Hlutabréfasjóðurinn Geysir

Geysir Green Energy er um margt nokkuð athyglisvert fyrirtæki. Er í reynd sjóður, sem fjárfestir í fyrirtækjum í jarðhitaverkefnum. Nýjustu fréttirnar af GGE eru auðvitað aðkoma Ólafs Jóhanns Ólafssonar að eigendahópnum. Og svo þessi frétt frá því í dag um verkefni dótturfyrirtækis GGE á Filippseyjum. 

Samkvæmt ársskýrslu fyrir 2007 eru eignir GGE eftirfarandi:

 

Geo_binary_power

Enex. GGE á um 73% í Enex. Og skv. heimasíðu Enex er það hið alræmda Reykjavík Energy Invest (REI) sem á afgang hlutabréfanna í Enex (fyrir utan 0,4% sem eru í eigu ýmissa verkfræðifyrirtækja).

Enex varð til árið 2001 þegar fyrirtækin Virkir hf. og Jarðhiti hf. sameinuðust. Það býr yfir mikilli reynslu af jarðhitaverkefnum og vinnur nú m.a. að stækkun á virkjun í Berlin í El Salvador um 8 MW og byggingu virkjunar skammt suður af Munchen í Þýskalandi, sem er áætluð 8-10 MW. Báðar þessar virkjanir eru á lághitasvæðum og byggja því á varmaskiptatækni (binary cycle).

 

Enex_Xianyang

Enex China. Þetta er verkefni sem felst i hönnun, byggingu og rekstri hitaveitu fyrir borgina Xianyang í Shaanxi-héraði í Kína. GGE á 33,3% í Enex China en eitthvað er málum blandið hver á afganginn. Væntanlega er það Orkuveita Reykjavíkur eða REI.

Verkefnið nefnist Shaanxi Green Energy Geothermal Development og á Enex China 49% í þessu fyrirtæki. Afgangurinn er í eigu Kínverja, m.a. risafyrirtækisins Sinopec. Nýlega birtist einmitt sú frétt að Sinopec væri 16. stærsta fyrirtæki heims skv. Forbes og hefur færst upp um eitt sæti síðan í fyrra. Tekjur þess síðasta ár jafngiltu um 160 milljörðum USD (en hagnaðurinn reyndar aðeins 4 milljarðar dollara sem er arfa slappt). Fullkláruð gæti hitaveitan þarna í Xianyang orðið sú stærsta í heimi. Sem kunnugt er ber hitaveitan í Reykjavík nú þann virðulega titil.

 

Blue Lagoon

Hitaveita Suðurnesja. Alls á GGE 32% hlut í HS. Það var í maí 2007 sem GGE keypti hlut ríkisins í HS; rúmlega 15% hlut fyrir um 7,6 milljarða króna. Tilboð GGE í hlut ríkisins var hið langhæsta.

Í júni sama ár leit út fyrir að GGE myndi hugsanlega eignast meirihluta í Hitaveitunni og eflaust hefur það verið markmið fyrirtækisins. En það gekk ekki eftir. Í júlí varð niðurstaðan sú að GGE eignaðist samtals 32% í HS. Þess má geta að HS á um þriðjung í Bláa lóninu.

 

 

Exorka. GGE á nú allt hlutafé í Exorku (þó svo annað segi á vef Exorku). Exorka sérhæfir sig í ráðgjöf vegna s.k. Kalina-tækni. Það er orkuframleiðsla á lághitasvæðum, þar sem hitinn er notaður til að sjóða blöndu af ammoníaki og vatni. Þessi tækni er kennd við uppfinningamanninn Alexander Kalina. Um þá tækni má t.d. lesa í færslunni "Þýskt Heklugos";  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/522282/

Time_Ortega

Núverandi verkefni Exorku munu vera hönnun og bygging 5 MW orkuvers í  Molasse í Þýskaland og aðstoð við að auka orkuframleiðslu jarðvarmavers í Nikaragúa. Gert er ráð fyrir að Kalina tæknin frá Exorku geti aukið framleiðni orkuversins um allt að 25%. Verið er í eigu kanadíska fyrirtækisins Polaris Geothermal, sem er nokkuð umfangsmikið í jarðhitaverkefnum í Rómösku Ameríku. 

Þess má geta að fyrir sléttum mánuði bárust fréttir af því að þing Nikaragúa hefði samþykkt nýja löggjöf, sem gerir jarðvarmaorku enn samkeppnishæfari í landinu en verið hefur fram til þessa. Skyldi Ólafur Jóhann vita af því? Einnig er vert að nefna, að nú er gamli byltingarmaðurinn Daníel Ortega, sem eitt sinn var álitinn einn af höfuðóvinum Bandaríkjanna, aftur orðinn forseti Nikaragúa. Og leggur metnað í að minnka útgjöld til olíukaupa og virkja jarðhitann í landinu. Með hjálp Íslendinga auðvitað.

 

Jardboranir_map

Jarðboranir. GGE keypti Jarðboranir í ágúst 2007 og um leið kom Atorka inn í eigendahóp GGE og varð einn stærsti hluthafinn. Við þetta breyttist GGE umtalsvert, enda var þá hlutafé aukið verulega. Einu sinni átti ég reyndar lítinn hlut í Jarðborunum. Því miður seldi ég hann löngu áður en Jarðboranir urðu að því gríðarstóra fyrirtæki, sem það er í dag. Hagnaðist nú samt prýðilega. Innan Jarðborana eru reyndar fjölmörg fyrirtæki, eins og Iceland Drilling UK, Iceland Drilling Azores, Hekla Energy í Hollandi og í Þýskalandi og Eurothermal í Ungverjalandi. Velta Jarðborana 2007 mun hafa verið um 5 milljarðar og hagnaðurinn 700 milljónir. Góður bissness þar á ferð.

 

Western_Geopower

Western Geopower: GGE keypti 18% í þessu kanadíska jarðhitafyrirtæki í júlí 2007. Og í mars s.l. jók félagið eignarhlut sinn í 25%. Ég hef fylgst með Western Geopower i þó nokkurn tíma. Lengst af hefur verið talsverð óvissa um gang fyrirtækisins, enda verkefni þess flest á byrjunarstigi og ekki útséð um árangurinn af borunum. Á allra síðustu vikum hafa komið vísbendingar um að þessi fjárfesting GGE muni fremur borga sig en að brenna upp. En þarna tóku menn talsvert mikla áhættu. Það var kannski í anda þeirrar stemningar sem ríkti fram eftir öllu árinu 2007.

Virkjanirnar tvær sem Western Geopower er að byggja í Bandaríkjunum munu vera áætlaðar samtals hátt í 130-140 MW. En þetta er langtímaverkefni.  WG er skráð á hlutabréfamarkaðnum í Toronto - síðast þegar ég gáði var gengið 0,35 en það sveiflast talsvert eins og penny-stocks sæmir. GGE kemur líka að öðru jarðvarmaverkefni í Bandaríkjunum. Þar er á ferð fyrirtæki sem kallast því stirðbusalega nafni Iceland America Energy og mun það reyndar vera skráð í eigu Enex. Ekki veit ég í hvaða verkefnum þetta síðastnefnda fyrirtæki er, en grunar að þau séu afar stutt a veg komin. 

 

Envent: Snemma árs 2007 munu REI og GGE hafa komið á fót á Filippseyjum fyrirtækinu Envent Holding í því skyni að rannsaka og þróa jarðvarmavirkjanir í landinu. Þetta er tvímælalaust strategía sem gæti borgað sig því óvíða er meiri virkjanlegan jarðhita að finna en einmitt á Filippseyjum. Reyndar gat ég ekki séð staf um þetta fyrirtæki í ársskýrslu GGE fyrir 2007. Það er svolítið skrýtið.

 

geothermal-regions

PNOC Energy Develpment Corporation. GGE mun hafa eignast smá hlut (0,4 %) í þessu gríðarstóra Filippseyska orkufyrirtæki í júní á síðasta ári. PNOC-EDC var stofnað 1976 og hefur átt stóran þátt í að gera Filippseyjar að næststærsta jarðhitalandi heims, á eftir Bandaríkjunum.

Alls framleiðir fyrirtækið um 1.150 MW með jarðhitavirkjunum sínum, sem eru um 60% af öllu jarðhitaafli Filippseyja, sem er um 1.900 MW. Til samanburðar framleiða Bandaríkin nú u.þ.b. 2.900 MW með jarðhita og á Íslandi eru nú líklega framleidd um 450 MW. Þá er heita vatnið auðvitað ótalið - hér er átt við rafmagnsframleiðslu. Heimsframleiðsla rafmagns með jarðhita mun nú vera um 9 þúsund MW og nálgast hratt 10 þúsund MW. Möguleikarnir í jarðhitanum eru gríðarlegir. Og GGE ætlar sér stóra hluti þar.


mbl.is Fengu rannsóknarleyfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Takk fyrir frábæran pistil.

Óskar Arnórsson, 12.7.2008 kl. 10:41

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég segi það sama og Óskar - frábær pistill.

Ég sagði upp Morgunblaðinu í gær og ástæðan er að "fréttaflutningurinn" á blogginu og netinu almennt er hreinlega betri.

Auðvitað þarf maður að velja sér vandlega heimildarmenn, en þessi síða er ein sú albesta.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.7.2008 kl. 11:45

3 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Ég segi líka, takk fyrir frábæran pistil.

Guðbjörn Jónsson, 12.7.2008 kl. 14:13

4 Smámynd: Óskar Arnórsson

Þessi síða er byggð á mjög nákvæmum heimildum og passar. Svo er þetta líka nauðsynlegt svo það komi upp meira..því það er meira..

Óskar Arnórsson, 13.7.2008 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband