Úran!

Upp og niður. Þannig gengur það á mörkuðunum. Svona rétt eins og þegar krakkarnir á leikskólanum syngja "inn og útum gluggann...".  En hvernig á að græða almennilega slummu í svona leiðinda árferði? Varla með því að kaupa í Exista.

Uranium_Ore

Auðvitað er þá mest spennandi að halla sér að tvíeykinu góða; svívirðilegum tækifærum og dúndrandi áhættu. Með það í huga gæti Orkubloggið vel hugsað sér að veðja á úran. Þar gæti orðið mikil uppsveifla á næstunni. Hugsanlega. 

Spáum aðeins betur í þetta. Hvað er úran og af hverju eru talsverðar líkur á að það hækki mjög í verði? Í fyrsta lagi er þetta vel kortlagður markaður. Við vitum hversu mörg kjarnorkuverin eru og hversu mörg ný ver er verið að byggja eða á að fara að byggja. Við vitum um allar úrannámur heimsins og nokkurn veginn hversu mikið úran þær framleiða eða geta framleitt. Málið er bara að nenna að safna þessum upplýsingum saman og sjá hver útkoman úr dæminu er. Reyndar er eitt hundfúlt. Þ.e. að geta ekki með góðu móti plöggað sig inn á Netið og hreinlega verslað beint með úranið þar. Það er nefnilega enginn hrávörumarkaður, sem býður upp á viðskipti með úran. Kannski eins gott - við viljum jú ekki að hver sem er geti skroppið útí sjoppu og keypt úran. Úran, Árans, Óróans, Íran!

VanEck

En auðvitað hefur blessaður kapítalisminn fundið þokkalega lausn á þessu eins og öðru. Maður getur t.d. sett aura í sérstaka sjóði sem taka þátt í úranviðskiptum og þannig notið góðs (eða ills) af verðsveiflum á úrani. Áhugasamir geta t.d. haft samband við Van Eck Associates og fjárfest þar í Market Vectors Nuclear Energy. Ljúflingarnir hjá Van Eck skráðu þennan sjóð í kauphöllinni i New York fyrir um ári síðan og fengu af því tilefni að hringja bjöllunni. Það finnst mér alltaf afskaplega bjánaleg athöfn - lítið skárra en íslenskur ráðherra með skæri einhversstaðar útí móa. Eini sénsinn að lóan bjargi athöfninni með sínu yndislega dirrindí. En þeir hjá Van Eck hafa gaman að þessu bjölluglingri. Myndin er frá því þegar þeir settu sérstakan fjárfestingasjóð á NYSE, sem sérhæfir sig í endurnýjanlegri orku. Þarna má m.a. sjá John Thaine, forsjóra NYSE og Keith Carlson, forstjora Van Eck. Auðvitað allir fjarska glaðir.

Uranium_uxc_u3o8_2yr

Einfalt er að fylgjast með verðbreytingum á úrani. T.d. eru góðar upplýsingar um þetta á heimasíðu UX Consulting (www.uxc.com). Og þannig háttar núna að úranverð hefur undanfarið lækkað mjög. Ástæður þess eru ekki augljósar. Kannski hafa bankar í vandræðum þurft að losa um fé. Þessi mikla verðlækkun á úrani er a.m.k. nokkuð á skjön við vaxandi líkur á mörgum nýjum kjarnorkuverum og þar með meiri eftirspurn eftir úrani.

Grafið að ofan sýnir verðþróunina á úrani u.þ.b. 2 ár aftur í tímann. Do I need to say more? Verðið núna er um 64 USD fyrir pundið (sem jafngildir um 10 þúsund íslenskum krónum fyrir kílóið - er það ekki svipað og nautalundin í Nóatúni - ef maður kippir einu oststykki með?). Þá er átt við verð þegar keypt eru meira en 100.000 pund af úrani til afhendingar innan 3ja mánaða. Verð á úrani miðast stundum við annan afhendingartíma og annað magn, þ.a. ýmis verð eru í gangi hverju sinni. En trendið hefur verið verðlækkun undanfarna mánuði. Verðið hefur þó verið að skríða örlítið upp á við síðustu vikurnar. Þ.e. frá miðjum júní.

hiroshima_bomb

En hvað er úran? Eins og menn vita er úran eitt af frumefnunum sem finnst í náttúrunni. Það efni sem hér hefur verið lýst sem úrani, er í reynd s.k. úranoxíð. Stundum líka kallað úrangrjót eða úrangrýti á íslensku, hygg ég. Úr þessu er svo unnið úran, sem notað er í kjarnorkuverum og í kjarnorkusprengjur. "Litli strákurinn" (Little Boy) sem kastað var á Hiroshima var einmitt úransprengja. En á Nagasaki fór plútonsprengjan "Feiti kallinn" (Fat man).

En nú er sólin að brjótast fram úr skýjunum hér í Köben. Best að fara út í Frederiksberg have og skokka nokkra km. Og kíkja á fílana í leiðinni. Þeir eru svo skemmtilega hamingjusamir með nýju aðstöðuna sína í Zoo. Í næstu færslu hyggst Orkubloggið fjalla um nýtingu kjarnorkunnar í orkuiðnaðinum. Og af hverju eftirspurnin eftir úrani kann að aukast mikið á næstu árum.

PS: Ef einhvern vantar góða íbúð til leigu í Kaupmannahöfn næsta vetur, þá ætti viðkomandi endilega að hafa samband:  ketillsigurjonsson@gmail.com 


mbl.is Styrkingar í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Góður að vanda!

Fylgist spenntur með næstu færslu.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.7.2008 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband