Einstök tækifæri Íslendinga

Nú hefur Helgi Hjörvar sett fram þá hugmynd að selja Kárahnjúkavirkjun. Eða a.m.k. leigja reksturinn með einhverjum hætti. Erfitt er að trúa því að honum sé alvara - enda uppátektarsamur rétt eins og Emil í Kattholti. En þessi hugmynd fær kannski fólk til að hugsa um það, hvert raunverulegt verðmæti virkjunarinnar sé.

Karahnjukar_PowerHouse

Ef Kárahnjúkavirkjun á eftir að "mala gull um ókomin ár", eins og sumir segja, hljóta fjárfestar að vera tilbúnir að greiða himinháar fjárhæðir fyrir þennan rekstur. Sem ríkið gæti nýtt til góðra verka. Í stað þess að þjóðin sjái aldrei í hvað nákvæmlega þessar miklu tekjur af orkusölunni fara.

Hvernig myndi virkjunin starfa, væri hún í eigu einkaaðila? Yrði þá kannski ekki lengur eftirsóknarvert að orkan færi til stóriðju við Reyðarfjörð? Eru til kaupendur, sem væru tilbúnir að greiða mun hærra verð fyrir orkuna? Er álversstefnan kannski bara miðstýrð stóriðjustefna í sovétstíl, þar sem ekki er hugað að því að hámarka arðinn af auðlindum þjóðarinnar?

Sjálfur álít ég að íslenskt efnahagslíf sé orðið um of háð álverði. Eins og önnur hrávara, sveiflast álverð gífurlega. Eins og sjá má á grafinu hér til hliðar, sem sýnir álverð síðustu 12 mánuðina. Þegar svo stór hluti þjóðartekna kemur frá orkusölu til áliðnaðarins og orkuverðið er tengt álverði, er hætt við að stöðugleiki í íslensku efnahagslífi náist seint. Stöðugleikinn sem margir jarma nú eftir að fá, kemur ekki með meiri stóriðju. Það veit Jónas Haralz og það veit Orkubloggið.

En til allrar hamingju eru góðir möguleikar á að fjölbreytni muni brátt aukast í íslenskum iðnaði. Nýlega skrifaði Össur iðnaðarráðherra undir samstarfssamning við Mitsubishi um metanólvinnslu. Réttara sagt hyggst Mitsubishi nýta metanólið til að framleiða eldsneyti, sem nefnt er dimethyl-ether eða DME.

Þetta eldsneyti hefur þá frábæru eiginleika að það getur leyst af hólmi díselolíuna í t.d. skipum og flutningabílum. Reyndar er óvíst að ganga þurfi svo langt að vinna DME úr metanólinu. Metanólið sjálft má nýta sem eldsneyti og jafnvel líka á smærri bíla.

CRI_tech

Snilldin i þessu felst í því að metanól má vinna úr koldíoxíði (CO2). Og þetta CO2 fæst t.d. sem útblástur frá stóriðju. Enn betra er þó að nýta CO2 losunina frá jarðvarmavirkjununum. Fjárans álverin eru nefnilega orðin svo tæknilega fullkomin, að CO2 losunin frá þeim mun vera helst til lítil til að vera grunnur að metanólframleiðslu.

En hvaðan svo sem CO2 er tekið er málið þetta: Unnt er að nýta koltvíoxíðið til að framleiða eldsneyti fyrir bíla- og skipaflotann. Um leið minnkar losun á CO2 umtalsvert; það sem annars hefði farið útí andrúmsloftið verður að metanóli. Tvær flugur í einu höggi; minni losun á CO2 og innlendur orkugjafi í stað innfluttrar olíu og bensíns. Er hægt að biðja um meira?

cri_logo

Það er auðvitað frábært að Mitsubishi hafi áhuga á slíku verkefni á Íslandi. En það sem er kannski nærtækara að benda á, er að til er íslenskt fyrirtæki sem um nokkurt skeið hefur verið að undirbúa metanólframleiðslu frá jarðvarmavirkjun Hitaveitu Suðurnesja á Reykjanesi. Það nefnist Carbon Recycling International og er með afar öflugt teymi á bak við sig. Fram til þessa hefur CRI verið fremur low profile og unnið markvisst að undirbúningi metanólverksmiðjunnar. Spennandi verður að fylgjast með þessu verkefni næstu mánuðina og misserin.

Undanfarið hefur mikið verið talað um að Ísland verði brátt rafmagnsbílaland. Það væri snilld. En ég er ekki alveg að kaupa þá hugmynd. Rafmagnsbílarnir hafa verið handan við hornið nánast svo lengi sem ég man eftir mér. Hér í Den sá maður ófáar fréttir þar um hjá þeim Örnólfi Thorlacius og Sigurði Richter í Nýjustu tækni og vísindum. En eitthvað lætur þessi tækni standa á sér.

Think_Car

Sorgarsaga norska fyrirtækisins Th!nk Global er enn eitt dæmið um erfiðleika rafmagnsbílanna. Þar á bæ ætluðu menn að nýta plast og framfarir í rafhlöðutækni til að gera drauminn að veruleika. Hugmyndin sem fæddist hjá honum Lars Ringdal í orkukreppunni snemma á 8.áratugnum varð að fyrirtækinu Pivco og síðar nefnt Th!nk. Prótótýpan að þessum netta rafbíl átti að slá í gegn á Ólympíuleikunum í Lillehammer 1994, en ævintýrið endaði með gjaldþroti. Þá kom Ford til sögunnar og tók hugmyndina upp á sína arma, en gafst upp og seldi fyrirtækið til Svissara. Sem vissu ekki nokkurn skapaðan hlut hvað þeir ættu að gera við þetta konsept.

En kannski eru nú bjartari tímar framundan hja Th!nk. Norski milljónerinn og sólarorkumeistarinn Jan-Olaf Willums keypti fyrirtækið fyrir tveimur árum og færði það aftur heim til Noregs. Og nú er margt að gerast hjá Th!nk. Samningur við Google um nota bílinn í Googleplexinu, nýjar lithium-rafhlöður frá Indverjunum í Tesla og nýtt fjármagn frá General Electric. Óneitanlega hafa horfurnar aldrei verið bjartari hjá Th!nk.

Methanol_Beyond Oil and Gas

Ég myndi samt fremur veðja á metanóltæknina. A.m.k. næstu áratugina, þar til rafbílar eða vetnisbílar verða raunverulegur valkostur. Að breyta eldsneytisnotkuninni yfir í metanól er líka miklu einfaldari og umfangsminni framkvæmd. Og rafbíladótið sér enn ekki lausn á að geta keyrt langar leiðir á hleðslunni og verður vart annað en smákríli í miðbæjarsnatti um langa framtíð. Rafbílar eru auðvitað hið besta mál - en sú tækni kemur lítt að notum þar sem brennslan er mest. Í skipum og stórum bílum.

Um leið og góð lausn hefur fundist á tæringarvandamálinu tengt metanóltækninni, verður sáraeinfalt mál að skipta olíu og bensíni út fyrir metanólið. Slíkt hefði ekki bara mikla þýðingu fyrir Ísland. Ímyndið ykkur hvað þetta fellur vel að orkustefnu Evrópusambandsins. Þar á bæ eru menn að kikna undan innfluttri orku. ESB myndi taka metanólinu með miklum fögnuði. Að fá nýjan evrópskan orkugjafa í hendurnar, sem getur nýtt núverandi bílaflota án umtalsverðra breytinga - og notað dreifikerfið sem þegar er fyrir hendi. Menn þar á bæ munu vart trúa sínum eigin eyrum og augum.

Þar að auki verður þessi orkuframleiðsla til að draga verulega úr losun á CO2. Hreint frábær áfangi í átt að betri orkunýtingu og orkusjálfstæði Evrópu.


mbl.is Sóknarfæri að selja virkjanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Brasilíumenn hafa lengi notað etanól á bíla. Ég hygg að etanólið sem þeir nota á bílana sé blandað bensíni.

En etanól er vel að merkja ekki hið sama og metanól. Og að drekka metanól er stórhættulegt og getur leitt til dauða. Þannig að metanólið hefur það umfram etanólið, að menn freistast ekki til að súpa á veigunum!

Metanól yrði reyndar heldur ekki notað óblandað á bíla. En yrði í mjög háu hlutfalli.

Ketill Sigurjónsson, 24.9.2008 kl. 10:30

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

ef þér finnst íslendingar of háðir áli hvað þá um þessa hugmynd Helga að selja álfyrirtækjum virkjanirnar? Ekki getur það verið spor í þá átt að gera okkur óháðari sveiflum á álmarkaði.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 24.9.2008 kl. 13:01

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Orkuverð frá Kárahnjúkavirkjun mun vera tengt álverði. Svo segir Landsvirkjun. Þess vegna hvílir áhættan af verðsveiflunum á Landsvirkjun, þ.e. þjóðinni.

Ef virkjunin yrði seld eru Íslendingar lausir við þá áhættu. Og gætu sett fjármagnið í eitthvað þarfara - t.d. kannski farið að útvega almenningi þokkalega heilbrigðis- og menntaþjónustu.

Það þyrfti ekki að selja allt í einu. Það voru mestu mistökin t.d. í einkavæðingu bankanna. Betra að gera þetta í smærri skömmtum. T.d. ætla Danir að selja Dong Energi. En danska ríkið mun þó eiga meirihlutann í fyrirtækinu í marga áratugi í viðbót. Einkavæðing þarf nefnilega ekki að vera einkavinavæðing.

En því miður er ég hræddur um að seint fengist áættanlegt verð fyrir virkjunina. En hver veit? Eina leiðin til að komast að því, er að setja dótið í sölu. Rétt eins og við munum aldrei vita fyrir víst hvað fengist við aðild að ESB, nema fara í formlegar samningaviðræður. Því miður er stjórnmálaumræða á Íslandi á svipuðum nótum og þegar höndlað er með notaða bíla úti á plani. Tölur nefndar út í loftið og sparkað í dekkin.

Ketill Sigurjónsson, 24.9.2008 kl. 13:18

4 Smámynd: Gunnlaugur Þór Briem

„nýjar lithium-rafhlöður frá Indverjunum í Tesla“

Einhver smáruglingur þar á ferðinni ... þótt sjálfsagt vinni margir Indverjar hjá Tesla Motors er það bandarískt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Silicon Valley í Kaliforníu. Tata Motors er hins vegar indverskt.

Gunnlaugur Þór Briem, 24.9.2008 kl. 13:47

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Reyndar mun Th!nk hafa átt i einhverjum vandræðum með Tesla. Og ku þess vegna hafa snúið sér til A123-Systems í staðinn. Sem er að hluta til í eigu GE.

Ketill Sigurjónsson, 24.9.2008 kl. 14:04

6 Smámynd: Sævar Helgason

Ég er þeirrar skoðunar að við séum nú þegar komin í hámark með áliðnaðinn í landinu- þá er Helguvík og Bakki ekki meðtalinn. Á þeim 36 árum sem ég starfaði í áliðnaðinum hér frá árinu 1969 voru verðsveiflur gríðarlegar og lágmörkin fóru niður undir 1000 USD/tonn  . Nú um stundir hefur verðið verið í hæstu hæðum um 3500 USD/tonn . Það hefur síðan fallið á síðustu mánuðum um 25 % .  Orkuverð okkar er tengt álverði og því ljóst að miklar verðsveiflur verða um leið miklar óstöðugleikasveiflur hjá okkur. Þetta skipti ekki stóru máli meðan eitt álver var inni í myndinni með um 180 þús tonn/ári en vigtar mikið þegar framleiðslan er um 800 þús- 1 milljón tonn /ári.

Við eigum að dreifa áhættunni meira í orkusölunni.

Góðar greinar hjá þér , Ketill. 

Sævar Helgason, 24.9.2008 kl. 19:59

7 identicon

Sæll Ketill,

Nú þegar er hægt að kaupa metan á íslandi fyrir farartæki og unnt er að kaupa "breytingarbúnað" fyrir bensínbíla á netinu.  Mér er hins vegar tjáð að sá galli sé á gjöf Njarðar að samkvæmt ströngustu reglum þarf að endurkvarða mengunarvarnarbúnað bílanna og slíkur búnaður er ekki til á Íslandi. 

Bilar sem brenna metani á Íslandi séu því ekki löglegir skv Evrópubandalagsreglum þrátt fyrir að sérhver maður hljóti að sjá að mengunin frá þeim sé minni.  Í raun má því búast við að þeir verði teknir úr umferð hvenær sem er.

Sé þetta satt sem hermt er þá er það enn eitt dæmið um það hversu langt löggjafinn er á eftir tækninni og í stað þess að ryðja veginn fyrir nýja orkugjafa, þá í raun hindrar lagaumhverfið þróun.

Annað dæmi um farartæki sem "týnd" eru í lagaumhverfinu eru rafmagnsdrifin reiðhjól með mótor yfir 250W.  Hugsanlegt er að þetta afl sé nægjanlegt í flötu landslagi en takmörkun á afli en ekki hámarkshraða veldur því að slík farartæki eru illa nothæf í brekkulandslagi eins og á Íslandi. 

Magnús Oddsson (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 03:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband