Gaztroika

Syrtir enn í álinn í orkumálum Vesturlanda? Nú í vikunni kynntu gaspáfarnir þrír - þeir félagar Gholamhossein Nozari, orkumálaráðherra Íranstjórnar, Abdullah al-Attiyah, orkumálaráðherra Qatar og Alexei Miller, forstjóri Gazprom – um að nú sé að rætast draumur þeirra um að koma á stofn ríkjasamtökum, til að hafa samráð um gasframboð.

Gas_Doha

Sem yrði eins konar gas-OPEC, er muni leitast við að stýra heimsmarkaðsverði á gasi. Bandaríkin og ESB ráku þegar í stað upp ramakvein. Það er nefnilega svo að á síðustu árum hefur trendið verið að skipta yfir í gasið. Bæði vegna hækkandi olíuverðs og til að auka fjölbreytni í orkunotkun – draga úr olíufíkn Bandaríkjanna og Evrópu. Í reynd hefur olíueftirspurnin því aukist hægar en annars hefði orðið. Til að skýra þetta má t.d. skoða hlutfall orkunotkunar í dag og bera það saman við ástandið fyrir rúmum aldarfjórðungi.

Árið 1980 nam olía 45% af allri orkunotkun heimsins og gasið um 20%. Í dag stendur olían einungis fyrir um 35% orkunotkunarinnar en hlutfall gassins er komið í um 25%. Samtals var þetta hlutfall 65% 1980 en er nú um 60%.

gas_opec_chart

Málið er sem sagt að gasið hefur orðið æ álitlegri kostur og því hefur eftirspurn eftir gasi aukist mun hraðar en eftirspurn eftir olíu. Nefna má að kolin hafa nánast haldið óbreyttu hlutfalli (um 28%) en notkun kjarnorkunnar aukist (var 2% 1980 en er nú um 7%).

Helsta ástæðan fyrir hinni gríðarlegu eftirspurn eftir gasi er einföld. Auðvitað sú að það hefur reynst ódýrari og hagkvæmari kostur en olían. Þetta hefur leitt til stóraukins innflutnings á gasi til Evrópu, ekki síst frá Rússlandi. Og nú á allra síðustu árum eru Indverjar og Kínverjar líka farnir að horfa til gassins. Þannig að gasið sem Evrópu hefur séð streyma til sín frá Rússlandi og fleiri löndum í Asíu, kann bráðum að sveigja af leið í gegnum nýjar pípur til Austurlanda fjær. Þetta fær svita til að spretta fram á mörgu evrópsku enni.

Gas_world_reserves

Í reynd er staðan orðin sú að Rússar eru komnir með heljartök á mörgum nágrannaríkjum sínum, sem eru orðin háð gasinu frá þeim. Þar eru nokkur stærstu lönd ESB innifalin, t.d. Þýskaland. Og nú vilja Rússar, ásamt Írönum og Katörum, ná sterkari tökum á gasframboði og þar með ná meri stjórn á heimsmarkaðsverði á gasi. Með því að stofna samtök til að stýra gasframboði og þar með verðinu.

Og þó það nú væri. Hver vill ekki fá meira fyrir sinn snúð? Sérstaklega er skemmtilegt hvernig ljúflingurinn Alexei Miller kemur þarna fram sem ríkisleiðtogi, fremur en fyrirtækjaforstjóri. Orkubloggið vaknaði upp við að bloggið hefur lítt minnst á þennan orkurisa. Því býður Orkubloggið nú upp í dans með Gazprom.

Skylt er að nefna að meðal annarra leikenda í þessum skemmtilega leik þeirra Gazprom-manna er t.d. Alsír. Samanlagt skaffa Rússland og Alsír ESB um 70% af öllu því gasi sem notað er í bandalaginu. Þar er Gazprom þungamiðjan. Enda ræður Gazprom yfir 90% af öllum gasauðlindum Rússlands, sem eru hinar langmestu í heiminum. Því má næstum því segja að Evrópa fái einfaldlega gasið sitt frá Gazprom.

Gazprom-Logo-rus.svg

Rússland er með meira en fjórðung allra gasbirgða heimsins og Gazprom eitt ræður yfir 90% af öllum gasauðlindum Rússlands. Þess vegna er sjaldnast talað um að Rússland sé að stofna gasbandalag – heldur er það Gazprom. Sem vissulega er í meirihlutaeigu rússneska ríkisins – en er engu að síður eins og ríki í ríkinu.

Samkvæmt nýlegri úttekt Reuters um fyrirhugað gasbandalag Gazprom og félaga var niðurstaðan sú að ekkert væri að óttast. Rússar séu efnahagslega háðir Evrópu um kaup á gasinu og samningar um kaup á gasi séu gerðir til langs tíma öfugt við olíu. Þess vegna sé þetta í reynd miklu stöðugri markaður en olíumarkaðurinn.

gas_pipelines-eu_asia

Orkubloggið er fullkomlega sammála þessari niðurstöðu. Til skamms tíma. En til lengri tíma gæti þessi niðurstaða reynst hið mesta bull. Vegna legu Rússlands og annarra stórra gasútflytjenda frá fyrrum Sovétríkjunum (t.d. Turkmenistan) er sú “hætta” raunveruleg að gasið þaðan muni senn streyma eftir pípum til Kína og Indlands, fremur en Evrópu.

Bæði Indland og Kína stefna nú að því að auka notkun gass heima fyrir. Sem þýðir að þessi nettu ríki þurfa að stórauka innflutning á gasi. Gangi þau plön eftir munu rísa nýjar gasleiðslur frá Rússlandi og ríkjum í Mið-Asíu til bæði Kína og Indlands. Og þá muni samráð gasútflutningsríkja hugsanlega gera Evrópu erfitt fyrir. Í dag yrði svona bandalega kannski ekki áhyggjuefni – en svolítið óþægileg tilhugsun til framtíðar. Svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þetta er hin yfirvofandi Gaztroika.

putin_medvedev

Gazprom er svo sannarlega gasrisi veraldarinnar. Við fall Sovétríkjanna var öllum gasiðnaði Rússlands steypt saman í eitt fyrirtæki. Öfugt við olíuiðnaðinn, sem var strax skipt niður á þrjú fyrirtæki. Í upphafi lék rússneski forsætisráðherrann Viktor Chernomyrdin stærsta hlutverkið innan Gazprom, en hann hafði áður unnið í þeim hluta sovéska stjórnkerfisins sem fór með alla gasvinnslu í landinu. Svo fór að hann lenti í deilum við Boris Yeltsin, sem vildi aðgang að sjóðum Gazprom og setja þá í ríkiskassa Rússlands. Sem stóð vægast sagt illa í lok 10. áratugarins. Allt frá því félagið var sett á hlutabréfamarkað 1994 stóð yfir mikil valdabarátta um það. Enda talsvert í húfi! Aldamótaárið 2000 tók nýr ljúflingur við stjórnarformennskunni og heitir sá Dimitry Medvedev. Kannski ekki nafn sem klingir bjöllum – en er reyndar forseti Rússlands í dag.

gazprom_putin_cartoon

Eftir mikið brask með hlutabréf í Gazprom tókst rússneska ríkinu að ná aftur meirihluta í félaginu árið 2004. Og á nú 50,002% hlutabréfanna. Eftir það gat Pútin, þáverandi Rússlandsforseti, beitt Gazprom að vild. T.d. með því að skrúfa fyrir gasútflutning til Úkraínu, eins og frægt varð.

Núverandi stjórnarformaður Gazprom – og sá sem tók við af Medvedev þegar sá varð forseti Rússlands - heitir Viktor Zubkov. En hann var einmitt forsætisráðherra Rússlands áður en Pútín settist í það sæti. Þessir þrír ljúflingar höfðu sem sagt stólaskipti. Einfalt og ekkert vesen.

Í dag getur Gazprom nánast lýst sér þannig: “Rússland – það er ég". Fyrirtækið er uppspretta fjórðungs allra skatttekna rússneska ríkisins og síðan í júlí 2007 er það með einkaleyfi á gasútflutningi frá Rússlandi.

Russian Oil Production 2006

Eftir að hafa keypt meirihlutann í Sibneft 2005, á Gazprom nú einnig eitt stærsta olíuvinnslufyrirtæki Rússlands (heiti Sibneft er nú Gazprom Neft). Vert er einnig að nefna að Gazprom á meirihlutann í stærsta einkarekna banka Rússlands, Gazprombankanum. Og sá góði banki á stærsta fjölmiðlafyrirtæki Rússlands; Gazprom Media. Skemmtilegt. Ennþá skemmtilegra er auðvitað að hinn venjulegi Íslendingur getur fjárfest í Gazprom ef hann vill. Eftir að rússneska ríkið náði aftur meirihlutanum í Gazprom var nefnilega galopnað á kaup útlendinga í fyrirtækinu.

Og auðvitað er Gazprom sjálft á fullu í útlöndum. Nú í haust hafa þeir t.d. fundað stíft með olíufélögum og stjórnvöldum í Alaska um að koma að gasiðnaðinum þar. Spurning hvað henni Söru Palin og öðrum góðum Ameríkönum þyki um þá hugmynd að gasið frá Alaska berist til “the 48’s” gegnum rússneskar gasleiðslur? Og hver veit nema Rússalánið okkar komi beint frá Gazprom.

gazprom_tower

Forstjóri Gazprom, Alexei Miller, hefur lýst því yfir að stefnan sé að Gazprom verði fljótlega stærra en bæði PetroChina og ExxonMobil. Þ.e. stærsta orkufyrirtæki heims á hlutabréfamarkaði.

Því er ekki að undra að uppi eru áætlanir um nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar fyrir einn hluta Gazprom. Í Skt. Pétursborg, á bökkum árinnar Nevu og gegnt Smolny dómkirkjunni, stendur til að byggja "Gazprom City". Hvar 400 m hár turn Gazprom Neft, í formi gasloga, mun gnæfa yfir þessari merku borg. Meira um það arkítektasukk síðar.

PS: Eldri færslu um fyrirhugaðar gasleiðslur frá Rússlandi til Evrópu má lesa hér:   http://askja.blog.is/blog/askja/entry/601343/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Gunnarsson

Vildi bara þakka fyrir mig, hef haft virkilega gaman að lesa þessar greinar þínar.

Stefán Gunnarsson, 24.10.2008 kl. 19:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband