Frá Færeyjum til Alsír

"Í sambandi við kapitalhækkingina hjá P/F Atlantic Petroleum er prospekt og annað tilfar um kapitalhækkingina almannakunngjørt".

Mykines6

Þannig segir í tilkynningu frá því fyrr í sumar, sem lesa má á vef Eik-banka. Færeyskan er óneitanlega skemmtilegt tungumál. Og ekki annað hægt en að finna til sterkrar ættartaugar, þegar maður les svona texta. Hreint ótrúlega líkt íslensku. Og svo eru Færeyingar afskaplega þægileg þjóð. A.m.k. allir þeir sem ég hef kynnst í gegnum tíðina.

Já - Færeyjar eru snilld. Og í gær var tilkynnt um olíufund færeyska félagsins Atlantic Petroleum. Reyndar ekki á landgrunni Færeyja. Heldur innan lögsögu Bretlands. En gerir það vel þess virði að staldra við þetta ágæta færeyska félag; Atlantic Petroleum.

Það var tæplega tugur félaga og einstaklinga, sem stofnaði Atlantic Petroleum (AP) árið 1998. Tilefnið var að senn yrðu boðin út leyfi til olíuleitar og -vinnslu á færeyska landgrunninu. Ég veit einungis um tvö íslensk félög, sem þegar hafa verið stofnuð í sama skyni á Íslandi. Vegna hugsanlegrar olíuvinnslu við Ísland. Annað þeirra er Geysir Petroleum, sem nú mun reyndar hafa runnið inní norska félagið Sagex. Og eflaust verða þau fleiri.

Atlantic_Petroleum140808

Árið 2005 var AP skráð á hlutabréfamarkað á Íslandi og ári síðar á OMX í Danmörku. Upphaflega var hlutafé AP 25,5 milljón danskar krónur og var siðar aukið í 112 milljón DKK.

Verð hlutabréfa í AP stökk upp um 8% í gær, í kjölfar fréttanna um olíufundinn. Eins og sjá má hér til hliðar. Gott mál hjá þessu færeyska félagi.

Verðmæti fyrirtækisins er þó langt frá því sem var í nóvember á s.l. ári (2007). Og þetta er félag sem sveiflast gríðarlega í verðmæti. Fram til þessa hefur AP auðvitað verið rekið með tapi, enda nokkuð í að almennileg tekjumyndun verði hjá félaginu. Hlutabréf í AP eru því ennþá mikil áhættufjárfesting. En kaup í félaginu gætu hugsanlega gefið mjög vel af sér. Takist þeim hjá AP áfram vel upp í olíuleitinni.

atlantic_petroleum_logo

Fyrsta leyfið til olíuleitar á færeyska landgrunninu var gefið út fyrir sléttum 8 árum, í ágúst 2000. AP var eitt af þeim félögum sem kom að kaupum á því leyfi. Árið 2001 færði AP út kvíarnar og varð þáttakandi í kaupum á leyfum á breska landgrunninu. Það verður gaman að fylgjast með Atlantic Petroleum næstu mánuðina. Kannski eigum við eftir að fá Færeyinga sem fjárfesta í íslenskum olíuiðnaði.

Hér að ofan var minnst á norska félagið Sagex, sem Íslendingar eiga nokkuð stóran hlut í. Þar mun vera um að ræða BYKO-fjölskylduna; þ.e. Jón H. Guðmundsson.  Sagex ræður yfir nokkrum leyfum í Norðursjó og hafa einnig keypt leyfi innan færeysku lögsögunnar. Félagið hefur líka sagst stefna á að fá leyfi í íslensku lögsögunni.

Jon_Helgason_Koben

Og nú síðast mun Sagex hafa sett stefnuna á Alsír, Túnis og Líbýu. Eins og dyggir lesendur Orkubloggsins skilja, er ég auðvitað afar ánægður að einhverjir íslenskir fjárfestar séu að horfa til Norður-Afríku! Þessi ánægja þarfnast ekki frekari skýringa. Sbr. fyrri færslur um N-Afríku og tækifærin þar. Sjá t.d. hér:  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/612648/ 

En ég verð samt að segja: "Ólík er túninu gatan og glerrúðan skjánum." Helst með rödd skáldsins.

Stundum held ég að ég sé með ofurlítið gamla sál. Ég á t.d. satt að segja bágt með að lesa skáldskap eða ljóð, sem eru eftir einhverja fædda eftir 1930 (held að Hallgrímur Helgason sé eina undantekningin þar frá). En þetta er nú bara smá útúrdúr. Það sem ég vildi sagt hafa: Ólík er túninu gatan og glerrúðan skjánum!

Algeria_oil

Það er ansið langt milli Færeyja og Alsír. Í fleiri merkingu en einni. Og ef ég man rétt komu þeir þaðan, þrælasalar Tyrkjaránsins. En við megum ekki vera of langrækin.


mbl.is Atlantic Petroleum finnur olíulind
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband