Mikil gleði í Mosdalnum

Carbon_Price_300908

Rétt eins og forstjóra kjarnorkuversins fallega í Springfield, Mr. Burns, gleður það mitt svarta hjarta að álverin á Íslandi skulu nú hafa fengið þennan góða ríkisstyrk. Ókeypis losunarheimildir upp á rúm 700 þúsund kolefniskredit. Enda vart hægt að ætlast til þess að smásjoppur eins og Alcoa, Century Aluminum eða Rio Tinto  þurfi að borga fyrir koldíoxíðlosunina. Svona til samanburðar má sjá hvað kolefniskreditin hafa verið seld á annars staðar í Evrópu síðustu vikurnar. Á grafinu hér til hliðar. Verðið er i evrum pr. tonn.

Aluminum_Producers

Rio Tinto er stærsti álframleiðandi heims og Alcoa er í þriðja sæti (Rusal er þarna á milli). Og CO2 er nú einu sinni lífsnauðsynlegt fyrir ljóstillífun. Sem endar svo á súrefnisframleiðslu til handa okkur og öðrum dýrum náttúrunnar. Eiginlega ættum við að borga þeim fyrir þessi góðverk, að losa svona mikið koltvíildi lífríkinu til handa.

Hluthafar Alcoa, Rio Tinto og Century Aluminum ættu nú samt að hafa eitt í huga. Og um leið jafnvel hugsa hlýlega til okkar Íslendinga. Á markaðnum er verðmæti þessara losunarheimilda, sem fyrirtækin hafa nú fengið afhentar, rúmar 16 milljón evrur. Miðað við gengi gærdagsins á evrópska kolefnismarkaðnum í London.

Það jafngildir um 2,4 milljörðum af íslenskum krónuræflum. Þar af fékk Norðurál sem samsvarar verðmæti 1,8 milljarða króna. Býst við að þeir setji eitthvað af þeim fjármunum í... t.d. uppbyggingu á metanólframleiðslu á Íslandi. Og hananú. Þá væri kerfið a.m.k. að gefa eitthvað vitrænt af sér.

Simpsons_Burns

Já - þetta var fallega gert af henni Siggu bekkjarsystur minni úr lagadeild og öðrum í Úthlutunarnefnd losunarheimilda. Og það er aldeilis fínn bisness að byggja álver á Íslandi. Ókeypis losunarheimildir og ríkisstyrkt orkuframleiðsla. Mér er sagt að þetta kallist íslenskur kapítalismi. Og nú síðast höfum við á ný fengið okkar eigin ríkisbanka. Marteinn Mosdal hlýtur að vera himinlifandi. Jafnvel enn glaðari en Mr. Burns.

Svona til gamans má nefna að í Bandaríkjunum - landinu sem ekki er aðili að Kyoto-bókuninni og ber þar af leiðandi engar lagalegar skuldbindingar til að stýra losun á CO2 eða öðrum s.k. gróðurhúsalofttegundum -  var einmitt verið að halda fyrsta uppboðið á losunarheimildum.

Þar á uppboðinu á vegum Regional Greenhouse Gas Initiative, voru í síðustu viku seld 12,5 milljón kolefniskredit á samtals 38,5 milljón USD. Sem gera um 3 dollara fyrir tonnið. Það er auðvitað miklu lægra verð en er í Evrópu (úps - ég meina í Evrópu utan Íslands). Enda um að ræða markað sem ekki er háður alþjóðlegum reglum. Samt enn betra að vera á Íslandi. Þar sem stöffið fæst frítt.

rggi_logo

PS: Lesa má um bandariska kolefnislosunarkerfið og uppboðið hér:  www.rggi.org


mbl.is Þrjú fyrirtæki fá losunarheimildir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góður pistill , ég hafði ekki hugsað út í þetta atriði með losunarheildirnar.. íslendingar virðast vera fífl í viðskiptum.

Óskar Þorkelsson, 1.10.2008 kl. 17:48

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Til að sanngirni sé gætt, hefur það reyndar líka tíðkast í EB að afhenda fyrirtækjum kolefniskvóta frítt í fyrstu atrennu.

Aftur á móti er Ísland mörgum árum á eftir i að þróa virkan markað með slíkar losunarheimildir. Og meðan losunarheimildir eru fríar og ríkið niðurgreiðir orku til stóriðju, myndast ekki eðlilegt samkeppnisumhverfi á Íslandi.

Afleiðingin er vanþróaður iðnaður - t.d. öfugt við Danmörku þar sem margvíslegur iðnaður blómstrar og lifir góðu lífi.

Ketill Sigurjónsson, 1.10.2008 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband