Eyde og Einar Ben

Nýlega upplýsti Orkubloggið ósk sína um nýtt Kalmarsamband. Sem er auðvitað eins og hvert annað grín. Aftur a móti er bloggið skotið í nánu sambandi Íslands og Noregs. Í fúlustu alvöru.

Síðustu dagana hef ég beðið eftir því að Norðmenn taki af skarið. Og bjóði Íslendingum lánið sem við þurfum. Ég trúi enn að af því verði. Norðmenn eru varkárir og ana ekki að hlutunum. Hugsanlega eru þeir ekki bara að skoða möguleika á láni - heldur líka að íhuga möguleika að kaupa umtalsverðan hlut íslenska fjármálakerfisins. Ég held satt að segja að bankarnir væru miklu betur komnir í höndum Norðmanna, en að hér nái íslenska ríkið einræði á bankamarkaði og blessaðir valdhafarnir komi á nýjum helmingaskiptum og einkavinavæðingu.

einar_ben

En að öðru. Í dag ætlar Orkubloggið að gæla við þá hugsun hvernig Ísland hefði geta þróast. Ef, ef...

Allir sæmilega meðvitaðir Íslendingar þekkja Einar Benediktsson, skáld og sýn hans um uppbyggingu virkjana og iðnaðar. Þessir draumar Einars rættust ekki og Íslendingar  byrjuðu fyrst að nýta vatnsorkuna af alvöru síðla á 7. áratugnum. Og reyndar hefur iðnvæðing íslands orðið með þeim hætti að öll helstu iðnfyrirtækin eru í eigu útlendinga. En hvað hefði gerst ef Einari hefði tekist ætlunarverk sitt? Ættum við þá etv. nokkur öflugustu iðnfyrirtæki Evrópu?

Orkublogginu hefur oft orðið hugsað til Norðmannsins Sam Eyde - og hvernig Ísland liti út ef Einar Benediktsson hefði orðið e.k. Sam Eyde Íslands. Þeir Eyde voru samtíðarmenn - fæddust skömmu fyrir 1870 og létust báðir árið 1940. Þeir voru þó um margt ólíkir - annar var skáld og lögfræðingur en hinn verkfræðimenntaður og með skyn fyrir uppfinningum. Og það var uppfinningamaðurinn Sam Eyde sem tókst að fá fjármagnseigendur til liðs við sig og gat boðið þeim bæði tæknivit og náttúruauðlindir Noregs.

Þar er helst að nefna að Eyde tókst í félagi við norska vísindamanninn Kristian Birkeland að þróa aðferð til að framleiða áburð. Sem felst í að nýta nitur úr andrúmsloftinu til að vinna saltpétur. Það ferli krefst mikillar orku og þar gat Eyde lagt fram orkuna, því hann hafði þá nýlega orðið sér úti um mikil virkjanaréttindi í Telemark.

Já - enn og aftur er Orkubloggið lent í Telemark - þessu "Þjórsársvæði" Norðmanna sem næstum varð til þess að útvega Nasista-Þýskalandi kjarnorkusprengju. En nóg hefur verið fjallað um það ævintýri hér á blogginu í eldri færslum.

sam_eyde

Þeir félagarnir Eyde og Birkeland voru nú með í höndunum aðferð og orku til að framleiða tilbúinn áburð handa heimsbyggðinni. Þetta var árið 1903 - um það leyti sem íslenska Heimastjórnin leit dagsins ljós og einungis nokkrum árum áður en Einar Benediktsson stofnaði Fossafélagið Títan.

Eyde og Birkeland stofnuðu félag í kringum áburðarframleiðsluna, sem nefndist Elektrokemisk Industri. Fjármagn fékkst frá nokkrum sænskum ljúflingum - nefnilega Wallenbergunum sem þá byggðu veldi sitt einkum á bankarekstri í Svíþjóð. Fyrsta áburðarverksmiðja Elektrokemisk Industri - er löngu síðar varð að Elkem sem Íslendingar þekkja auðvitað vel - hóf rekstur tveimur árum síðar. Og þetta sama ár - 1905 - stofnaði Sam Eyde annað félag um orkuvinnslu og áburðarframleiðslu og nefndist það Norsk Hydro-elektrisk Kvælstofaktieselskab. Sem síðar varð risaálfyrirtækið Norsk Hydro.

Þó svo líf Einars Benediktssonar teljist líklega um margt hafa verið dramatískara en ferill Sam Eyde, þurfti sá síðarnefndi einnig að þola lífsins byrðar. Eftir að hafa stofnað og stjórnað báðum fyrrnefndum fyrirtækjum, sem i dag eru meðal helstu iðnaðarrisa heimsins, fór svo að honum var fljótlega ýtt til hliðar. Hann þótti erfiður í skapi og árið 1917 bolaði stjórnin honum úr forstjórastól og 1925 lét hann af stjórnarformennskunni. Sagt er að hann hafi gert sérstakan samning við stjórnina, sem megi etv. teljast fyrsti alvöru starfslokasamningurinn! Já - það voru hvorki bandarískir forstjórar né íslenskir auðmenn sem fundu upp þann ósið. Heldur góðir og kristilega þenkjandi Norðmenn. Það gengur svona.

NOK_200kr

Norðmenn kunna á bissness! Og hananú. Það telur Orkubloggið næg rök til að kasta sér í þeirra fang. Ekki seinna vænna. Úr því Einar Ben náði ekki tengslum við þá Birkeland og Wallenbergana.

PS: Bæði Einar Benediktsson og Kristian Birkeland hafa komist á peningaseðla. En mér er ekki kunnugt um að neinn slíkur seðill hafi borið mynd Eyde. Sem er auðvitað hreinn skandall.


mbl.is Norsk stjórnvöld leggja fram 41 milljarð evra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

skemmtilegur lestur og áhguaverður.. ég bjó nefnilega í mörg ár í Skien Telemark.. geysifagurt fylki með mikið af fögrum ám og vötnum.. og nær allt skógi vaxið.

Ég er sammála þér með norsku bankana.. ég vil að þeir íslensku verði norskir sem fyrst.  Það fyrsta sem nojararnir mundu gera gangvart almenningi væri.. að taka yfirdráttaheildirnar út og gera þær að lánum.  

síðan tæki við lánalaust tímabil þar sem almenningur fengi ekki lengur að nota krítarkort til þess að versla í matinn.. eða kaupa sér föt og glingur eins og í dag..

Þetta sársaukafulla tímabil mundi kenna íslending það að fara vel með peninga.

Næsta skref þeirra væri húsnæðislánin.. þ.e. ef íbúðalánasjóður verði ekki kominn með einokunarstarfsemi á þeim.. en ef nojararnir fengju aðgang að þeim þá kæmu 3 skipt húsnæðislán.  að 60 % með mjög góðum vöxtum.  frá 60-80 % með lakari vöxtum.. og svo fyrir þurfalingana þriðja lánið sem væri frá 80-90 % en í einstaka tilfellum að 95 % með slæmum háum vöxtum enda líta þeir á það lán sem "forbrukslån" og það þarf ábyrgðamenn.

fyrirtækjum yrði meinað að lifa upp á krít.. ef þú átt ekki fyrir reikningum þá legguru niður fyrirtækið eða sætir ábyrgð ella..

Bara jákvætt fyrir land og þjóð.  

Óskar Þorkelsson, 12.10.2008 kl. 20:56

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Takk fyrir þetta innlegg. Aldrei hef ég komið til Telemark. Þarf að bæta úr því hið snarasta. Litið mál að finna sér afsökun til að skreppa til Noregs. T.d. til þess að sína stráksa minum víkingaskipin, Kon Tiki og Fram hans Friðþjófs Nansen. Norðmenn eru kannski létt hallærislegir... en samt flottir.

Ketill Sigurjónsson, 12.10.2008 kl. 22:11

3 identicon

Þetta eruu góðar færslur hjá þér. Ég var aðeins að velta fyrir mér muninum á Eyde og Einari í ensku útgáfunni af Draumalandinu. Óuppfylltir draumar Einars hafa einhverra hluta vegna legið eins og mara á þjóðarsálinni. Við fengum ekki síðri lífsgæði og Norðmenn - gegnum fiskinn - en draumar Einars skildu eftir eitthvað óuppfyllt skarð í hjörtum okkar. Kannski er þetta ógæfa okkar, Eyde hefur eflaust verið leiðinlegur, sparsamur og iðinn, við klúðrum þessu alltaf í glamúr, yfirlæti og oflæti. Örlög útrásarinnar minnir óþyrmilega á tíma Einars þegar skýjaborgir hrundu.

Andri Snær Magnason (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 23:15

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þökk fyrir þina athugasemd, Andri Snær. Þó svo mér hafi þótt sumt í Draumalandinu orka tvímælis, var sú bók afar þörf og tímabær.

Ég er ekki aðdándi stóriðjustefnu Norðmanna, sem á sínum tíma var stunduð og stóriðjuverum raðað i marga fegurstu firði Noregs. En ég er á því að við eigum að nýta orkulindir okkar - svo lengi sem við líka varðveitum og virðum náttúruna og fáum eðlilegan arð fyrir orkuna. Við verðum einnig að gæta þess að stóriðja hér verði ekki of einhæf - álframleiðsla má ekki fá óeðlilega mikið vægi í þjóðarbúskapnum. Fjölbreyti er nauðsynleg.

Held að Íslendingar hafi aldrei hlotið sömu lífsgæði og Norðmenn. Enda kannski hæpið að við getum ætlast til þess - Norðmenn hafa olíuna.

Ketill Sigurjónsson, 12.10.2008 kl. 23:44

5 Smámynd: Dunni

Snilldarfærsla Ketill.

Um og eftir miðja síðustu öld voru lífsgæði á Íslandi öllu betri en í Noregi.  Tók viðtal við norska konu sem var aupair á Íslandi 1961.  Sú sagði að allir flottu bílarnir, ísskáparnir, hraðsuðukatlarnir o.m.fl. hefðu komið sér verulega á óvart.  Einnig var hún alveg bit á öllum bíóunum og flottu veitingastöðunum. 

En ég held að lífsgæði okkar í dag væru ekkert mikið lakari en hér í konungsríkinu ef við hefðum lofað fiskeldinu að þróast og komast í gegnum alla barnasjúkdóma sem nýjir atvinnuvegir verða að ganga í gegnum.

Eldisfiskur er að skila Norðmönnum tugum milljarða NOK í kassan á hverju ári. Þeir byrjuðu þennan atvinnuveg nokkrum árum á undan okkur og gáfu sér tíma til að bíða eftir að hagnaðurinn streymdi inn.  Nú gerir hann það. Norðmenn halda að innan 20 ára verði fiskeldið orðið jafn stór tekjulind og olían.  Og það er ekki lítið

Dunni, 13.10.2008 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband