8.10.2008 | 22:07
Rússajepparnir koma
Í fréttum af Rússaláninu segir að þreifingar þar um hafi byrjað í sumar. Í dag kom fram á heimasíðu RÚV að tveir ríkustu auðjöfrar Rússlands standi að baki því að lánið verði veitt. Heimildin fyrir þeirri frétt er sögð vera "hin virta" sjónvarpsstöð Ekho Moskvy.
Stöðin sú er að mestu í eigu fyrirtækis sem nefnist Gazprom Media. Og eins og nafnið gefur til kynna er þetta dótturfyrirtæki orkurisans Gazprom. Þar sem Pútín og fylgismenn hans ráða ríkjum. Það kemur því kannski sumum á óvart að RÚV kalli umrædda stöð "virta". Þegar hafðar eru í huga sögur um hvernig rússnesk stjórnvöld hafa leikið frjálsa fjölmiðlun í Rússlandi.
Hvað um það. Samkvæmt fréttinni eru þessir tveir ljúflingar, sem hafa komið því til leiðar að rússnesk stjórnvöld eru tilbúin til að skoða lán til Íslands, þeir Roman Abramovich og Oleg Deripaska (sem RÚV reyndar misritar Derepaska og gefur honum hinn hógværa titil "annar ungur milljarðamæringur").
Abramovich er Íslendingum auðvitað að góðu kunnur; eigandi Chelsea og hefur komið nokkrum sinnum hingað til Íslands. Hann hefur lengi verið talinn efnaðasti Rússinn. En með uppgangi og geysihröðum vexti rússneska álrisans Rusal kann Oleg Deripaska að hafa komist frammúr Abramovich á peningalistanum. Orkubloggið hefur áður nefnt þá fögru staðreynd að Rusal er stærsta álfyrirtæki heims. Ekki er lengra síðan en í gær að bloggið birti einmitt lógó þeirra Rusalmanna hér á Orkublogginu, í tengslum við Rússalánið. Þó svo á þeim tímapunkti hefði bloggið ekki minnstu hugmynd um að aðaleigandi Rusal stæði að baki láninu til Íslands. Nema kannski ómeðvitað! Því er nú ærið tilefni til að beina athyglinni að aðaleiganda Rusal; Oleg Deripaska. Sem kannski er nýjasti Íslandsvinurinn.
Í geggjuðu eignasafni Deripaska er meirihlutaeign hans í Rusal auðvitað kórónan. En hann á einnig ýmis önnur leikföng. Og eflaust hefðu Íslendingar gaman að tengjast sumum af þeim. Á ný. Þar stendur hjarta Orkubloggsins næst bílaframleiðandinn GAZ - eða Gorkí-bílaverksmiðjurnar dásamlegu. Sem á sínum tíma framleiddu bæði Rússajeppa og Volgu. Síðar tóku UAZ-verksmiðjurnar við framleiðslu Rússajeppanna, sem lengi sáust víða hér um landið. Ekki síst á 8. áratugnum. Já - ég verð bara hrærður við þá tilhugsun að eigandi GAZ láni okkur pening. Og reisi kannski Rússajeppaverksmiðju, t.d. við Gljúfrastein. Eða í Ketildölum?
Deripaska hefur verið "verðlagður" á um 30 milljarða USD af Forbes. Kannski hefur sú upphæð lækkað eitthvað nú þegar álverðið er á rússíbanareið niður á við. Sem er enn eitt lóðið á óhamingjuvog Íslands. Því raforkuverðið til álveranna hér mun vera tengt heimsmarkaðsverði á áli.
Líklega veit enginn nema Deripaska nákvæmlega hversu þykkt veskið hans er eða hvernig hann auðgaðist svo ofsalega. En hann veit allt um hina nýju íslensku landvætti; orku og ál.
En hver er þessi maður, sem bæði á stærsta álfyrirtæki heims og nokkrar af stærstu vatnsaflsvirkjunum Rússlands?Deripaska, sem er aðeins fertugur að aldri, var mikill námsmaður og útskrifaðist með eðlisfræðigráðu frá Moskvuháskóla skömmu eftir að kommúnisminn féll. Hann hóf störf í áliðnaðinum og varð fyrst stjórnandi í Sayanogorsk álverinu og síðar forstjóri í hjá iðnaðarfyrirtæki sem hét Sibirsky. Það varð á skömmum tíma eitt af tíu stærstu álfyrirtækjum heims - og sameinaðist fljótlega fleiri rússneskum álfyrirtækjum og varð þungamiðjan í Rusal. Þetta var á tímum rússnesku einkavæðingarinnar og einhvern veginn æxluðust málin þannig að Deripaska varð aðaleigandi fyrirtækisins. Sem varð kjölfestan í fjárfestingafyrirtæki hans; Basic Element. Viðskiptafélagi Deripaska við myndun Rusal var... já, auðvitað Íslandsvinurinn Abramovich.
Basic Element er ekki bara umbúðir um mest öll hlutabréfin í Rusal. Heldur einnig ýmis fleiri dágóð rússnesk fyrirtæki. T.d. stærsta tryggingafyrirtæki Rússlands, banka og eitt stærsta verktakafyrirtækið í Moskvu. Þeirri dásamlegu borg.
Best að fara að slútta þessu. T.d. með smáræði um Rusal. Sem er stærsta álfyrirtæki heims, eigandi gríðarlegra báxítnáma, starfar í 19 löndum og er með 100 þúsund manns í vinnu. Ársframleiðslan er meira en 11 milljón tonn af áli. Deripaska á góðan meirihluta í þessum iðnaðarrisa í gegnum Basic Element, En+Group og fleiri eignarhaldsfélög sín. Ljúft að fá þessa stráka til Íslands.
Sumir segja að þeir Abramovich og Deripaska hafi reyndar ekkert með mögulega lánveitingu til Íslands að gera. Heldur sé það tilkomið vegna persónulegra tengsla Björgólfs Thors við Pútín. En hann mun hafa verið háttsettur embættismaður hjá Skt. Pétursborg þegar Björgólfur var að byggja upp bjórveldið þar. Og borgarstjóri um skeið. Hvað svo sem satt er um áhrif Bjögga, verður spennandi að fylgjast með framhaldi þessa máls. Reyndar er Oleg Deripaska sjálfur nátengdur Pútín - og mig satt að segja grunar að þau tengsl séu mun sterkari en hugsanleg vinátta Björgólfs!
Já - Orkubloggið á eflaust fljótlega aftur eftir að velta upp steinum, sem tengjast Oleg Deripaska. Enda bæði skarpgreindur maður og sterkur karakter. Samt verður bloggið að viðurkenna að skvísan hans er ennþá áhugaverðari.
Seinna verður t.d. kannski sagt frá því hvernig Deripaska hefur verið í fararbroddi iðnjöfra, sem vilja stórtækar aðgerðir til að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum. Hann er nefnilega ekki bara gáfaður heldur líka hugsjónamaður. Því miður hafa yfirvöld bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi verið með tóm leiðindi við þennan ljúfling. Svipt hann vegabréfi og jafnvel vænt hann um glæpi. Tóm öfund segi ég bara - öfund skriffinna sem ekki ná í gellur eins og hana Polinu.
-------------------------------
PS: Frétt RÚV um rússneska lánið og Deripaska: http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item230255/
Fundur um rússneskt lán á þriðjudag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:17 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er frábær grein hjá þér. Takk kærlega fyrir lesninguna!
Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2008 kl. 13:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.