Skákborð veraldarinnar

Í fjölmiðlunum er heimurinn er oft málaður svart-hvítur. Íran gegn Bandaríkjunum er eitt dæmið. Í reynd á kjarnorkuþekking Írana rætur að rekja til þess þegar Bandaríkin studdu kjarnorkuuppbyggingu Írana á 6. og 7. áratug liðinnar aldar. Og reyndar lengur.

atoms_for_peace2

Upphaf þessa má rekja til frægrar ræðu Eisenhower's forseta, þar sem hann kynnti áætlun sem kölluð var "Atoms for Peace". Þetta var árið 1953 og Eisenhower var nýorðinn forseti Bandaríkjanna (tók við af Truman). Í hnotskurn má segja að þar með ákváðu Bandaríkin að hjálpa öðrum þjóðum að nýta kjarnorkuna í friðsamlegum tilgangi. 

En áður en kjarnorkuaðstoð Bandaríkjanna við Íran verður lýst, er nauðsynlegt að skoða fyrst aðdraganda málsins. Segja má að ballið hafi byrjað í upphafi 6. áratugarins. Þegar Bandaríkin hjálpuðu Bretum að steypa af stóli lýðræðislega kjörnum forsætisráðherra Írana, lögfræðingnum Mohammed Mossaddeq. Þetta gerðist 1953. Og ástæðan var auðvitað olíuhagsmunir.

Reyndar var það svo, að á þessum tíma voru Bandaríkin ekki mikið að hugsa um Mið-Austurlönd. Það var ekki fyrr en eftir Súez-deiluna 1956, sem Bandaríkin ákváðu að styrkja hagsmuni sína í þessum heimshluta. Og trygga að þar næðu hvergi kommúnistar völdum.

Íranska þingið hafði kosið Mossaddeq sem forsætisráðherra árið 1951. Á þessum tíma ríkti mikil óánægja í landinu sökum þess að allur olíuiðnaðurinn var í höndum breskra fyrirtækja. Og þá fyrst og fremst Anglo-Iranian Oil Company. Sem var að mestu í eigu breska ríkisins - en heitir í dag örlítið kunnuglegra nafni; nefnilega British Petroleum eða BP.

Í öðru stóru olíuríki, Saudi Arabíu, höfðu stjórnvöld þegar fengið samning um að 50% af olíuhagnaðinum skyldi renna til ríkisins. En í Íran hafði BP einkaleyfi á mestu olíulindum landsins gegn föstu gjaldi, sem var ekkert annað en skítur á priki (BP bar reyndar annað heiti á þessum tíma, sem fyrr segir, en einfaldast að nota BP-nafnið). Að sjálfsögðu hafði BP engan áhuga á samningi í anda þess sem gerður hafði verið í Saudi Arabíu - enda eru 100% talsvert meira en 50%. Ekki síst þegar peningar eru í spilunum.

mosaddaq_time

Mossaddeq ásamt íranska þinginu ákvað að þjóðnýta  olíuiðnað landsins og gera eignarnám í öllum eignum BP í Íran. Þetta þótti BP auðvitað súrt i broti og breska heimsveldið brást ókvæða við. Bretar gerðu sér þó grein fyrir hinum mikla stuðningi sem Mossaddeq naut meðal landsmanna og taldi ekki séns að koma honum frá nema fá aðstoð Bandaríkjanna. Þess má geta að Mossaddeq var útnefndur maður ársins 1951 af tímaritinu Time.

Með því að búa til sögu um að Mossaddeq væri u.þ.b. að fallast í faðma með leiðtogum Sovétríkjanna tókst Bretum að sannfæra Eisenhower árið 1953, en hann var þá nýlega orðinn forseti. Truman mun hins vegar áður ítrekað hafa hafnað óskum Breta um slíka aðstoð. Á þessum tíma voru Bandaríkin enn nokkuð róleg um sinn hag, þó svo Sovétmenn ættu kjarnorkusprengju. En Kóreu-stríðið hafði samt skapað talsverða taugaveiklun og nú skipaði Eisenhower CIA að aðstoða við stjórnarbyltingu í Íran. Aðgerðin var kölluð Ajax.

Til að gera langa sögu stutta var Mossaddeq steypt af stóli og stungið í fangelsi (hann lést árið 1967). Íranskeisari afnam stjórnarskrána og tók sér alræðisvald. Árið 1954 tók breska olíufélagið upp nafnið BP og hélt hamingjusamt áfram að dæla olíunni upp i Íran og selja um heiminn.

BP_old_logo

En því miður fyrir ljúflingana hjá BP var írönsku þjóðinni ofboðið og BP neyddist til að láta undan þrýstingnum og ná einhverju samkomulagi. Niðurstaðan varð sú að nýtt félag var stofnað um reksturinn, National Iranian Oil Company,hvar BP átti 40%. Afganginum (60%) var skipt upp á milli sex annarra olíufélaga, sem þó ekkert var í eigu Írana. Heldur urðu nokkur bandarísk félög, auk Shell og Total (sem þá hét reyndar öðru nafni), hluthafar í nýja félaginu. Ástæða þess að Íranar féllust á þetta fyrirkomulag var sú, að um leið var gert sérstakt samkomulag um að írönsk stjórnvöld fengju 50% af hagnaði félagsins. Með þeim fyrirvara, reyndar, að þeir fengju engan aðgang að bókhaldinu. Þannig að við verðum barrrasta, f.h. Írana, að treysta á að menn hafi gefið upp réttar hagnaðartölur.

Um BP og framhaldið er það að segja að félagið hélt áfram starfsemi sinni í Íran í nær aldarfjórðung. Eða allt þar til íslamska byltingin var gerð 1979 og keisarinn flúði. Khomeni varð æðsti klerkur og erlendu olíufélögunum var fleygt úr landinu. Þar með lauk nærri 7 áratuga olíuvinnslu Breta í Íran.

Til allrar hamingju fyrir BP hafði félagið þá þegar byggt upp mikla olíuvinnslu bæði í Norðursjó og Alaska. Annars hefði þessi atburðarás hugsanlega riðið félaginu að fullu. Þrátt fyrir að verða af hinum geggjuðu olíuhagsmunum í Íran, er BP í dag eitt stærsta olíufélag heims.

Með byltingunni í Íran 1979 lauk einnig kjarnorkuaðstoð Bandaríkjanna við landið. Sem til stóð að segja frá hér. En bíður næstu færslu.

Já - svona er olían alls staðar sem eitthvað gerist. Og Íslendingar muna væntanlega hvernig þeir þurftu að berjast fyrir því að koma breskum fiskiskipum burt frá Íslandsmiðum. Það varð okkur líklega til happs að fiskur er ekki olía. Og því tæplega hægt að sannfæra Bandaríkin um að það þyrfti að stinga t.d. Lúðvík heitnum Jósepssyni og félögum í dýflissu. Þegar landhelgin var færð út.

reagan-thatcher

En alltaf gaman að fabúlera smávegis. Hvað ef við hefðum ekki verið í NATO? Ætli það væru þá einhverjir aðrir en Samherji, Brim og Grandi, sem ættu kvótann? T.d... t.d barónessa Tatcher?

Engin hætta á því - hún hefði nefnilega einkavætt kvótann - rétt eins og BP. Svo hef ég reyndar heyrt að íslenskir stjórnmálamenn hafi farið létt með það sjálfir að losa þjóðina við kvótann og ekki þurft aðstoð breskra stjórnmálamanna til. En það er líklega allt önnur saga.

Ekki misskilja mig samt. Svo vill til, að ég styð kvótakerfið! Heilshugar. Samt smá ólykt af því hvernig framkvæmdin var. Hvað um það - næst mun Orkubloggið segja frá samvinnu Bandaríkjanna og Írana í kjarnorkumálum.


mbl.is Íranir reiðubúnir til viðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

mjög svo athyglisvert, takk fyrir þennan pistil.

Óskar Þorkelsson, 4.8.2008 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband