Orkuboltinn Ísland

Aftur a byrjunarreit? Í kjölfar bankahrunsins heyrast nú ýmsir segja að Ísland hafi hrokkið 25 ár aftur í tímann. Og nú muni íslenskt efnahagslíf á ný byggjast a fiski. Það hefur jafnvel heyrst talað um uppbyggingu i landbúnaði. Geisp. Og auðvitað hljómar söngurinn um fleiri álver.

back_to_the_future-1

The wonderful eighties! Já - þá átti Orkubloggið góða daga. Þannig að kannski er þetta stökk aftur í tímann bara hið besta mál. En auðvitað er tóm della að setja málið svona fram. Tækninni hefur fleygt fram og olíuframleiðsla kann að hafa náð hámarki. Umhverfisvitund almennings hefur gjörbreyst frá því fyrir 25 árum.

Nú liggja stóru tækifærin í endurnýjanlegri orku. Eins og Orkubloggið hefur oft áður sagt frá, rísa nú stór vindorkuver og sólarorkuver víða um heim. Sem framleiða rafmagn. En ennþá vantar nýjan orkugjafa í samgöngugeirann. Þar kunna að verða miklar breytingar á tiltölulega stuttum tíma.

Ennþá er nokkuð langt í að rafmagnsbílar verði raunhæfur kostur. Líklega nokkrir áratugir. Vetnistæknin er heldur ekki að bresta á. Ennþá langt á það.

Í millitíðinni þurfum við samt ekki að sitja uppi með að vera háð innfluttu bensíni og díselolíu. Til eru íslensk fyrirtæki sem búa yfir tækniþekkingu og mannviti til að framleiða eldsneyti, sem má nýta á hefðbundnar bensínvélar. Metanól.

Í upphafi yrði hlutfall metanóls i eldsneytinu ekki ýkja hátt. En engu að síður yrði það lykilatriði í að ná að minnka bensíninnflutning um t.d. 10% á stuttum tíma. Og metanólið er framleitt úr koltvíoxíði, svo metanólframleiðslan leiðir til minni kolefnislosunar. Þetta eldsneyti er því mikilvægur hlekkur í að ná skuldbindingum Kyoto-bókunarinnar. Útlit er fyrir að hlutfall metanóls á móti bensíni geti hækkað mjög á fáeinum árum. Einnig er líklegt að fljótlega megi nýta metanóltæknina til að framleiða eldsneyti á díselvélar. Skip og flutningabíla. Loks eru hraðar framfarir í því að nýta metanól í efnarafala, þ.a. metanólið verður líka mikilvægur orkugjafi þegar rafbílatæknin þroskast.

Carbon_Fuel

Nei - Ísland er ekki komið á byrjunarreit. Við erum miklu fremur á spennandi krossgötum. Ef stjórnvöld skynja tækifærin. Nú ættu stjórnvöld að setja í forgang að íslensk orka verði nýtt til að framleiða eldsneyti, sem minnkar þörfina á innfluttu bensíni og olíu og minnkar kolefnislosun. Um leið ykist fjölbreytnin í íslensku atvinnulífi. Erlent fjármagn kæmi inn í landið - og myndi ekki sitja eitt að kökunni heldur vinna með skynsömum og þolinmóðum íslenskum fjárfestum (en ekki fjárglæframönnum) Og ný störf yrðu til. Rétt eins og þegar álver er byggt - nema hvað þessi fjárfesting og þessi störf munu vekja hrifningu alþjóðasamfélagsins og gera Ísland að hinni fullkomnu fyrirmynd í orkumálum framtíðarinnar.


mbl.is Helstu spár: Evrópa hlýnar hraðar en meðaltal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Back to basic!  Á maður ekki bara að kaupa sér jörð í hvelli og fara að sinna búandhokri?  Ég væri alveg til í að búa í sveit aftur.

Vilborg Traustadóttir, 8.10.2008 kl. 09:36

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Alveg sammála þér með að við erum með fullt af tækifærum í hendi.. en miðað við hvernig íslensk stjórnvöld hafa klúðrað efnahagnum þá hef ég ekki stóra trú á að ísland verði fremstir á þessu sviði á næstu árum.. 

Óskar Þorkelsson, 8.10.2008 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband