Rauðá, indíánar og úran

Red_River

Sko - stundum eru fréttir Moggans pínulítið skrítnar (eða ónákvæmar). Eins og t.d. þessi frétt, um að "Rio Tinto, eigandi Alcan á Íslandi, hyggst kanna möguleikann á því að selja burt kolanámuviðskipti sín í Norður-Ameríku til fyrirtækis að nafni Cloud Peak Energy".

Þetta er auðvitað tómt rugl hjá Mogganum. Það er nú einu sinni svo að Cloud Peak er alfarið í eigu Rio Tinto (sem er spænska og þýðir Rauðá - eða Red river á ensku - sem auðvitað leiðir hugann að hinum dásamlega Jóni Væna og Vestranum klassíska; Red River).

Þvert á móti stendur hugsanlega til að Rio Tinto selji Cloud Peak. Hver kaupandinn verður, er ekki vitað. Og reyndar alls ekki víst að allt fyrirtækið verði selt. Hið eina sem fótur er fyrir í þessari frétt Moggans er að hluti af  kolavinnslu Rio Tinto í Bandaríkjunum, verður kannski seld.

Cloud Peak er sem sagt hinn bandaríski kola-armur Rio Tinto. Ég hygg að hið rétta i málinu sé að Rio Tinto hugleiði nú að skrá Cloud Peak á hlutabréfamarkað og þannig ná í pening. Kannski til að fjármagna kaupin á Alcan. Gæti verið. Orkubloggið myndi þó frekar veðja á, að stjórn Rio Tinto hyggist með þessu fyrst og fremst styrkja lausafjárstöðu sína, vegna yfirvofandi yfirtökutilraunar námurisans BHP Billiton.

rio-tinto-alcan

En aftur að hugsanlegri sölu Cloud Peak. Hver muni kaupa bréfin í Cloud Peak er allsendis óvitað. Ef að olíuverðið heldur áfram niður á við, munu kolin nokkuð líklega fylgja í kjölfarið. Og þar með kannski ekki spennandi að setja mikinn pening í Cloud Peak. Í bili. Samt... Cloud Peak er nú einu sinni líklega annar stærsti kolaframleiðandi í US. Og á einmitt margar af stærstu kolanámunum á hinum geggjuðu kolasvæðum í Wyoming og nágrenni. Væntanlega er nafn fyrirtækisins dregið af hæsta tindinum í Wyoming-fylki; hinum rúmlega 4 þúsund metra háa Cloud Peak.

CLOUD_PEAK

Fjallgarðurinn sem Cloud Peak eða Skýjatindur er í, kallast Big Horn Mountains eða Stórhyrnufjöll upp á íslensku (ég hreinlega elska þessi flottu bandarísku örnefni). Big Horn Mts. eru eins konar afleggjari frá Klettafjöllunum.

Mig hefur alltaf langað að komast á þessar slóðir. Allt síðan ég las Frumbyggja-bækurnar frábæru, sem Æskan gaf út hér í Den. Um norsku frumbyggjafjölskylduna, sem settist að við Stóra-Úlfsvatn. Og mátti berjast harðri baráttu við náttúruöflin, gráðuga glæpamenn og grimma indíána. En þau áttu líka sína bestu vini meðal indíánanna. Hvað hét aftur góði höfðinginn...? Litla Kráka minnir mig. Knútur var auðvitað uppáhaldspersónan mín. En Eyfi var líka fínn - sérstaklega þegar ég las fyrstu bókina og var þá á aldur við Eyfa.

DanielDayLewis_Hawkeye

Svo las maður auðvitað líka Hjartarbana, ásamt öðrum bókum J.F. Cooper's um síðasta móhíkanann. Og alla þessa gömlu frumbyggjaklassík eins og hún lagði sig. Skemmtilegar bækur og hreint ótrúlegt hvað margar af þeim voru til á íslensku. Hjá þeim félögum i fornbókaversluninni Bókinni. Fílaði líka Daniel Day-Lewis í "The Last of the Mohicans: "No matter how long it takes, no matter how far, I will find you!" Soldið rómó.

En gleymum okkur ekki alveg í nostalgíunni.

Sé það rétt og Rio Tinto sé í vandræðum með að finna pening til að borga fyrir Alcoa - eða verjast yfirtöku - þá er þarna etv. á ferð ansið gott tækifæri. Til að gera góð kaup. En ekki hef ég mikinn áhuga á kolaóþverranum hjá Cloud Peak Energy. Mætti ég þá frekar stinga upp á því við þá Rauðármenn, að selja mér annan hluta af sinni subbulega starfsemi. Nefnilega ástralska fyrirtækið sitt Energy Resources of Australia (ERA).

Crocodile_Australia

Ekki bara af því Ástralía er frábært land. Heldur miklu fremur sökum þess að ERA rekur einhverjar stærstu úrannámur heims. Í nágrenni Krókódílaár (Alligator River) í norðurhluta Ástralíu. Þar sem sól, hiti og flugur... og krókódílar ráða ríkjum. ERA er þriðji stærstu úranframleiðandi í heimi og með um 10% markaðshlutdeild. Og eins og dyggir lesendur Orkubloggsins vita, er bloggið dálítið skotið i úrani sem fjárfestingu, um þessar mundir.


mbl.is Losa fjármagn til að borga Alcan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband