Olíuviðskipti í ólgusjó

Orkubloggið hefur staðfastlega haldið því fram að meðan olíuverð er undir 150 USD sé ekki ástæða til að býsnast yfir verðinu. Og enn er markaðurinn sammála. Enn hefur enginn borgað svo mikið fyrir tunnuna.

oil_price_fall_07-2008

Þessi hiksti í gær var athyglisverður. Mesta lækkun olíuverðs á einum degi í 17 ár segja sumir. Reyndar er lækkunin svipuð og varð í mars s.l. svo þetta eru nú engin stórtíðindi.

Hikstinn kom í kjölfar þess að Bernanke varaði við erfiðleikum í bandarísku efnahagslífi. Olíuverðið lækkaði hressilega í kjölfarið. En hlutabréf héldust sæmilega stöðug. Það var nokkuð sérkennilegt og sýnir glögglega að spákaupmennska á olíumarkaðnum er nú um stundir miklu meiri en spákaupmennska á hlutabréfamarkaði. En það eru svo sem kannski engar nýjar fréttir.

Reyndar var þetta "verðfall" ekki mjög dramatískt miðað við geysilega hraðar olíuverðhækkanir undanfarna mánuði. Á NYMEX lækkaði verðið um rúma 6 dollara. Í prósentum var lækkunin vel innan við skitin 5%. Hreinir smámunir. Munið að þann 17. janúar 1991, þegar verðið lækkaði um 10,56 USD, var það lækkun upp á 33%. Á einum degi! Þá lækkaði verðið úr u.þ.b. 32 USD í um 21 USD, þegar Bush-stjórnin hafði verið á fullu að undirbúa Persaflóastríð og lét til skarar skríða og Operation Desert Storm hófst. Þar sannaðist hið fornkveðna; buy on the rumour and sell on the fact!

Í reynd skiptir þessi lækkun í gær litlu upp á framhaldið. Sveiflurnar munu halda áfram og ómögulegt að segja hvað verður. Orkubloggið vill líka minna á, að uppi varð fótur og fit 19. mars s.l. Þegar olíuverðið lækkaði um næstum 5 dollara. Þá hafði verðið verið u.þ.b. 110 USD í byrjun dags en fór undir 105 USD við lokun NYMEX. Þetta var smámál rétt eins og í gær - lækkunin 19. mars var 4,51%. Sveiflur sem þessar eru mjög eðlilegar þegar olíuverðshækkanir hafa verið hraðar. En er alltaf slegið upp eins og eitthvað meiriháttar sé að gerast.

Oil!

Reyndar hefur Orkubloggið nú enn einu sinni gleymt sér í olíusullinu. Meiningin var að fylgja eftir umfjöllun minni um nýja tegund orkuvinnslu - sem eru ölduvirkjanir. Orkubloggið sagði í fyrradag frá fjárfestingum Norsk Hydro í skoskri ölduvirkjun, sem er að rísa utan við strendur Portúgal (sbr. færslan "Norsk Hydro í ölduróti"). Í gær hjólaði ég, eins og stundum áður, hér upp með stönd Eyrarsunds. Og endaði ekki fyrr en norður við Krónborgarkastala Hamlets á Helsingjaeyri. Viða á þessari leið blasa við glæsilegar vindtúrbínur. En nú eru Danir einnig mikið að fjárfesta í virkjunum sem framleiða rafmagn með því að virkja ölduaflið í sjónum. Um þetta verður fjallað í næstu færslu Orkubloggsins.


mbl.is Engar breytingar á olíuverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Verðið er búði að lækka um 4,5 USD það sem af er degi í New York.

Marinó G. Njálsson, 16.7.2008 kl. 15:47

2 Smámynd: Egill Jóhannsson

Það er reyndar tvennt sem gerir þessa lækkun ólíka þeim lækkunum sem komið hafa í þeirri hækkunarhrinu sem hefur átt sér stað undanfarna mánuði.

Í fyrsta lagi þá veiktist dollarinn og náði nýju lágmarki í gær þegar hann fór yfir 1,60 á móti EUR. Undir venjulegum kringumstæðum hefði olían átt að hækka þegar dollar lækkar.

Í öðru lagi þá komu í fyrsta skipti í dag fréttir um að birgðir í Bandaríkjunum hafi aukist og var aukningin umfram væntingar á markaðnum.

Hvorugt hefur gerst áður og því gæti þessi lækkun verið öðruvísi. Who knows?

Egill Jóhannsson, 16.7.2008 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband