It’s Miller time!

Ljúflingurinn hann Alexei Miller er líklega einn valdamesti maðurinn í orkugeira heimsins. A.m.k. meðan ekki slettist upp á vinskap hans við Pútín. Í síðustu færslu leit Orkubloggið til rússneska gasrisans Gazprom. Þar sem Miller er forstjóri. Í dag ætlar bloggið að beina athyglinni að Miller sjálfum – og einnig skoða tilvonandi höfuðstöðvar olíuarms Gazprom, Gazprom Neft, sem Miller ætlar að reisa í Skt. Pétursborg.

gazprom_putin_miller

Alexei Miller er af rússneskum gyðingum kominn - fæddist í Skt. Pétursborg árið 1962 og lagði stund á nám í fjármálum og hagfræði. Þá hét borgin auðvitað Leningrad. Það var á borgarskrifstofunum þar, sem Miller starfaði á fyrstu árum hins endurreista Rússlands. Ekki er ólíklegt að þar hafi hann kynnst Pútín, sem einnig var embættismaður hjá Skt. Pétursborg á þessum tíma. Og skammt frá stússuðu þeir Björgólfur Thor og Magnús Þorsteinsson við að selja Rússum bjór og tappa Pepsi í neytendaumbúðir. Með alkunnum árangri.

Gaman væri að vita hvað Pútín var að hugsa þegar ljósmyndin hér til hliðar var tekin. A.m.k. virðist hann horfa með velþóknun á hnakka Miller. Enda vann Miller sig hratt upp í borgarkerfi Leningrad. Hann var þá þegar kominn með doktorsgráðu í hagfræði frá skóla þar í borg – en maður veltir því auðvitað fyrir sér hvers konar hagfræði hafi verið stúderuð í Leníngrad á sovét-tímanum (Miller mun hafa útskrifast 1989). En hagfræðikenningar kommúnismans virðast ekki hafa reynst honum fjötur um fót. Hann var skipaður aðstoðar-orkumálaráðherra Rússlands aldamótaárið 2000 og ári seinna varð hann forstjóri Gazprom – þá aðeins 38 ára gamall. Og það var einmitt árið 2001 sem Pútín byrjaði fyrir alvöru afskipti af Gazprom, með það að markmiði að koma fyrirtækinu á ný í hendur ríkisins. Og þar unnu þeir Pútín og Miller vel saman og náðu þeir meirihluta í fyrirtækinu f.h. ríkisins síðla árs 2004.

Þar með má etv. segja að "Sílóvíkarnir" hafi náð að sigra "Óligarkana". Eftir að Sovétríkin féllu varð mikil valdabarátta milli hinna nýríku milljarðamæringa annars vegar (sem margir höfðu verið nátengdir Boris Jeltsín) og hins vegar hóps sem tengdur var stofnunum gömlu sovésku leyniþjónustunnar (einkum KGB). Til eru þeir sem segja að með kjöri Pútíns sem forseta Rússlands, handtöku og fangelsun Mikhail Khodorkovsky og loks yfirtöku ríkisins á Gazprom, hafi gamla KGB-klíkan (Siloviks) sigrað í rússneska valdataflinu. Og Olígarkarnir orðið að lúta í lægra haldi.

khodorkovsky

Orkubloggið er barrrasta alls ekki nógu vel að sér í þessum fræðum til að hætta sér frekar útá þær brautir. En a.m.k. hafa þeir Pútín og Alexei Miller tögl og haldir í Gazprom. Og í dag munu reyndar vera liðin nákvæmlega 5 ár síðan hann Mikhail Khodorkovsky var handtekinn á flugvellinum I Novosibrisk, austur í Síberíu. Sem er kannski táknrænt um það hverjir ráða í Rússlandi. En etv. eru svona samsæriskenningar bara tóm vitleysa.

Hvað um það. Það verður varla annað sagt en að hann Alexei Miller sé öflugur stjórnandi. Nema ef hugsast gæti að Gazprom sé orðið allt of skuldsett og hrynji einn daginn! Kannski fylgir Rússland í kjölfar Íslands - og við fáum aldrei neitt sætt Rússalán. Því þrátt fyrir ótæpilegar náttúruauðlindir sínar kann Rússland í reynd að standa á brauðfótum. En hvað sem slíkum leiðinda vangaveltum líður, þá hefur Miller gert Gazprom að allt í öllu í rússneska orkugeiranum. Og sett fram metnaðarfulla áætlun um að innan fárra ára verði Gazprom stærsta orkufyrirtæki heims – auðvitað fyrir utan ríkisorkufyrirtæki Sádanna og önnur slík sem eru alls ekki á hlutabréfamarkaði.

Þrátt fyrir yfirlýsingar Miller’s um glæsta framtíð Gazprom, er ekki auðséð hvert fyrirtækið stefnir. Orkubloggið myndi þó veðja á, að það sem Gazprom hungrar hvað mest í þessa dagana, er að verða stærri í LNG. Fljótandi gasi. Þeir Gazprom-gæjarnir eru svo sannarlega sérfræðingar að dæla upp gasi og byggja stórar gasleiðslur út um hvippinn og hvappinn. En það að kæla gas og höndla það í fljótandi formi er ekki þeirra sterka hlið. Orkubloggið myndi gjarnan veðja miklu á, að hjá Gazprom leiti menn nú logandi ljósi að rétta LNG-fyrirtækinu. Samstarfsaðila sem sameini það að kunna manna best á LNG-sullið og sé ekki líklegur til að vera með einhver leiðindi út af smámálum, eins og umhverfisvernd eða mannréttindum.

LNG_tanker

Málið er nefnilega að til að GAS-OPEC komi til með að virka, þarf að vera til virkur og hraður markaður með gas. Öruggasta leiðin til að skapa slíkan markað er að geta stóraukið hlutfall LNG á markaðnum – sem kallar á betri tækni til að vinna, flytja og geyma fljótandi gas. Eins og getið var um í síðustu færslu, eru nú einmitt horfur á að “Gas-ópekkið” líti brátt dagsins ljós. En meira þarf að koma til, eigi það að hafa sambærileg áhrif og OPEC hefur haft í gegnum tíðina á olíuverðið. Og enn eitt sem spilar inní þessa meintu framtíðardrauma Gazprom er hin risastóra Shtokman-gaslind, sem fundist hefur undir botni íshafsins norður af Kólaskaga. Að dæla öllu því gasi um gasleiðslur á einn og sama markaðinn (Evrópu) væri útí hött. Skynsamara væri að geta selt hluta þess sem LNG, t.d. til Bandaríkjamanna. Og þeir flutningar myndu reyndar að stóru leyti fara gegnum íslenska lögsögu! Kannski meira um það síðar hér á Orkublogginu.

Ég ætla að ljúka þessari færslu með draumnum um Gazprom-city. Eftir hönnunarsamkeppni, sem margar frægustu arkitektastofur heims tóku þátt í, tilkynnti dómnefndin að tillaga alþjóðlegu arkitektastofunnar RMJM hefði borið sigur úr býtum. Í samkeppninni um hönnun á nýjum höfuðstöðvum Gazprom Neft (sem er olíuarmur Gazprom) ásamt tilheyrandi hótelum, skrifstofubyggingum og ráðstefnumiðstöð. Úrslitin voru tilkynnt í desember 2006 og þess er vænst að senn verði unnt að byrja að reisa herlegheitin, á bökkum árinnar Nevu í Skt. Pétursborg.

Gazprom-Okhta_Center

Enn sem komið er er einungis skilti með mynd af dýrðinni á framkvæmdastaðnum. Þannig að þetta er enn styttra á veg komið en tónlistarhúsið, sem Björgólfur og Reykjavík ætla að reisa niðrí bæ. Spurningin er hvort verður fullbyggt á undan – tónlistar- og ráðstefnuhöll Reykjavíkur eða Gazprom City? Sem nú er reyndar búið að umskýra í Okhta Center, en Okhta er þverá sem rennur í Nevu. Menn áttuðu sig á því að heitið Gazprom City væri kannski aðeins of mikilmennskulegt.

Eins og alltaf þegar stórhuga menn lýsa hugmyndum sínum, er fólk tilbúið að vera með tóm leiðindi. Menn um allan heim ýmist fylltust skelfingu eða lýstu viðbjóði sínum, þegar þeir sáu tillögurnar sem bárust í keppnina um Gazprom City. Á endanum höfðu þrír af þeim fjórum arkitektum sem sátu í dómnefndinni, sagt sig frá verkefninu. Þannig að það kom í hlut Miller's og nokkurra annarra embættismanna að skera úr um hvaða tillaga skyldi hreppa hnossið. Og illar raddir segja að Miller og skriffinnarnir hafi gjörsamlega verið með Eiffel-turninn á heilanum og það eitt hafi stjórnað vali þeirra.

gazprom_1

Sjá má sigurtillögu þeirra frá RMJM hér til hliðar. Við sólsetur virðist byggingin nánast virka sem risastór gaslogi, þarna sem hún gnæfir 400 metra yfir Skt. Pétursborg.

Meðal þeirra sem lýst hafa skelfingu vegna þessarar hugmyndar eru t.d. fjölmörg arkitektasamtök og einnig UNESCO. Enda er turninn óneitanlega nokkuð á skjön við hina lágreistu og glæsilegu heildarmynd Skt. Pétursborgar – borgarinnar sem Pétur mikli lét reisa á 18. öld.

Sjálfur hef ég alltaf verið svolítið veikur fyrir svona brjáluðum hugmyndum – og þess vegna ekki komist hjá því að hrífast af myndum af turninum. En ég verð líka að viðurkenna að enn hef ég ekki druslast til að heimsækja Skt. Pétursborg (sem kannski mun e.h.t. verða breytt í Pútíngrad). Og geri mér því ekki vel grein fyrir hvernig turninn og borgin muni fara saman. En í anda þeirra framkvæmdagleði sem maður sýndi sem smápatti austur á Klaustri hér í Den - vopnaður skóflu úr Kaupfélaginu og Tonka-gröfu - er ég viss um að þetta verður suddalega flott bygging. Og hananú.

PS: Menn geta fræðst meira um Gazprom-turninn á heimasíðu verkefnisins:   http://www.ohta-center.ru/eng/tomorrow/index.html

Gazprom_okhta_tower

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

takk fyrir þessa fræðandi færslu.. 

mér þykir þessi framkvæmd alveg mögnuð. Turninn er bara listaverk á að horfa.. og svo fór ég að velta fyrir mér.. hversu djúpar þurfa undirstöðurnar að vera því St. Pétursborg er byggð á votlendi að mestu.. en það er verkfræðilegt vesen.. :)

Óskar Þorkelsson, 25.10.2008 kl. 18:53

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Takk fyrir mjög áhugavert og fróðlegt blogg um málefni sem skipta Íslendinga gríðarlegu máli, sérstaklega varðandi Íshafið og þann slag sem sennilega verður um auðæfi þar.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 26.10.2008 kl. 22:09

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ríki munu fylgja fast eftir rétti sínum til yfirráða yfir auðlindum í og undir íshafinu. En um þetta gilda ákvæði Hafréttarsamnings SÞ og því verður væntanlega unnt að ráða þessu til lykta með friðsamlegum hætti. Ísland á því miður engan rétt til lögsögu þarna norður frá.

Ketill Sigurjónsson, 27.10.2008 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband