7.11.2008 | 22:30
Tangentopoli
Eni. Ítalska ofurfyrirtækið sem er eitt stærsta orkufyrirtæki í heimi. Fyrirtækið hans Enrico Mattei sem margir telja að CIA eða leigumorðingjar hafi komið fyrir kattanef. Af því hann keypti olíu af Sovétmönnum og virtist jafnvel ætla að komast fram fyrir bandarísku olíufélögin í keppninni um olíuna frá bæði Írak og Persíu (Íran).
Í síðustu færslu sagði Orkubloggið stuttlega frá tilurð þessa magnaða ítalska fyrirbæris. Sem á fáeinum árum varð einn af aðalleikendunum í orkuleikriti veraldarinnar á eftirstríðsárunum, þó svo fremur litla olíu eða gas sé að finna í ítalskri lögsögu.
Við skildum við félagið 1962, þegar Mattei fórst í dularfullu flugslysi. Þá þegar var Eni orðið stórveldi bæði vegna gaslinda sem fundust undir Adríahafinu og þó fyrst og fremst vegna starfseminnar erlendis. Mattei náði samningum við bæði Egypta og Persa um aðkomu Eni að olíulindunum þar. Eftir fráfall Matteis hélt félagið áfram að vaxa í skjóli ítalska ríkisins - þar sem yfirburðastöðu þess var óspart beitt til að ná kverkataki á stórum hluta iðnaðarframleiðslu í landinu.
Í dag ætlar Orkubloggið að beina athyglinni að niðurlægingu Eni í upphafi 10. áratugarins og manninum sem náði að hefja það til vegs og virðingar á ný. Eins og vonandi verður með íslensku bankana.
Sagt er að vald spilli. Og eftir því sem Eni varð valdameira jókst spilling innan fyrirtækisins. En hún fór hljótt og komst í reynd ekki upp á yfirborðið fyrr en 1992. Þegar fyrirtækið var að sligast undan geggjaðri skuldsetningu. Og spilaborgin hrundi. Það drama leiddi til handtöku margra æðstu stjórnenda fyrirtækisins - með skelfilegum persónulegum harmleik.
Í júlí 1993 fannst Gabriele Cagliari, fyrrum forstjóri Eni, kafnaður í fangaklefa sínum - með plastpoka um höfuðið. Cagliari sætti þá ákærum um stórfelldar mútur og hafði setið í varðhaldi í nokkra mánuði.
Og örfáum dögum seinna skaut Raul Gardini höfuðið af sér í 18. aldar höllinni sinni í Mílanó. Það sjálfsmorð vakti smávegis athygli, enda var Gardini yfir næststærstu iðnaðarsamsteypu á Ítalíu - Ferruzzi Group. Fyrirtæki Gardini's var einfaldlega allt í öllu í ítölskum iðnaði (einungis Fiat-samsteypan hans Gianni Agnelli's var stærri en viðskiptaveldi Gardini).
Þetta var auðvitað sorglegur endir á ævi mikils merkismanns. Sem fáeinum mánuðum áður hafði baðað sig í dýrðarljóma, þegar risaskútan hans - Il Moro di Venezia náði frábærum árangri í America's Cup. Já mikil veisla fyrir Orkubloggið sem bæði dýrkar siglingar og olíu.
Allt var þetta angi af hinni algjöru pólitísku spillingu á Ítalíu Tangentopoli - sem náði bæði til kristilegra demókrata og sósíalista. Og leiddi til fjöldasjálfsmorða meðal æðstu klíku ítalskra embættismanna og viðskiptajöfra. Kannski má segja að hrun þessarar gjörspilltu klíku hafi náð hámarki þegar Bettino Craxi, sem verið hafði forsætisráðherra Ítalíu 1983-87, flúði undan réttvísinni til Túnis 1994.
Dentro Bettino, fuori il bottino, hrópaði ítalskur almenningur. Og grýtti Craxi með smápeningum, þegar upp komst um viðurstyggilegt siðleysi hans og græðgi.
Og Craxi snéri aldrei heim aftur, enda beið hans þar 10 ára fangelsisdómur. Það ótrúlega er nefnilega, að þrátt fyrir allt er til réttlæti á Íslandi... á Ítalíu vildi ég sagt hafa. En það má kannski segja að það hafi einmitt verið öll þessi upplausn sem kom Berlusconi til valda á Ítalíu. Sem var kannski ekki besta þróunin.
En hvernig gat Eni orðið eitt af stærstu orkufyrirtækjum heims? Líklega sambland af heppni og útsjónarsemi. Fyrirtækið náði tangarhaldi á miklum gaslindum í Túnis og Alsír á 7. áratugnum. Sem urðu að hreinni gullnámu þegar olíukreppan skall á 1973. Og eftirspurn eftir gasi jókst skyndilega.
Starfsemi Eni í Adríahafinu, sem hófst löngu á undan Norðursjávarævintýrinu, leiddi til þess að Eni varð leiðandi fyrirtæki við gasvinnslu úr hafsbotni. Og þeir búa enn að þessu forskoti sínu, núna þegar gasvinnsla er að hefjast í Barentshafi. Nú þegar vinnslan færist stöðugt norðar eru fyrirtæki eins og Eni og StatoilHydro einfaldlega í vinningsliðinu.
Já - Ítalirnir leyna á sér. A.m.k. ef litið er framhjá langvarandi taprekstri innan Eni-samsteypunnar og hroðalegri spillingar stjórnenda félagsins eftir daga Enrico Mattei. Líklega hefði félagið hrunið fljótlega upp úr 1990, eftir skandalinn mikla, ef ekki hefði komið til maður að nafni Franco Bernabé.
Bernabé var millistjórnandi hjá Eni og hafði lengi barist fyrir breytingum innan fyrirtækisins. Í upphafi 10. áratugarins þegar Eni virtist einfaldlega að hruni komið fjárhagslega, taldi þáverandi forsætisráðherra Ítalíu, Guiliano Andreotti, að Bernabé væri rétti maðurinn til að reyna að bjarga því sem bjargað varð.
Skuldir Eni í árslok 1992 námu a.m.k. 19 milljörðum dollara og tapið það ár var nærri 700 milljónir dollarar. Og Bernabé bretti upp ermarnar. En þá kom líka allur skíturinn í ljós - og skyndilega stóð hann einn. Öll yfirstjórn fyrirtækisins var komin á sakamannabekk og stjórnin sömuleiðis. Sjálfur hefur Bernabé lýst þessu þannig, að það hafi verið líkt og fá atómsprengju í höfuðið.
En til að gera langa sögu stutta, þá gekk Bernabé til verks, hreinsaði burtu óarðbæra starfsemi og rekstur sem kom orku ekki nokkurn skapaðan hlut við. Gjörsamlega umsnéri öllu hjá Eni. Og aðeins fjórum árum síðar skilaði Eni-samsteypan þremur milljörðum USD í hagnað og var orðið eitt stærsta og best rekna orkufyrirtæki heims.
Ætli Íslendingar fái bráðum sinn eigin Franco Bernabé. Eða verða bankarnir barrrasta einkavinavæddir á ný? Eftir þessa snyrtilegu kennitölufléttu.
Þess má geta að Bernabé er nú orðinn forstjóri Telecom Italia. Og tók auk þess hliðarspor frá business as usual og varð formaður Feneyjatvíæringsins. Fjölhæfur og snjall náungi þar á ferð.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 8.11.2008 kl. 11:11 | Facebook
Athugasemdir
http://www.geocities.com/CapitolHill/5356/tangent.htm
René (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 14:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.