Nýja-Ísland

Mount_Cook_National_Park

Fyrir all mörgum árum ferðaðist ég um Nýja-Sjáland. Og gisti þá m.a. á hinu vel þekkta hóteli neðan við Cook-fjall. The Hermitage. Hótelið liggur all langt utan alfaraleiðar og þaðan er fagurt útsýni til þessa hæsta fjalls Nýja-Sjálands og fjallahringsins í kring. Þetta var næstum jafn gott og í Skaftafelli. Jökulaurar, mólendi og skógarkjarr. Já - mér líkaði afskaplega vel á Nýja-Sjálandi.

Þarna hinum megin á hnettinum, með hádegissólina í norðri, var líkt og maður væri að ferðast um eins konar spegilmynd Íslands. Víða minnti náttúran ótrúlega mikið á Klakann góða, með heiðarlönd, lynggróður og jarðvarma. En fjölbreytnin var enn meiri en á Íslandi. Allt í einu ók maður inní þéttan regnskóg á vesturströnd suðureyjunnar. Og maturinn var fyrirtak. Hreint ótrúlega gott lambakjöt! Líka frábær skelfiskur.

NewZealandMap

Ný-Sjálendingarnir eru líka prýðilegir ljúflingar. Ég verð þó að viðurkenna eitt: Ef ég byggi þarna í þessu fallega landi myndi ég líklega finna til talsverðrar einangrunar. Maður er ansið langt frá öllu öðru í heiminum. Við skruppum til Nýja-Sjálands stystu leið - meðan við bjuggum í Sydney. Það var u.þ.b. 3ja tíma flug þarna yfir hafið frá Sydney.

Og vilji maður skjótast frá Nýja-Sjálandi til annarra landa, t.d. Taílands eða Japan, er það óneitanlegra umtalsvert lengra en frá Íslandi til Evrópu eða Bandaríkjanna.

Allt síðan ég ferðaðist um þessar slóðir, hefur mér þótt Ísland liggja afskaplega vel og miðsvæðis. Skitnir 3 tímar til Köben og 5 tímar til heimsborgar eins og New York. Ég verð barrrasta að segja alveg eins og er: Ísland er svo sannarlega nafli alheimsins!

Auðvitað getur Orkubloggið ekki minnst á Nýja-Sjáland, nema að fjalla aðeins um orkunotkunina þeirra. Líkelga er Nýja-Sjáland það land í heiminum sem hvað mest líkist Íslandi með orkuframleiðslu. Þeir framleiða um 70% rafmagnsins með endurnýjanlegri orku (Orkubloggið telur stórar vatnsaflsvirkjanir til endurnýjanlegrar orku - en þess skal getið að oft eru slíkar virkjanir ekki flokkaðar sem endurnýjanleg orkuframleiðsla vegna mikilla neikvæðra umhverfisáhrifa). Um 30% rafmagnsins þarna hjá andfætlingum okkar kemur aftur á móti frá kolum og gasi.

NZ_pipes

Þessi 70% skiptast þannig að langmestur hluti þess er rafmagn frá vatnsafli. Og um 7% rafmagnsframleiðslu Nýja-Sjálands kemur nú frá jarðhitavirkjunum. Svo er ein tegund endurnýjanlegrar orkuframleiðslu á Nýja-Sjálandi, sem enn hefur ekki sést á Íslandi. Það er vindorka. 

Í dag er framleiðslugeta vindtúrbínanna á Nýja-Sjálandi um 320 MW. Sem jafngildir um hálfri Karahnjúkavirkjun. Og þær framleiða um 2,5% rafmagnsins í landinu. Miðað við þær vindtúrbínur sem nú er verið að setja upp, verður framleiðslugeta vindorkunnar á Nýja-Sjálandi um 500 MW strax á næsta ári (2009).Og allt að 2.000 MW eru nú í skipulagsferli. M.ö.o. er vindorkan á Nýja-Sjálandi vel samkeppnishæf við rafmagn frá jarðhita og vatnsorku.  

Eftir um 15 ár stendur til að meira en 90% allrar rafmagnsframleiðslu á Nýja-Sjálandi verði frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Og þó svo búist sé við því að hlutfall jarðhitans í rafmagnsframleiðslunni vaxi, er gert ráð fyrir að mesti vöxturinn verði í vindorkunni. Þetta hlýtur að vekja spurningar um möguleika þess að nýta vindorku á Íslandi. Í fyrstu bremsar maður við það hversu misvindasamt er heima á Klakanum góða. En öllu verra kann að vera hversu oft er mjög hvasst. Það þarf nefnilega að slökkva á vindtúrbínum í miklu hvassviðri. 

NewZealandWindStamp

Lokaorð Orkubloggsins um vindorkuna eru þessi: Orkuveitufyrirtækin á Íslandi hljóta að vera nú þegar búin að gera úttekt á möguleikum þess og hagkvæmni að nýta vindorku á Íslandi. Eða hvað?

Hvort við eigum bráðum eftir að upplifa að sjá grilla í 50 risastórar 3-4 MW vindtúrbínur t.d. utan við ströndina á Mýrum, er óvíst. Sökum þess að haftúrbínurnar eru dýrari en þær á landi, er kannski lógískara að búast frekar við að sjá vindorkuver t.d. austur á Rangárvöllum eða í nágrenni við flugvöllinn á Miðnesheiði. Allt veltur þetta auðvitað á hagkvæmni - og því hvort tæknin henti íslenskum aðstæðum með tilheyrandi stórviðri.


mbl.is Fjallgöngumenn fundust á lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ketill...  í október sl. var mjög skemmtilegt viðtal við Stefán Arnórsson, jarðefnafræðing, m.a. um orkuvinnslu á Nýja Sjálandi.

Heyrðirðu það? Ef ekki geturðu hlustað hér - 15. október, liður nr. 3 í þættinum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.8.2008 kl. 01:48

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Takk fyrir þessa ábendingu. Mun hlusta a þetta.

Ketill Sigurjónsson, 18.8.2008 kl. 07:16

3 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ég hef enn ekki skilið, hvers vegna ekki er búið að setja upp nokkrar vindtúrbínur þó ekki væri nema til að sjá hvernig þeim myndi reiða af í íslenskri veðráttu.

Ætli ástæðan sé sú að það sé svo sterk virkjanapólitík á íslandi sem aðhyllist ákveðnar tegundir af virkjunum umfram aðrar?

Kjartan Pétur Sigurðsson, 18.8.2008 kl. 08:12

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Ketill

Ég vil byrja á að mótmæla brotthvarfi Orkubloggsins.

Síðan vil ég þakka fyrir aldeilis skemmtilega og fræðandi pistla undanfarna mánuði (búinn að lesa næstum alla).

Í öðru lagi á ég nú ekki von á að þú þurfir að leita lengi að vinnu - ef þú ert ekki þegar búinn að fá hana. Svona miðað við umsvifin í jarðhitabransanum ætti að vera þörf á mönnum eins og þér.

Ég hlakka til að heyra frá þér aftur á blogginu eða í blöðunum.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.8.2008 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband