14.12.2008 | 07:01
Ljósaskipti í eyðimörkinni?
Hvert á Mörlandinn að flýja núna í kreppunni? Verst hversu fáir íslendingar eru með reynslu úr olíuiðnaðinum. Annars gætum við fjölmennt til olíufríríkisins góða við Persaflóa. Dhahran. Og átt góða daga þar innan girðingarinnar í þessu undarlega lúxusgettói Sádanna, við strendur Persaflóans.
Dhahran í Saudi Arabíu er sá staður þar sem flestir erlendir starfsmenn í olíuiðnaði Sádanna búa, afgirtir frá hinu raunverulega íslamska þjóðfélagi. Það var einmitt í Dhahran sem olía fannst í fyrsta sinn, þarna í landi spámannsins. Fyrir nánast sléttum 70 árum. Í dag hefur Dhahran að geyma aðalstöðvar einhvers mesta gróðafyrirtækis í heimi; risaolíufélagsins Saudi Aramco. Fyrirtækisins sem gerði villtustu drauma Sékanna hvítklæddu að veruleika.
Aramco er langstærsta olíufélag heims. Og hefur allar forsendur til að skila geggjuðum hagnaði. Af þeim 86 milljón tunnum af olíu, sem heimurinn allur notar nú á degi hverjum, framleiðir Aramco meira en 10%! Og það kostar Sádana einungis svona 5-15 dollara pr. tunnu að ná miklu af þessu gumsi upp. Sem við fábjánarnir í vestrinu höfum undanfarið verið að borga 50-150 dollara fyrir.
Þetta risastóra olíufélag er með meira en 50 þúsund starfsmenn og þar af eru fjölmargir útlendingar. Flestir þeirra búa í afgirtum bæjum á olíusvæðum Sádanna, eins og í Dhahran. Þar eru höfuðstöðvar Aramco, en þrjú önnur svona útlendingaþorp er að finna í landinu.
Þó svo þrír aldarfjórðungar séu nú liðnir frá því menn þefuðu í fyrsta sinn uppi svarta gullið í Saudi Arabíu, eru aðeins tæpir þrír áratugir síðan Sádarnir sjálfir náðu fullum yfirráðum yfir olíuauðlindum landsins. Lengst af var stærstur hluti þeirra í höndum Chevron og annarra afkvæma hins bandaríska Standard Oil. Það var ekki fyrr en 1980 að Sádarnir loks fengu þessar auðlindir í eigin hendur. Og hafa síðan farið með svarta gullið eins og mannsmorð, svo ekki nokkur sála utan Aramco veit í raun hversu miklar olíubirgðir þeirra eru. Sá leyndardómur er einfaldlega óbærilega langt utan seilingar og Sádarnir gæta hans betur en dreki á gulli.
Saudi Aramco. Það hríslast um mann einhver óttablandinn sæluhrollur við það eitt að segja nafnið. Þessu netta apparati stjórna gömlu félagarnir; þeir olíumálaráðherra Sádanna og besti vinur Orkubloggsins Ali Al-Naimi og ljúflingurinn Abdúlla Jumah - sem er hinn formlegi forstjóri Aramco. Þessir páfar olíunnar eru einmitt hér á myndinni - OlíuAlí í miðið og Jumah til hægri.
Myndin var tekin í Ghawar-höllinni í janúar s.l. (2008). Þegar þar var smá gleðskapur til að heiðra snillinginn Abd Allah Saif Al-Saif (til vinstri á myndinni). Sem þá var að láta af störfum hjá Aramco eftir hálfrar aldar farsæla þjónustu. Hann gegndi síðast stöðu aðstoðarforstjóra fyrirtækisins. Þeir eru nokkuð kátir vinirnir, enda lítur út fyrir að Saudi Aramco sé barrrasta í nokkuð góðum málum. Sama hvað líður dómsdagsspám Bölmóða eins og Matthew Simmons, sem Orkubloggið vék að í síðustu færslu.
Já - þeir eru glaðir núna Sádarnir. Enda nýbúnir að halda upp á 75 ára stórafmæli Aramco. Þá er miðað við að fæðing fyrirtækisins - þessarar mestu peningamaskínu heimsins - hafi átt sér stað árið 1933. Þegar stjórnvöld í Saudi Arabíu sömdu við gamla Standard Oil of California (sem í dag heitir Chevron) um rétt til olíuleitar á austurströnd þessa ægimikla sandfláka.
Þessi angi af Standard Oil í arabísku í eyðimörkinni fékk nafnið California Arabian Standard Oil Company (stytt Casoc). Síðar urðu Texaco, Mobil og Exxon meðeigendur Chevron að Casoc. Öll eru þau afsprengi Standard Oil. Skemmtilegt.
Ástæða þess að menn fengu þá hugdettu að Saudi Arabía hefði að geyma örlítið af svarta gullinu, var að snemma á fjórða áratugnum hafði fundist umtalsverð olía í nágrannaríkinu Bahrain. Og það var einmitt á Dhahransvæðinu arabíska sem Bandaríkjamennirnir fundu fyrstu vinnanlegu olíuna í landinu. Þetta var 1938.
Á næstu árum átti heimurinn eftir að breytast með ógnarhraða. Og einungis örfáir menn sáu fyrir að í Saudi Arabíu ættu eftir að finnast mestu olíulindir heims. Auðlind sem mikilvægt væri að eiga aðgang að.
Já - sumir menn voru framsýnir. Ekki síst Roosevelt forseti, sem lauk Jalta-ráðstefnunni 1945 með því að tryggja vináttubönd Bandaríkjanna og Saudi Arabíu. Bönd sem hafa haldið æ síðan og lengst af veitt Bandaríkjunum tryggan aðgang að mestu olíuauðlindum veraldarinnar.
Nafni Casac var breytt í Arabian American Oil Company, lýðveldisárið góða 1944. Og nýja nafnið var skammstafað Aramco. Sjö árum síðar (1951) fundust svo Safaniya-lindirnar - mesu olíulindir heims undir hafsbotni. Og ekki ekki leið á löngu (1956) þar til einnig voru staðfestar hinar óhemju miklu olíulindir í Ghawar. Sem Orkubloggið minntist einmitt á í síðustu færslu.
Sem fyrr segir var Aramco alfarið í eigu bandarískra olíufélaga, sem öll áttu rætur í Standard Oil hans John. D. Rockefeller. Félagið fór með einkaleyfi á öllum olíuiðnaði í Saudi Arabíu, að því undanskildu að tvö önnur félög fengu þar smávægileg réttindi. Gaman að segja frá því að annað þeirra var einmitt Getty Oil - barn hins kaldrifjaða milljarðamærings Jean Paul Getty. Sem Orkubloggið hefur áður sagt frá - og þeim atburðum þegar ítalskir mafíósar skáru eyrað af sonarsyni hans.
Það var 1949 sem Getty dílaði við þáverandi konung Sádanna um skika á hálfgerðu einskismannslandi á landmærum Saudi Arabíu og Kúwait. Og græddi hreint ógrynni fjár á olíulindunum, sem hann fann þar. Þær lindir voru sprengdar í tætlur í Persaflóastríðinu 1991, en þá voru enn eftir 18 ár af gamla, góða leigusamningnum sem Getty gerði við Sádakonung.
Hitt félagið sem ásamt Getty Oil komst með tærnar inn í Saudi Arabíu, var japanskt félag sem líka fékk réttindi þarna á landamærasvæðinu að Kúwait. Það var 1957, en Aramco keypti síðar þau réttindi. Í dag er Aramco því einráða í olíuiðnaði Sádanna.
Fyrstu áratugina sem olíuvinnsla var stunduð í Saudi Arabíu fengu Sádarnir nánast skít á priki í sinn hlut. Það skánaði reyndar smám saman, en lengi vel náðu þeir þó einungis að klípa örlítið af olíugróða bandarísku fyrirtækjanna. Enda voru þeir ekki í sterkri aðstöðu - olíuframleiðsla Bandaríkjanna innanlands stóð ennþá vel undir eftirspurninni þar í landi og bandarísku fyrirtækin fóru sínu fram í krafti stærðarinnar og pólitískra áhrifa.
Hægt og sígandi jókst þó þrýstingurinn um að Sádarnir kæmu sjálfir að vinnslunni og fengju meira af arðinum í sinn hlut. Það var líklega 1968 sem sú ósvífna uppástunga kom fyrst fram opinberlega, um að Sádarnir ættu að fá eignarhald í Aramco. Þar var á ferð þáverandi olíumálaráðherra Sádanna, hinn litríki Ahmad Zaki Yamani.
Eins og sannir olíu-unnendur vita er Yamani einfaldlega goðsögn í olíuveröldinni góðu. Hann gegndi stöðu olíumálaráðherra Saudi Arabíu í nærri aldarfjórðung (1962-1986) og var einn aðalhöfundurinn að baki því að Aramco komst loks í hendur innlendra aðila. Yamani var ýtt til hliðar í miklu valdatafli í kjölfar hinna svakalegu verðsveiflna á olíumörkuðunum um og eftir 1980. En það er önnur saga. Yamani mun enn við hestaheilsu og ku sýsla með viðskipti í Sviss og víðar.
Loks skömmu fyrir árið örlagaríka - 1973 - var samið um að Saudi Arabía fengi að kaupa fjórðungshlut í Aramco. Fram að því höfðu Sádarnir einungis fengið tiltekna hlutdeild í hagnaðinum - og raunar alls óvíst að þeir hafi fengið að vita um hinn raunverulega hagnað. Samkomulagið náðist 1972 og kom til framkvæmda árið eftir.
Varla var blekið þornað á umræddum samningi, þegar olían varð að helsta sprengiefni alþjóðastjórnmálanna. Vegna stuðnings Vesturlanda við Ísrael í Yom Kippur stríðinu, lokuðu Sádarnir á olíuútflutning síðla árs 1973 og olíukreppan skall á Vesturlöndum. Höfuðpaurinn að baki þeirri strategíu var einmitt áður nefndur Yamani. Ballið var búið og etv. má segja að sætasta stelpan hafi verið arabísk yngismær hin nýja Aramco - sem var lítt gefin fyrir síonista.
Stundum er mannkynssagan háð miklum tilviljunum. Ef menn hefðu áttað sig á því í tíma hverjar yrði afleiðingar þess að afhenda Sádunum Aramco, er ekki víst að af því hefði orðið. En svo fór sem fór. Mið-Austurlönd náðu eiginlega að verða efnahagslegt stórveldi án þess að Vesturlönd föttuðu hvað var í gangi. Enda sáu menn þar á bæ einungis rautt - slátruðu Norður-Víetnömum í nafni frelsis en steingleymdu mikilvægi olíunnar. Og voru í barnslegri trú um framtíð kjarnorkunnar sem aflgjafa fyrir Vesturlönd.
Þar að auki var samningsstaða Bandaríkjanna ekki lengur sterk. Sanngirni og réttlætið var á bandi Sádanna - með öllu óeðlilegt að náttúruauðlindir landsins væru í umráðum útlendra fyrirtækja. Og óbreytt ástand hefði geta leitt til uppreisnar í landinu - líkt og gerðist í Íran 1979. Það vildu Vesturlönd síst af öllu.
Til að tryggja sér áframhaldandi tryggð valdhafanna í Saudi Arabíu á þessum viðsjárverðu tímum kalda stríðsins, var samið um það 1980 að bandarísku fyrirtækin drægju sig burt sem eignaraðilar að Aramco og allt fyrirtækið yrði í eigu Sádanna sjálfra. Þar með hófst nýtt tímabil í hinu sérkennilega vináttusamband Bandaríkjanna og Saudi Arabíu. Með samningnum tryggðu yfirvöld í Saudu Arabíu sér bæði yfirráð yfir auðlindum landsins og um leið viðvarandi völd konungsættarinnar, undir hernaðarvæng Bandaríkjanna. Tvær risaflugur í einu höggi. Og auðvitað var ekki haft fyrir því að spyrja almenning um það hvernig farið skyldi með auðlindirnar.
Já - það er kaldhæðnislegt að kannski var það fyrst og fremst byltingin í Íran 1979 sem varð til þess að konungsætt Sádanna náði fullum yfirráðum yfir olíuauðlindum landsins. Í reynd eru yfirvöld í Saudi Arabíu dauðhrædd um að Íranar geti stóraukið vinnslu sína og ógnað stöðu þeirra sem olíuherra heimsins. Af sömu ástæðu studdu þeir mjög árásina á Írak í Persaflóastríðinu fyrra - þeir hafa lítinn áhuga á að sjá annað olíustórveldi rísa í þessum heimshluta. Fyrir vikið heldur vináttan við Bandaríkin - sem þar að auki eru ennþá mikilvægasti kaupandinn.
Nafni Aramco var formlega breytti í Saudi Aramco árið 1988. Líklega hefur unga kynslóðin í Saudi Arabíu minnstu hugmynd um, að í reynd er Aramco skammstöfun á gamla heitinu Arabian American Oil Company. Enda er það aukaatriði. Aðalatriðið er að í huga margra þeirra lifir vonin um breytingar um lýðræði og meira frjálsræði. Og sumir sjá Bandaríkin sem varðhund spilltra valdhafa - og fara þá jafnvel að aðhyllast Osama Bin Laden. Þetta er í raun vítahringur, sem getur af sér ofbeldi. En Orkubloggið ætlar ekki að hætta sér útí frekari stjórnmálatúlkanir. Um það geta lesendur leitað til Jóhönnu Kristjónsdóttur eða annarra sem þekkja þau mál Arabaheimsins miklu betur en bloggið.
Allra síðustu árin hefur olíuveröldin hikstað hressilega. Grunsemdir hafa vaknað um að Saudi Arabía sé ekki lengur sú botnlausa olíuhít sem verið hefur. Ótti hefur komið upp um að framleiðslan þar fari brátt hnignandi og að heimurinn standi senn frammi fyrir nýrri og ógnvekjandi orkukreppu. Sumir tala um að ljósaskipti hafi nú þegar runnið upp í eyðimörkinni. Olíusólin sé farin að lækka á lofti. Þar að auki eru komnir nýir stórkaupendur. Bandaríkin þurfa nú að keppa við risana í austri - Kína og Indland. Þó svo Bandaríkin séu ennþá lang stærsta efnahagsveldið eru ýmsar blikur á lofti.
En hver er hin raunverulega staða Aramco í dag? Hvað eru menn að bauka þarna í hinum hátæknivæddu aðalstöðvum Saudi Aramco í Dhahran? Það er einhver stærsta veraldlega spurning nútímans. Kannski Orkubloggið reyni að svara því einhverntíman í náinni framtíð. Spurningunni sem engin annar hefur getað svarað - fram til þessa!
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:19 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir fróðlega og skemmtilega grein.
Hagbarður, 14.12.2008 kl. 08:56
60 mínútur voru með innskot á þetta áðan hérna á mörlandinu, ég er ekki frá því að þitt sé ýtarlegra & betur unnið.
Steingrímur Helgason, 15.12.2008 kl. 01:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.