5.12.2008 | 08:31
Hvíti hákarlinn
Í síðustu færslu lofaði Orkubloggið umfjöllun um týnda hvíta hákarlinn. Flotpallinn Perdido. Sem ætlað er það hlutverk að ná upp olíunni úr lindunum kenndar við hvíta hákarlinn - Great White undir djúpi Mexíkóflóans. Og aldrei þessu vant ætlar bloggið að efna loforð sitt.
Já - senn verður Perdido dýpsti flotpallur heims í olíuvinnslu. Á vinnslusvæði nr. 857 - Great White í Alaminos Canyon í Mexíkóflóanum. Þaðan munu spagettí-löguð borsköftin teygja sig í gegnum hafsbotninn, snuðra uppi olíulindirnar á svæðinu og sjúga svart blóðið úr hvíta hákarlinum.
Það eru Shell og Chevron sem eru aðalpersónurnar í leikritinu um hvíta hákarlinn. Ásamt BP - sem er með aðeins minni hlut í ævintýrinu. Og svo kemur auðvitað fjöldi undirverktaka að þessu risaverkefni. Í olíuveröldinni eru nefnilega allir vinir og keppendur um leið. Að hverju og einu olíuleitarverkefni koma yfirleitt nokkur félög. Ýmist eitt af stóru olíufélögunum, ásamt nokkrum smærri leikendum á þessu sviði eða nokkrir risar saman þegar um er að ræða stærstu og dýrustu verkefnin. Þannig verður það líka með Drekasvæðið. Vonandi verða einhver íslensk fyrirtæki þar framarlega.
Af þeim verktökum sem hafa dúllað sér við Perdido-verkefnið, fer franska fyrirtækið Technip með eitt stærsta hlutverkið. Þeir hjá Technip sérhæfa sig í viðskiptaþróun og verkfræðilausnum fyrir hinn alþjóðlega olíuiðnað. Það voru m.ö.o. Frakkarnir hjá Technip, sem fengu það netta verkefni að smíða stærsta stykkið í Perdido. Sjálfan sívalninginn - alls 300 metra langan og 36 m breiðan. Risaborpall - 10 þúsund tonna tækniundur sem skyldi fljóta á 2.400 m dýpi hinum megin við Atlantshafið. Yfir Great White olíulindunum langt úti á djúpi Mexíkóflóans.
Reyndar voru það alls ekki Frakkarnir sjálfir sem sáu um smíði þessa magnaða borpalls. Heldur Finnlandsdeild Technip, sem er skipasmíðastöðin í Pori á vesturströnd Finnlands.
Það er nefnilega svo, að það eru ekki bara hefðbundin olíuríki sem koma að þessum risabisness. Ísland gæti vel orðið þátttakandi í olíuiðnaðinum, hafi menn áhuga. Kannski eignumst við Mörlandar bráðum íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki, sem mun bjóða byltingakenndan hugbúnað fyrir olíuvinnslu á hafi úti? Ætli t.d. teymið snjalla hjá Marimo Software niðri á Klapparstíg hafi spáð í það? Og kannski Jarðboranir færi sig útí sjóinn. Hafboranir!
Þó svo það séu Shell, Chevron og BP sem ætli að nota Perdido til að ná olíunni á hákarlasvæðinu, er pallurinn einungis tekinn á leigu.
Þessi sérkennilegi sívalningur er í eigu Transocean- sem lesendur Orkubloggsins ættu að vera farnir að kannast vel við. Transocean á fjölda borpalla og leigir þá út til olíufélaganna.
Það voru sem sagt hinir þöglu Finnar í þjónustu Technip, sem börðu snaggaralega saman þetta mikla mannvirki. Sívalning á hæð við Eiffel-turninn, sem í framtíðinni mun á degi hverjum dæla 100 þúsund olíutunnum og 5,6 milljón rúmmetrum af gasi úr Great White olíulindum Mexíkóflóans. Ásamt tveimur öðrum lindum, sem kallast Tobago og Silvertip.
Tobago-lindin verður reyndar dýpsta olíulind heims - á næstum 3.000 m dýpi. Hvað skyldi það met standa lengi? Nefna má að þetta er u.þ.b. helmingi meira dýpi en á Drekasvæðinu, norðaustur af Íslandi. Þar sem vonast er til að olíuævintýri Íslendinga fæðist senn.
Það var snemma í sumar sem leið, að pallurinn Perdido var tilbúinn austur við Finnlandsflóa. Þá voru liðin slétt 6 ár frá því olíulindirnar kenndar við hvíta hákarlinn fundust. Nú var bara að draga þetta 300 metra háa/langa ferlíki suður Eystrasalt og þvert yfir Atlantshafið, í átt að krummaskuðinu Ingleside í Texas. Rétt rúmlega 7 þúsund sjómílna leið (u.þ.b. 13 þúsund km).
Þar í steikandi sumarsólinni í Ingleside var svo lokið við smíðina og gengið frá ýmsum tæknibúnaði. Svo var spotti aftur settur í stálið og nú haldið út á Mexíkóflóann. Ennþá er þó eftir að setja sjálfan hattinn á pallinn. Þ.e. dekkið ásamt tilheyrandi íbúðum, stjórntækjum, þyrlupalli o.s.frv. Það verður gert síðar.
Og það var einmitt á afmælisdegi Orkubloggarans í ágúst s.l., sem þessi glæsilegi risi náði áfangastað sínum djúpt útí Flóanum. Vart hægt að hugsa sér betri afmælisgjöf?
Þarna 190 sjómílur út af fellibyljaþorpinu Galveston í Texas, rétt utan við lögsögumörkin gagnvart Mexíkó, treður Perdido nú marvaðann. Eins og risastór fljótandi bjórdós á næstum 2.500 m dýpi - strengdur fastur við hafsbotninn með sérstökum polýester-köðlum, sem hver um sig er nærri 4.000 m langur.
Sjálft toppstykkið - hatturinn á draumadósina - verður sett ofan á pallinn á næsta ári. Líklega er aðeins einn kranapallur til í heiminum, sem getur séð um það verkefni. Sem er hinn hollenski Thialf í eigu "lyftingafyrirtækisins" Heerema Marine Contractors.
Stubburinn sá - Thialf - er nú staddur utan við strendur Afríku. Og hann er ansið bisí. Biðtíminn eftir þjónustu Thialf er nú u.þ.b. 3 ár. En Shell hringdi á þennan góða leigara fyrir tveimur árum og því mun hann senn halda vestur um haf. Til að hjálpa Perdido að finna höfuðið sitt.
Búist er við því að olíuvinnslan hjá Perdido verði komin á fullt árið 2010. Ætli Thialf verði þá búinn að fá pöntun frá Íslandi? Og setji stefnuna á Drekasvæðið einhverja fagra tunglskinsnótt...
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:49 | Facebook
Athugasemdir
takk fyrir mig :)
Óskar Þorkelsson, 5.12.2008 kl. 17:34
Ávallt gaman að detta hérna inn og lesa pistlana þína. Ég þakka fyrir mig.
Guðni Steinarsson (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 17:46
Sæll og takk fyrir bloggið. Þetta hefur verið ágætis fræðsla og skemmtun síðustu mánuði.
Vildi líka benda þér á lítið startup fyrirtæki í Danmörku sem heitir Virtual Lab. Það er að einum þriðja í eigu Íslendings sem heitir Guðmundur Bogason. Þeirra stærsta söluafurð um þessar mundir er hugbúnaður sem þjálfar starfsmenn olíuborpalla í sýndarveruleika.
Sjá: http://www.vlab.dk/
Magnús Birgisson, 6.12.2008 kl. 12:44
Athyglisvert. Fróðlegt væri að heyra meira um þennan dansk-íslenska hugbúnað.
Ketill Sigurjónsson, 6.12.2008 kl. 13:46
Takk fyrir enn eina frábæru færsluna! Ég legg til að Íslendingar setji saman starfshóp sem fari vel ofan í og finni hreinlega bein verkefni fyrir íslensk fyrirtæki í kringum þennan iðnað, Ketill gæti verið formaður hópsins ;-)
Ég hef svo gaman af samsæriskenningum (þó þær geti verið misgáfulegar). Ein pæing...ætli það sé tenging á milli Drekasvæðisins og Gammsins á Norðurlandi og kjaftasagnanna um að hópur Rússa hafi á sl. ári verið að leyta að rándýru húsi á Akureyri, meira að segja sjálfur Abramovich átti að hafa haft augastað á svæði í Vaðlaheiði á móti Akureyri. Rússar létu einnig nýlega gera upp gamlan grænlenskan togara í Slippnum á Akureyri til einhverra rannsókna en hann er víst núna að rannsaka eitthvað í Eystrasalti og ég hef heyrt að annar gamall togari hafi verið keyptur á Íslandi sem annað eins á að gera við. Kannski er engin tenging þarna á milli en gaman að pæla í þessu...
Halldór (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 17:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.