Flugið heillar

Þessi frétt Moggans í gær um tóma vél Icelandair gæti gefið tilefni til að spá aðeins í þá sérkennilegu samninga, að seljendur félagsins hafi samið um ævilangar fríar flugferðir fyrir sig og sína á Saga Class. Sem ég afskaplegt bágt með að trúa - en er fullyrt í fjölmiðlum. Ég ætla þó að sleppa að kommenta á þá undarlegu frétt. En langar samt að staldra aðeins við flugið. Sem lengi hefur heillað mig eins og ýmsa fleiri.

Orkubloggið er þeirrar skoðunar að metanól sé líklega besti kosturinn, sem nýtt eldsneyti í samgöngugeiranum. Og muni leysa díselolíu af hólmi, m.a. í skipum og flutningabílum. Og kannski líka í smærri bílum. En hvað með flugið?

Hlutfall eldsneytisverðs af rekstrarkostnaði flugfélaga hækkaði að meðaltali úr 16% árið 2004 í 29% árið 2007. Og verður líklega um 36% 2008! Samkvæmt upplýsingum frá IATA.

Airplane_vapor

Flugið er þó undanskilið Kyoto-bókuninni og flugfélög bera því engan kostnað vegna kolefnislosunar. Engu að síður má rekja stóran hluta kolefnislosunar af manna völdum til flugvéla. Útblástur frá flugsamgöngum mun vera um tíundi hluti allrar kolefnislosunarinnar í helstu iðnríkjunum.

Talsverðar líkur eru á að flugið verði ekki undanskilið losunartakmörkunum í þeirri alþjóðasamþykkt, sem mun leysa Kyoto-bókunina af hólmi. Og á að gilda eftir 2012 (Evrópusambandið hyggst taka slíkt kerfi upp fyrir flugið, sama hvernig fer í alþjóðaviðræðunum). Þetta, ásamt hækkandi eldsneytisverði, hvetur til þess að horfið sé frá notkun steinolíu í flugi. Og fundið nýtt eldsneyti til að knýja hreyflana.

Reyndar mun flugvélaeldsneyti ekki vera nákvæmlega hið sama og venjuleg steinolía. En mjög svipað. Það sem almennt er notað til að koma þotum í loftið er kallað Jet A. Einnig er notað annað afbrigði, Jet B, á flugvélar sem athafna sig á flugvöllum þar sem mikið frost er. Það eldsneyti er t.d. talsvert notað á flugvélar í Kanada, en hefur þann galla að vera miklu mun eldfimara og því varasamara. Hvort tveggja er mjög líkt steinolíu. Og allt er þetta auðvitað unnið úr hráolíu, rétt eins og bensín og díselolía.

Nú er leitað leiða til að þróa nýtt eldsneyti á flugvélar. Það eldsneyti sem nú er einkum horft til fyrir flugið, er lífrænt eldsneyti (biofuel). Þetta er þó ekki svona einfalt. Í dag kann lausnin að vera af tvennum toga - og í reynd eru möguleikarnir nokkuð margir: 

virgin-biofuel

Orkubloggið hefur áður sagt frá Virgin-breiðþotunni hans Richard Branson's, sem flaug nýlega á kókoshnetuolíu, sem sullað var saman við eitthvert annað slíkt olíugums. Reyndar var venjulegt flugvélabensín á hinum þremur hreyflunum - spurning hvort kókoshnetu-hreyfillinn hafi nokkuð verið settur í gang? Hm... Branson er a.m.k. meistari fjölmiðlaathyglinnar - og alltaf flottur. Draumurinn er auðvitað að fá lánaða einkaeyjuna hans í Karíbahafinu.

Svona kókoshnetuolía - eða annað lífrænt eldsneyti - er einmitt annar helsti möguleikinn til að leysa flugvélabensin af hólmi.

Hinn möguleikinn er að nota aðferðir efnafræðinganna Franz Fischer og Hans Tropsch. Þessir snillingar, sem áttu blómatíma sinn í upphafi 20. aldar, fundu upp aðferð til að umbreyta kolmónoxíði og vetni yfir í fljótandi eldsneyti, sem m.a. má nota á flugvélar. Þetta gæti senn orðið ódýrara eldsneyti en flugvélabensínið, því undirstaðan er ekki olía heldur t.d. kol eða gas. En gallinn er sá að þetta myndi stórauka kolefnislosunina. Þannig að sennilega getum við gleymt þessum möguleika.

sasol_logo

Engu að síður er þetta eldsneyti framleitt í dag - og hefur meira að segja verið notað á flugvélar. Það er fyrirtæki í Suður-Afríku, sem stendur hvað fremst í þessum iðnaði. Það nefnist Sasol - og er skráð á hlutabréfamarkaðnum í New York, ef einhver skyldi vilja veðja á þennan bisness.

Hins vegar er möguleikinn að nýta lífrænt eldsneyti - t.d. kókoshnetuolíu. Þ.e. eldsneyti sem unnið er úr lífverum. Sem kunnugt er, gæti slík eldsneytiframleiðsla orðið í samkeppni við matvælaframleiðslu. Sem þykir ekki gott.

En menn eins og ég, sem trúa því að tæknin og blessaður kapítalisminn séu næstum jafn sterk öfl eins og kynhvötin, vita að lausnin mun finnast. Þegar hafa verið tekin stór skref í átt að því að finna lífrænt eldsneyti fyrir flugvélar. Til að gera langa sögu stutta virtist lengi vel sem kostnaðurinn kæmi í veg fyrir að þetta verði raunverulegur valkostur. En nú er að koma fram s.k. þriðju kynslóðar biofuel fyrir flugvélahreyflana.

algae-oil-farm

Lykilorðið er þörungar. M.ö.o. að rækta þörunga og vinna eins konar steinolíu úr þörungunum. Stefnan er að þörungarnir verði ræktaðir á svæðum, sem alls ekki henta undin neina hefðbundna ræktun. 

Kostnaðurinn við framleiðslu flugvelaeldsneytis úr þörungum er óviss. En gæti verið allt að helmingi minni en núverandi eldsneytisverð! Og þörungarnir kunna að gefa allt að 250-sinnum meiri orku en t.d. fæst frá sojabaunum. Sem í dag eru algengar sem grunnur í lífrænu eldsneyti. Þannig að kostirnir við þörungana eru miklir.

IATA hefur það markmið að innan 10 ára muni a.m.k. 10% af flugvélaeldsneytinu verða eldsneyti úr þörungum - eða öðrum lífverum sem ekki skipta miklu fyrir fæðuframboð né hefði umtalsverð neikvæð áhrif á umhverfið. Og t.d. hefur hollenska flugfélagið KLM tilkynnt að það muni byrja að nota þörungaeldsneyti strax árið 2010. Þeir segjast reyndar ætla að byrja á að reyna þetta á "Íslendingavélunum" Fokker 50. Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig til tekst.

Líklega er helsta ógnunin við þessa þróun, að Sádarnir taki sig til og stórauki olíuframboð - svo olíuverðið snarlækki í 50 dollara. Þetta er reyndar sú skemmtilega áhætta sem allur endurnýjanlegi orkugeiinn býr við, víðast hvar um heiminn.

 

-------------------------------------------------------------------

Úr því ég er að skrifa um flug, langar mig í örfáum orðum að minnast hans Helga Jónssonar, flugmanns. Helgi rak flugskóla á Reykjavikurflugvelli um áratugaskeið og var líka mikið í flugi til Grænlands. Hann varð bráðkvaddur vestur í Ketildölum fyrir örfáum vikum.

Cessna_152

Ég lærði að fljúga á Cessnunum hans Helga á sínum tíma - þó með aðra flugkennara (tók reyndar bóklega hlutann hjá Flugtaki). Sérstaklega eru mér minnisstæðar nokkrar snjóavikur snemma árs 1986. Var þá stundum talsvert verk að moka frá flugskýlinu, svo draga mætti relluna út á ísilagt planið. Svo var sett í gang og ýmsar kúnstir æfðar - oftast yfir Kapelluhrauni eða Hólmsheiði.

Stundum var skotist suður á Miðnesheiði og nokkrar snertilendingar teknar á Keflavíkurflugvelli. Maður hafði reyndar á tilfinningunni að flugumferðarstjórarnir í flugturninum á Vellinum hefðu gaman af þessum heimsóknum. Líklega ágæt tilbreyting á fremur dauflegum dögum, meðan beðið var eftir síðustu Flugleiðavélunum frá Ameríku.

Það var svolítið skrítin tilfinning að skríða þarna inn á "Halldóri Inga" (TF-FHI), eftir farþegaþotu frá Flugleiðum eða einni öskrandi F15 frá hernum. Þá gat Cessnan henst hressilega til í ókyrrðinni eftir þotuna. Og brautirnar í Keflavík voru eitthvað svo fáránlega langar fyrir litlu Cessnuna - maður hefði næstum getað lent þvert á braut! Svo var stundum mikið kapphlaup - eða öllu heldur kappflug - við éljabakkana a leið aftur til Reykjavikurflugvallar. Þá gat munað mjóu, enda vélin eins og lauf í hvirfilbyl ef hún lenti inní slíku éli. En alltaf gekk þetta farsællega og aldrei lenti ég í neinum bilunum né óhöppum í flugnáminu hjá þeim Helga og Jytte.

Flugskoli_Helga

Helgi var jafnan tilbúinn með komment á lendinguna, þegar maður renndi flugvélinni inná planið við flugskólann, austur undir Öskjuhlíðinni. Svo sem hvort maður hefði verið að "reyna að klippa ofan af grenitrjánum". Ef maður hafði komið helst til lágt yfir hlíðina á leið inn á braut 31. Og kímdi.

Henti svo bananakassa og appelsínum inní Mitsubishi-vélina og flaug til Kulusuk. Já - hann Helgi Jónsson er afskaplega eftirminnilegur karakter. En mér fannst stundum svolítið kuldalegt að horfa a eftir vélinni til Grænlands - fannst vanta að kallinn væri í hlýjum og góðum, gamaldags flugmannajakka! Sjálfur átti maður auðvitað einn slíkan - enda dreymdi mann t.d. um framtíðarævintýri á sjóflugvélum í Alaska.

ketildalir2

Helgi var ættaður úr Ketildölunum rétt eins og ég. Og var þar í góðra manna hópi að vinna að endurbyggingu í Selárdal. Þar sem verkin hans Samúels Jónssonar eru líkt og punkturinn yfir i-ið í þessum fallega og afskekkta dal. Ketildalirnir eru auðvitað einhver fallegasti staður á Íslandi. Og ekki síður nafnið, auðvitað!  


mbl.is Vélinni flogið tómri heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

athyglisverður pistill að vanda.. 

Ég stend í matvælainnflutningi , aðallega hrávöru til innlendrar matvælaframleiðslu. í þessum innflutningi er merkjanleg hækkun sem rekja má eingöngu til Biofuels.. svo ég er ekki hrifinn af slíkum hugmyndum enn sem komið er.  

Óskar Þorkelsson, 26.9.2008 kl. 13:59

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þörungaolían á einmitt að vera lausn á þessu. Í stað þess að flugið fari að keppa á hinum hefðbundna biofuel-markaði.

Ketill Sigurjónsson, 26.9.2008 kl. 14:19

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ahh.. það er nýtt fyrir mér væri gaman að sjá upplýsingar um það dæmi. 

Algie oil ? 

Óskar Þorkelsson, 26.9.2008 kl. 14:24

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Einmitt. Algae. Þessu er gjarnan lýst sem 3ju kynslóð af lífrænu eldsneyti. Fyrsta kynslóðin er það sem við þekkjum í dag og er einkum unnið úr ýmsum korntegundum. Eins og hveiti og maís. Og því í samkeppni við matvælamarkaðinn. Önnur kynslóðin er úr öðrum akuryrkju-plöntum, sem almennt eru ekki nýttar til fæðuframleiðslu. Þörungaolían er svo þriðja kynslóðin í þessari tækni.

Ketill Sigurjónsson, 26.9.2008 kl. 14:43

5 Smámynd: HP Foss

Já, ég var nú ekki búinn að staðsetja nafnið þitt vestur.

HP Foss, 26.9.2008 kl. 15:16

6 identicon

Smávægileg leiðrétting á annars flottum pistli JET A1 en ekki JET A er það sem núverandi eldsneyti heitir

stefán (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 00:20

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Maður er auðvitað eins og hvur annar umskiptingur að vera alinn upp austur í Skaftafellssýslu, en vera kominn af Vestfirskum galdramönnum. Og hef þar að auki aðallega eytt síðustu 20 árum í Reykjavik. Afleiðingarnar eru auðvitað m.a. að maður þekkir ekki í sundur A og A!

Ketill Sigurjónsson, 28.9.2008 kl. 22:32

8 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

...A1!

Ketill Sigurjónsson, 28.9.2008 kl. 22:32

9 identicon

Fallega skrifað um Helga Jónsson. Takk fyrir skemmtilegt blogg.

Björgúlfur Þorsteinsson.

Björgúlfur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 00:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband