24.12.2008 | 10:35
Spennandi háspenna!
765 þúsund volt. Það er skammturinn fyrir spennufíkla dagsins. Orkubolta sem ekki geta eytt jólunum í leti.
Kannski má segja að í ágúst s.l. hafi orðið ákveðin tímamót í raforkumálum Bandaríkanna. Og endur-rafvæðing hafist þar í landi. Þá var tilkynnt um samstarf fyrirtækjanna American Electric Power og Duke Energy um að byggja nýtt og öflugt háspennukerfi í Indianafylki. Fyrir um 1 milljarð dollara.
Mest allt flutningskerfi rafmagns í Bandaríkjunum er um aldarfjórðungs gamalt. En nú eru að verða miklar breytingar vestur í Indiana, sem lengi hefur legið í skugganum af Illinois og Michigan. Þetta dreifbýlistúttufylki er líklega þekktast fyrir stálframleiðslu. En þeir sex milljón drottinssauðir sem búa þarna í Indiana eru ekki bara í stáli. Heldur standa þeir líka sveittir við að framleiða rafmagn - samtals hátt í 30 þúsund MW.
Lang stærstur hluti rafmagnsframleiðslunnar í Illinois kemur frá kolaorkuverum eða um 20 þúsund MW. Þrifalegt eða hitt þó heldur. Þar er Gibson-verið í eigu Duke Energy stærst með meira en 3.300 MW framleiðslugetu. Og þetta subbulega rafmagn, sem rekja má til gríðarmikilla kolanáma í fylkinu, er ein helsta "útflutningsvara" íbúa Indiana.
Þó svo Indiana verði seint prísað fyrir hreina orku, eru athygliverðir hlutir að gerast þarna á flatneskjunni. Nýju raflínurnar sem ljúflingarnir hjá Duke Energy og hinu fornfræga AEP ætla að reisa til að efla orkuflutning innan Indiana og til miðvesturríkjanna, eru boðberar mikilla breytinga. Nýja kerfið er ekki aðeins hugsað sem öflugra flutningskerfi með nýjum 765 kV línum. Heldur er hönnunin öll miðuð við það, að inn á kerfið komi raforka frá fjölmörgum nýjum vindorkuverum.
Í Indianafylki einu eru nú uppi áætlanir um að framleiða allt að 3 þúsund MW með vindorku. Sem á mannamáli merkir ca. 1-2 þúsund risastórar vindtúrbínur. En miðað við raforkuflutningskerfi Bandaríkjanna í dag, er tómt mál að tala um byltingu í uppbyggingu endurnýjanlegrar orku. Nema til komi gríðarleg fjárfesting í flutningskerfinu.
Nýju vind- og sólarorkuverin þar vestra eru flest fjarri núverandi kola- og gasorkuverum. Þar að auki hefur núverandi kerfi ekki þolað frelsisvæðingu bandaríska orkugeirans. Allt í einu gátu orkufyrirtækin selt raforku til neytanda óralangt fjarri orkuverunum. Enron blómstraði og Kalifornía fór í blackout. Kerfið stóð víða ekki undir þessum breytingum og afleiðingarnar voru víðtækar bilanir og langvarandi rafmagnsleysi á stórum svæðum.
Bandaríska orkumálaráðuneytið hefur lagt fram áætlun um að á næstu tveimur áratugum verði 60 milljörðum dollara varið í að byggja upp nýtt landsnet. Sem að stóru leyti verður 765 kV línur. Sjálfir tilkynntu þeir hjá AEP nú í snemma í desember um þau plön sín að byggja 1.600 km af þessum nýju háspennulínunum á næstu 10 árum. Það verður fjárfesting upp á 5-10 milljarða dollara.
Það er ekki hlaupið að því að fleygja upp slíkum rosalegum háspennulínum. Bæði myndast mjög sterkt rafsegulsvið umhverfis svona mikla háspennu, auk þess sem eflaust verða ljón í vegi þess að semja við landeigendur og skipulagsyfirvöld um línulagninguna. NIMBYs allra landa sameinist!
Til samanburðar mætti nefna að svona 765 kV línur þekkjast ekki á Íslandi. Enda tæplega þörf fyrir svo mikla flutningsgetu hérlendis. Enn sem komið er, eru 132 kV og 220 kV línur normið hér á Klakanum góða. En orkuálagið hefur aukist gríðarlega síðustu tvo áratugina. Og í þessum bransa þarf líka talsverða framsýni, sökum þess að endingatími kerfanna er allt að heil öld. Fyrir vikið er nú byrjað að reisa hér á Íslandi 420 kV raflínur, a.m.k. á SV-landi, þó svo spennan á þeim í dag sé einungis 220 kV. Þetta stúss er nú í höndum ríkisfyrirtækisins Landsnets.
Höfuðpaurinn að baki metnaðarfullum áætlunum AEP og Duke Energy um nýtt meganet í Bandaríkjunum er reynsluboltinn Michael Morris, forstjóri AEP. Hann hlýtur reyndar að vera Íslandsvinur, því nýlega var Morris kjörinn í stjórn Alcoa. Vonandi býður Rannveig Rist honum fljótlega ti Íslands og kynnir honum fjárfestingamöguleika hér á landi. Því miður er Orkubloggið ekki persónulega kunnugt Rannveigu. En ég man vel eftir pabba hennar, honum Sigurjóni Rist, þegar hann kom austur í Skaftafellssýslu að mæla Skaftárhlaupin. Í þá gömlu góðu hér í Den. Fátt er tilkomumeira en Eldvatnið í vestanverðu Skaftáreldahrauni í slíku hlaupi.
AEP lætur sér ekki nægja að eiga flutningskerfi upp á meira en 60 þúsund km af raflínum. Heldur eru þeir líka stórtækir í rafmagnsframleiðslu, með tæp 40 þúsund MW. Og eru því reyndar eitt af stærstu raforkufyrirtækjum Bandaríkjanna. Og auðvitað langstærstir í nýju megaháspennulínunum.
Þó svo Morris og AEP hafi stundum mátt sæta ásökunum um að flytja "skítuga" raforku, er vel hugsanlegt að þeir fái bráðum umhverfisverðlaun. Ekki aðeins fyrir nýjar áherslur um flutning endurnýjanlegrar orku - heldur líka framleiðslu "hreinnar" kolaorku.
Nú eru nefnilega komin fram kolaorkuver sem alls ekki losa nokkurt koldíoxíð. Því er öllu dælt ofaní jörðu. Það voru Svíarnir hjá Vattenfall, sem fyrstir byggðu slíkt ver. Og voru einmitt að opnað það fyrir örfáum mánuðum austur í Þýskalandi. Enn eitt lóð á vogarskál þeirra sem trúa á framtíð kola til raforkuframleiðslu. Í huga Orkubloggsins er enginn efi um að kol verða mikilvæg orkuuppsprettan næstu hundrað árin. Þó svo bloggið muni seint samþykkja kol sem hreina orkulind. En það er auðvitað allt önnur saga.
Orkubloggið - og Ketill - óska lesendum bloggsins gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:49 | Facebook
Athugasemdir
Gleðileg jól og takk fyrir fróðleikinn.
Óskar Þorkelsson, 24.12.2008 kl. 11:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.