25.7.2008 | 00:50
Eike Batista
Í dag græddu sumir. Aðrir töpuðu. Eins og gengur á mörkuðunum.
Björgólfur Thor var einn af þeim sem töpuðu í dag. Siðferðislega. Ég held nefnilega að aðeins hafi skafist af aðdáun margra á Bjögga, við að lesa um að hann mæti í snobbboð á Bessastöðum. Með einhverri amerískri kerlingu, sem ætlaði að verða sér útum pening á innherjasvikum. Það er langt fyrir neðan virðingu Bögga að mæta í svoleiðis hóf. Finnst mér.
Hvað um það. Bjöggi er auðvitað einn af áhugaverðustu ungu milljarðamæringum heimsins. Ég verð að viðurkenna það. Þó ég sé auðvitað drullu öfundsjúkur.
Aðeins eldri, en ekki síður áhugaverður billjóner, er Brasilíumaður að nafni Eike Batista. Ekki veit ég hvort þeir Björgólfur Thor þekkjast. En Eike er einn af þeim sem ég hef fylgst með, síðan ég eyddi nokkrum dögum suður í Ríó hér um árið.
Forbes álítur auðæfi Batista vera um 6,6 milljarða USD. Meðan aðrir skjóta á allt að 17 milljarða dollara. Batista er nokkuð skrautlegur karakter. Og afar metnaðarfullur. Hann segist ætla að gera Brasilíu að númer eitt. Það getur svo sem þýtt margt. En það sem Batista á við, er að Brasilía hafi alla burði til að verða eitt alöflugasta efnahagskerfi heimsins. Sjálfur segist Batista ætla að verða ríkari en Bill Gates. Sem sagt nokkuð yfirlýsingaglaður náungi.
Batista er sagður "self made". Rétt eins og Bjöggi. Auðæfi sín skapaði Batista upphaflega í námubissness, þar sem gull og járn kom aðallega við sögu. Í þá daga var hann einkum þekktur fyrir kvennafar og að keppa í spíttbátasiglingum.
Krúnudjásnið hans hlýtur að teljast vera námufyrirtækið MMX Mineracao, hvar Eike er stjórnarformaður. Það má vel vera að hann sé self made - en óneitanlega fékk hann þó hugsanlega smá forskot. Faðir Eike, Eliezer Batista var nefnilega ráðherra orku- og námumála í Brasilíu og forstjóri hins risastóra brasilíska námufyrirtækis Vale do Rio Doce, sem var einkavætt 1997.
En hvað um það. Eike Batista byggði sem sagt upp sitt eigið námufyrirtæki og var einnig öflugur fjárfestir í vatnsréttindum. En nú er stráksi kominn á kaf í olíuna. Eins og allir alvöru menn. Sjálfur segir Batista, að hann nenni ekki lengur að standa í einhverjum tittlingaskít. Maður þurfi að fara í olíu og gas til að komast í alvöru pening. Þetta er eins talað úr hjarta Orkubloggsins - ég verð nú barrrasta hrærður að heyra svona lagað.
Varla er mánuður síðan Batista halaði inn vel á sjöunda milljarð dollara í stærsta hlutafjárútboði í sögu Brasilíu. Þegar nýja olíufélagið hans, sem nefnist OGX Petroleo e Gas Participacoes, var skráð á Bovespa. Það var nokkuð vel af sér vikið. Ekki síst þegar haft er i huga, að OGX hefur aldrei dælt upp einum einasta olíudropa.
Félagið, sem er aðeins tæplega ársgamalt, var stofnað í þeim tilgangi að bjóða í vinnsluleyfi á landgrunninu utan við strönd Brasilíu. Þar keppir OGX auðvitað m.a. við brasilíska risann Petrobras. Þar kepptu einnig frændur okkar í StatoilHydro og Mærsk Oil, en þeim gekk heldur brösulega greyjunum. OGX var hæstbjóðandi í mörg leyfin, þó svo risinn Petrobras fengi enn fleiri. Reyndar ná þessi leyfi til olíuvinnslu á svo svakalegu dýpi að maður fer hálfpartinn hjá sér.
Eins og Orkubloggið hefur áður sagt frá, hefur kreppuskömmin af einhverjum ástæðum sveigt duglega fram hjá Brasilíu. Enda væri ljótt að styggja ofurbomburnar í Ríó. Og nú eru bundnar miklar vonir við olíulindirnar þarna utan við ströndina. Sjá t.d færsluna um strákana í Brasilíu; http://askja.blog.is/blog/askja/entry/514678/
Dýpið þarna á olíusvæðinu utan við Rio de Janeiro er um 3.000 m. Og þó svo vísbendingar séu um að þar séu einhverjar mestu olíulindir, sem fundist hafa í heiminum, gæti þurft að bora ansið djúpt til að ná gumsinu upp. Vonandi veit Batista hvað hann er að gera. Spurning hvort maður ætti að fara að undirbúa tilboð í vinnslu á Drekasvæðinu íslenska?
Það er reyndar skammt stórra högga milli hjá Batista þessa dagana. Fyrir um hálfum mánuði réðst löggan inn á heimili og skrifstofur Batista, í leit að einhverju pappírsdóti. Það mál snýst um járnbrautarfyrirtæki, sem Batista á hlut í. Örugglega bara smotterí og einhver misskilningur. Kannski brasilískt Baugsmál?
Reyndar má ég til að nefna, að strákgreyið lenti dáldið illa í einni brasilískri ofurbombunni. Viku áður en hann ætlaði að giftast ástinni sinni, fyrir nokkrum árum, kom karnivaldrottningin og Playboy-módelið Luma de Oliveira til sögunnar. Þau hlupust á brott, giftu sig og eignuðust saman tvo stráka. Áður en ballið endaði. Luma var stöðugt á djamminu og sú hamingja endaði með látum. Það gengur svona. En nú er Eike sem sagt tilbúinn í slaginn á ný - ákveðnari en nokkru sinni.
Einhvern tímann las ég viðtal við Bjögga, þar sem hann var m.a. spurður um fjárfestingastefnu sína. Af hverju hann væri t.d. ekki neitt í smásölunni? Hann svaraði þessu að bragði með því að tæma vasana. Úr veskinu komu kreditkort (bankastarfsemi) og magnyltöflur (lyfjastarfsemi). Og úr brjóstvasanum kom gemsinn (gsm þjónusta). Grunnþarfir nútímamannsins í daglega lífinu. En Orkubloggið hlýtur að spyrja: Þurfti Bjöggi ekki einmitt að fylla á tankinn þegar hann ók burt? Hvar eru orkufjárfestingarnar?
Já - ef Björgólfur Thor bætir orkunni við, þori ég að veðja tuttugu tunnum á að hann komist á topp100 á Forbes innan örfárra ára. Þess má geta að Eike Batista var í 142. sæti á síðasta lista Forbes (í mai s.l.). Bjöggi var þar u.þ.b. í 300. sæti? Ef ég man rétt.
Hækkanir á Wall Street | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.