Prins Póló

Ólíkt höfumst við að. Meðan á Íslandi er talað um að taka upp evru þegar krónan hefur fallið, tala Pólverjar um að gjaldmiðillinn þeirra sé orðinn allt of sterkur og því best að taka upp evru.

prince_polo2

Það eru líklega fyrst og fremst landbúnaðarstyrkirnir frá EB til Póllands, sem valda þessu. Ég held að í báðum þessum tilvikum sé umræðan jafn vitlaus. Menn eiga ekki að láta tímabundnar gengissveiflur ráða öllu um það hvort taka eigi upp evru. Það mál snýst um önnur og stærri grundvallaratriði, sem skoða verður í heildarsamhengi.

Vegna Prins Pólósins hef ég alltaf fundið til smá skyldleika við Pólverja. Þó svo stundum gleymi ég því að Prins sé pólskt - en ekki íslenskt! Hef aðeins einu sinni komið til Póllands og var þá viku í Varsjá. Og líkar ákaflega vel við Pólverja - einna best af öllum Evrópuþjóðunum satt að segja.

eastern-europe

Það er reyndar svo að í Evrópu kann ég langbest við þjóðirnar í Austur-Evrópu. Eins og t.d. Tékka, Búlgara og auðvitað Pólverja. Og er sérstaklega minnisstætt hvernig kristin kirkja, moska og sýnagóga - allt mjög gamlar byggingar - standa í hnapp í sátt og samlyndi í miðborg Sófíu í Búlgaríu. 

En aftur að Póllandi. Úr því að Orkubloggið minntist á Prins Pólo, verður auðvitað ekki hjá því komist að skoða hvaðan Pólverjar fá orkuna sína.

Rétt eins og Ísland þarf Pólland að flytja inn allt eldsneyti vegna samgangna. Eða nánast allt; það er örlítil olíuvinnsla í landinu. En þegar kemur að rafmagninu skilja leiðir Íslands og Póllands. Meðan rafmagnsframleiðsla á Íslandi er þekkt fyrir að koma svo til öll frá endurnýjanlegri orku, er allt annað upp á teningnum í Póllandi. Um 95% rafmagnsframleiðslu Pólverja kemur frá jarðefnaeldsneyti og lang mest frá kolaorkuverum. Enda mikið af kolanámum í Póllandi. En þetta er fjölmenn þjóð og þrátt fyrir alla kolavinnsluna þarf Pólland að flytja inn eldsneyti til rafmagnsframleiðslu.

Poland_river

Það litla hlutfall af pólska rafmagninu sem kemur frá öðru en kolum, er mest allt frá vatnsafli. Talsvert stórar vatnsaflsvirkjanir eru í landinu, enda þokkalega góðar virkjanaaðstæður í t.d. Karpatafjöllum og víðar í Póllandi. Líklega er framleiðslugeta vatnsaflsvirkjananna vel á þriðja þúsund MW. Sem samsvarar u.þ.b. þremur Karahnjúkavirkjunum.

Til framtíðar horfa Pólverjar til þess að auka notkun á jarðgasi. En um leið kæra þeir sig ekki um að verða háðir Rússum um orku. Þannig að kannski kemur að því að í Póllandi rísi kjarnorkuver. Sú umræða blossaði upp fyrir um tveimur árum. Og athyglisvert er að þar hefur ekki síst verið rætt um byggingu á veri, sem nýti þórín. Sem Orkubloggið hefur áður fjallað um.

Loks er vert að vekja athygli á því, að eitt stærsta fyrirtæki í Mið-Evrópu er einmitt pólskt olíufyrirtæki. Það heitir PKN Orlen og rekur olíuhreinsunarstöðvar og selur einnig olíu og bensín. Þannig að Íslendingar sem ferðast hafa um Pólland kannast væntanlega vel við bensínstöðvarnar þeirra og lógóið.

orlen_logo

Orlen var auðvitað upphaflega í ríkiseigu, en var einkavætt eftir fall kommúnismans í Póllandi. Í dag starfar félagið líka í Þýskalandi, Tékklandi og Litháen. 


mbl.is Vilja upptöku evru sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband