Единые Энергетические Системы

Stulli_Tanya

Maður hefur beðið spenntur eftir því hvort honum Stulla tækist að redda okkur léttu Rússaláni. Vona að honum hafi liðið vel þarna í Moskvu - ásamt Tönju og fleiri ljúflingum. En hafi þau lent í einhverju stappi væri etv. skynsamlegast að snúa sér til hans Alexanders Lebedev. Hann hefur nefnilega ákveðna sérstöðu í rússneska milljarðamæringaheiminum.

Það gerðust ýmsir hreint magnaðir atburðir eftir hrun Sovétríkjanna. Um rússneska orkugeirann og raforkukerfið er það að segja, að 1992 var sett á fót sérstakt félag um allan þann ríkisbisness. Félag þetta varð á Vesturlöndum þekkt sem Unified Energy System of Russia. Nær öll orkufyrirtæki landsins, sem fram til þessa höfðu verið í ríkiseigu, voru sett í þetta netta fyrirtæki (kjarnorkuverin þó undanskilin). Þarna undir féllu einnig fjölmörg stærstu verktakafyrirtæki landsins og nánast allt dreifikerfi raforkunnar.

Russia_energy__system6

Alls mun Unified Energy System (UES) hafa eignast um 7/10 allrar raforkuframleiðslu Rússlands og sama hlutfall af öllum raflínum landsins. Og allar háspennulínur um Rússland þvert og endilegt.

Eignarhaldinu var þannig komið fyrir að helmingur þessa risastóra orkufyrirtækis var í eigu rússneska ríkisins en hinn helmingurinn gekk kaupum og sölu á hlutabréfamarkaðnum. Á árunum 1997-99 var mikil valdabarátta um stjórn fyrirtækisins. Endaði þetta með því að UES var leyst upp í fjölda smærri eininga. Í hönd fór eitthvert geggjaðasta tímabil einkavæðingar í Rússlandi. Um það leyti sem Björgólfsfeðgar og Maggi seldu bjórverksmiðjurnar og komu mestu af sínu fé út úr Rússlandi. Kannski hefðu þeir frekar átt að veðja á rússneska orkugeirann, Frekar en að hirða Landsbankann og Eimskipafélagið. Úr því að svo fór sem fór.

Russia_Energy_System3

Umbreytingu UES lauk ekki fyrr en um mitt þetta ár (2008). Eitt af þeim fyrirtækjum sem tók við hinum fölbreytta orkurekstri þess, er sérstakt orkudreifingarfyrirtæki sem komið var á fót 2002. Á ensku er það nefnt Federal Grid Company (FGC) og fer með einkaleyfi á öllu háspennukerfinu og mest allri raforkudreifingu í landinu.

Rússneska ríkið fer með meirihluta hlutabréfanna í FGC og á yfir 75%. Tæplega 25% eru í höndum annarra. Kreppukvaldir mörlandar geta nálgast slík bréf í gegnum kauphöllina í Moskvu; MICEX (bréfin bera auðkennið FEES).

lebedev

Áðurnefndur Alexander Lebedev er einmitt einn stærsti einkaaðilinn í FGC. Þessi fimmtugi Rússi er með doktorsgráðu í hagfræði og starfaði lengi hjá KGB áður en hann snéri sér að bissness. Hann byggir núverandi viðskiptaveldi sitt á bankanum sínum, sem er einn þeirra stærstu í Rússlandi. Á ensku ber bankinn það hógværa nafn National Reserve Bank. Hann er kannski frægastur fyrir að vera einn örfárra banka sem lifðu af hrun rúblunnar 1998. Hrunið sem gerði næstum út af við bjórbisness Björgólfsfeðga i Skt. Pétursborg. En bæði Lebedev og Bjöggarnir komu standandi út úr þeim hremmingum og stóðu uppi sem sigurvegarar.

Í gegnum bankann sinn á Lebedev reyndar einnig talsvert fleira dót í Rússlandi, en bara hlutinn í orkudreifingarfyrirtækinu magnaða. T.d. á hann hlut í Gazprom, sem er stærsti gasframleiðandi heims. Og þriðjung hlutabréfanna í hinu gamla og góða Aeroflot (þar er Lebedev stærsti hluthafinn á eftir rússneska ríkinu, sem á 51% í Aeroflot). Ásamt fjölda annarra fyrirtækja í rússneskum iðnaði og landbúnaði. Og svo skemmtilega vill til að bankinn hans Lebedev mun einmitt vera einn helsti viðskiptabanki Gazprom.

Já - hann Alexander Lebedev er vellauðugur - en ekki alveg eins og hver annar ólígarki. Meðan hann vann hjá rússneska sendiráðinu í London á 9. áratugnum er hann sagður hafa verið hreinræktaður njósnari. Hann ku hafa fílað vel hinn aristókratíska breska klúbblifnaðarhátt - og nýtur þess að eiga góðar stundir með öðrum gömlum njósnurum í leyniklúbbnum, sem Lundúnabúar kalla "Russian spies".

Lebedev_Gorbi

Lebedev var í góðum tengslum við Jeltsin og það hjálpaði honum auðvitað að byggja upp fjármálaveldi eftir fall Sovétríkjanna. En Lebedev hefur engu að síður verið ófeiminn við að gagnrýna stjórn Pútins og ekki síst talað fyrir bættum mannréttindum í Rússlandi. Þó hann sitji nú í Dúmunni sem þingmaður stjórnarflokksins er hann um leið félagi Mikhail Gorbachev í útgáfu dagblaðsins Novaya Gazeta. Ekki hægt að segja annað en hann Alexander Lebedev sé svellkaldur náungi. Kannski vill hann lána okkur pening...


mbl.is Ekki niðurstaða í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband