Kaupsýslumenn

Hér í Danaveldi er nú Roskilde Bank mál málanna. Fólki blöskrar að bankinn skuli nú fara á hausinn tiltölulega skömmu eftir að stjórnendurnir nýttu sér stóra kaupréttarsamninga og allt virtist í þokkalega góðum málum hjá bankanum. Og fólki ofbýður líka að eitt af þeim verkefnum sem hefur dregið bankann í svaðið eru lán hans til alræmds byggingabraskara hér. Sá heitir Jørgen Olsen, oft kenndur við fasteignafyrirtækið Flexplan sem hann sigldi hressilega í strand árið 1984. Það dæmi gerði Kronebanken gjaldþrota rétt fyrir jólin '84. Fyrirtæki Olsen's sem nú hafa látið Roskilde-bankann blæða, urðu gjaldþrota í síðustu viku. Þetta eru einmitt tvö fasteignafyrirtæki hér á Friðriksberginu mínu.

wurman

En svo kynnist maður stundum kaupsýslumönnum sem aldrei myndu láta svona nokkuð koma fyrir sig. Menn sem byggja upp fyrirtæki sín af öryggi og halda áhættunni innan skynsamlegra marka. Og hafa jafnvel ýmsar góðar hugsjónir í farteskinu.

Mér kemur í hug náungi, sem ég og konan mín kynntumst fyrir nokkrum árum. Sá er bandarískur og heitir Richard Saul Wurman (f. 1935). Eftir farsælan feril í viðskiptum boðaði Wurman til ráðstefnu, sem hann kallaði TED  (Technology - Entertainment - Design). Fyrsti Ted-inn fór fram í Monterey í Kaliforníu 1984 og frá 1990 hafa þessar ráðstefnur verið árlegur viðburður. Þar hafa talað margir af helstu frumkvöðlum heimsins, Nóbelsverðlaunahafar og alls konar skemmtilegt og forvitnilegt fólk.

Wurman seldi konseptið árið 2002, en TED er enn á sigurbraut. Ég hygg það hafi verið sumarið 2004 að ég hitti Wurman fyrst hér á Íslandi. Vinur hans, Keith Bellows (ritstjóri National Geographic Traveler) hafði beðið okkur að vera Wurman og fjölskyldu hans innan handar með að plana Íslandsferðina sína. Hún tókst í alla staði mjög vel, en ég minnist þess enn hvernig þessi ágæti auðmaður átti ekki orð til að lýsa hneykslan sinni á verðlaginu á Íslandi. Hann hefur líklega meiri tilfinningu fyrir peningum, en þyrlufljúgandi islenskir billar. Í dag hefur Wurman tekið þráðinn upp að nýju og komið á fót ráðstefnu, sem hann kallar the Entertainment Gathering eða EG (www.the-eg.com).

TED er bráðsniðugt fyrirbæri. Á heimasíðunni (www.ted.com) er hægt að nálgast marga af þeim frábæru fyrirlestrum, sem fram hafa farið á ráðstefnunum. Þessi hér er eitt af uppáhaldinu mínu. Þar talar sænski læknirinn Hans Rosling um mannfjöldaþróunina og lífslíkur í heiminum. Og kemst m.a. að því að sænskir úrvalsnemendur hafa minni tölfræðiþekkingu en simpansar. Skemmtilegur fyrirlestur - svo ekki sé meira sagt - og hverrar mínútu virði:

 


mbl.is Moody's lækkar einkunn Roskilde Bank
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband