18.8.2008 | 08:20
Takk fyrir mig
Þann 18. apríl s.l. (2008) birtist fyrsta færsla Orkubloggsins. Í dag, nákvæmlega 4 mánuðum síðar, kveður Orkubloggið. Sem kannski hefur verið eins og hrópandi í eyðimörkinni. Eða hani uppí olíuborpalli á auðnum íshafsins. En vissulega gott að heyra að sumir skuli hafa haft nennu og jafnvel ánægju af lestrinum.
Ástæða þessarar uppátektar að byrja á Orkublogginu, var af tvennum toga. Annars vegar hálf leiddist mér í þessu MBA-dútli hér í Köben. Fram yfir áramót var ég í vinnu með náminu. En henni hætti ég í byrjun mars - og eftir það var MBA-námið eina viðfangsefnið. Fjölskyldan flutti heim á Klakann góða um áramótin, svo maður hékk yfir tölvunni á kvöldin. Og þá var það einn daginn að Orkubloggið skyndilega fæddist. Með fyrstu lufsufærslunni, sem nefndist "Orka og jarðhiti". Stefnan var að vera með færslu á hverjum degi - sem tókst - þó stundum væri innihaldið kannski ekki mjög djúpt. En sumar færslurnar eru barrrasta ekki sem verstar - þó ég segi sjálfur frá.
Hin ástæðan að baki Orkublogginu var sú að mér fannst - og finnst enn - furðu lítil umfjöllun um orkumál í íslenskum fjölmiðlum. Bloggið var innlegg til að vekja fleiri til umhugsunar um þennan gríðarlega mikilvæga málaflokk. Nú verður m.a. fróðlegt að sjá hvaða nýju áherslur munu koma með nýjum forstjórum Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar. Ég er nokkuð viss um að senn verða verulegar breytingar á þessum stofnunum - vonandi til hins betra fyrir alla landsmenn.
Nú er náminu hér lokið og stefnan sett heim á leið (í kreppuna og atvinnuleysið - sem þýðir auðvitað að næsta gullæði er bara rétt handan við hornið). Um leið hyggst ég sem sagt svæfa Orkubloggið. Það sem orðið er, fær þó að dvelja áfram hér á internetinu um sinn. Og hver veit nema bloggið vakni aftur til lífsins síðar. Af nógu er að taka. T.d. er ósagt frá ævintýrum einnar stærstu olíufjölskyldu Bandaríkjanna, ljúflinganna í Hunt Oil. Allt of lítið hefur verið fjallað um jarðhita og vatnsorku. Tilefni hefði verið til að segja frá olíuvinnslu úr sandi í Kanada. Og nýbyggingum, sem þaktar eru bláum sólarsellum. Af nógu er að taka.
Til að ljúka þessu ætla ég aðeins að fjalla um Norðurskautið og hvaða ríki munu koma til með að eignast orkulindirnar þar.
Allt umhverfis Norðurskautið fer fram mikil olíu- og gasvinnsla. Og eftir því sem íshellan hörfar, eins og virðist vera að gerast, mun verða horft æ meir til þessara svæða.
Byrjað er eins konar kapphlaup um yfirráð Norðurskautsins. Fyrir ári síðan sendu Rússar kafbát undir íshelluna og komu fyrir rússneska fánanum á hafsbotni Norðurpólsins. Þarna er dýpið meira en 4 þúsund metrar.
Því miður fyrir Ísland yrði til lítils fyrir okkur að gera tilkall til lögsögu á hafsvæðinu umhverfis Norðurpólinn. Þau ríki sem munu rífast um Norðurskautskökuna eru Rússland, Noregur, Grænland (Danmörk), Kanada og Bandaríkin. Allsendis óvíst er hvernig þau mál fara, en þar mun skipta mestu jarðfræði svæðisins og náttúruleg tengsl þess við umrædd lönd. Þarna munu landgrunnsákvæði Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna líklega leika sitt stærsta hlutverk nokkru sinni.
Ástæða þess að það skiptir máli að ráða yfir Íshafinu og botni þess, er af ýmsum toga. Eitt er rétturinn til siglinga stórra fragtskipa. Annað eru náttúruauðlindirnar á svæðinu. Samkvæmt nýrri skýrslu Bandaríkjastjórnar er gert ráð fyrir að norðan heimsskautbaugs séu enn ófundnar 90 milljarðar tunna af olíu. Og einnig gríðarlega mikið af gasi. Skýrsla þessi segir að mestur hluta gassins muni finnast norður af Síberíu. En stærstur hluti olíunnar út af Alaska og við austurströnd Grænlands. Það sem kannski er mest spennandi, er að olían undir hafbotninum við Austur-Grænland gæti teygt sig inn í íslenska lögsögu. En þetta eru nú meira fabúleringar en vísindi.
Myndin hér til hliðar sýnir þann hluta hafsbotnsins, sem kann að hafa afgerandi þýðingu við ákvörðun lögsögumarka á Norðurskautinu. Þetta er s.k. Lomonosov-hryggur; kenndur við rússneska vísindamanninn Mikhail Lomonosov sem uppi var á 18. öld.
Lomonosov-hryggurinn teygir sig nánast þvert eftir botni Íshafsins, milli Síberíu annars vegar og Grænlands og Kanada hins vegar. Rússar ætla sér að sanna að hryggurinn sé náttúrulegt framhald Rússlands og því eigi lögsögumörk þeirra að miðast við hrygginn. Sem myndi þýða að mjög stór hluti Norðurskautsins félli undir lögsögu þeirra. Aðrar mikilvægar neðansjávarmyndanir á svæðinu eru t.d. Alpha- og Mendeleev-hryggurinn og Gakkel-hryggurinn (sem stundum hefur verið kallaður Nansen-hryggurinn). Þessir neðansjávarhryggir eru einnig kenndir við Rússa; landfræðinginn Yakov Gakkel og efnafræðinginn Dimitri Mendeleev.
Hvernig lögsaga yfir auðlindum á Norðurskautinu mun skiptast er mál sem ekki mun ráðast alveg á næstunni. Það sem etv. fyrst mun reyna á, er rétturinn til siglinga. Ef svo fer sem horfir, gætu opnast nýjar siglingaleiðir milli Kyrrahafs og Atlantshafs. Bæði norður af Kanada (Norðvestur-leiðin) og norðan við Síberíu (Norðaustur-leiðin - stundum einfaldlega kölluð Norðurleiðin). Það er einmitt síðarnefnda siglingaleiðin, sem gæti haft verulega þýðingu fyrir Ísland. Skip frá Kyrrahafi kæmu norðan úr Íshafinu og varningur þeirra færi annað hvort til Evrópu eða austurstrandar N-Ameríku. Hugsanlega yrði þá reist stór umskipunarhöfn á Íslandi.
Íslendingar virðast almennt eiga erfitt með að gleypa þá hugmynd að hætta geti stafað af hlýnandi loftslagi. Sem er auðvitað ekki skrýtið, því hugsanlega verða Íslendingar sú þjóð sem mest hagnast á loftslagsbreytingum. Það er þó alls ekki víst; ennþá eru t.d. uppi kenningar um að Golfstraumurinn muni sveigja af leið og á Íslandi komi til með að kólna stórkostlega. Ég held þó að flest okkar séu nokkuð bjartsýn um að við séum u.þ.b. að detta í lukkupottinn.
Loks vil ég þakka öllum lesendum samfylgdina. Og takk fyrir athugasemdir og ábendingar. Ég hlakka til að koma heim. Á Klakann góða.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:32 | Facebook
Athugasemdir
Leiðinlegt að heyra að þú sért að hætta með Orkubloggið. Þess verður saknað.
Sigurður H. Markússon (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 08:54
Komdu aftur, þetta hefur verið fróðleg og skemmtileg lesning þótt ég hafi ekki alltaf verið aaalveg sammála þér...
Klakinn bíður með heitan faðm.
Lára Hanna Einarsdóttir, 18.8.2008 kl. 10:07
Ég þakka fyrir góða pistla og lifi í vonini að þú takir upp þráðinn eftir að þú kemur á Klakann.
Hafsteinn (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 10:15
þakka líka fyrir mig, skemmtilegt sjónarhorn og eina bloggið sem ég hef lesið reglulega.
Baldvin Kristjánsson, 18.8.2008 kl. 10:40
Takk fyrir frábæra pistla. Þetta er sennilega mest fræðandi blogg sem ég hef lesið. Vonandi tekur þú upp þráðinn aftur síðar.
Bjarki Sigursveinsson (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 11:45
Kem til með að sakna Orkubloggsis, því það hefur verið það áhugaverðasta bloggið að mínum dómi. Vona þér snúist hugur og haldir áfram.
Takk f. mig. HH
haraldurhar, 18.8.2008 kl. 11:56
Það verður helvítis eftirsjá í þessu bloggi
Einar Örn (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 12:06
Ég þakka fyrir mig :) vonandi sjáum við þig blogga aftur, mjög fróðlegir og gagnlegir pistlar.
Ég var reyndar búinn að því áðan en moggabloggið er með einhverja stæla þessa dagana.
Óskar Þorkelsson, 18.8.2008 kl. 12:21
Leiðinlegt að heyra að sá besti í þessum blogg-bransa sé að hætta. Ég vona að þetta sé bara stutt hvíld hjá þér. Takk fyrir mig.
David Gudmundsson (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 13:11
Bestu þakkir fyrir góðar kveðjur. Maður á auðvitað aldrei að segja aldrei. Ekki frekar en James Bond. Orkubloggið kann að vakna aftur einhvern daginn. En nú skal tekið gott frí frá bæði bloggi og hversdagsleikanum öllum. Þangað til mann byrjar að þyrsta í þær veigar á ný.
Ketill Sigurjónsson, 18.8.2008 kl. 16:17
Gangi þér allt í haginn og innilegar þakkir fyrir innleggið sem hefur verið stórskemmtilegt og fræðandi. Vonandi fær maður að fylgjast með þér í framtíðinni.
Ingo Bergsteinsson (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 22:08
Þökk fyrir fróðlega pistla - olían og orkuöflun heimsins eru og verða hitamál. Í lokin - ágæt grein í NY Times um breytt, pólitískt landslag olíuheisins.
Ásgeir Kristinn Lárusson, 19.8.2008 kl. 08:17
Þú gætir nú laumað inn eins og einum pistli á viku.
Takk annars fyrir góða pistla.
Júlíus Sigurþórsson, 19.8.2008 kl. 21:12
Þakka þér Ketill, fyrir þitt framlegg til þess að færa blogg upp á alvöru fræðandi plan. Þessi orkumál verða aðalmálin í framtíðinni, þannig að þú hefur sannarlega ekki sagt þitt síðasta orð í þessu.
Ívar Pálsson, 24.8.2008 kl. 12:32
Þakka þér meistari!
Ég treysti því að þú leyfir þessu að lifa í netheimum. Ég á margt eftir ólesið.
Svavar
svavar hávarðsson (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 16:55
Takk fyrir afar áhugavert blogg. Satt að segja veitir ekkert af þessu inn í bloggflóruna hér heima, sem sannast sagna snýst meira um magn en gæði.
Þú gætir eflaust fengið hugleiðingar prentaðar á t24, hafir þú áhuga á því (sagt án ábyrgðar).
Endilega leyfðu þessu að standa í einhvern tíma.... svo leikmenn einsog ég geti tekið inn fróðleik í smáskömmtum.
Þrándur
Þrándur (IP-tala skráð) 7.9.2008 kl. 18:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.