Sólarorkan sigrar

Ég missi yfirleitt alltaf af spennandi atburðum á Íslandi. Hvort sem eru sólmyrkvar eða jarðskjálftar. Líklega of mikið á flækingi í útlöndum. Verð að fara að venja mig af því. Enda er alltaf best á Klakanum góða. Til allrar hamingju fer að styttast í heimkomu. Og fátt er yndislegra en september á Íslandi. Svo ég er farinn að hlakka til. Og ekki er ólíklegt að þá verði slökkt á Orkublogginu. Sjáum til.

CSP_plan

Orkubloggið hefur undanfarið gefið því undir fótinn að Evrópa eigi að bindast nánu samstarfi við ríkin við norðanvert Miðjarðarhaf. N-Afríku. Þar sem sólin skín sterkar en víðast hvar annars staðar - og þar sem eyðimörkin breiðir úr sér. Eyðimörkin sem mun bjarga orkumálum Evrópu.

Ég held að ég hafi áður birt þessa mynd hér til hliðar, einmitt hér á Orkublogginu. Þar er lýst hugmynd TREC um að Evrópa tengist öðrum löndum við Miðjarðarhaf, í gegnum nýtt raforkunet með vind- og sólarorkuverum allt i kringum Mare Nostrum.

TREC stendur fyri Trans-Mediterranean  Renewable Energy Cooperation og verkefnið er kallað Desertec (um þetta má t.d. lesa á  www.desertec.org, www.trec-eumena.org og  www.trec-uk.org). 

Menn halda kannski að þetta sé einhver vísindaskáldskapur. En það er langt í frá. Nær að segja að þetta sé í anda sænsks realisma! Hvað svo sem verður um draum Sarkozy's Frakklandsforseta um nýtt Miðjarðarhafsbandalag, þá eru Miðjarðarhafslöndin utan Evrópu mál dagsins. Og hananú.

M.ö.o. þá eru óvíða í heiminum meiri fjárfestingar nú um stundir, eins og í Miðjarðarhafslöndunum utan Evrópu. Slagar hátt í Kína. Kannski meira um það síðar. Í dag ætla ég aftur á móti að beina sjónum að sólarorkutækninni, sem þarna mun hugsanlega ryðja sér til rúms.

Energy_Costs_Renewables

Sem kunnugt er hefur Orkubloggið lengi (a.m.k. miðað við líftíma bloggsins fram að þessu!) trúað á þá hugmynd að í N-Afríku verði reist orkuver, sem byggi á s.k. CSP-tækni (Concentrated Solar Power). Sem mætti kalla "brennipunkta-orkuver" a íslensku. Og nú hefur málflutningur Orkubloggsins náð eyrum fleiri. Líklega í gegnum Moggabloggið! T.d. var grein um þetta í Guardian fyrir sléttri viku. Blessaðir kjánarnir hjá Guardian hafa reyndar ekki alveg skilið málið. Því skv. greininni mun þessi uppbygging aðallega felast í orkuverum sem nýta sólarsellutæknina (photovoltaic cells). Eins og allir vita, er það barrrasta bull. Þó svo sólarsellutæknin sé mjög sniðug, þá verður hún ekki stóra málið í rafmagnsframleiðslu fyrir Evrópu. Slíkt yrði alltof, alltof dýrt.

Til allrar hamingju eru Íslendingar betur upplýstir um endurnýjanlega orkugjafa, en breskir blaðasnápar. En reyndar er CSP enn líka nokkuð dýr tækni. Enda einungis eitt einkarekið CSP-orkuver starfrækt í heiminum í dag. Það er í Nevada í Bandaríkjunum. Nú eru aftur á móti horfur á að senn muni þessi tækni t.d. verða samkeppnisfær við vindorku. Þar að auki hefur CSP-tæknin eitt, sem gefur henni mikið forskot á t.d. vindorku.

CSP_drawing

Það er að geta geymt orkuna. CSP tæknin byggir nefnilega á því að safna geislum sólar í brennipunkt og mynda mikinn hita. Þessi hiti er auðvitað notaður til að búa til gufuþrýsting, sem knýr túrbínu og framleiðir rafmagn. En hitinn er líka notaður til að bræða sérstaka saltlausn og þar er hægt að "geyma" mikla hitaorku í umtalsverðan tíma. Og sækja þann hita þegar t.d. sólin sest og halda rafmagnsframleiðslunni áfram í marga klukkutíma eftir sólsetur. Þessi möguleiki er afar hagstæður þarna suður við Miðjarðarhaf. Því rafmagnsnotkunin er mikil þar á kvöldin - eftir að dimmt er orðið. Auk þess sem sólargeislunin þarna er mjög stöðug og útreiknanleg - öfugt við vindinn sem er síbreytilegur. Allt leggst þetta á eitt og gerir CSP að góðum valkosti.

Reyndar verður líklega hagkvæmast að "blanda saman" raforkuframleiðslu frá CSP og vindorku. Slík orkuver gætu gefið af sér mjög stöðugt framboð af raforku allan sólarhringinn. Þess vegna gerir TREC einmitt ráð fyrir miklum vindorkuverum á strönd Marokkó, svo dæmi sé tekið.

En er þetta raunhæft? Jafnvel þó að kostnaðurinn af þessari rafmagnsframleiðslu verði etv. ekki meiri en við þekkjum i jarðhitanum eða í vindorku? Af hverju ættu olíuríki eins og Egyptaland, Lýbía eða Alsír að vilja taka þátt í orkuvinnslu, sem myndi etv. draga úr eftirspurn eftir olíu? Er Orkubloggið alveg útá þekju?

CSP_schott_parabolic_trough

Má vera. En bloggið er fullvisst um að þetta er framtíðin. Ef ESB klúðrar þessu ekki pólítískt. CSP er nefnilega upplögð tækni til að framleiða drykkjarvatn úr sjó! Í það ferli þarf gríðarmikla raforku. Og ekki er gæfulegt að nota kolefnislosandi orkugjafa í slíkt. Því hentar CSP löndunum við Miðjarðarhaf ákaflega vel. Þetta mun einnig vekja áhuga landanna á Arabíuskaganum. Þ.á m. olíuríkjanna.

Þar að auki þyrstir N-Afríkulöndin í meira efnahagssamstarf við ESB. Að enn meira fjármagn frá ríkjunum innan ESB komi inní þessi lönd. Rétt eins og erlendar fjárfestingar eru eftirsóttar á Íslandi. CSP er m.ö.o. snilldar tækni fyrir bæði Evrópu og N-Afríku. Og þetta eru menn nú að uppgötva - ekki síst nokkur af öflugustu fyrirtækjum Spánar.

Nefna má að senn munu taka til starfa nokkur CSP raforkuver, sem nú eru í byggingu á Spáni, í Flórída í Bandaríkjunum og í Egyptalandi (mynd frá einu þeirra hér að ofan). Og það eru sko engir bjánar, sem standa að baki þessum fjárfestingum. Fremst í flokki eru líklega spænsku iðnaðarrisarnir Abengoa og Acciona. Nefna mætii enn eitt spænskt fyrirtæki; Torresol. Að baki því standa spænska fyrirtækið Sener og olíupeningar frá Sameinuðu Arabísku furstadæmunum; fyrirtæki sem nefnist Masdar og hefur þann tilgang að fjárfesta í endurnýjanlegri orku víða um heim. Vantar kannski erlent fjármagn í REI?

BjorgolfurThor

Já - CSP er í alvörunni alvöru bisness! Satt að segja er ég hálf hissa á að jafn súperklár náungi og BTB, skuli nú vera að horfa til fjárfestinga á Indlandi og í Kína. Eins og maður hefur heyrt af. Í mínum huga er Brasilía meira spennandi - ef maður ætti svona glás af pening. Og miklu nærtækara og meiri möguleikar eru t.d. í Tyrklandi og löndunum sunnan megin við Miðjarðarhaf. Where the sun always shines.


mbl.is Nærmyndir af sólmyrkva
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þetta er hugmynd sem ég er til í að kaupa :)  Mjög svo fróðlegt.

Óskar Þorkelsson, 2.8.2008 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband