Norsk Hydro i ölduróti

Í morgun birtust fréttir um að hagnaður Norsk Hydro á 2. ársfjórðungi sé minni en var á þeim fyrsta. Ekki veit ég hvort þetta segir í reynd mikið - a.m.k. væri nauðsynlegt að bera þessa tvo ársfjórðunga saman við reksturinn á síðasta ári. Það gæti þó reynst snúið, því í millitíðinni sameinaðist olíuvinnsla Norsk Hydro nefnilega Statoil og fyrirtækið er því mikið breytt frá því sem var fyrir ári.

einar_ben

Norsk Hydro á sér langa og merkilega sögu. Fyrirtækið er stofnað um það leyti sem Íslendingar fengu heimastjórn. Ég held því oft fram að mest alla 20. öld hafi efnahagsþróun á Íslandi verið ca. 20 árum á eftir Norðurlöndunum. Og hroðaleg einhæfnin í íslenskum atvinnuvegi endurspeglar þetta enn þann dag í dag. Það er einhver skelfileg íhaldsemi í íslenskri þjóðarsál. Hér var lítt hlustað á hugmyndir manna eins og Einars Ben og framsóknarmönnum tókst að drepa Korpúlfsstaðabúið hjá Thor Jensen. Og litlu mátti muna að Íslensk erfðagreining yrði úthrópuð sem eitthvert viðbjóðslegt tilraunafyrirtæki, sem hygðist nýta sér Íslendinga sem líftæknileg tilraunadýr - nánast í anda Mengele. A.m.k. var ofstæki margra gegn Kára Stefánssyni með ólíkindum.

En aftur að Norsk Hydro. Það var stofnað 1905 sem Norska vatnsafls- og niturfélagið. Eins og nafnið gefur til kynna snerist þetta um áburðarframleiðslu. Þar sem slík framleiðsla var orkufrek var starfsemin staðsett í Noregi, en fjármagnið var sænskt (kom frá Wallenbergunum). Byggðar voru virkjanir við fossana Svelg og Rjukan í S-Noregi. Rjukan-virkjunin var fullkláruð 1911 og þessi 60 MW virkjun var um árabil aflmesta virkjun í heimi. 

telemark_heroes

Talsverð dramatík hefur oft ríkt í kringum Norsk Hydro. Hápunkturinn er líklega þegar norska andspyrnuhreyfingin náði að sprengja upp þungavatnsverksmiðju fyrirtækisins við Rjukan. Allt frá 1934 hafði þar verið framleitt þungavatn, en ekki er mér kunnugt um í hvaða tilgangi. Hugsanlega hafa menn einfaldlega verið framsýnir og séð að þungavatn yrði senn verðmæt afurð.

Bandamenn höfðu talsverðar áhyggjur þegar Þjóðverjar hernámu Noreg og komust þar með yfir þungavatnsverksmiðjuna. Jukust þá mjög líkur á þvi að Þjóðverjar gætu útbúið kjarnorkusprengju. Svo vel vildi þó til að skömmu fyrir innrás Þjóðverja í Noreg höfðu allar þungavatns-birgðirnar verið fluttar þaðan til Frakklands og svo til Bretlands. Til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar gætu framleitt þungavatn í verksmiðjunni reyndu Bretar árangurslaust að sprengja hana í loft upp frá flugvélum. Það gekk ekki. En þá komu norskar andspyrnuhetjur til skjalanna og tókst að eyðileggja framleiðsluna og eyða þungavatnsbirgðunum sem til voru. Þetta er hugsanlega eitthvert mikilvægasta skemmdarverkið í Síðari heimsstyrjöldinni. Til að sjá dramatíska útfærslu á þessum atburðum, má benda á bíómyndina "Hetjurnar frá Telemark" (Heroes of Telemark) með jaxlinum Kirk Douglas í aðalhlutverki.

En þó svo Norðmenn hafi sýnt mikinn styrk í baráttunni gegn nasistum, léku sumir þeirra tveimur skjöldum. Óneitanlega var Norsk Hydro lengi vel mjög lipurt í samstarfi við Þjóðerja. En hvað um það. Til að gera langa sögu stutta, þá varð Norsk Hydro siðar þátttakandi í olíuvinnslu víða um heim og einnig í álbræðslu. Sem fyrr segir hefur Statoil nú tekið yfir olíuvinnslu Hydro.

Norsk_Hydro_Logo

Í dag er norska ríkið stærsti hluthafinn með yfir 40% og Norsk Hydro er eitt stærsta álfyrirtæki heims (og gamla heitið er ekki lengur notað heldur er það nú einfaldlega kallað Hydro).

Grunnurinn að stofnun fyrirtækisins, þ.e. áburðarframleiðslan, var fyrir nokkrum árum tekin út úr Hydro og nefnist nú Yara International. Og er auðvitað eitt stærsta fyrirtæki heims i áburðarframleiðslu. Norska ríkið er með um 43% eignarhlut. Einkavæðingaræðið hefur nefnilega ekki alveg heltekið Norðmenn. Eins og suma aðra. Hvort það er gott eða slæmt er önnur saga.

Hydro er auðvitað enn stórtækt í rekstri vatnsaflsvirkjana. Og Orkubloggið kemst auðvitað ekki hjá því að nefna eitt nýjasta venture þeirra hjá Hydro - öldurótið! Það er fjárfesting í skoska fyrirtækinu Pelamis, sem er að þróa tækni til að framleiða rafmagn með virkjun á ölduafli í sjó.

Wave_pelamis

Fyrsta Pelamis virkjunin hefur þegar verið sett upp utan við strönd Portúgal. Hún framleiðir rúm 2 MW með þremur "rörum", þar sem orkunni frá öldunum er breytt í rafmagn. Hvert "rör" er um 120 metra langt, 3,5 metrar í þvermál og framleiðir um 750 KW (0,75 MW). Markmiðið er að virkjunin þarna við Portúgal verði alls 40 "rör" sem framleiði samtals um 25-30 MW. Virkjunin nefnist Aqucadora og er utan við bæinn Povoa de Varzim í N-Portúgal. Enn eitt forvitnilegt orkuverkefni!

Á meðan Norsararnir taka þátt í nánast öllum tegundum af orkuframleiðslu, eru Íslendingar enn að einblína á vatn og jarðvarma. Sem er auðvitað prýðis auðlind - en þetta segir samt sína sögu. Fyrir utan vandræðaganginn með REI og allt það... 


mbl.is Bréf Norsk Hydro lækka eftir afkomuviðvörun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband