Das Kapital

"Ef að illar vættirinn um myrkragættir, bjóða svikasættir, svo sem löngum ber, við í heimi hér, þá er ei þörf að velja: þú mátt aldrei selja það úr hendi þér."

Oxararfoss

Þannig segir í kvæðinu Fylgd eftir Guðmund Böðvarsson. Síðustu árin hefur veröldin tilbeðið fjármagnið. Viðskiptaumfjöllun heltók fjölmiðlana. Björgólfur Thor kostaði sýningu Ólafs Elíassonar í Listasafni Reykjavíkur. Og það er táknrænt fyrir þessa þróun að á vef Morgunblaðsins er hvergi að finna valmöguleikann "Menning". Þetta stingur Orkubloggið sérstaklega í augun, hafandi verið nærri tvö ár í Danmörku, hvar t.d. menningarumfjöllun í dagblöðunum er mjög umfangsmikil.

Sá sem stendur bak við Orkubloggið er afar langt frá því að flokkast sem menningarviti - gæti líklega frekar kallast menningarsóði. Ég er t.d. heldur lítið fyrir tónleika og leiðist yfirleitt ferlega á leiksýningum og í söfnum (þó svo Louisiana-safnið sé líklega uppáhaldsstaðurinn minn í Köben - ekki síst vegna garðsins þar við safnið og útsýnisins yfir Eyrarsund).

Áhugamál mín eru sem sagt ekki beinlínis á því sem kallað er menningarsviðið. Engu að síður sakna ég þess hversu ótrúlega lítil áhersla er á menningu í íslenskum fölmiðlum. Dægurmálaþras og viðskiptafréttir kaffærðu slíka umfjöllun. En kannski sjáum við fljótlega afturhvarf til hinna góðu gilda - áherslunnar á listina, mannlífið og hvað gefur lífinu gildi.

Orkublogginu hefur þótt athyglisvert að fylgjast með því hvernig nú, í skyndilegu falli bankanna, virðist þjóðin hafa enduruppgötvað snillinga eins og Stein Steinarr og Guðmund Böðvarsson. Núna á tímum hruns stærstu fyrirtækja landsins hittir kaldhæðni Steins í mark - og þjóðernisást Guðmundar Böðvarssonar ekki síður. Þó svo Guðmundur hafi beint orðum sínum gegn aðild Íslands að NATO, eiga þau orð ekki síður vel um þá ömurlegu staðreynd að þjóðfélagið rambar nú á barmi gjaldþrots eftir að fiskimiðin voru einkavædd og helstu fyrirtæki í eigu ríkisins seld bröskurum.

steinn_steinarr

Já - Orkubloggið er mikill aðdáandi bæði Steins Steinarr og Guðmundar Böðvarssonar. En bloggið trúir engu að síður áfram á kapítalismann og líka á kvótakerfið og líka á NATO-aðildina. Fyllibytturnar koma óorði á brennivínið. Og nú hafa "útrásarvíkingarnir" komið óorði á íslenskan kapítalisma. Orkubloggið er mikill hófdrykkjumaður. Og trúir því að hér muni senn rísa hógvær og skemmtilegur kapítalismi. Sem mun lúta skýrum leikreglum og skapa grunn að góðri framtíð á Klakanum góða.

Um leið er vert að viðurkenna að ljóðlínur sem þessar eru öllu kapítali æðri:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði
er gjarna sett að veði).

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið. 

-------------------------------------

PS: Í dag munu vera liðin 100 ár frá fæðingu Steins Steinarr.

 


mbl.is Slökkt á fossum Ólafs í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Ketill

Ég er nú kannski enginn menningarviti, en starfaði þó og lifði í menningargeiranum í 15-20 ár, sem óperusöngvari hér á landi og erlendis.

Ég er eins og svo oft áður hjartanlega sammála þér. Á árunum 1980-86 þegar ég stundaði nám í söng hér heima var ástandið annað og áhugi á menningu gífurlegur í landinu. Ég fór síðan til Þýskalands og Sviss og var þar í tólf ár eða til 1998. Þegar ég kom til baka blasti við mér annað land. Menningaráhuginn var horfinn og á undanförnum 10 árum höfum við dansað trylltan dans við Mammon.

Líkt og margt annað mun þetta breytast - allavega tímabundið. Græðgin tekur alltaf völdin hjá manninum eftir vissan tíma, þar sem hún er ein af grunnhvötum mannsins.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.10.2008 kl. 19:56

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Já, Guðbjörn, tíminn fer í hringi. Líkt og vatnsdropi í gruggugu íslensku jökulvatni. Dropi sem stundum streymir beint niður farveginn fyrir krafta aðdráttaraflins. En lendir stundum í liltlum hringiðum í ánni og snýst lengi um sjálfan sig í hyljum. Svo maður gerist skáldlegur og grípi til líkinga.

En það er hreint með ólíkindum að á einni viku skuli allir bankarnir hafa fallið og vera í einni svipan komnir í hendur ríkisins. Því hefði ég aldrei trúað að myndi gerast. Nema kannski ef maðir hefði haft sömu upplýsingar undir höndum og Fjármálaeftirlitið! Sem þó gerði ekki neitt.

Ketill Sigurjónsson, 13.10.2008 kl. 20:30

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þetta fær mig til ða hugsa um grein sem ég las í www.aftenposten.no pappírsútgáfunni þegar ég ferðaist dag einn í lest milli Oslo og Skien. 

Þetta var löng grein um norska menningu, fjármál arkitektúr fyrr og nú.. en það sem þessi grein sagði sem fékk mig til þess að muna han var þetta :

Ef einhver pólitíkus mundi stinga upp á því í dag í Oslo að gera skemmtigarð/lystigarð, með listaverkum og gosbrunnum í líkingu við Viglundsparken þá mundi sá hinn sami vera álitinn geðbilaður því það væri svo dýrt.. 

Viglundsparken var byggður á kreppuárunum miklu á 3 áratugnum... 

Þessi garður er með eindæmum glæsilegum listaverkum og maður þreitist seint á því að  heimsækja þennan griðastað í borginni..  

hér eru nokkrar myndir þaðan.

http://lekruse.net/coppermine/thumbnails.php?album=6 

Óskar Þorkelsson, 13.10.2008 kl. 21:22

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Við erum nú í raun að láta gamlan draum rætast með tónlistarhúsinu.

Ég vona að kreppan komi ekki í veg fyrir að sá draumur rætist og í raun held ég að við eigum að ríghalda í þann draum og gera húsið nákvæmlega jafn glæsilegt og við ætluðum okkur.

Fólkið þarf á draumum og fólki þarf á tónlist að halda, sem leikin verður í glæsilegu húsi!

Líklega verður þetta einn síðasti minnisvarðinn um íslenska draum, sem við sjáum nú að hefur ekki ræst í þetta skipti!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 14.10.2008 kl. 21:12

5 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

já það er margt skrýtið þessa dagana.

hér á grænlandi heyrum við af því að Íslendingar flýi brátt til Noregs, undan Geir Harðráða og Eimskip fari brátt á hausinn. Þá leggjast skipakomur hingað af og Grænland leggst í eyði.

Var reyndar að spá í að kaupa Eimskip til að breyta sögunni. Á einhverjar krónur inni á bók á Íslandi, sem mér skyldist að væru "eimskips" virði... :-)

Vona að þú standir áfram vaktina, þó olíuveðmálið hafi ekki gengið alveg upp, ertu með skemmtilegan vinkil.

með kveðju frá Grænlandi, í skjóli af dönsku krónunni (er á meðan er)

Baldvin Kristjánsson, 15.10.2008 kl. 16:25

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Olíuveðmálið gekk reyndar sæmilega upp. Eins og lesa má á blogginu:

http://askja.blog.is/blog/askja/entry/610150/

Ketill Sigurjónsson, 15.10.2008 kl. 16:32

7 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

sæll

ég átti reyndar ekki við að þú hafir farið illa út úr þessu, og rétt hjá þér, þú sýndir ágætis ávöxtun (var það ávöxtun m.v. evru/dollar eða ISK?)

ég átti bara við að þú færðir ágætis rök fyrir uppgangi olíuverðs og dansks vindmyllubónda... :-) en var nú meira til gamans sagt, ég var hreint alls ekki að líkja þér við greiningastofu Glitnis... :-)

sjá hér -

http://borsen.dk/virksomhed/vestas_wind_systems

Baldvin Kristjánsson, 15.10.2008 kl. 17:17

8 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Það var 40% ársávöxtun í USD. Sem er skrilljón prósent i ISK.

Hrunið hjá Vestas er auðvitað svakalegt. En þetta gerist þegar olían lækkar. Þá fylgir endurnýjanlega orkan í kjölfarið.

Ketill Sigurjónsson, 15.10.2008 kl. 18:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband