Mjallhvít...

Nú er ár liðið síðan Norðmenn byrjuðu í fyrsta sinn að framleiða fljótandi gas (LNG). Gasið fá þeir úr hafsbotninum langt í norðri. Á svæði út af Hammerfest í Finnmörku – svæði sem kallað er Mjallhvít (Snöhvit).

snohvit_map

Þetta risatóra verkefni hefur gert krummaskuðin þarna við Hammerfest í Norður-Noregi að miðpunkti norska olíu- og gasævintýrisins. Hjá Norðmönnum er sagan um Mjallhvíti sko ekki aldeilis eitthvert ævintýrabull. Heldur “et sant eventyr”, eins og þeir Statoil-menn lýsa því.

Alls samanstendur Mjallhvítarsvæðið af þremur stórum gaslindum, sem kallaðar eru Mjallhvít, Albatros og Askeladd. Lindirnar liggja um 140 km frá strönd Noregs, en sjálf LNG-vinnslustöðin var reist á eyjunni Melköja skammt utan við Hammerfest. Enn sem komið er bíða Albatros og Askeladd þess að verða nýttar.

Gasið þarna uppgötvaðist 1984, en lengi vel var óvissa um hvort eða hvenær farið yrði í vinnsluna. Sökum þess að gassvæðin risastóru í Norðursjó, Tröllasvæðið, Ormurinn langi o.fl., munu ekki endalaust anna eftirspurninni eftir gasi, varð spennandi að leita norðar. Þó er stutt síðan að gasvinnsla í Barentshafi þótti nánast útilokuð - bæði vegna erfiðara aðstæðna, svo sem veðurofsans á veturna, en ekki síður vegna vandamála við að koma gasinu á markað. Hæpið er að byggja gasleiðslur alla leið þaðan í norðri og suður til Evrópusambandsins. Slíkt yrði mjög kostnaðarsamt. Þar að auki er áhugvert er að ná til fleiri markaða en bara Evrópu.

Eftir því sem eftirspurn eftir LNG jókst, ekki síst í Bandaríkjunum, sáu menn að það gæti orðið mjög arðbært að framleiða þarna fljótandi gas. Stórþingið norska blessaði verkefnið 2002 og þá gat Statoil farið á fullt. Aðeins 5 árum síðar - í ágúst 2007 - streymdi svo gasið frá borholunum á 250-350 metra hafdýpi, þessa 140 km til vinnslustöðvarinnar á Melköja. Þar sem því er umbreytt í fljótandi gas og sett á tankskip. Þá var liðinn rétt tæpur aldarfjórðungur síðan gaslindirnar fundust þarna langt í norðri.

snohvit-melkoja

Alveg eru þeir hreint magnaðir, Norsararnir. Það er ekki nóg með að þetta sé fyrsta LNG-verkefnið þeirra og stærsta LNG-verksmiðja í Evrópu. Allt vinnslukerfið á Mjallhvítarsvæðinu liggur neðansjávar og kerfinu öllu er stjórnað með joystick úr stjórnstöð á landi – 140 km frá vinnslusvæðinu. Þetta er líkast til ennþá meira tækniafrek en uppbygging gasvinnslunnar geggjuðu á Orminum langa - svæðinu langt vestur af Þrándheimi.

Sem fyrr segir er gasinu frá Mjallhvíti umbreytt í fljótandi gas - LNG. Kælingin á sér stað í vinnslustöðinni á Melköja og þar er fljótandi gasið sett á tvo gríðarstóra geyma. Sem eru í raun ekkert annað en risastórir ísskápar. Kæligeymarnir eru sagðir geta geymt samtals 125 þúsund teningsmetra af fljótandi gasi. Teikningin hér að neðan sýnir slíkan turn - með ráðhúsið í Osló sem stærðarviðmiðun.

LNG_tower_raadhus

Þessi kælingar-prósess þarf eðlilega örlítið rafmagn. Eða rúmlega 1,5 teravattstundir á ári hverju. Það er líklega svipað orkumagn og notað er á Íslandi á einum ársfjórðungi. Þar með talin öll orkunotkun almennings, fyrirtækja og allrar stóriðjunnar! Dágóður biti.

Raforkan sem fer í kælinguna er að sjálfsögðu framleidd með hluta gassins frá Mjallhvíti. Sem þýðir lauflétta losun á CO2. En Norsararnir fara létt með það. Koltvíoxíðinu er einfaldlega dælt til baka eftir leiðslu á hafsbotninum og ofaní sérstaka borholu. Þangað munu 7-900 þúsund tonn af CO2 á hverju ári hverfa í iður jarðar. Það er talsvert meira en allur íslenski fiskiskipaflotinn losar á heilu ári. Og u.þ.b. það sama og allur íslenski bílaflotinn losar árlega. Þessu gumsi dæla Norðmenn barrrasta niður í holu á hafsbotninum. Sniðugir pottormar, Norsararnir. 

Snohvite_route

Svo þarf auðvitað að sigla með gasið til kaupendanna vestur í Ameríku og suður á Spáni. Alls um 5,7 milljarða teningsmetra árlega (talið er að um 200 milljarðar rúmmetra af fljótandi gasi séu vinnanlegir þarna á Mjallhvítar-svæðinu). Á ca. 5 daga fresti siglir stórt og glæsilegt rauðmálað tankskip inní höfnina við Melköja til að flytja fljótandi gasið suður til markaðanna.

Alls eru þetta um 70 ferðir árlega - og munu skipin fara sem leið liggur skammt austan við Austfirði. Kannski kominn tími á “vegatoll” í íslenskri lögsögu? Svona með hliðsjón af skattpíningu Noregskonunga hér áður fyrr.

Til þessara flutninga hafa Norsararnir nú þegar fengið fjögur LNG-tankskip. Annars vegar frá heimamönnunum hjá Leif Höegh & Co og hins vegar frá hinni fornfrægu japönsku skipasmíðastöð með skemmtilega nafnið; Kawasaki Kisen Kaisha.

gas_sv_tanker

Eitt er það sem fer smá í taugarnar á Orkublogginu. Meðan norsku Höegh-skipin Arctic Princess og Arctic Lady sigla um Atlantshaf stútfull af fljótandi gasi, er Eimskipum siglt í þrot. Þó hefur Eimskipafélagið haft rúmlega áratug lengri tíma en Höegh-skipafélagið til að byggjast upp. Súrt. Kannski hefði Eimskip átt að horfa til þess að flytja fljótandi gas?

StatioilHydro á um þriðjung í Mjallhvítar-verkefninu og annar þriðjungur er í höndum norska ríkisfyrirtækisins Petoro. Hlutverki Petoro má etv. lýsa þannig, að meðan Statoil er að mörgu leyti eins og hvert annað fyrirtæki þar sem arðsemin er aðalatriði, er Petoro ætlað að gæta þess að viðskipti Statoil samrýmist víðtækari hagsmunum norska ríkisins. Svona svipað eins og ef Landvirkjun hefði ekki setið ein að Kárahnjúkavirkjun, heldur hefði ábyrgðinni verið skipt á milli tveggja ríkisfyrirtækja í því skyni að efla áhættumatið.

Total_logo

Aðrir eigendur Mjallhvítar-verkefnisins eru ýmis fyrirtæki í gasiðnaðinum. Þar á meðal auðvitað franska Total, sem er með mikla þekkingu á LNG (eiga rúm 18% í Mjallhvíti).

Þessi fyrsti áfangi hins mikla LNG-ævintýris mun hafa kostað um 58 milljarða norskra króna. Nú á tímum gengisfalls - stjúpunnar vondu sem virðist einkum uppsigað við Ísland - er maður ekkert að umreikna þetta í íslenska krónuræfla.

Kostnaðurinn var einhver 5% yfir upphaflegri áætlun. Sem þætti vel gert í opinberum framkvæmdum á Íslandi! Og það sem meira er – um 6/10 alls fjárins fór til norskra fyrirtækja. Og það þó svo StatoilHydro og flestir Norðmenn hefðu varla svo mikið sem heyrt um LNG áður en til þess risaverkefnis kom. En nú eru þeir orðnir sérfræðingar í LNG-vinnslu í Barentshafi.

Þar með eru Norðmenn nánast búnir að tryggja aðkomu sína að næsta stóra LNG-dæminu i í Norðurhöfum. Sem er Shtokman-verkefni Rússana aðeins austar í Barentshafi, norðan Kólaskaga.  Og gaslindirnar í nágrenni Mjallhvítar, sem kenndar eru Albatros og Askeladd, eru enn ósnertar. Björt framtíð hjá Norðmönnum.

gas_tanker_melkoja

Myndin hér til hliðar sýnir tankskipið Arctic Princess lesta fyrsta LNG-farminn á Melköya. Þetta var fyrir sléttu ári síðan (20. október 2007). Og þaðan sigldi skipið með Mjallhvítar-gasið í átt til markaðarins - um íslenskt hafsvæði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Flott grein hjá þér, Ketill.  Það sem mér hefur alltaf þótt flottast í Mjallhvítarverkefninu er að allir bor-/dælupallar eru neðansjávar.  Mögnuð mannvirki.

Eitt í þessu verkefni gætu íslensk stjórnvöld tekið til eftirbreytni og það er að fela innlendum fyrirtækjum eins stóran hluta verka eins og hægt er.  Að menn skuli semja við erlend fyrirtæki, þegar þau innlendu bjóða einhverjum aurum hærra.  Það er eins og menn telji alltaf að upphefðin komi að utan.  Að útlendingar geri hlutina betur. Eða eru menn bara að redda sér utanlandsferðum!

Marinó G. Njálsson, 2.11.2008 kl. 20:52

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Já - þetta er ekkert annað en tær snilld hjá Norsurunum.

Ef við hefðum farið norksu leiðina í stóriðjumálum, ætti Ísland væntanlega sitt eigið álframleiðslufyrirtæki í dag. Alice! Sem væri líklega hið umhverfisvænasta í heimi - og nyti jafnvel sérstaks velvilja t.d. WWF og annarra umhverfissamtaka. Í staðinn eru það illa liðnir umhverfissóðar eins og Rio Tinto, sem fara hér með álvinnsluna. Þó svo þeir geri eflaust vel hér á landi, fer verri sögu af starfsemi þeirra víða annars staðar. Sem hefur skapað þeim slæma ímynd.

Ketill Sigurjónsson, 3.11.2008 kl. 08:32

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ég hef reyndar mjög ákveðnar hugmyndir hvernig best væri að standa að skipulagi framkvæmdanna á Drekasvæðinu. En það er ómögulegt að segja hver árangurinn þar kemur til með að verða. Og kreppan nú gæti orðið til að tefja verulega fyrir vinnslu á svona miklu dýpi.

Alvarlegast er að það vantar skýra orkustefnu hérna á Íslandi. Og metnað. Stjórnvöld virðast halda að íslensk orkufyrirtæki geti bara verið í jarðhitaverkefnum eða vatnsafli. Og að við eigum bara að virkja - en ekki eiga þátt í tækninni sem nýtir orkuna. Þetta er svona hálfgert "þriðja heims viðhorf", sem hér hefur ríkt. Mikil þröngsýni.

Minni á hvernig ítalska fyrirtækið Eni varð eitt af öflugustu orkufyrirtækjum heims. Fyrst og fremst vegna starfseminnar utan Ítalíu. Sönnun þess að Ísland gæti átt orkufyrirtæki á heimsmælikvarða. Fyrirtæki sem myndi byggja grunn sinn á jarðhitanum og vatnsaflinu - en þróast og stækka yfir í aðra geira. En menn myndu verða að vanda sig - og ekki ana í hlutina með góðærisglampa í augum. Verður spennandi að sjá hvernig Orkuveitan og Landsvirkjun þróast næstu árin.

Ketill Sigurjónsson, 3.11.2008 kl. 16:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband