Tröllaorka

Katie_Melua_Troll

Þeir sem ekki lifa og hrærast í heimi olíusullsins kunna að spyrja sig að því, hvað í ósköpunum Katie Melua, orkulindir norðursins og norsk tröll eiga sameiginlegt. Svarið er auðvitað að öll koma þau saman á hafsbotni – á 300 metra dýpi – til að njóta tónlistar. Meira um það síðar.

Orkubloggið ætlar á næstu dögum að snobba svolítið fyrir Norðmönnum. Og byrja á því að dást að fegurð norskra trölla. Sem eru allt annars eðlis en hún Grýla gamla eða Gilitrutt. Því þótt bæði íslensku og norsku tröllin séu sögð búa í fjöllunum, hafa hin norsku tröll fært sig um set. Út á haf. 

Tröllasvæðið s.k. í norsku efnahagslögsögunni, rúmlega 30 sjómílur vestur af Bergen, er mesta gasvinnslusvæði Norðmanna. Þar á sér líka stað mikil olíuvinnsla. Þessar auðlindir fundust fyrir 30 árum, byrjað var að huga að vinnsluleyfum í kringum 1980 og loks kom að því að norska Stórþingið samþykkti áætlun um einhverja almestu olíu- og gasvinnslu Noregs. Og einungis hálfum áratug síðar var búið að smíða það sem til þurfti - þar á meðal einhvern svakalegasta borpall sögunnar. Gas og olía tók svo að streyma upp á yfirborðið 1996.

troll_map

Sökum þess að dýpi á þessum slóðum er hressilega mikið, um 300 m, og veður válynd, þurftu menn að smíða sérstaklega sterka og öfluga borpalla.

Tæknin í kringum 1980 fólst í "fíngerðum" stálpöllum, en óttast var að slíkir pallar myndu ekki þola aðstæðurnar á svæðinu. Niðurstaðan varð að útfæra s.k. Condeep-hönnun, sem fram til þessa hafði reyndar einungis verið nýtt við smíði mun minni borpalla.

Condeep-pallurinn á Tröllasvæðinu, sem nefndur er Tröll A, teygir sig upp af 300 m dýpi og meira en 150 metra upp úr sjónum. Eins og risastórt háhýsi - eða "flottur riddarakastali" eins og stráksi minn kallar hann. Pallurinn hvílir á gríðarmiklum steinsteyptum súlum, sem var þrykkt 35 metra niður í hafsbotninn. Þetta er svo sannarlega alvöru tröll eða risi. Eða nútíma riddarakastali.

TrollA_towed_2

Á Tröllasvæðinu eru nú þrír stórir borpallar. Sem kallaðir eru Tröll A, Tröll B og Tröll C. Trölli A var komið fyrir árið 1995 og var þá stærsta hreyfanlega mannvirki sem nokkru sinni hafði verið smíðað í heiminum. Enda hefur tröllinu verið lýst sem einhverju mesta verkfræðiundri sögunnar.

Sjálf smíðin fór fram nokkuð víða, en pallurinn var að mestu settur saman í iðnaðarbænum Vats í Rogalandshéraði í V-Noregi. Þaðan var Tröll A, með öll sín 656 þúsund tonn, einfaldlega dreginn á áfangastað. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar.

Þessi gígantíski borpallur á að geta rækt hlutverk sitt í a.m.k. 70 ár. Enda eru gaslindirnar á svæðinu gríðarlegar. Tröll B og Tröll C eru ekki alveg jafn miklir risar; Tröll B er s.k. hálfljótandi borpallur en Tröll C er fljótandi pallur, sem festur er með e.k. akkerum. Þeir Trölli B og C hófu vinnslu 1995 og 1999.

troll platform

Til að sækja gasið og olíuna á Tröllasvæðinu þarf að bora 1,5 km niður í hafsbotninn. Þar liggja kolvetnin í víðáttumiklum en nánast "örþunnum" lögum - sem einungis eru um 25 metra þykk. Til að ná sem mestu af gasinu og olíunni upp á yfirborðið, er fyrst borað þessa 1.500 metra beint niður og síðan haldið áfram og borað lárétt. Láréttu göngin eða borholurnar geta verið allt að 3 km á lengd og jafnvel lengri.

Framleiðslan á Tröllasvæðinu jókst hratt og var fljót að ná hámarki. Það gerðist strax árið 2002 og síðan þá hefur dregið úr framleiðslunni.  Það er nefnilega veruleg kúnst að samhæfa vinnsluna. Því of mikil vinnsla á einum stað getur dregið stórlega úr vinnslu á öðrum stað. Með skerti nettóafkomu.

Þetta er því eins konar kolvetnis-línudans, þar sem tröllin þrjú þurfa að sýna glæsilegar jafnvægiskúnstir. Um mitt síðasta ár (2007) ákváðu norsk stjórnvöld að setja 2 milljarða USD í að auka framleiðslugetuna á svæðinu. Gnægð af olíu og gasi er fyrir hendi þarna og mun endast í marga áratugi enn. Trikkið er að ná gumsinu upp með sem ódýrustum hætti.

Gert er ráð fyrir að olían á Tröllasvæðinu nemi alls um 1,5 milljarði tunna og svæðið verði tæmt á árabilinu 2020-30. Og menn telja og að þarna sé unnt að vinna um 1.300 milljarða teningsmetra af gasi – og að gasvinnslunni ljúki um 2050. Þá verður einmitt bráðum kominn tími á Tröll A.

TrollA_Eiffel

Tröllasvæðið með hinu þríhöfða trölli A, B og C útvegar nú milljónum Evrópubúa gas. Gasinu er fyrst dælt um gasleiðslu eftir hafsbotninum þessa 60 km austur til Kollsness, sem er skammt frá Bergen. Eins og sjá má á kortinu hér ofar í færslunni. Og þaðan fer gasið áfram eftir gaspípum frá Noregi til Evrópu, til þeirra sem þurfa orkuna.

Það er Shell sem er stærsti erlendi eigandinn að vinnslunni á Tröllasvæðinu, með um 8% hlut. Nokkur önnur erlend olíufélög eiga svo smærri bita í þessu miklu orkuævintýri Tröllanna. Þar á meðal eru franska Total og bandaríska ConocoPhillips. En norsku StatoilHydro og Petoro fara auðvitað með meirihlutann í þríhöfðanum - heil 86%. Rétt eins og Íslendingar eiga meirihluta i álverunum... not!

Auðvitað er ekkert íslenskt fyrirtæki hluti af starfseminni þarna á Tröllasvæðinu. Olíuævintýrið í Norðursjó hefur af einhverjum ástæðum hvorki heillað íslensk stjórnvöld né íslensk verkfræðifyrirtæki eða verktaka. Enda örlítið tæknilegri framkvæmdir en skóflur og skurðgröfur. Til allrar hamingju hefur orðið til mikil þekking og reynsla hjá ýmsum íslenskum fyrirtækjum á nýtingu vatnsafls og jarðhita. Og gaman af því að Íslendingur átti t.d. hagstæðasta tilboðið í hönnun Kárahnjúkastíflunnar; Pálmi Jóhannesson. En Orkublogginu þykir miður að Íslendingar skuli alfarið hafa látið olíu- og gasævintýrið i túnjaðrinum framhjá sér fara.

Katie_Melua_2

Upplagt að ljúka þessu með því að nefna söngfuglinn Katie Melua. Og ævintýri hennar, þegar hún heimsótti tröllin þarna djúpt undir yfirborði sjávar. Það var í október 2006 að menn héldu upp á 10 ára afmæli gasvinnslu hjá Trölli A. Og buðu Katie að smella sér með lyftunni niður í einn af fjórum steinsteypustólpunum, sem Tröll A hvílir á.

Þarna 300 metrum neðan sjávarmáls raulaði Katie m.a. "Closest Thing To Crazy" með gítarinn sinn fyrir Norsara í rauðgulum samfestingum. Og að eigin sögn mun hún barrrasta hafa haft alveg þrælgaman af þessum óvenjulegu tónleikum, stelpuskottið.

http://www.youtube.com/watch?v=7P_vOPR78FE


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

tak fyrir fróðlega grein.

Troll A,  er notaður að ég best veit sem stefnuviti fyrir flugleiðir þegar flogið er til Oslo.. eða það er bara tilviljun að flogið er yfir hann og svo Bergen strax á eftir í aðfluginu að Gardermoen.. ég hef margoft séð hann fyrir neðan vélina.. úr 30.000 fetum er hann samt stór.. eins og eyja hreinlega. 

Óskar Þorkelsson, 30.10.2008 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband