17.10.2008 | 21:43
Gæfa og gjörvileiki
Bandaríkin! Landið þar sem afskorið eyra, Art Deco og rússneskar bensínstöðvar tengjast með athyglisverðum hætti. Landið þar sem menn horfðu lengi óttaslegnir til himins. Til að sjá hvort Rússarnir væru að koma.
Nú verður brátt allt ættarsilfur Bandaríkjanna meira eða minna komið í erlenda eigu. Olíusjóður frá Abu Dhabi keypti Chrysler-bygginguna nú í sumar. Og bensínstöðvar Getty gamla eru komnar í eigu stærsta olíufélags Rússlands. En líklega er Könum nokk sama. Rétt eins og milljarðamæringnum Jean Paul Getty (1892-1976) var sama og lét mannræningja skera eyrað af sonarsyni sínum. Fremur en að borga lausnargjaldið án múðurs.
Getty Oil var á sínum tíma eitt öflugasta olíufélag í Bandaríkjunum. Vissulega má segja að hann J. Paul Getty I hafi fæðst með silfurskeið í munni (faðir hans var George Getty; bandarískur iðnjöfur). Engu að síður skapaði hann auð sinn að mestu sjálfur. Hann hafði nef fyrir því að græða pening i olíuiðnaðinum. Aðeins 25 ára hafði J. Paul Getty I grætt fyrstu dollaramilljónina sína í olíubransanum í Oklahóma. En hélt þá vestur til Hollywood hvar hann sökk í kvennafar.
Faðirinn var lítt hrifinn og nánast afneitaði þessum lúsablesa áður en hann sjálfur fór í gröfina 1930. En J. Paul Getty lét sér fátt um finnast og hélt áfram að djamma í Kaliforníusólinni.
Hann sneri þó aftur i olíuna. Í kringum 1950 keypti hann nokkur olíufélög og sameinaði þau í Getty Oil. Það sem þó gerði Getty Oil að stórveldi var fyrst og fremst samningur J. Paul Getty's I við Sádana. Þangað hélt hann skömmu eftir seinna stríð og leigði sér skika á landamærum Saudi Arabíu og Kuwait. Og áður en menn vissu af sullaði Getty milljónum tunna daglega upp úr sandinum. Og varð á örfáum árum einhver ríkasti maður í heimi. Í aurum talið.
En það eru gömul sannindi að veraldlegur auður og hamingja eiga ekki endilega samleið. Þegar sonarsonur hans Getty's, J. Paul Getty III (f. 1956) sem þá var 16 ára, hvarf á Ítalíu árið 1973 lét sá gamli sér fátt um finnast. Er krafa um lausnargjald barst frá meintum mannræningjum var hann viss um að strákurinn væri bara að reyna að plata pening út úr afa gamla. Eitthvað mildaðist hann þegar eyra af drengnum barst skömmu seinna í pósti, með hótun um að hann kæmi í smábitum yrði ekki borgað. Ekki hljóp Olíu-Getty þó til með peninginn, heldur prúttaði við ræningjana og náði loks "betri díl". En eins og allir Íslendingar vita er auðvitað lykilatriði að prútta við Ítalasulturnar.
Getty gamli setti það reyndar sem skilyrði fyrir greiðslunni að sonur hans, Jean Paul Getty II (1932-2003) og pabbi stráksa, endurgreiddi honum lausnargjaldið. Með vöxtum! Ekki er Orkublogginu kunnugt um efndir á því loforði. En a.m.k. fannst hinn 16 ára gamli Getty III skömmu síðar, með eitt eyra og í taugaáfalli. Hann náði sér aldrei - varð háður eiturlyfjum og hefur lengi legið lamaður eftir of stóran skammt árið 1981. Ræningjarnir sem taldir voru vera mafíósar frá Kalabríu, fundust aldrei.
Í dag er gamli Getty I líklega þekktastur sem einlægur listunnandi og stofnandi Getty-safnsins í Kaliforníu. Það góða safn hefur reyndar lent í veseni, eftir að í ljós kom að nokkrir merkir munir í eigu safnsins voru þjófstolnir frá Ítalíu. Leiðindamál. En það er önnur saga.
Um Gettyana má bæta því við að J. Paul Getty II, sonur Olíu-Getty's og faðir stráksins sem rænt var, giftist súperskvísunni og leikkonunni Talithu Pol. Sem lést í Róm af stórum heróínskammti 1971. Myndin hér til hliðar er eimitt tekin af þeim hjónakornunum af ljósmyndaranum fræga Lichfield lávarði. Staðurinn er Marokkó þar sem þau hjónin bjuggu þá í anda sukkandi blómabarna. Aðdáendur snillinganna i hljómsveitinni Crosby, Stills, Nash & Young vita allt um lífið þar.
Halda mætti lengi áfram að lýsa bóhemlífi og bölvun Gettyanna, t.d. eyðnismiti Aileen, dóttur J. Paul Getty II. En líklega tímabært að hætta þessu Getty-þvaðri. Þó verð ég að nefna, að ég man afskaplega vel eftir umfjöllun íslenskra dagblaða um Getty gamla, þegar hann lést árið 1976 - þá á níræðisaldri. Enda lengi hrifist af olíubarónum.
Þó svo Getty-safnið sé heimsfrægt er þó líklega algengara að sjá Getty-nafnið í tengslum við Getty-images. Sem er ljósmyndavefur, sem mikið er notaður af netmiðlum heimsins, tímaritum og dagblöðum. Það var einmitt sonur Jean Paul Getty's II - og bróðir Aileen og hins eyrnaskorna Jean Paul Getty's III - sem stofnaði Getty Images. Sá ljúfur heitir Mark Getty (f. 1960).
Unnendur kvikmynda og slúðurblaða kunna þó að þekkja enn betur hann Balthazar Getty. Sá er fæddur 1975 og er einmitt einkabarn J. Paul Getty's III, lék eitt aðalhlutverkið í Flugnahöfðingjanum eða Höfuðpaurnum (Lord of the Flies) og sást nýlega í miklu kossaflensi með hálfberri Siennu Miller. Sem er kannski ekki stórfrétt, nema þá sökum þess að hann Balthazar er kvæntur (annarri en Siennu) og 4ra barna faðir. Þetta er allt svolítið kaldhæðnislegt, þegar haft er í huga að Sienna lék einmitt fiðrildið Edie Sedgwick í nýlegri bíómynd um Andy Warhol og gengið hans í "Verksmiðjunni". Það er nokkuð víst að afi hans Balthazars, J. Paul Getty II, sukkaði duglega þar á bæ í lok 7. áratugarins. Og Verksmiðjusukkið hjá Warhol-genginu náði að drepa Edie litlu, áður en hún náði þrítugu. Vona að Sienna sé ekki að lenda í slæmum félagsskap.
Mestu auðæfin innan Getty Oil voru seld út úr fyrirtækinu á sjöunda og áttunda áratugnum En Getty-bensínstöðvarnar héldust áfram innan fyrirtækisins.
Þar kom þó að, að þær voru líka seldar - og það gerðist síðla árs 2000. Kaupandinn kom langt úr austri. Þar á ferð var enginn annar en rússneski olíurisinn Lukoil. Þannig að í dag geta vesturfarar rennt upp að þessu háameríska vörumerki - Getty Oil - og dælt á tankinn vitandi það að aurarnir renna austur til snillingsins Vagit Alekperov og annarra Lukoil-manna.
Gaman að þessu. Þessi tæplega sextugi Azeri, hann herra Alekperov, er í dag einn mesti auðmaður veraldarinnar. Svo skemmtilega vildi til að hann var aðstoðarorkumálaráðherra á síðustu dögum Sovétríkjanna. Hann átti í framhaldinu þátt í stofnun rússneska ríkisolíufyrirtækisins Langepas-Urai-Kogalymneft 1991. Hvers nafni var breytt i LUK-oil árið 1993.
Sama ár var lítill hluti hlutabréfanna í Lukoil settur á markað, en ríkið hélt áfram meirihlutanum. Fyrir "einskæra tilviljun" urðu öll bréfin smám saman föl - og nú ræður hann Vagit Alekperov yfir um fimmtungi þeirra (ásamt einum gömlum viðskiptafélaga sínum). Svona getur lífið stundum verið skemmtilega einfalt.
Lukoil er STÓRT. Annað af tveimur stærstu olíufélögum Rússlands. Var jafnvel stærra en Rosneft, allt þar til þeir Rosneftar yfirtóku Yukos. Sem var félagið hans Mikhail Khodorkovsky. Af þeim olíufélögum heimsins, sem skráð eru á hlutabréfamarkað, mun aðeins eitt félag búa yfir meiri olíubirgðum en Lukoil. Sem er risinn Exxon Mobil.
Alltaf gaman að ofurlítilli tölfræði. Svona rétt til að setja hlutina í samhengi: Lukoil fer með nærri 20% af allri olíuvinnslu i Rússlandi. Og er auðvitað með starfsemi víða annars staðar um heiminn. T.d. í Írak. Alls mun félagið nú framleiða 2,3% af olíuframboði heimsins og ráða yfir 1,3% af öllum þekktum olíubirgðum veraldar.
Og sem fyrr segir getur maður nú látið hreinsa framrúðuna á skrjóðnum á Lukoil-bensínstöðvum vestur í henni Ameríku. Menn þurfa sem sagt ekki lengur að óttast að Rússarnir séu að koma - þeir eru nefnilega löngu komnir. Til Bandaríkjanna. Kannski tímabært að þeir komi líka til Íslands?
Rússar vilja meiri upplýsingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 18.10.2008 kl. 14:52 | Facebook
Athugasemdir
takk fyrir þessa grein.. mjög fróðlegur lestur um heim sem maður þekkir lítið sem ekkert..
Óskar Þorkelsson, 18.10.2008 kl. 00:35
Gaman að þessu, takk!
Ívar Pálsson, 18.10.2008 kl. 00:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.