"Tímabundið verðbólguskot..."

Í gær var það Landsbankinn, sem tilkynnti um 12 milljarða króna hagnað á 2. ársfjórðungi (vel að merkja eftir skatta). Sá hagnaður munað verulegu leyti til kominn vegna gengisvarna. Eins og sumir kalla það, þegar veðjað er gegn krónunni.

Og nú í dag fáum við þær góðu fréttir að Kaupþing hafi líka hagnast vel á 2. ársfjórðungi. Ekki síst af því "að bankanum hafi tekist að "verja eiginfjár- og lausafjárstöðu sína. Gengisvörn bankans og verðtryggðar eignir í eignasafni hans hafi varið bankann fyrir óróa í hagkerfi Íslands". Eins og Hreiðar Már orðar það.

Og ég sem hélt að það hefðu bara verið vondir útlendir ofurbraskarar og andstyggilegir krónusjortararar, sem högnuðust á gengisfalli krónuræfilsins. Var ekki alltaf verið að tala um árás útlendinga á krónuna? Það er nú aldeilis gott að fá að vita, að íslensku bankarnir skuli a.m.k. vera með í þeim hópi sem högnuðust vel á gengisfallinu.

Og bara svo þið vitið það: Ástandið sem nú ríkir á Íslandi er hvorki kreppa né hrun. Það heitir aftur móti því fína og sæta nafni að endurheimta jafnvægi. Sbr. fréttatilkynning frá Halldóri J. Kristjánssyni, bankastjóra Landsbankans  (www.landsbanki.is/umlandsbankann/frettirogutgafuefni/frettir?GroupID=294&NewsID=12660&y=0&p=1): 

Landsbankastjorar

"Íslenska hagkerfið er nú að endurheimta jafnvægi aftur eftir mikinn og áralangan vöxt. Þróunin fyrri hluta ársins endurspeglar þessa breytingu, sér í lagi endurmat á krónunni og tímabundið verðbólguskot. Þökk sé jákvæðum gjaldeyris- og verðtryggingarjöfnuði hefur Landsbankanum tekist að halda neikvæðum áhrifum gengislækkunarinnar á eiginfjárhlutfall og efnahagsreikning í lágmarki."

Ég hef reyndar alltaf átt erfitt með að skilja þetta orðalag "tímabundið verðbólguskot". Hélt að maður kallaði svoleiðis "lélega efnahagsstjórnun". En kannski er efnahagsstjórnun aldrei léleg nema verðbólga fari yfir t.d. 20% á ári í a.m.k. 5 ár. Eða er það kannski líka "tímabundið verðbólguskot"?

Reyndar hefur niðursveiflan núna (réttara sagt "endurheimt jafnvægis") auðvitað engin áhrif á almenning. Svo ég aftur vitni í Halldór: 

"Íslensk heimili eru að hluta varin gegn skammtímaáhrifum verðbólgu þar sem hefðbundin húsnæðislán bera fasta raunvexti." 

Það gæti nefnilega verið verra; bæði verðbólga og hækkun á vöxtum, ef þeir væru breytilegir. Reyndar mætti kannski benda Halldóri á að fjölmörg íslensk heimili eru reyndar með húsnæðislán á breytilegum vöxtum. En kannski er Halldór ekki með þannig lán á íbúðinni sinni.

En auðvitað ættu allir að geta verið kátir yfir því hvað ástandið hjá Landbankanum er gott. Svo mun þetta bráðum verða enn betra, þegar nýju álverksmiðjurnar verða komnar á fulllt, eins og Halldór bendir á:

"Nýlegar stóriðjuframkvæmdir hafa aukið framleiðslugetu í útflutningsgreinum sem auðveldar aðlögun hagkerfisins að nýju jafnvægi. Aukin arðsemi af nýtingu hinna fjölmörgu orkulinda landsins mun ýta undir beinar erlendar fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Aukin orkuframleiðsla getur aukið landsframleiðsluna um 4% sem svarar til um 0,8% hagvaxtarauka á ári næstu 5 árin."

Eins og lesa má mun reyndar þurfa fleiri álverksmiðjur til að skapa þennan hagvöxt. Sem væntanlega mun þýða nýtt ójafnvægi. Sem er barrrasta hið besta mál; því þá verður aftur hægt að "endurheimta jafnvægi". Og allan tímann hagnast auðvitað bankarnir.

Og hagnist þeir ekki alveg nóg, mun ríkið auðvitað hjálpa þeim með að fá ódýrara lánsfé, en önnur fyrirtæki eiga kost á. Reyndar eru alltaf einhverjir sem þurfa að borga vaxtamuninn, sem bankarnir fá gefins frá ríkinu. Varla hægt að líta fram hjá því. En það skiptir engu - bara eitthvert nafnlaust fólk sem kallast skattborgarar. Þetta er sérstök útgáfa af ríkisstyrktum bankakapítalisma, sem þeir fundu upp í Bandaríkjunum. Mjög sniðugt fyrirbæri. Eins og sagt er frá hér:

 


mbl.is 15,4 milljarða hagnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Stórgóð úttekt. Bankarnir tryggja sig í bak og fyrir, með verðtryggingu og breytilegum vöxtum (belti og axlarbönd) en hinum almenna skattgreiðenda er hent fyrir björg.

Theódór Norðkvist, 31.7.2008 kl. 10:04

2 identicon

Frábær grein hjá þér, þú sérð í gegn um nýju föt keisarans, sniðin úr orðskrúði og frösum.

ég vildi að ég gæti varið eignasafn og lausafjárstöðu mína jafn vel og þessir "heiðurs"menn, en sæti ekki á hinum enda spýtunnar, greiðandi verðbæturnar og takandi við óverðtryggðum launum...

Gullvagninn (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 12:02

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Afar góð grein hjá þér. Ég mjög uggandi yfir þeirri staðreynd að ríkið standi á bakvið bankana sem græða linnulaust og miskunnarlaust, á meðan fólkið sem ríkið á að vinna fyrir er að lenda undir í baráttunni.

Hrannar Baldursson, 31.7.2008 kl. 12:33

4 identicon

Frábær grein.

Reyndar var ég búinn að komast að svipaðri niðurstöðu fyrir um 1-2 mánuðum síðan á blogginu mínu, en enginn virtist skilja mig.

Haltu áfram að send okkur þessi frábæru myndbönd!

Guðbjörn Guðbjörnsson (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband