BP í ævintýraleit

Í þessaru færslu ætla ég að fylgja eftir umfjöllun um orkuveldið Rússland. Og beina athyglinni að fyrirtækinu TNK-BP og baráttu BP við Gazprom, Kremlverja og rússneska ólígarka.

Gazprom_BP_death

Þessi ógeðfellda mynd hér til hliðar, er tilvísun til þeirra vandræða sem BP hefur lent í vegna olíu- og gasvinnslu sinnar í Rússlandi. Þar hefur BP í nokkur ár verið þátttakandi í dramatísku ævintýri, sem óljóst er hvort muni enda vel eða illa. Sennilega þó illa.

Fyrirmynd þessarar teikningar, með lógói BP í bakgrunninum, er augljóslega ljósmyndin óhugnanlega, þegar Nguyen Ngoc Loan, sem var lögreglustjóri í Saigon, skýtur stríðsfanga frá N-Víetnam í höfuðið. Myndin sú er einhver frægasta fréttamynd allra tíma og var tekin snemma árs 1968 af ljósmyndaranum Eddie Adams. Á sama sekúndubrotinu og byssukúlan þýtur úr skammbyssuhlaupinu. Upprunalegu myndina má sjá hér neðar.

Kannski ekki beint smekkleg samlíking við ógnanir Rússa gagnvart BP. En þó svo BP sé eitt af stærstu orkufyrirtækjum heims, má það sín lítils í baráttu sinni við rússneska orkurisann Gazprom og þá sem þar ráða ríkjum.

Vietnam_kill

Þó svo grimmdin í Víetnamstríðinu hafi verið mikil á báða bóga, ætla ég að sjálfsögðu ekki að halda því fram að sambærilegt ástand ríki á rússneska orkumarkaðnum. En yfirburðastaða Gazprom er hreint ótrúleg. Maður veit varla hvar maður á að byrja, þegar maður ætlar að lýsa Gazprom í stuttu máli.

Í fyrsta lagi er Gazprom stærsta fyrirtæki Rússlands. Í öðru lagi er Gazprom stærsti gasframleiðandi i heimi. Fyrirtækið framleiðir rúmlega 85% af öllu gasi í Rússlandi - og Rússland er einmitt það land sem býr yfir langmestu gasbirgðum í heiminum.

Og í þriðja lagi (og þetta finnst mér alltaf skemmtilegasta viðmiðunin); ef Gazprom væri sjálfstætt ríki, væri Gazprom í öðru sæti yfir þau ríki sem eiga mestu samanlögðu olíu- og gasbirgðir í heiminum. Það er m.ö.o. aðeins eitt ríki sem býr yfir meiri gas- og olíubirgðum en Gazprom. Og það er Saudi Arabía. Í þriðja sæti kemur svo Íran. Þetta er náttúrlega bara fyndið. En svona er raunveruleikinn alltaf miklu dramatískari en skáldskapur eða einhverjar hasarmyndir frá Hollywood.

Cartoon_Russia_Gas_Bear

Og það er þessi litli sæti bangsi sem BP stendur nú í stappi við. Eða kannski öllu heldur bestu vinir bangsans.  Og rússneski Bangsímoninn skaffar nú löndunum innan EB gríðarstóran hluta af því gasi, sem íbúar Evrópu-sambandsins nota (um helmingur af öllu innfluttu gasi EB kemur frá Rússlandi).

Svo þykist Evrópa vera eitthvað! Ætli "hnignandi útkjálki veraldarinnar" væri ekki betri lýsing á gömlu stórveldunum; Bretlandi og Frakklandi. Satt að segja held ég að það eina sem geti bjargað efnahag Evrópu - og þar með þeim pólitíska styrk sem álfan ennþá hefur - sé að taka upp náið samstarf við olíu- og sólarorkuríkin í N-Afríku. Og hananú. Þannig myndi Evrópusambandið fá aðgang að nýjum og hratt vaxandi mörkuðum og um leið minnka áhættuna sem felst í því að vera svo háð Rússum um orku.

BP_old_logo

En aftur að BP. British Petroleum! Hljómar svo virðulega.

Að mati Orkubloggsins er BP eitt af athyglisverðustu fyrirtækjum heims. Kannski aðallega vegna þess að mér fannst hann Ólí i Olís svo fjandi flottur þegar hann keypti gamla BPið á Íslandi. Og stökk sjálfur út að dæla þegar Dagsbrúnarverkfall skall á. Þá vorum við Óli báðir í sama djobbinu - bensínguttar.

Önnur ástæða fyrir því að ég fíla BP er forstjórinn. Hann er eitthvað svo skolli geðfelldur náungi. Sá heitir Anthony Hayward og er svo sannarlega ekki þessi venjulega forstjóratýpa. Allra síst þegar litið er til hrokagikkana hjá mörgum af stóru olíufélögunum.

BP_Tony_Hayward

Tony er jarðfræðingur, rétt eins og vinur minn T. Boone Pickens. Hann byrjaði hjá BP aðeins 25 ára gamall (það var 1982) og vann þá aðallega fyrir olíuborpallana utan við Aberdeen í Skotlandi.

Þarna var Tony búinn að vinna í nærri áratug þegar þáverandi forstjóri BP, John Brown (afsakið... Barón Brown), heillaðist af þessum sjarmerandi náunga. Eftir það kleif Tony Hayward hratt upp metorðastigann hjá BP. Varð m.a. yfirmaður olíuvinnslu BP i Venesúela 1995 og fjármálastjóri samsteypunnar árið 2000. Á liðnu ár (2007) varð hann svo forstjóri BP. Og ekki er verra að Tony mun vera harður stuðningsmaður Íslendingaliðsins. West Ham! Hvernig væri að bjóða honum embætti orkumalaráðherra i ríkisstjórn Geirs Haarde?

En að kjarna málsins - sem er ævintýri BP í Rússlandi (eins og stundum áður hefur Orkubloggið gleymt sér í aukaatriðunum). Til að gera langa sögu stutta, þá er málum þannig háttað að BP á í fyrirtækinu TNK-BP, sem er eitt af stærstu olíuvinnslufyrirtækum í Rússlandi. BP á sem sagt helminginn í TKN-BP, en hinn helminginn eiga fjórir ljúflingar; Mikhail Fridman, Leonard Blavatnik, German Khan og Viktor Vekselberg. Auður þessara fjögurra snillinga er metinn á ca. 20-25 milljarða dollara, en þar fer Fridman auðvitað fremstur. Nefna má að stór hluti af auðæfum hans kom einmitt til, þegar BP keypti sig inn í olíufyrirtæki Fridman's. Það var 2003 að Fridman og BP féllust í faðma og BP borgaði rúma 6 milljarða dollara fyrir hlut Fridman's í olíufélaginu Tyumen. Sem var aðgangsmiði BP að rússneska gas- og olíuiðnaðinum.

mikhail-fridman

Svo skemmtilega vill til að TNK-BP er nú eina stóra olíufélagið í Rússlandi, sem útlendingar eiga tök í. Það var, eins og fyrr segir, árið 2003 sem BP kom þarna inní rússneska orkuiðnaðinn við hátíðlega athöfn í Moskvu. Þar sem bæði Pútín og Tony Blair voru viðstaddir. Og allir voru fjarska góðir vinir. Tilgangur Rússanna var að fá tækniþekkingu BP inní landið, enda miklir reynsluboltar þar á ferð. En fljótlega urðu blikur á lofti. Fridman, stjórnarformaður TNK-BP, vildi stærri bita af kökunni og mikil valdabarátta upphófst. Fridman segir stjórnun Bretanna á fyrirtækinu fyrir neðan allar hellur. Og að hann vilji reka fyrirtækið sem "öflugt sjálfstætt olíufyrirtæki". I love this guy.

Það eru smávegis hagsmunir í húfi. Rekja má fjórðung allrar olíuframleiðslu BP til TNK-BP. Og verðmæti eignarhlutarins er áætlað 25-50 milljarðar USD (lægra matið er miðað við "óróann" sem þar ríkir nú - en hærra matið miðað við hvað væri ef friður ríkti innan stjórnar fyrirtækisins). Gaman að þessu.

Möguleikinn er að BP þurfi að láta af hendi eign sína í TNK-BP. Jafnvel langt undir raunvirði. Það eitt og sér er kannski aukaatriði. En það að missa svo stóran hluta af olíubirgðum sínum í einu vettvangi, gæti aftur á móti stórskaðað BP. Og útlitið er ekki allt of gott fyrir Tony Hayward og félaga, þarna austur í Rússkí. TNK-BP er i raun eini olíurisinn í Rússlandi, sem ekki er undir stjórn Kremlarmanna. Nefna má að síðustu mánuðina hefur hitnað þokkalega í kolunum. Í mars s.l. réðust menn frá "rússneska FBI-inu" inn á skrifstofur TNK-BP og skrifstofur BP í Moskvu og handtóku BP-starfsmenn fyrir "iðnaðarnjósnir" (rússneska alríkislögreglan nefnist Federalnaya Sluzhba Bezopasnosti eða FSB og er í raun arftaki bæði KGB og rússnesku leynilögreglunnar NKVD - svona rétt til að skýra málið fyrir gömlum aðdéndum James Bond, John Le Carré og annarra snillinga fortíðarinnar).

BP_Bob_Dudley

Sagt er að síðustu vikurnar hafi forstjóri TNK-BP, Bandaríkjamaðurinn Bob Dudley, læðst með veggjum um Moskvu og einungis hringt úr gemsanum því allt annað var örugglega hlerað - helst læstur inni á klósetti með alla krana a fullu. Reyndar flúði Dudley frá Rússlandi i vikunni sem leið - en það er reyndar ekkert minnst á svoleiðis smáræði á vef TNK-BP. Sýnist mér. Hann er þó enn starfandi forstjóri TNK-BP!

Síðustu fréttirnar sem ég sá um þetta ævintýri BP, var á CNBC í dag. Þar er haft eftir Tony Hayward, forstjóra BP, að öllum yfirtökutilraunum rússnesku fjórmenninganna verði mætt af fullri hörku og fyrir dómstólum, ef þörf krefji. Úúúúúhhh. Ætli þeir Kremlverjar og vinir þeirra skjálfi ekki örugglega á beinunum núna, eftir svona hörð ummæli?

Hver þarf að borga sig inn á James Bond myndir, þegar svona fjör ríkir í raunveruleikanum!

PS: Tóm vitleysa. Auðvitað er sagt frá brotthvarfi Dudley's á vef TNK-BP:     www.tnk-bp.com/press/releases/2008/7/90/


mbl.is Olíuverð hækkar töluvert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband