilefni ætlar Orkubloggið (eina ferðina enn!) að ræða gamlan vin: T. Boone Pickens og ævintýri hans í Texas.

Pickens_biggest_ever2

Ég hef áður, hér á Orkublogginu, nöldrað smá útí Pickens fyrir að vera að dæla pening í vindorku. Í stað þess að veðja á sólarorku, eins og alvöru menn. Eins og Vinod Khosla til dæmis. Og náungarnir hjá Kleiner, Perkins, Caufield & Buyers í Sílikondal. Ég segi að það að fjárfesta í "thermal solar" í dag (CSP) er eins og að fara í vindinn fyrir 10-15 árum. Sem hefur skilað mikilli ávöxtun. Vandinn er að flestir bestu bitarnir í CSP eru einkafyrirtæki, sem ekki eru á hlutabréfamarkaði. En nóg um það.

Boone Pickens er sem sagt nýbúinn að henda inn pöntun hjá GE um nærri 700 vindtúrbínur. Þær ætlar hann að nota til að reisa stærsta vindorkuver heims. Nánar tiltekið hljóðar samningurinn við General Electric upp á 667 túrbínur. Sem munu framleiða um eitt þúsund MW.

Texas_rjupa

Þetta er reyndar bara byrjunin. Pickens ætlar sér að reisa alls 2.500 túrbínur, sem munu skila hátt í 4.000 MW og duga 1,3 milljón heimilum. Heildar fjárfestingin er áætluð 8-10 milljarðar USD. Fyrsti áfanginn mun rísa á árunum 2010-2011 í nágrenni við bæinn Pampa í norðurhluta Texas. Ekki langt frá búgarði Pickens, þar sem hann dundar sér við að skjóta einhvers konar villihænsni (nefnast Bobwhite Quail; má kannski kalla þetta fiðurfé Texas-rjúpu?).

En í reynd er Pickens ekki allur þar sem hann er séður. Málið er að það hangir fleira á spýtunni hjá þeim gamla olíuref en bara vindorka. Hann er einfaldlega að slá tvær flugur í einu höggi. Og þær flugur eru vindur annars vegar og vatn hins vegar. Ævintýrið byrjaði nefnilega fyrir nokkrum árum þegar Pickens hóf í stórum stíl að kaupa upp vatnsréttindi í Texas. Þarna mega landeigendur nefnilega selja vatnsréttindin frá jörðunum. Svo fékk Pickens þá hugmynd að bæta vindinum við og semja við landeigendurna um að reisa vindtúrbínur á landinu. 

ogallala_aquifer1

Margir hafa klórað sér í höfðinu yfir þeirri hugdettu Pickens að kaupa upp vatnsréttindi í Texas. Þar hefur jafnan verið gnótt vatns og ekki augljóst að sjá góðan bisness í því, að kaupa upp vatn í stórum stíl. Það er nefnilega svo að einhverjar mestu neðanjarðar-vatnsbirgðir í heimi er að finna undir miðríkjum Bandaríkjanna. Á svæði sem nær allt frá Texas í suðri og norður til Nebraska og Suður-Dakóta. Þetta er kallað Ogallala Aquifer. Og dregur nafn sitt af bænum Ogallala í Nebraska. Líklega væri bærinn sá, með sína 5 þúsund drottinssauði, ekki ýkja vel þekktur nema fyrir þetta nafn á vatnsbirgðunum miklu. Í mínum huga er þó toppurinn á Ogallala, bæjarmerkið. Sem er eitt það alflottasta (sjá hér að neðan).

Ogallala_logo

En aftur að vatnsréttindunum og verðmæti þeirra. Sem fyrr er Pickens líklega framsýnni en flestir aðrir. Undanfarið hefur nefnilega farið að bera á vatnsskorti á nokkrum svæðum Bandaríkjanna. T.d. í Arizona, Nevada og í Georgíu. Og Pickens veit líka að gríðarlegri fólksfjölgun er spáð í Texas. Horfur eru á að íbúafjöldinn þar allt að tvöfaldist fram til 2020. Og fólkið í Dallas og Houston mun hugsanlega þurfa vatn!

 


mbl.is Ný vatnsleiðsla komin til Eyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband